29.10.1956
Neðri deild: 7. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er nú ekki ákaflega margt, sem ég þarf að segja í sambandi við þetta frv., þar sem þrír hv. sjálfstæðismenn hafa talað hér, en þeir tveir hæstv. ráðh., sem hafa talað fyrir frv., hafa að mínum dómi gert það mjög linlega.

Ég hafði búizt við því, að þeir mundu láta skína í eitthvað meira í sambandi við umr. um þetta mál en þau bráðabirgðaúrræði, sem í frv. felast.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þann hringsnúning, sem hefur orðið hjá þessum hæstv. ráðh. frá því, að till. sjálfstæðismanna voru fluttar í marzmánuði s. l. Eitt er þó ljóst, að ef till. okkar sjálfstæðismanna hefði verið fylgt, þar hefðu verið framkvæmdar í marzmánuði, á meðan vísitalan var í 173 stigum, hefði verið hægara að eiga við þessi mál heldur en þegar brbl. voru sett og vísitalan var komin upp í 184 stig.

Þegar við sjálfstæðismenn fluttum okkar till., gerðum við það í þeim tilgangi að láta þær ráðstafanir, sem þingið hafði gert með ýmsum álögum vegna atvinnuveganna, verða raunhæfar, og við gerðum ráð fyrir því, að hv. stjórnarandstaða ætti til nokkra skynsemi, hún ætti einnig til nokkra þjóðhollustu og gæti þess vegna fallizt á tillögur okkar. En það kom berlega fram hjá hæstv. félmrh. áðan, að hann hefur allt aðra skoðun á lausn og gangi þjóðmálanna eftir því, hvort hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Hann sagði, að það væri allt annað að framkvæma þessar tillögur nú en þegar við sjálfstæðismenn fluttum okkar tillögur. Hans skoðun markast þess vegna ekki af málefnum, heldur af hentistefnu, og það er út af fyrir sig upplýsing, sem verður að geyma, það út af fyrir sig er játning, sem ég hafði ekki búizt við að kæmi hér svo greinilega fram í þingsölunum.

Það hefur komið fram í blöðum stjórnarsinna, að við sjálfstæðismenn værum stundum að syngja tvísöng í sambandi við þetta mál. Það hefur stundum verið vitnað í ræðu, sem ég flutti austur á Rangárvöllum í sumar, þar sem ég talaði um það, að bændur landsins þyrftu ekki að vonast eftir góðu frá núverandi ríkisstjórn.

Ég held, að bændur landsins eigi engan málsvara í núverandi ríkisstjórn og að það sé greinilega komið á daginn eftir þriggja mánaða setu þessarar ríkisstj., að hlutur bændanna er fyrir borð borinn. Ég ætla ekki að gera kröfur f. h. bændanna hærri en svo, að þeir njóti jafnréttis við aðra þegna þjóðfélagsins. En ég vil sem fulltrúi bænda á Alþ. ætlast til þess, að núverandi ríkisstj. gleymi því ekki, að í landinu er bændastétt, sem þarf líka að lifa.

Í sambandi við þetta frv., sem hér er verið að ræða um, er skv. 3. gr. valdið tekið af framleiðsluráði til ákvörðunar á verðlaginu. Það hefur þó aldrei komið fyrir, að framleiðsluráð hafi misnotað þetta vald, þennan rétt, sem það hefur haft til verðákvörðunar. Miklu fremur hefur það komið í ljós, að framleiðsluráð hefur ekki gert ráð fyrir nægilegum kostnaði, til þess að bændur fengju borið úr býtum það verð, sem verðlagsgrundvöllurinn gerir ráð fyrir.

Samkv. því, sem verðlagsnefnd landbúnaðarins reiknaði út og lagði til, bar bændum að fá 8.2% hækkun á verð landbúnaðarvara, eftir að búið var að gefa eftir hjá 6 vísitölustig, sem rætt hefur verið um. Miðað við vísitöluna 178 bar bændum að fá 8.2% hækkun.

Ég hef reiknað út, hvernig staðið hefur verið við þetta í sambandi við sláturafurðir. Það er ekki enn hægt að fullyrða um mjólkurverðið, vegna þess að það er ekki tímabært, en grunur minn er sá, að bændur verði hlunnfarnir þar eins og í verðlaginu með sláturafurðirnar.

Ég vil nú lesa hér upp útreikning og töflu í sambandi við verðlag sláturafurða. Þá er miðað við það verð, sem bændum var greitt fyrir sláturafurðir 1955. Ég ætla ekki að fullyrða, að það hafi verið nákvæmlega verðlagsdæmda verðið. Ég hygg, að það hafi verið heldur neðan við það. Eigi að síður ætla ég að miða við það verð, sem var greitt fyrir afurðir 1955, og þá ættu bændur að fá 8.2% hækkun frá því verði.

