19.12.1956
Efri deild: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

86. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. getur ekki verið hér viðstaddur, en hann hefur flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 158. Brtt. er um það, að í staðinn fyrir, að í frv. stendur, það bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði séu heimilaðar til 31. jan. næsta ár, þá komi til 28. febr. næsta ár.

Ástæðan til þess, að þessi brtt. er fram borin, er sú, að sýnt þykir, að fjárlög verði ekki afgreidd í janúarlok, Það mun standa til, að hæstv. ríkisstj. flytji till. nú fyrir jólin um það, að þinginu verði frestað til 21. janúar, og verði hún samþ., er það auðsætt, að fjárlög verða ekki afgreidd á tíu dögum. En jafnvel þó að þessi till. um þingfrestun yrði ekki samþ. og frestunin yrði aðeins venjulegt jólafrí og þingið hæfist aftur þegar upp úr áramótunum, finnst mér það mjög ólíklegt, að tími ynnist til að afgreiða fjárlög á einum mánuði. Þess vegna held ég, að það sé alveg nauðsynlegt að samþ. þessa brtt. við frv.