29.10.1956
Neðri deild: 7. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Bráðabirgðalög þau, sem sett voru fyrir tveimur mánuðum og hér hafa verið lögð fram til staðfestingar, hefur að vonum borið mjög á góma undanfarnar vikur í opinberum umr. um stjórnmál, málgögnum hæstv. ríkisstj. hefur því yfirleitt verið haldið fram, að í fyrsta lagi sé aðalatriði þessara laga verðfestingin, bannið við öllum verðhækkunum, en kaupbindingin sé þar aukaatriði. Í öðru lagi hefur því verið haldið fram, að lög þessi og framkvæmd þeirra muni ekki hafa í för með sér neina eða a. m. k. ekki neina teljandi kjaraskerðingu fyrir launastéttirnar í landinu. Í þriðja lagi hefur því verið haldið fram, að þetta hafi verið gert í fullu samráði við launþegasamtökin.

Ég mun nú leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir við hvert þessara atriða fyrir sig. Hvað fyrsta atriðið snertir get ég ekki látið hjá líða að benda á það, að ég veit ekki betur en að í núgildandi lögum sé full heimild fyrir hendi fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að gera hvað sem henni sýnist í verðlagsmálunum. Til slíks átti ekki að þurfa neina lagasetningu. Ég veit ekki betur en að frá því á stríðsárunum eða jafnvel frá því fyrir stríð hafi verið heimild í lögum til þess að setja hámarksverð eða ákveða hámarksálagningu á alla vöru og þjónustu. Þessi lög voru a. m. k. í gildi, þegar lagasafnið, sem nær til ársloka 1954, var gefið út. Það má vera, að á tveimur síðustu þingum hafi þessu verið breytt, en ekki hef ég þó orðið var við það. Því verður að líta svo á, að verðfestingarákvæði frv. séu algerlega óþörf, því að til þess var full heimild í lögum fyrir. Það, sem setja þurfti hins vegar löggjöf um, var kaupbindingin, og þess vegna ber að líta á þetta frv. eingöngu sem kaupbindingarfrv.

Það er nú mál út af fyrir sig, hverjum árangri sé hægt að ná í baráttunni við dýrtíðina með því að setja ákvæði um kaupbindingu. Að því mun ég víkja nokkrum orðum síðar. Hitt er svo annað mál, að það virðist satt að segja koma úr hörðustu átt, þegar þeir flokkar, sem að núv. ríkisstj. standa, eða a. m. k. þeir tveir þeirra, sem verið hafa í stjórnarandstöðu undanfarið, standa að slíkum lögum. Ég man, að eftir verkfallið mikla 1955, þegar knúðar voru fram 16–20% almennar kauphækkanir, var því haldið fram sumarið og haustið 1955, bæði af hálfu Alþýðusambandsstjórnarinnar og í Þjóðviljanum, að þær kauphækkanir, sem orðið hefðu þá, 16–20%, gætu í mesta lagi réttlætt 2–3% verðhækkanir. Allar verðhækkanir, sem væru fram yfir það, væru ofsókn á hendur verkalýðnum. Það skýtur því æði skökku við, þegar kaupgjaldið á allt í einu að vera orðið svo þýðingarmikill þáttur í verðlaginu, að nauðsynlegt er beinlínis að setja lög til þess að koma í veg fyrir, að kaupgjaldið hækki um 3%.

Þá mun ég víkja að öðru atriðinu, nefnilega þeirri staðhæfingu, að kaupbindingin hafi ekki haft í för með sér neina kjaraskerðingu fyrir launafólk í landinu.

Hv. 2. landsk. ræddi þetta mál nokkuð, þegar fjárlögin voru lögð fyrir, og kom með nokkrar tölur því máli til stuðnings, að kauphækkunin um mánaðamótin ágúst og september hefði orðið gagnslaus að því leyti, að hún hefði öll étizt upp með verðhækkunum, sem af henni hefði leitt. Ég vefengi ekki, að þær tölur, sem hann nefndi máli sínu til stuðnings, séu út af fyrir sig réttar, þannig að vísitalan hefði hækkað í sept. nokkurn veginn sem kauphækkuninni nam. En farið var fram hjá tveim atriðum í sambandi við þetta, sem hljóta þó að skipta þar verulegu máli, og í því sambandi vil ég minna á þá afstöðu, sem tekin var til till., sem fram komu á s. 1. vori um það að lækka verðlagið með niðurgreiðslum. Nú er þessi sama leið farin, eins og kunnugt er. Hækkun landbúnaðarafurðanna er haldið í skefjum með auknum niðurgreiðslum úr ríkissjóði, en sömu niðurgreiðslurnar sem nú eru taldar snjallræði voru í vor ekkert annað en fölsun á vísitölu framfærslukostnaðar. Það kemur einkennilega fyrir sjónir, að nákvæmlega sömu niðurgreiðslur og þá var farið fram á skuli nú vera einhlítar. Það er gefið mál, að ef vísitalan er fölsuð og það hefði verið fölsun á vísitölunni að forða hækkun hennar með niðurgreiðslum á s. 1. vori, þá ætti alveg sama að gilda nú.

