04.12.1956
Efri deild: 23. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

11. mál, skipakaup

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Brtt. á þskj. 112 frá hv. þm. Vestm. var útbýtt á þessum fundi, og hinni skriflegu brtt. frá hv. þm. N-Ísf. og hv. þm. Vestm. var vitanlega ekki útbýtt, heldur var hún lesin hér upp og leitað afbrigða fyrir henni. Það leiðir því af sjálfu sér, að fjhn. hefur ekki tekið þessar brtt. til athugunar, og frá n. hendi hef ég því enn sem komið er ekkert um þær að segja. Frá eigin brjósti ætla ég ekki heldur beinlínis að segja um það, hvort rétt sé að samþykkja þessar till. eða einhverjar af þeim eða fella þær. En ég vil taka það fram sem mitt álit nú þegar, hvað sem hv. d. sýnist að gera við þessar till. og hvernig sem ég endanlega kann að greiða atkv. um þær, að þá sýnist mér, að þær ekki muni breyta miklu.

Það er sá munur á skriflegu till. og till. á þskj. 112, að hv. þm. N-Ísf. hafði boðað það við 1. umr. málsins, að hann mundi bera fram till. um að heimila kaup á allt að 20 togurum, og hinar aðrar brtt., sem hann stendur að, eru aðeins afleiðingar af þessari megintillögu. Þetta virðist í fljótu bragði vera allmikil breyting, en ég held, að hún sé ekki svo mikil.

Reynsla undanfarinna ára sýnir það, enda liggur það í hlutarins eðli, að þó að ríkisstj. sé heimilað að gera kaup á einhverri tölu togara, þá er það engin endanleg ákvörðun um, að aldrei framar megi ríkisstj. gangast fyrir togarakaupum.

Það kom mjög til umræðu við 1. umr. þessa máls, að ein fyrrverandi ríkisstj. hefði gengizt fyrir kaupum á 32 togurum, ríkisstjórn, sem fylgismenn hennar kölluðu „nýsköpunarstjórn“. Það er nú sér á parti, hvort nokkur stjórn getur annarri fremur heitið nýsköpunarstjórn. Í mínu ungdæmi var mönnum kennt, að það væri aðeins einn skapari, en ég skal ekki fara nánar út í það. Ég hygg aðeins, að í þeim skilningi, sem þessi hv. stjórn er kölluð nýsköpunarstjórn, hafi allar stjórnir, síðan landið fékk innlenda stjórn, verið nýsköpunarstjórnir, meira að segja sú stjórn, sem beinlínis kenndi sig við íhald og t. d. hv. þm. Vestm. studdi. Ég held, að hún hafi líka gengizt fyrir nokkrum nýjungum, þó að hún kallaði sig íhaldsstjórn. En þetta kemur nú ekki málinu við beinlínis. Mér hefur ævinlega bara þótt ákaflega undarlegt, þegar menn bera sér þetta orð í munn og þá sérstaklega um eina stjórn, „nýsköpunarstjórn“, eins og hér hafi verið einhverjir guðir. Hún lét nú reyndar nægja að kalla aðalframkvæmdavald sitt nýbyggingarráð. Það getur auðvitað verið réttmætt, því að mennirnir geta byggt úr efni, en trauðlega skapað af engu. En ég sleppi þessu. Hitt er staðreynd, að þessi stjórn gekkst fyrir smíði og kaupum á 32 togurum. Næsta stjórn á eftir henni gekkst fyrir því, að keyptir voru til landsins 10 togarar, og leið stutt á milli. Og nú liggur hér fyrir frv. frá hæstv. núverandi ríkisstj. um það, að keyptir verði 15 togarar.

Þetta sýnir vitanlega, að það er á hvaða tíma sem er hægt að gera ráðstafanir til þess að bæta við togarana. Ég er ekki beint að mótmæla þessu á þessu stigi málsins, en ég er að benda á, að það er vitanlega líklegt, að jafnvel þó að frv. yrði samþykkt, mundu síðar verða gerðar ráðstafanir til að kaupa fleiri togara, ef það verður svo í framtíðinni, að togaraútgerð þyki vera álitlegri til lífsbjargar þjóðarinnar heldur en þá einhverjir nýir atvinnuvegir, sem kynnu að koma upp.

Ég man eftir því, að síðast í gærkvöld var það einn af þm. Sjálfstfl., sem flutti útvarpserindi og varaði frekar við því að setja alla sína von á togaraútgerð. Þau orð mætti gjarnan taka til athugunar.

Það, sem ég vildi segja með þessu, er ekki beint að mæla á móti þessu um 20 togara, heldur sýna fram á það, að ég er ekki viss um, að þetta breyti í framtíðinni eiginlega nokkru, — alls ekki viss um það. Og svo er annað: Ef farið er mjög geyst í það að fjölga togurum, þá kemur annað til greina, þ. e. hverjir eiga að vera á þessum togurum. Ég tel víst, að ef það verða byggðir nýir togarar, sem við vonum að verði, hvort sem þeir verða 15 eða 20, þá verði þeir, eins og hv. þingmenn leggja til, af fullkomnustu gerð. Ég tel víst, að íslenzkir sjómenn fáist til að vera á þeim. En ætli þeir fáist til að vera á eldri togurunum þá? A. m. k. var það s. l. sumar og reyndar lengur, að það fengust ekki íslenzkir sjómenn á togarana, heldur varð að fá Færeyinga í stórhópum til þess að vera á togurunum. Og það getur orðið hagur að því fyrir þjóðina kannske að fá útlendinga til að afla hráefnisins og vinna svo hráefnið sjálfir, en eitthvað virðist nú öfugt við það, að það skuli þurfa að fá útlendinga á íslenzka fiskiflotann.