Ef við tökum nú dilk, sem vegur 13 kg, hefur 13 kg kroppþunga, sem var lengi hér sunnanlands meðalvigt. Meðalvigtin er nú orðin hærri, en ég ætla að miða við dilk, sem hefur 13 kg kroppþunga. Hann er greiddur núna nákvæmlega kr. 289.85, en ætti að vera með 8.2% hækkun frá því í fyrra kr. 298.40. Hér vantar 3.3%, til þess að bændur fái þessa 8.2% hækkun.

Ég ætla að taka nautakjöt, alikálf, I. flokk. Hann er greiddur núna á 16 kr., ætti að vera kr. 17.85 kg. Þá vantar kr. 1.85 eða 11.5%, til þess að bændur fái 8.2% hækkun á nautakjötið, miðað við það, sem greitt var í fyrra.

Ég ætla að taka aðra tegund af nautum, sem er greitt núna 15 kr. kg, ætti að vera kr. 1.6.23, vantar kr. 1.23 á hvert kíló eða 8.2%, sem sagt, það er engin hækkun á þessa tegund nautakjöts.

Ég ætla að taka kýrkjöt, nr. 1, sem er greitt núna á. 13 krónur, en ætti að vera með 8.2% hækkun kr. 14.60. Það vantar kr. 1.60 eða 12.3%.

Ég ætla að nefna ungkálfa, sem eru greiddir á 8 kr., ætti að vera 9.20, vantar kr. 1.20 eða 15%. Ég ætla að nefna folaldakjöt, sem er greitt 8 kr., ætti að vera kr. 9.74, vantar kr. 1.74 á hvert kg eða 21.7%.

Ég vil nefna tryppakjöt, sem er greitt á kr. 7.25, ætti að vera kr. 8.93, vantar kr. 1.68 eða 23.1%.

Ég ætla að nefna hrossakjöt, nr. 1, sem er greitt á 5 kr., ætti að vera kr. 7.03, vantar kr. 2.03 eða 40%.

Það má segja, að núverandi ríkisstjórn standi vel í ístaðinu fyrir landbúnaðinn.

Nú gæti ég vel trúað, að einhverjir framsóknarmenn segðu, t. d. annaðhvort hæstv. fjmrh. eða hæstv. landbrh.: Við erum nú að hugsa um bændur, og við höfum nú gert það og ætlum að gera það eftirleiðis alveg eins og hingað til, og það er ekki okkur að kenna, þó að þetta sé svona. Það er bara framleiðsluráðið, það hefur ekki staðið í stöðu sinni. — Mér kæmi það ekkert á óvart, þó að þeir ætluðu að reyna að klína því á framleiðsluráðið, að ekki hefur verið betur gert en nú, eftir að hafa þó sett í lög, sem hér er verið að ræða um, að taka réttinn af framleiðsluráðinu.

En ég er alveg sannfærður um það, og ég þekki marga menn í framleiðsluráði, að þeir eru ekki ánægðir með þessar framkvæmdir, og þetta getur ekki verið framkvæmt svona nema vegna þvingunar frá hæstv. ríkisstj. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að bændur úti um land séu hugsandi um afkomu sína og málefni sín að hafa ríkisstj. í landi, sem gerir sér ekkert far um að kynna sér þeirra aðstöðu, þeirra málefni.

Nú mun kannske einhver segja: Bændastéttin er í minni hluta í landinu, og til þess að tryggja sér valdastólana er hægast að ráðast á hana. Og það er kannske hugsanlegt, að fólkið við sjóinn uni þessari stjórn betur, ef það fengi að vita, að það sé a. m. k. verr farið með aðra. En ég er hræddur um, að það verði ekki til lengdar þannig, að um leið og níðzt er á bændunum, þá geti það komið fram við aðrar stéttir þjóðfélagsins í ýmsum formum. Ég held, að það verði afar erfitt að halda uppi menningarþjóðfélagi, ef bændastéttin flosnar upp, og ég held, að það sé mjög háskalegt að ýta undir fólksflutninga úr sveitunum, sem verið er að gera í mjög auknum mæli með því að framkvæma þeirra málefni af opinberri hálfu eins og ég hér hef lýst með þeirri töflu, sem ég las hérna upp. Ég held, að þeir, sem við sjóinn búa, margir, skilji það, að þessi framkvæmd á málefnum bændanna er bæði óskynsamleg og óréttlát, og ég held, að hæstv. ríkisstj. afli sér ekki trausts hjá almenningi við sjóinn á þennan hátt.

