29.10.1956
Neðri deild: 7. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður lauk máli sínu á því að segja, að sjónarmið innan ríkisstj. varðandi þetta mál virtust vera æði mismunandi. Ekkert hefur þó komið fram, sem benti í þá átt. Ríkisstj. stendur algerlega einhuga að baki þessa frv. Hún er einhuga um það, að þessi ráðstöfun hafi verið nauðsynleg og skynsamleg. Til þess liggja mörg rök. Að nokkrum þeirra skal ég víkja á eftir. — En hér hafa talað þrír hv. þm. Sjálfstfl. um þetta mál, og ég fæ ekki betur séð en að hjá þeim hafi komið fram þrjár skoðanir á málinu.

Hv. 1. þm. Reykv. lýsti eindregnu fylgi sínu við frv., kvað meira að segja svo rammt að orði, að hann sagði, að hér væri í raun og veru um að ræða framkvæmd á stefnu Sjálfstfl., og þá er ekki undarlegt, þó að hann lýsi yfir fylgi við frv. með sterkum orðum. Hann sem sagt lýsti yfir fylgi við frv., taldi það spor í rétta átt.

Svo kom annar ræðumaður Sjálfstfl., hv. 2. þm. Reykv. Hann taldi frv. gott öðrum þræði, kaupbindingin í því, sem hann kallaði svo, væri ágæt, en verðfestingin væri hábölvuð. Hann sagði já í öðru orðinn, en nei í hinu.

Loks kom þriðji ræðumaður Sjálfstfl., hv. 9. landsk. þm., og ég gat ekki betur skilið hans orð en þannig, að hann væri alveg á móti frv., bæði verðfestingunni og kaupbindingunni.

Þannig komust fulltrúar Sjálfstfl. alveg í hring í þessum þremur ræðum: einn alveg með, einn bæði með og á móti og sá þriðji alveg á móti.

Nú er það að vísu svo, að það er algerlega rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að þessi ráðstöfun var bráðnauðsynleg og skynsamleg, raunar sjálfsögð, eins og á stóð. Hitt er svo annað mál, að það er ekki verið að viðurkenna í verki kenningar sjálfstæðismanna, eins og hann vildi gefa í skyn. Það er ekki stefna Sjálfstfl., sem fram kemur í frv., svo sem líka kom fram í því, að hv. næsti ræðumaður tók aftur helminginn af þessu og þriðji ræðumaðurinn allt.

Það hefur hingað til ekki verið stefna sjálfstæðismanna, að það eigi að hafa allsherjar eftirlit með verðlagi í landinu, að það eigi að vera í gildi lagaákvæði, þó að til bráðabirgða sé, sem banni bókstaflega allar verðhækkanir, eins og hér var lögtekið fyrir fjóra mánuði. Það hefur ekki verið stefna sjálfstæðismanna, að slíkt væri í lögum. Þeir hafa verið andstæðir verðlagseftirliti í grundvallaratriðum, ekki haft trú á því, og þá auðvitað ættu þeir að hafa minnsta trú á því að hafa verðlagseftirlitið jafnalgert og það er haft í þessum lögum, þó að til bráðabirgða sé. A. m. k. er þessi þáttur brbl. því sannarlega ekki stefna Sjálfstfl., sem og kom fram í því, að báðir hinir fulltrúar hans lýstu fullkominni andstöðu sinni við þennan þátt brbl.

Mergurinn málsins hér er auðvitað sá, og það, sem er nýmæli við þessa lagasetningu, er, að hér er í fyrsta skipti gerð tilraun til þess að stöðva verðlagið og láta kaupfestingu sigla í kjölfar verðlagsstöðvunar. Þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið áður, og tillögur sjálfstæðismanna á s. l. vori miðuðu fyrst og fremst að því að stöðva vísitöluna, gera ráðstafanir til þess að halda vísitölunni niðri og láta bindingu kaupgjaldsins sigla í kjölfar þess. Það, sem skilur þessar ráðstafanir og till. fyrrv. hæstv. viðskmrh., var einmitt þetta, að með þessum ráðstöfunum er snúizt gegn verðlaginu sjálfu, en í till. fyrrv. viðskmrh. var snúizt gegn vísitölunni. Það, sem vera átti afleiðing hvors tveggja, var auðvitað, að kaupgjald skyldi haldast óbreytt, en alþýðustéttirnar, launþegasamtökin hafa skilið, eins og líka við var að búast, í hverju munurinn er fólginn, að hér er eðlismunur á. Vísitalan er ekki, eins og allir vita, svo nákvæmur mælikvarði á verðlag, að við það sé unandi, að einvörðungu sé látið við það sitja að halda henni í skefjum.