Annað atriði má nefna í þessu sambandi, að það verður ekki fram hjá því komizt að líta á það, að einhvers staðar verður það fé að koma frá, sem varið er til niðurgreiðslnanna. Það hefur nefnilega gleymzt að taka það með í þennan reikning, að launþegarnir hljóta að meira eða minna leyti að verða að standa sjálfir straum af niðurgreiðslunum, því að fjár til þeirra verður ekki aflað á annan hátt en með auknum sköttum eða tollum eða einhverju öðru, sem byrðar leggur á launafólk.

Þá kem ég að þriðja atriðinu, sem ég ætlaði að gera hér að umræðuefni, en það er sú staðhæfing, að um setningu þessara laga hafi verið haft fullt samráð við launastéttirnar í landinu. Það mun að vísu rétt, að stjórnum nokkurra verkalýðsfélaga hér í Rvík var hóað saman á fund um það leyti, sem lögin voru sett, og meiri hluti þessa fundar samþykkti stuðning sinn við þessa löggjöf. En ef stjórnir einhverra tiltekinna verkalýðsfélaga, sem andstæðingar kommúnista ráða — við gætum tekið sem dæmi bílstjórafélögin Þrótt og Hreyfil — semdu um það einn góðan veðurdag við atvinnurekendur að gera svo og svo mikla tilslökun á umsömdum töxtum, þá er ég hræddur um, að hljóð kæmi úr horni og talið væri, að stjórnirnar hefðu ekki heimild til slíks og hefðu fyrirgert öllu trausti sinna umbjóðenda. Hingað til hefur verið litið þannig á, að aðeins almennir félagsfundir í verkalýðsfélögunum eða þá almennar atkvgr., sem stofnað væri til, gætu tekið ákvarðanir um breytingu á samningum. Ekkert slíkt hefur verið gert nú.

Fyrir utan þetta má nefna það, að til eru fjölmenn launþegasamtök fyrir utan Alþýðusambandið. Má þar nefna t. d. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Samband bankastarfsmanna, Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, Farmanna- og fiskimannasambandið o. s. frv. Ekki munu lög þessi hafa verið borin undir neitt þessara sambanda. Það má vera, að það sé út frá því sjónarmiði, að þeir launþegar, sem í þessum samböndum eru, falli ekki undir það dularfulla hugtak, sem nefnt hefur verið vinnustéttir. En staðreynd er það, að þessi launþegasamtök hafa þó 6–7 þús. manns innan sinna vébanda, og vitanlega hlaut kaupbindingin að snerta meðlimi þessara samtaka eins og aðra launþega.

Það virðist því mjög villandi, þegar því er haldið fram, að þetta hafi verið gert í fullu samráði við launþegasamtökin. Hæstv. félmrh. (HV), sem hér talaði áðan, gaf að vísu þá skýringu í þessu, að það hefði ekki verið hægt að bera lögin undir almenna fundi í verkalýðsfélögunum, því að það hefði orðið til þess, að milliliðirnir hefðu þá notað tækifærið til þess að hækka verð á öllu mögulegu, meðan á slíkum fundarhöldum hefði staðið. Þetta er að mínu áliti fullkomlega villandi, og má þar í fyrsta lagi benda á það, sem ég nefndi áðan, að hæstv. ríkisstj. hafði heimild til þess samkv. gildandi lögum að framkvæma þessa verðfestingu. Þar þurfti ekki neina lagasetningu til. En þar að auki átti að miða við verðlagið frá 15. ágúst, þannig að verðhækkanir, sem gerðar kynnu að hafa verið, meðan málið var til meðferðar, hefðu verið ólöglegar.