Ég held, að almenningur við sjóinn treysti hæstv. ríkisstj., sem nú situr, mjög takmarkað. Ég hef talað við marga menn úr öllum stjórnmálaflokkum, og ég hef engan hitt, sem gerir ráð fyrir því, að þessi hæstv. ríkisstj. leysi nokkurn vanda. Ég hef engan mann hitt, sem lætur sér detta það í hug, að þessi hæstv. ríkisstj. komi með raunhæfar till. í efnahagsmálum þjóðarinnar, og víst er um það, að það er ekki að heyra á þeim hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, að þeir hafi komið anga á raunhæfar leiðir til lausnar þessum vanda. Það er meira að segja haft eftir hæstv. félmrh., að hann hafi sagt: Nú, eru þá engar till. til nema þessar bráðabirgðatill., sem sjálfstæðismenn voru með í vetur?

Ég ætla ekki að ásaka hæstv. ríkisstj., þótt hún hafi ekki á takteinum raunhæfar till. í okkar efnahagsmálum, og ég ætla að viðurkenna, alveg eins og ég gerði s. l. vetur, að það er jafnrétt, þótt raunhæfar frambúðartill. séu ekki fyrir hendi, að koma með bráðabirgðatill. til stöðvunar á verðlaginu og dýrtíðinni, eins og við sjálfstæðismenn höfum alltaf viljað gera. Það er vitanlega fyrsta skilyrðið að stöðva dýrtíðina, stöðva verðlagið, stöðva kapphlaupið á milli kaupgjalds og verðlags. En það þarf að gera það á réttlátan hátt, þannig að allar stéttir þjóðfélagsins geti unað því. Það má ekki gera það á þann hátt, sem ég áðan lýsti, að níðast á einni stétt, og ég held, að jafnvel þótt frv. sé orðað eins og það er, þá hefði mátt framkvæma þessi lög þannig, að t. d. bændur hefðu borið sinn hluta alveg uppi. En hér er einhver viðleitni í þá átt að níða eina stétt, sem hefur ráðið. Eða er það fullkomlega ókunnugleiki þeirra manna, sem í ráðherrastólunum eru, að þetta er svona? Ég skal fallast á og mér þykir betra að fallast á þá skoðun, að það sé ókunnugleiki, of lítill skilningur á þörfum og málefnum þessarar stéttar, sem hefur valdið þessu, frekar en löngun eða vilji til þess að níðast á þessari stétt.

Ég er hræddur um, að núverandi hæstv. ríkisstj. hafi mjög takmarkað traust hjá almenningi landsins, og marka ég það m. a. á því, að framan af árinu til júníloka var sparifjáraukning í landinu meiri en hún hefur nokkurn tíma áður verið: fyrstu sjö mánuðina 136 millj. kr., en mest hefur hún orðið á einu ári 190 millj. kr. En síðan núverandi hæstv, ríkisstj. kom að völdum, hefur sparifjáraukningin ekki aðeins hætt, það hefur engin sparifjáraukning verið, heldur er nú verið að éta upp fullkomlega það, sem sparifjáraukningin hafði verið framan af árinu. Það er vegna þess, að almenningur í landinu býst ekki við neinu góðu hjá núverandi hæstv. stjórn. Almenningur í landinu gerir sig ekki ánægðan með, að það sé skipuð nefnd daglega til að athuga og til þess að rannsaka hin og þessi mál, enda er það oft svo í framkvæmd, að það að skipa nefnd í málin er nokkuð sama oft og tíðum og að jarða þau. Það er aðferð til þess að gleyma því, að þau hafi verið borin fram, og á þann hátt geta ýmis mál fengið góðan dauðdaga með því, að þau séu sett í nefnd.

Ég skal nú ekki fjölyrða öllu meira um þetta, en það hlýtur þó að koma upp í huga manns, þegar rætt er um efnahagsmál, að fjármagnsmyndunin er undirstaðan að framkvæmdum og þeim hlutum, sem skal gera. Og ef engin fjármagnsmyndun er, hvernig á þá að halda uppi framkvæmdum? Hvernig á þá að halda góðum lífskjörum í landinu?

Hæstv. fjmrh. hefur flutt ræðu og talið upp ýmislegt, sem vantar, til þess að hægt sé að halda framkvæmdunum áfram. Hann hefur talað um, að það vanti peninga í raforkumálin, enda er nú svo, að það er hætt að tala um áætlun á framkvæmd raforkumálanna fyrir næsta ár. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur lagt rafmagnsmálin algerlega á hilluna, en undanfarin ár hefur það þótt sjálfsagt, að við ættum að gera áætlun um dreifingu rafmagns fyrir næsta ár á miðju ári næst á undan. Það lítur helzt út fyrir, að það sé ekki meiningin að vinna að raforkumálunum á næsta ár í og að hæstv. ríkisstj. hafi algerlega gefizt upp á því að útvega nokkurt fé þar til.