Efnislega er það auðvitað kjarni málsins í þessum umræðum, hver hafi verið raunveruleg orsök þeirrar verðbólgu, sem við erum sammála um, núverandi stjórnarflokkar og hv. stjórnarandstaða, að sé mikið þjóðfélagsmein. Mergur málsins er það, hver orsök hafi verið til þeirrar verðbólgu, sem þjakað hefur íslenzkt efnahagslíf s. l. 15 ár.

Það var skýrt tekið fram af hálfu allra ræðumanna stjórnarandstöðunnar, sem hér töluðu, að verðbólgan væri mein, sem vinna þyrfti bug á. Um það efni er því enginn ágreiningur milli ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar. En um hitt virðist vera ágreiningur, hver sé orsök verðbólgunnar, og þá er ekki nema eðlilegt, að það verði líka ágreiningur um það, til hvaða ráða skuli grípa gegn henni.

Það hefur verið einn meginboðskapur sjálfstæðismanna undanfarin ár, ég vil segja undanfarin 15 ár, síðan verðbólgan varð að alvarlegu vandamáli, að kaupgjaldshækkanir hafi verið meginorsök þeirrar verðbólgu, sem við hafi verið að stríða.

Hv. 9. landsk. þm. hefur verið einn helzti forsvarsmaður þeirrar kenningar á opinberum vettvangi, að verðbólguna megi, að verulegu leyti a. m. k., ef ekki fyrst og fremst, rekja til kaupgjaldshreyfinga, a. m. k. þegar hann hefur skrifað í Morgunblaðið. Ég er á annarri skoðun í þessu máli. Ég er á þeirri skoðun í þessu máli, að meginorsök verðbólgunnar, ef við tökum 15 ára tímabilið í heild, hafi verið lánsfjárþensla bankanna og greiðsluhalli hjá ríkissjóði á mjög mörgum árum, þó að það eigi ekki við s. l. fimm ár. Enn fremur hafa áhrif frá Keflavíkurflugvelli, tekjur þaðan, haft sitt að segja varðandi vöxt verðbólgunnar.

Það kerfi, sem hér hefur ríkt varðandi launagreiðslur, að kaup hefur verið bundið verðlagsvísitölu, hefur svo haft þau áhrif, á sumum tímum sérstaklega, að verðbólguskrúfan hefur orðið hraðari en ella. En þetta kerfi og ekki heldur grunnkaupshækkanir á kaupgjaldi hafa verið frumorsök að verðbólgunni, heldur hefur frumorsökin verið lánsfjárþensla bankanna og greiðsluhalli hjá ríkissjóði.

Þess vegna kom mér það mjög undarlega fyrir sjónir, að hér skuli tala þrír málsvarar Sjálfstfl., allir vel að sér í þessum fræðum, vera að ræða vandamál verðbólgunnar, og enginn þeirra skuli nefna bankana í þessu sambandi, eins og útlánastarfsemi bankanna hafi engin áhrif haft og geti engin áhrif haft á það, hvort hér sé verðbólga eða verðbólga ekki. Sérstaklega kom mér það á óvart að heyra hv. 9. landsk. þm., sem er sérfróður í þessum efnum, halda allt að því 20 mín. ræðu um þessi mál og nefna ekki bankana og þeirra lánsfjárpólitík í þessu sambandi. En að því er hina tvo málsvara stjórnarandstöðunnar snertir, er það skiljanlegra, þeir eru fyrst og fremst stjórnmálamenn og vita, hvað hér er í raun og veru á snærinu. Annar er meira að segja, að því er ég bezt veit, bankaráðsmaður í öðrum stærsta banka landsins.

