13.12.1956
Efri deild: 28. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

11. mál, skipakaup

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef áður við umr. um þetta mál hér í hv. þd. gert grein fyrir þeim brtt., sem fyrir liggja á þskj. 118 og fluttar eru af mér og hv. þm. Vestm. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka þau rök, sem ég hef áður flutt fram fyrir brtt. En ræða hv. 8. landsk. hér nú við þessa umr. gefur mér tilefni til stuttra athugasemda.

Ég heyrði nú ofan í hv. þm., að hann vildi mjög gjarnan geta greitt atkv. með þessum brtt., og í raun og veru var auðsætt, að samvizka hans sagði honum, að hann ætti að fylgja brtt. Hins vegar mun hæstv. ríkisstjórn hafa tekið þá ákvörðun að láta þetta frv. sitt fara óbreytt í gegnum hv. þingdeild, og hv. 8. landsk. hefur orðið að fylgja þeirri dagskipan, sem út hefur verið gefin.

Hv. þm. kallaði þessar brtt. yfirboðstillögur. Þrátt fyrir það lýsti hann því yfir, að svo kynni að fara, að ekki þyrfti að bíða nema til loka þessa þings eftir tillögum um frekari aðgerðir til eflingar togaraútgerð í landinu. Hann gerði því hreinlega skóna, að frá atvinnutækjanefnd kynnu að koma tillögur um frekari heimildir til kaupa og smíði á nýjum togurum. Hann var sem sagt gersamlega sammála mér um það, að svo kynni að fara, að eftirspurnin eftir nýjum togurum yrði það mikil, að nauðsynlegt yrði að semja um smíði eða kaup á fleiri skipum en gert er ráð fyrir í frv.

Ég fæ ekki betur séð en að hv. frsm. sjútvn. í þessu máli hafi gersamlega viðurkennt mín rök. Það eina, sem hann segir, er þetta gegn mínum tillögum: Ríkisstj. hefur ákveðið, að frv. skuli fara óbreytt að þessu sinni í gegnum Alþ., og þess vegna mun ég og stjórnarliðið allt greiða atkv. gegn þessum brtt. (Forseti: Hér er ekki um frsm. sjútvn. að ræða.) Við þessa umr. virðist hv. 8. landsk. a. m. k. hafa mælt fyrir munn hæstv. ríkisstj. og flokka hennar. (Forseti: En ekki sjútvn. Frumvarpið var ekki hjá sjútvn.) Nei, það mun hafa verið frá fjhn., það er rétt hjá hæstv. forseta. En hv. 8. landsk. hefur talað hér fyrir hönd stjórnarliðsins, svo að það má líta á hann sem nokkurs konar framsögumann í þessu máli við þessa umr.

Það er líka dálítið einkennilegt að heyra hv. 8. landsk., sem tilheyrir, eins og kunnugt er, kommúnistaflokknum, leggja megináherzlu á það nú í sambandi við þetta mál, hversu miklir erfiðleikar séu í vegi þessara skipakaupa. Hann dró hér upp mynd af mörgum ljónum, sem væru á veginum. Ég veit ekki betur en að á undanförnum árum hafi flokksmenn þessa hv. þm. flutt frumvörp og tillögur um aukningu togaraútgerðar og talið þá enga erfiðleika vora á veginum, talið auðvelt og það mjög auðvelt að fá lán og að fá samið um smiði á skipum. Nú allt í einu eru ótal ljón á veginum og ekki hægt að fjölga úr 15 togurum upp í 20, eins og gert er ráð fyrir í þeirri brtt., sem hér liggur fyrir.

Það er náttúrlega óþarfi að fara að rökræða við hv. 8. landsk. um heilindi sjálfstæðismanna gagnvart kaupum á togurum. Það veit öll þjóðin og það veit allt hv. Alþ., þessi hv. þm. líka, að þeir rúml. 40 togarar, sem nú eru til í landinu og gerðir eru út og eru stórvirkustu framleiðslutæki þessarar þjóðar, eru keyptir hingað til lands fyrir frumkvæði og undir forustu sjálfstæðismanna. Það er þess vegna algerlega óþarfi fyrir hann að draga nokkuð í efa heilindi sjálfstæðismanna gagnvart kaupum á slíkum atvinnutækjum til landsins. Verkin sýna þar bezt merkin. Hitt er svo auðvitað ekkert óeðlilegt, að fram komi ýmsar efasemdir, t. d. hjá sjálfstæðismönnum í hv. Nd., eins og einnig hafa komið fram í þessari hv. þd., gagnvart þeirri nýbreytni, sem í frv. felst, að lagt er til, að hafizt verði handa um ríkisútgerð togara. Það er meginskoðun okkar sjálfstæðismanna, að heppilegra sé, að einkaframtakið og félagsframtakið annist atvinnuframkvæmdir í landinu. Hins vegar höfum bæði ég og fleiri lýst því yfir, að þar sem einkaframtakið og félagsframtakið brestur bolmagn til þess að tryggja atvinnu- og afkomuöryggi fólksins, þar verði hið opinbera að hlaupa undir bagga. Og það er einmitt það, sem gerðist, eins og ég benti á við 1. umr. þessa máls, þegar samið var um smíði nýsköpunartogaranna á sínum tíma, enda þótt þá væri ekki efnt til ríkisútgerðar á þessum skipum. Ríkisvaldið veitti fjármagni í stærri stíl en nokkru sinni fyrr út um landið til þeirra byggðarlaga, sem skorti þessi atvinnutæki, en höfðu ekki efnahagslegt bolmagn til þess að kaupa þau.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara miklu fleiri orðum um þetta mál. Það er orðið útrætt, Það hefur komið í ljós, að hv. stjórnarflokkar ætla að snúast gegn þessum brtt. Þeirra aðalmálsvari hér í málinu lýsir því að vísu yfir, að svo kunni að fara, að upplýsingar liggi fyrir um það í lok þessa þings, að nauðsynlegt sé að kaupa fleiri skip en gert er ráð fyrir í frv. Samt sem áður, þrátt fyrir þessa yfirlýsingu, lýsir hann yfir andstöðu sinni og stjórnarliðsins við till., þar sem lagt er til, að nú þegar í upphafi verði samið um smíði á 20 togurum í stað 15.

Ég er þess fullviss, að reynslan á eftir að sýna það, að þessar till. okkar sjálfstæðismanna hafa við fyllstu rök að styðjast, og hv. stjórnarflokkar hafa þegar með sinum eigin rökum afsannað sína eigin staðhæfingu um, að þetta séu yfirboðstillögur. Þetta eru raunhæfar tillögur, miðaðar við þörfina á líðandi stund, en einnig horft fram á veginn.