Hæstv. fjmrh. talaði um, að það vantaði peninga í Búnaðarbankann, í húslánasjóðinn, í fiskveiðasjóðinn o. s. frv. Það er ekkert undarlegt, þó að vanti peninga, ef fjármagnsmyndunin er algerlega stöðvuð, vegna þess að almenningur í landinu treystir ekki á þá ríkisstjórn, sem við stýrið er, og telur það vænlegast að koma öllu sínu fé í eitthvað fast.

Undanfarin ár hefur verið unnið að uppbyggingu og framkvæmdum í þessu landi án þess að taka erlend lán. Landsmenn hafa gert þetta fyrir sitt eigið fjármagn, fyrir sínar eigin tekjur, sem þeir hafa aflað. Þetta út af fyrir sig hefur verið mjög ánægjulegt og giftusamlegt. Það er ekkert undarlegt, þótt hæstv. núverandi viðskmrh. (LJós) hafi gert það að inngangi sinna orða í ræðu, sem hann flutti á aðalfundi Verzlunarráðs Íslands, hversu mikið og ánægjulegt það hafi verið, að fyrrverandi ríkisstj. hafi með því fjármagni, sem þjóðin sjálf aflaði, staðið að uppbyggingu og örari framkvæmdum en nokkru sinni fyrr. Þessi hæstv. ráðh. sagði í þessari góðu ræðu, sem hann þá flutti, að þjóð, sem hefði búið við slíkt undanfarið, hlyti að eiga góða framtíð og það væri sjálfskaparvíti, ef ekki væri haldið áfram uppbyggingu, framkvæmdum og bættum lífskjörum í landinu. Ég er á sömu skoðun og núverandi hæstv. viðskmrh., að það sé sjálfskaparvíti, ef nú verður öllu siglt í strand.

Ég held, að það sé ekki þörf á því að láta kreppuna koma yfir þjóðina. Við höfum meiri framleiðslutæki en nokkru sinni fyrr, þannig að útflutningsframleiðslan hefur vaxið árlega núna undanfarið um 100 millj. kr. á ári, vegna þess að fyrrv. ríkisstj. hafði dug og vit til þess að afla atvinnutækjanna, sem gátu svo nýtt og malað þau verðmæti, sem þjóðin aflaði.

En nú virðist það svo, að hæstv. ríkisstj. hafi raunverulega alveg gefizt upp. Þegar talað var um togarabyggingarnar hér um daginn, var sagt, að það væri alveg óvíst, að það væri hægt að fá peninga til þess að byggja togarana. Og til þess að „bakka“ út úr þessu með togarakaupin þótti vissara að upplýsa þingheim um, að það væri sennilega ekki hægt að fá þá byggða fyrr en 1960. Það á að telja fólki trú um, að ef tafir yrðu á því, að þessir togarar kæmu, þá væri það vegna þess, að það væri ekki hægt að fá þá byggða. En það munu verða fáir, sem trúa því.

Ég skal ekki vera með hrakspár. Ég held, að það sé rétt, sem hv. 9. landsk, sagði hér áðan, að það sé rétt að bíða átekta, þangað til heildarúrræðin koma frá hæstv. ríkisstj., ef þau einhvern tíma koma, og spara a. m. k. fullyrðingar og stóryrði þangað til. En það, sem ég hef sagt nú, markast af því, að ég hef ekki trú á því, að hæstv. ríkisstj. komi því fram, sem hún hefur lofað.

Frv. það, sem hér er til umræðu, er tilraun í þá átt að stöðva dýrtíðina, og út af fyrir sig hljótum við sjálfstæðismenn þess vegna að vera fylgjandi þessu frv. í aðalatriðum, þótt framkvæmdin hafi verið slæm, og ég fyrir mitt leyti vil gera brtt. við 3. gr. frv. og gera tilraun til þess að fella niður það ákvæði að taka þann rétt af framleiðsluráðinu, sem það hefur áður haft og algerlega er ástæðulaust að taka af því.

Við skulum svo vona, að það megi takast að stöðva dýrtíðina, það megi takast að halda uppi framkvæmdum og uppbyggingu í landinu, jafnvel þótt sú ríkisstjórn, sem með völdin fer, sé hæpin og henni sé lítt treystandi. En það er sá munur á okkur sjálfstæðismönnum og þeirri skoðun, sem hæstv. félmrh. lýsti hér áðan, að við höfum sömu skoðun á vandamálum þjóðfélagsins, hvort sem við erum stuðningsmenn ríkisstjórnar eða í andstöðu við ríkisstjórn. Við teljum sjálfsagt hverju sinni að fylgja góðum málum fram, hver sem þau flytur, ef við höfum sannfæringu fyrir því, að það megi verða okkar þjóðfélagi til góðs gengis.