Það er mjög auðvelt að færa að því töluleg rök, að starfsemi bankanna undanfarin ár hlýtur að hafa haft mikil áhrif á verðlagsþróunina í landinu. Ég tók upp í skyndi tölur um lánaaukningu seðladeildar Landsbankans s. l. fimm ár. 1951 var lánaaukningin 117 milljónir, 1952 114 milljónir, 1953 34 milljónir, — 1954 var 31 millj. kr. samdráttur, — en 1955 175 milljónir. Þetta eru allt saman tölur um lánaaukningu seðladeildarinnar.

Allir, sem skynbragð bera á þessi mál og þekkja þær peningastofnanir aðrar, sem hér er um að ræða varðandi heildarútlánin og þjóðartekjurnar, hljóta að sjá, að slík útlánaaukning getur ekki annað en haft veruleg áhrif á fjármálakerfið í heild.

Sannleikurinn er og sá, að þær breytingar, sem hér hafa orðið á kaupgjaldi, bæði vegna vísitölukerfisins og vegna grunnkaupshækkana, hafa yfirleitt siglt í kjölfar þessarar verðbólguþróunar og eins og ég sagði áðan kannske gert hana hraðari en hún hefði ella orðið, en ekki verið frumorsökin að henni.

Í þessu sambandi má t. d. minna á verkfallið 1955, sem nokkuð hefur blandazt inn í þessar umr. Ég skil ekki í því, að nokkur treysti sér til þess að mæla gegn því, að kaupgjald á hinum frjálsa vinnumarkaði var raunverulega hækkað langt upp fyrir gildandi kauptaxta löngu áður en til verkfallsins kom. Það var um að ræða eftirspurn eftir vinnuafli við miklu hærra kaupgjaldi en svaraði til hinum opinbera taxta. Og það var þessi þrýstingur eftirspurnarinnar frá atvinnurekendum á vinnuaflið, sem braut stífluna og knúði fram uppsagnir af hálfu verkalýðsfélaganna. Það, sem gerðist, var það, að verðbólgan skapaði mikla eftirspurn eftir vinnuafli í þjóðfélaginu og skapaði atvinnurekendunum gróðamöguleika með því að hagnýta vinnuafl, þó að verðið væri meira en nam hinum opinberu töxtum. Undir þessum kringumstæðum hefði verið óeðlilegt, að þetta ástand leiddi ekki til þess, sem það leiddi, hefði verið nær óskiljanlegt, ef þróunin hefði ekki orðið þessi. Hér hjálpaði svo auðvitað þrýstingurinn frá Keflavíkurflugvelli allmikið til. Það, sem var mergur málsins og hafði verið langa lengi, var það, að atvinnurekendur græddu, græddu á hverri krónu, sem þeir keyptu vinnuafl fyrir. Þetta var augljóst, því að þetta var engum leyndarmál, allra sízt þeim, sem seldu vinnuaflið. Afleiðingin varð sú, eins og verða vill á frjálsum markaði, að verð á vinnuaflinu þrýstist upp á við. Hér hlaut það að gerast samkv. þeim þjóðfélagsháttum, sem við búum við, á þann veg, að til almennra uppsagna á kaup- og kjarasamningum kæmi og svo til verkfalls, fyrst ekki samdist.

