20.12.1956
Neðri deild: 36. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

86. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég tel það að vísu mjög misráðið, að fjárlög skuli ekki vera afgreidd samtímis því, sem gerðar eru þær veigamiklu ráðstafanir í fjármálum þjóðarinnar, sem verið er að gera á Alþ. þessa dagana.

Sannleikurinn er sá, að ómögulegt er að gera sér grein fyrir gildi þeirra eða áhrifum, nema því aðeins, að menn samtímis viti um það, hvernig fjárl. eigi að afgreiða, enda er verulegur hluti af þeim gífurlega þungu sköttum, sem nú er verið að leggja á almenning, einmitt ætlaður til þess að standa undir auknum tekjum til þess að hægt sé að afgreiða fjárl. hallalaust, án þess að fyrir þingheimi liggi nokkur grg. um nauðsyn á þeim, að því er manni skilst, 100 millj. kr., sem í þessu skyni á að verja.

Svipað stóð á í fyrra, og þá lögðum við sjálfstæðismenn áherzlu á það, að fjárlög og dýrtíðarráðstafanir eða efnahagsráðstafanir væri hvort tveggja afgreitt samtímis, þannig að vitað væri um efnismeðferð hvors málsins um sig, þegar hitt væri afgreitt. Hæstv. þáverandi fjmrh. og enn verandi var þessu raunar mjög andsnúinn og lagði á það ofurkapp, að fjárl. yrðu afgr. fyrir áramót, en hans vilji náði ekki fram að ganga. Nú sýnist þessu vera alveg snúið við, að fjmrh. sækir fast, að efnahagsráðstafanir séu afgreiddar fyrir áramót, en vill ekki einu sinni fá fjárl. afgreidd í janúar, heldur beitir sér fyrir því, að það sé dregið fram í febrúar, að með þau sé farið. Það er sem sagt hér mjög breytt frá því, sem áður var, hvernig sem á því stendur, einungis að það boði ekki, að það þurfi að bæta einhverjum dálitlum pinkli ofan á skattana nýju, þegar fram í febrúar kemur, til þess að standa undir ofurþunga þeim, sem nú er á lagður til þess að standa undir fjárl. Um þetta eins og margt annað er með öllu óljóst, og verða getgátur einar að gilda og getur þar hver sagt öðrum og veit enginn, hvorki hvað í huga stjórnarherranna býr né heldur við hvaða rök þeir hafa að styðjast, ef þau eru nokkur, en vendilega er hulið allt fyrir almenningi.

En hvað sem um þetta verður sagt að öðru leyti, þá skal það játað, að úr því sem komið er og fyrir þá einstæðu starfstilhögun, sem hér hefur verið, að Alþ. hefur verið haldið starfslausu nú í nær tvo og hálfan mánuð, þannig að mjög til að óþörfu þarf að framlengja störf þess eftir áramót, þá verður að taka hverjum hlut eins og hann er og ekki annað að gera heldur en að beygja sig fyrir því, að við erum búin að sitja hér starfslaus í tvo og hálfan mánuð og fjárl. verður að afgreiða, og þá verður að veita eitthvert tóm til þess, og þó að við ynnum rækilega fram að áramótum, þá verður því sjálfsagt ekki fram komið að afgreiða fjárlög á þeim tíma,

Þess vegna tel ég víst, að enginn hafi neitt við það að athuga út af fyrir sig, að þessar greiðsluheimildir verði veittar, og finnst mér þó tíminn vera óþarflega rúmur, en það skiptir ekki öllu máli, úr því að fjmrh. vill draga þetta svo lengi, þá hann um það, og sennilega leggur þetta frv. þó heldur meiri haft á meðferð hans og ríkisstj. á fé ríkissjóðs en ef búið væri að afgreiða fjárl. Og þar sem ég er með því að veita þessari stj. eins litlar heimildir og hægt er, tel ég þetta eftir atvikum vera viðunandi, úr því að þeir vilja sig við það sætta.

Hins vil ég svo spyrja, hvort ráðið sé, að Alþ. komi ekki saman, eins og mér heyrðist, fyrr en 21. janúar, og ef svo er, er þá ætlunin, að til þess verði leitað samþykkis Alþ. sjálfs, eða ætlar stj. eða forsetar upp á eigið eindæmi að fresta þingfundum um heilan mánuð? Það er nauðsynlegt, að þm. fái um þetta vitneskju.