20.12.1956
Neðri deild: 36. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

86. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) var að segja, að hann tryði því svona mátulega, að þm. stjórnarflokkanna hefðu verið önnum kafnir við að undirbúa þau stórmál, sem nú eru fram komin, þar sem hann hafi orðið var við, að því er mér skildist, að einhverjir þm, úr stjórnarflokkunum hafi ekki kannazt við einhver ákvæði, sem væru í frumvörpunum; því vildi hann vefengja, að þeir hefðu yfirleitt fylgzt með í þessum málum. Þetta er náttúrlega ákaflega barnaleg athugasemd hjá hv. 5. þm. Reykv., jafnkunnugur og hann er þó undirbúningi mála á hv. Alþ. og samstarfi ríkisstj. við þm. Vitaskuld er það svo, að í svona málum er fullt af ýmsum teknískum ákvæðum, sem undirbúin eru af embættismönnunum og sett inn í frv., og það þarf alls ekki að vera, að allir þm. í stjórnarflokkunum kannist við þau, þó að þeir hafi fullkomlega fjallað um öll efnisatriði frv. Þetta veit hv. 5 þm. Reykv. ofur vel, og þetta er því ekkert annað en útúrsnúningur hjá honum.

Þá sagði hv. þm., að hv. 1. þm. Reykv. hefði ekki misst af neinu hér, vegna þess að það hefði ekki komið fram svo margt nýtt í þeim umr., sem hér hefðu átt sér stað meðan hann var fjarverandi í gærkvöld, sem var nú raunar langt fram á kvöld og allan tímann á meðan stjórnin gerði grein fyrir þessum málum, Ja, ég vil nú bara spyrja þessa hv. þm.: Hvort eiga menn að meta meira að mæta á Alþ., þegar stærstu málin eru lögð fram, eða mæta á fundi í Varðarfélaginu? Hvort er fremur skylda þm. og ekki sízt þeirra, sem telja sig á oddinum í stjórnmálunum, að mæta hér á þinginu, þegar ríkisstj. gerir grein fyrir sinum höfuðmálum, hvort er það þýðingarmeira að mæta hér eða fremur skylda þeirra að mæta hér eða í pólitískum félögum úti í bæ? Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að hann hefði verið að útskýra fyrir kjósendum sínum jólagjöfina. En mér hefur nú skilizt, að hv. þm. Sjálfstfl. hafi einmitt verið að kvarta yfir því hér aðallega í þessum umr., að það væri svo margt óljóst í frv., einmitt svo óljóst og málið væri allt í þoku fyrir þeim. Ætli það hefði þá ekki verið nær fyrir þá að reyna að fá frekari upplýsingar um þetta mál, áður en þeir tóku það að sér að skýra það fyrir öðrum? Ætli það hefði ekki verið réttara fyrir þá að reyna að gera tilraun til þess að skilja það sjálfir og vita hvað í því fólst, áður en þeir hlupu á fjölmenna fundi í bænum til þess að reyna að þeyta upp moldviðri um málið? Ég hygg það. M. a. kvartaði hv. 1. þm. Reykv. yfir því hér áðan í umr., að það væri sér algerlega óljóst, hvað ætti að gera við þá fjármuni, sem ríkissjóði væru ætlaðir í frv. stj. En ef hann hefði nú metið þingmannsskyldur sínar meira í gærkvöld og verið hér, þar sem hann átti að vera, í staðinn fyrir að vera úti í Varðarhúsi, þá hefði hann vitað þetta.