Ef rætt er um þetta verkfall, sem er það síðasta, þá er í raun og veru mjög undarlegt, að það og afleiðingar þess skuli vera jafnframandi fyrir helztu formælendum frjálsrar samkeppni og raun ber vitni um. Það, sem hér gerðist á vinnumarkaðinum í sambandi við síðasta verkfall, var ekkert annað en það, að hin alkunnu og mjög einföldu lögmál hins frjálsa markaðar nutu sín og fengu að njóta sín, jafnvel þó að það yrði að verða með verkfallshætti. Eftirspurnin eftir vinnuafli var miklu meiri en hægt var að fullnægja við hinum gildandi töxtum, og þá gerðist það, að verðið á vinnunni, þ. e. kaupgjaldið, hækkaði. Ýmsir aðrir ættu að undrast þetta en þeir, sem eru alltaf með söng um frjálsa verðmyndun og frjálsa samkeppni á vörunum og telja einmitt þá lausn á sérhverjum efnahagsvanda, sem helzt svarar til jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar, vera hina eðlilegustu og réttlátustu. Sannleikurinn er sá, að það kaupgjald, sem um samdist, svaraði alls ekki til jafnvægisverðs milli framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaðinum. Kaupgjaldið var lægra, eins og reynslan hefur líka sýnt eftir verkfallið og á sér stað enn í dag. Það á við í fjölmörgum greinum, ég er ekki að segja flestum, en a. m. k. fjölmörgum greinum vinnumarkaðarins, að hinir opinberu taxtar eru enn langt undir frjálsu jafnvægisverði á vinnumarkaðinum. Því tel ég, að sú skýring, sem haldið hefur verið fram og haldið er fram enn af hálfu Sjálfstfl., að vísitölubreyt. vegna grunnkaupshækkana hafi verið frumorsök verðbólguvandans hér hjá okkur, sé ekki rétt. Frumorsakirnar eru aðrar, og þetta hefur auðvitað þýðingu í sambandi við það, hvernig á vandanum verður tekið, þegar að heildarlausninni kemur.

Þá sagði hv. 9. landsk. þm., þegar hann einn fræðimanna Sjálfstfl., að því er mér skildist, andmælti ákvæðum bráðabirgðalaganna um kaupbindinguna, að í öllu falli væri kaupbinding ekki einhlít til þess að stöðva verðbólguþróun, sem er vissulega rétt. En hann sagði jafnframt, að þessi kaupbindingarákvæði bráðabirgðalaganna mundu án efa hafa í för með sér nokkra kjaraskerðingu. Þessi staðhæfing kom mér líka mjög á óvart. Allir hv. þm. kannast áreiðanlega við það, að einmitt þessi hv. þm. hefur lagt á það mikla áherzlu um mörg undanfarin ár, a. m. k. síðasta áratug, að kauphækkun í krónum sé í sjálfu sér engin kjarabót. Ég gæti lesið tugi tilvitnana í skrif eftir þennan hv. þm., þar sem lögð er megináherzla á það, þríundirstrikað, að kauphækkun sé engin kjarabót. Einkum hefur mikið borið á þessum skrifum, þegar kaupdeila hefur verið í aðsigi eða staðið yfir. Nú, þegar hér er gerð ráðstöfun, ekki til þess, eins og hann sagði, að minnka tekjur launamanna, heldur festa tekjurnar, meðan verðlag er fast, þá kemur þessi hv. þm. og segir, að í þessum ráðstöfunum felist kjaraskerðing. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta að sinni. Ég mundi gera það og geri það, ef miklu meira tilefni gefst til. Hér er um svo snögg hlutverkaskipti að ræða, að mér ægir við, og þá verð ég að segja, að fyrra hlutverkið var mun betur leikið og hæfði miklu betur en þetta.

Hv. 9. landsk. þm. sagði, að ekki hefðu verið höfð samráð við ýmis samtök. Þau mikilvægustu, sem hann nefndi, voru samtök Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. En á því vildi ég gefa þá skýringu, að í þann mund, sem rætt var um setningu bráðabirgðalaganna í ríkisstj., var hv. þm., sem er form. þessara samtaka, ekki á landinu. Varaform. var það ekki heldur, og í ljós kom, að meiri hl. stjórnar bandalags opinberra starfsmanna var erlendis. Það var aðeins minni hlutinn, sem var hér á landinu, og þess vegna var ekki hægt að hafa samband við þessi sannarlega mjög svo mikilvægu launþegasamtök.

Ég vil að síðustu taka undir með hæstv. félmrh., að ég fagna því, að aðalmálsvari Sjálfstfl. við þessar umr., hv. 1. þm. Reykv. (BBen), skuli hafa tekið frv. jafnvel og raun ber vitni. Hann tók því miklu betur en hans aðalmálgagn, Morgunblaðið, gerði á sínum tíma. Með tilliti til þeirra tíðinda, sem boðað hefur verið, að gerast muni í þeim efnum á næstunni, að hann taki við aðalritstjórn þessa mikilvæga málgagns, er ef til vill ekki ósanngjarnt að vænta þess, að málgagnið taki brbl. og öðrum hliðstæðum ráðstöfunum betur hér eftir en hingað til.