Sama er að segja um till. á þskj. 112. Ég held, að hún breyti ekki miklu, hvað sem öðru líður. Hv. þm. Vestm. taldi, að það ætti að miða þetta frv. við þarfir allra landsmanna. Það er nú að sjálfsögðu gert, eins og þarfir landsmanna eru nú. Hann sagði enn fremur, að öll þjóðin bæri kostnaðinn. Auðvitað er það: Öll þjóðin ber að einhverju leyti kostnaðinn hlutfallslega. En vitanlega bar öll þjóðin líka kostnaðinn af þeim ráðstöfunum, sem hafa komið Sunnlendingafjórðungi alveg sérstaklega til góða, útvegun allra þeirra togara, sem Sunnlendingafjórðungur hefur fengið. Það má kannske segja, að frv. hafi borið nokkurn vott um það, þegar það var fyrst lagt fram fyrir Alþingi, að með þessu væri sérstaklaga ætlað að bæta úr þörf Vestfirðinga, Norðlendinga og Austfirðinga. En eins og ég gat um áðan í framsöguræðu minni, var allmikið dregið úr þessu í hv. Nd, undir meðferð málsins, og eins og frv. er nú, er það algerlega opið, eða ekki get ég séð betur, að ráðstafa togurum til Suðurlands. Það eina, sem hér er um að ræða og getur haft nokkra praktíska þýðingu, er það, að það er heimilað að lána 90% af kaupverðinu, þegar sérstaklega illa stendur á um atvinnu í landi, og skal það einkum gert til kaupa á togurum, sem skráðir verða og gerðir út á Vestur-, Norður- og Austurlandi. Það skal einkum gert að hækka lánið til þeirra, sem togarana fá á Vestur-, Norður- og Austurlandi, en hitt er þó alls ekki útilokað, að það yrði einnig á Suðurlandi, ef sérstaklega illa stæði á.

Um orðin í fyrstu skriflegu breytingunni, að togararnir skuli vera af fullkomnustu gerð, þá er ég því alveg sammála, að þeir eigi að vera af fullkomnustu gerð, þeirra er nú þekkjast, því að það er reynslan, að fullkomnustu gerðirnar borga sig í raun og veru alltaf bezt, a. m. k. í flestum tilfellum. En þetta er framkvæmdaratriði, og ég treysti því, að jafnvel þó að þessi orð kæmu ekki inn í frv., þá yrði þetta sjónarmið haft, að þeir togarar, sem keyptir yrðu eða samið yrði um smiði á, yrðu hafðir af fullkomnustu gerð.

Ég er ekki að mæla á móti þessum till. Ég skal ekkert segja um það, nema fært kynni að vera að samþ. þær eða einhverjar af þeim til samkomulags. En eins og ég hef fært rök að, þá finnst mér þær ekki breyta mjög miklu, þegar allt kemur til alls.

Það kann vel að vera, að einhvern tíma í framtíðinni geti komið atvinnuleysi hér á Suðurlandi. Við skulum vona, að það verði ekki, en hitt er víst, að nú sem stendur er ekkert atvinnuleysi á Suðurlandi, og þess vegna hefur jafnvægið í byggð landsins farið úr skorðum, að það hefur verið eftirspurn eftir vinnuafli á Suðurlandi frá öðrum landsfjórðungum, en atvinnuleysi hefur gert vart við sig í þessum þremur landsfjórðungum hinum. Og það er venjulegt að miða löggjöf við það ástand, sem ríkir á þeim tíma, þegar löggjöfin er sett, af þeirri einföldu ástæðu, að menn sjá ekki það vel fram í tímann, að það sé vel hægt að snúast við ástandi, sem ekki er komið, löngu áður en það kemur. Það væri náttúrlega gott að vera svo framsýnn að geta það, en það veitist mönnunum erfitt.

Eins og ég gat um í upphafi, þá hafa þessar till. ekki verið ræddar í fjhn., og mér finnst sjálfsagt, að fjhn. ræði þær, áður en atkvæði ganga um þær, og einnig, að hv. þm. hér í d. gefist kostur á að athuga þær nánar, áður en gengið er til úrslitaatkvæðagreiðslu. Tveir vegir eru til þess, annar er sá að fresta þessari umræðu og n. taki till. til athugunar, áður en umr. er lokið. Þessi tilhögun hefur þann galla, að hún tefur málið meira en þarf að vera. Gæti það sérstaklega orðið til einhvers baga, ef breytingar yrðu samþykktar og málið þarf að ganga aftur til hv. Nd. Hin aðferðin er sú, ef hv. flm. þessara till. vildu taka þær aftur til 3. umr., — þá skal ég lofa því sem form. fjhn. að taka þessar brtt. til meðferðar í n. fyrir 3. umr., — en frv. fengi núna við þessa umr. að ganga óbreytt til 3. umr. Ég vildi fara fram á þetta. Ég álít, að þetta sé heppilegasta tilhögunin.