11.12.1956
Efri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

11. mál, skipakaup

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Mér þykir miður, að meiri hl. hv. fjhn. hefur ekki talið sér fært að leggja með því, að brtt. okkar hv. þm. Vestm. á þskj. 118 yrðu samþykktar við þessa umr. í hv. þingdeild. Ég fæ ekki séð, að hv. frsm. nefndarinnar, hv. 1. þm. Eyf., hafi fært nokkur minnstu rök fyrir því, að samþykkt þessara till. væri ákaflega þýðingarlítil, eins og hann komst hér að orði nú.

Hann segir, að það sé vitað, að þó að samið verði um kaup 15 togara í dag, þá muni þeir ekki koma hingað til lands á morgun. Ég segi: Einmitt vegna þessa, og það hafði ég bent á í fyrri ræðum mínum um þetta mál, — einmitt vegna þess, hve afhendingartíminn er langur á togurum, þegar samið er um kaup þeirra og smíði, er nauðsynlegt að semja um smíði og kaup fleiri skipa en gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég hef leitt rök að því hér í umræðunum um þetta mál í hv. þingdeild, að það er ekki einungis þörf margra landshluta, þar sem skortur er á atvinnutækjum; sem hér kallar á aukningu togaraflotans, heldur beinlínis endurnýjunarþörfin á togaraflotanum í heild. Við vitum, að það hafa á undanförnum árum farizt eitt og tvö skip á ári, og togarafloti landsmanna, sá sem nú er til, bæði úti á landi og hér við Faxaflóa og í Reykjavík, gengur stöðugt úr sér. Við vitum líka, að þetta eru stórvirkustu framleiðslutæki þjóðarinnar, sem standa undir útflutningsframleiðslu hennar að verulegu leyti. Þess vegna er það skammsýni og ekkert nema skammsýni að bíða þess, að þessi tæki gangi öll úr sér og verði á einu bretti ónothæf.

Hv. meiri hl. fjhn., þ. e. a. s. stjórnarflokkarnir, því að fulltrúar Sjálfstfl. í n. voru fylgjandi þessum brtt., hefur þess vegna komið fram hér af hinni mestu þröngsýni og skammsýni. Og það er rétt, að þjóðin viti, hverjir það eru, sem standa í vegi fyrir því, að á þessum málum verði tekið af skynsemi og raunsæi. Ég er búinn að ræða þetta mál það mikið, að ég sé ekki ástæðu til þess að gera það við þessa umr. frekar. En ef ske kynni, að hv. stjórnarflokkar sæju að sér og sæju, að þeir eru á rangri leið í þessu máli, þá mun ég freista þess að taka þessa brtt. aftur til 3. umr.