Þá ætla ég að lokum að víkja með örfáum orðum að efnishlið þessa máls, hvort líklegt sé, að kaupbindingin nái tilgangi sínum sem ráðstöfun til þess að halda verðlaginu í skefjum. Að mínu áliti ber vissulega að svara því játandi, svo langt sem áhrif kaupbindingarinnar ná, að þau verka í áttina til stöðvunar á verðlaginu. Þegar kaupgeta fólksins rýrnar eða tekjur þess minnka, þá leiðir auðvitað af því, að það hefur minna milli handa til þess að kaupa fyrir, og verður þá ekki eins auðvelt að hækka verð á vörum og þjónustu. Þetta er óneitanleg staðreynd. En æði kynlega kemur það þó fyrir sjónir, að sumir þeirra aðila, sem standa að hæstv. ríkisstj., skuli allt í einu vera komnir inn á þann hugsunarhátt, sem þessu liggur að baki. Þó að það sé að mínu áliti firra að halda því fram, að kaupbindingin hafi ekki haft í för með sér neina kjaraskerðingu fyrir launþegana, þá er mér hitt ljóst, að það er engan veginn þannig, að 3–5% almenn launalækkun hafi í för með sér samsvarandi kjaraskerðingu fyrir launafólk, en þetta stendur í sambandi við það, að byrðar, sem lagðar eru á ákveðna stétt í þjóðfélaginu, hvort sem það eru launamenn eða aðrir, hljóta að veltast að meira eða minna leyti yfir á aðrar stéttir, af því að við lifum nú einu sinni í samvirku þjóðfélagi, þannig að ekki er rétt að líta á efnahagsmálin frá þeim sjónarhól, að hér sé um að ræða eins konar fjárhættuspil, þar sem það, sem einn aðilinn græðir, hljóti alltaf að vera á kostnað annars, heldur er það þannig, að kjör og afkoma einnar stéttar í þjóðfélaginu hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér áhrif á kjör og afkomu annarra aðila í þjóðfélaginu. Minni kaupgeta hjá launafólki bitnar á atvinnurekendum, alveg á sama hátt og t. d. auknar skattaálögur á atvinnurekstrinum bitna einnig á þeim, sem í þágu atvinnurekstrarins starfa. Þannig er það tvímælalaust, að þessi ráðstöfun, svo langt sem hún nær, hefur áhrif í þá átt að halda dýrtíðinni í skefjum, og það er einmitt í þessu, sem það liggur fyrst og fremst, að gera má ráð fyrir því, að verðfestingin verði raunhæf. Það út af fyrir sig að setja almennt bann við öllum verðhækkunum er að mínu áliti fullkomlega gagnslaust, því að engin tök eru á því að hafa eftirlit með því, að slíku sé framfylgt. Það er að vísu kannske hægt að hafa eftirlit með því, að ein og ein vörutegund verði ekki hækkuð í verði, en þegar verðhækkunarbannið er orðið almennt, er óhugsandi að hafa eftirlit með því. Annað mál er það, að þegar kaupgjaldið er stöðvað á þann hátt, sem hér hefur verið gert, þá er það ekki vænlegt til aukins hagnaðar fyrir seljendur vöru og þjónustu að hækka verðið, því að skilyrði fyrir því, að hægt sé að græða á því að selja vöru og þjónustu, hlýtur þó ávallt að vera það, að einhver geti keypt þessa vöru og þjónustu.

Um réttmæti þessara ráðstafana að öðru leyti skal ég ekki ræða, enda ógerlegt að mínu áliti að svo komnu máli. Slíkt verður fyrst gert, þegar það liggur ljósar fyrir en nú, hvað það er í rauninni, sem fyrir hæstv. ríkisstjórn vakir í efnahagsmálunum. Kaupbinding getur að vísu verið spor í þá átt að stöðva verðlagið. Það má um það deila, hvort það sé réttlátasta aðgerðin, og einhlít er hún undir öllum kringumstæðum ekki. Hins vegar má vera og er kannske ekki óeðlilegt, að hæstv. ríkisstj. segi sem svo: Þessa ráðstöfun var hægt að framkvæma strax, en aðrar ráðstafanir til stöðvunar dýrtíðinni þurfa sinn undirbúning og ekki hægt að framkvæma þær fyrr en síðar. — Slíkt væri fullkomlega skiljanlegt. Gagnsemi og nauðsyn þessara ráðstafana verður fyrst dæmt um, þegar það liggur ljósar fyrir, hvað það er, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj. á sviði efnahagsmálanna, en eins og nú standa sakir, virðist þetta æði óljóst. Ég leyfi mér aðeins að nefna það sem dæmi, að í fjárlagaræðu sinni talaði hæstv. fjmrh. um nauðsyn þess að vekja aukið traust á verðgildi peninganna, hvetja menn til að spara. Hann talaði um vísitölutryggingu sparifjár o. s. frv. Ég er honum fullkomlega sammála um það, að ef hægt væri að vekja aukið traust sparifjáreigenda og bæta þeirra hag, þá væri með því stigið þýðingarmikið spor í þá átt að stöðva verðbólguþróunina. Aðrir hæstv. þm. úr liði stjórnarinnar hafa hins vegar talað um nauðsyn þess að láta gróðamennina skila aftur því, sem þeir hefðu ranglega tekið eða hvernig það nú var orðað, og er erfitt að skilja þau ummæli á annan hátt en þann, að til orða hafi komið að framkvæma víðtæka eignaupptöku eða leggja á eignarskatt. Með slíkri ráðstöfun er hugsanlegt að ná vissum markmiðum, en æði mikið mundi slík ráðstöfun þó koma í bág við þær ráðstafanir, sem hæstv. fjmrh. taldi nauðsynlegar. Því virðist sem sjónarmiðin innan hæstv. ríkisstj. séu enn þá töluvert mismunandi, þannig að erfitt er að svo stöddu að átta sig á því, hvað fyrir henni kann að vaka í þessum málum, en vonandi skýrist það fyrr en síðar.