29.10.1956
Neðri deild: 7. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það lítur út fyrir, að það sé ekki aðeins um tvísöng að ræða hér hjá hv. stjórnarandstöðu, heldur virðist það vera eins og kór, sem ekki hefur fengið tíma til þess að samæfa sig, svo að það er allt í ósamræmi og æpir hvað á annað.

Mér heyrðist ræða hv. síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. Rang. (IngJ), vera að meginstofni til árás á frv., en svo endaði hann ræðu sína á því, að þetta frv. væri viðleitni til að stöðva dýrtíð og verðbólgu og á þá sveif vildu allir leggjast, þess vegna væru sjálfstæðamenn samþykkir þessu frv. og mundu greiða því atkv. Þá er endirinn fenginn, og annars þurfum við ekki með.

Tal hans um það, að það sé gengið mjög á rétt bændanna í þessu frv., skil ég ekki, því að ég held, að frv. sé þannig byggt upp, að það sé að öllu leyti tryggt, að ekki sé gengið frekar á rétt bænda en annarra og nákvæmlega sömu reglum fylgt gagnvart bændum og verkamönnum. (Gripið fram í.) Það er ekki frv. að kenna. Frv. er gott, og þá er ekki á það að deila. Framkvæmdina hlýtur að vera hægt að laga, og á hv. þm. ekki síður innangengt hjá framleiðsluráði en aðrir um það.

Ég heyrði ekki betur en hv. 1. þm. Reykv. (BBen) væri í einu og öllu samþykkur frv. og lýsti yfir óskoruðum stuðningi Sjálfstfl. við þetta mál.

Framan af ræðu hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) fannst mér tónninn vera sá sami, og stundum, þegar hann varð hvað lýriskastur, þótti mér nóg um. Hann sagði t. d., að ríkisstj. hefði með þessu frv. ekkert gert annað en það, sem hver einasta stjórn hefði gert, sem hefði komizt að völdum, bara til þess að nálgast það að segja, að þetta sé það eina rétta. Hver einasta ríkisstjórn hlyti að hafa gert þetta. Dýpra er varla hægt að taka í árinni, og þarna er hann alveg á bylgjulengd 1. þm. Reykv. Hann sagði líka, að vegna þess, hve ég hefði snúizt frá fyrri villu míns vegar, mætti um þetta segja, að englarnir gleddust yfir einum syndugum, sem iðraðist. Nú, það virðist svo, að englarnir í Sjálfstfl. gleðjist ekkert lítið af því, að þetta frv. liggi hér fyrir, og það er alveg greinilegt, að hv. 1. þm. Reykv. er meðal englanna í Sjálfstfl. Það er orðið dálítið vafasamt með hv. 2. þm. Reykv. (BÓ), og sá 9. er alls ekki í hópi englanna í Sjálfstfl., því að hann er fúll yfir þessu frv.

Í þessu frv. er ekkert annað en það, sem Sjálfstfl. hefur viljað gera, sagði hv. 2. þm. Reykv. Fyrrv. hæstv. forsrh., Ólafur Thors, minntist meira að segja á það einu sinni í nýársboðskap sínum til þjóðarinnar, að þetta þyrfti að gerast.

Það hefði kannske verið einhvers virði, ef hæstv. núv. forsrh. hefði skrifað um það, að þetta þyrfti að gera, eða sagt það einhvern tíma í nýársboðskap sínum. En það verður ekki að lögum fyrir það. Hví kom hæstv. forsrh. fyrrv. stjórnar ekki einhvern tíma með lagafrv. um að stöðva verðlag í landinu? Kannske englarnir hefðu þá glaðzt? En hann gerði það bara ekki.

Það er búið að hjala margt og mikið um það, að verðbólga og dýrtíð sé böl, en þeir, sem hafa hjalað háværast um það, vildu aldrei stöðva hana, af því að þeir græddu á henni sjálfir. Þess vegna hvarflaði það aldrei að Sjálfstfl. að gera neitt alvarlegt í því máli, en vera alltaf með þetta á vörunum, eins og hræsnarar eru vanir að vera. Ólukkan sú, að þetta hafði ekki gerzt fyrr, var bara þessi, að núverandi félmrh. hafði alltaf verið á móti þessu, og þeir komu ekki neinu fram, af því að hann var á móti því. Hann setti á stað hvert verkfallið á fætur öðru til þess að eyðileggja þessi góðu áform í höndum fyrrv. ríkisstj. — Það er trúleg saga þetta.

Hefur hv. 2. þm. Reykv. aldrei verið í verkalýðsfélagi? Hefur hv. 2. þm. Reykv. aldrei verið á togara? Hefur hann aldrei verið verkamaður? Ef hann hefur ekki verið neitt af þessu, þá er hættulegt, að hann sé á Alþingi. Þá skilur hann ekkert í þessum málum. Það er algerlega óhugsanlegt, að einn maður — (BÓ: Hefur hæstv. ráðh. verið þetta allt?) — Ég hef verið þetta allt, já. Ég hef verið í verkalýðsfélagi og er það, og ég hef verið verkamaður, ég hef stundað landbúnaðarstörf líka, ég hef stundað flest framleiðslustörf þjóðarinnar. (Gripið fram í: Verið á togara?) Já, og vélbát, á Árna pung meira að segja.

Það er engum einum manni fært að koma af stað verkföllum. Það getur enginn, hvorki ég né aðrir. Þegar verkafólk í einhverju verkalýðsfélagi kemst að þeirri niðurstöðu, að það telur lífskjör sín hafa rýrnað, þá ber það saman ráð sín og gerir sínar ályktanir og hefur rétt samkv. íslenzkum lögum að þreyta samninga við atvinnurekendurna um kjarabætur. Nái þær ekki fram að ganga, hefur það verkfallsréttinn. Og það er alger misskilningur, að forseti Alþýðusambands Íslands geti fyrirskipað einu eða neinu verkalýðsfélagi verkfall, og það hefði ekkert gildi. Það hefur heldur aldrei gerzt. Allt tal um það, að ég hafi sett á stað verkföll, er þess vegna annaðhvort af mikilli fáfræði mælt ellegar af öðru verra.

En lítum þá á þau verkföll, sem ég hef verið við riðinn. Við skulum bara líta á verkfallið 1952. Um hvað snerist það verkfall? Það snerist um það að knýja ríkisvald og atvinnurekendur í landinu til þessa að stöðva verðlag og lækka verðlag. Var það ekki auðfengið? Nei, það varð eitt víðtækasta og harðvítugasta verkfall, af því að hvorki ríkisvald né atvinnurekendur vildu fara inn á þá leið. Það var mín afstaða þá, og mín afstaða er sú sama enn. Ég var þá í stríði við atvinnurekendavald og ríkisvald með verkalýðshreyfinguna mér við hlið til þess að stöðva verðlag og lækka verðlag. Og niðurstaðan á því verkfalli varð sú, að ríkisvaldið varð að beygja sig undir lækkunarráðstafanir á mjólk, lækkun á saltfiski, lækkun á frögtum, lækkun á kolum, lækkun á útsvörum í Reykjavík, lækkun á sköttum og tryggingarfríðindi. En með góðu fékkst það ekki, það væri synd að segja.

Um sinn lét svo verkafólkið í landinu kyrrt liggja, meðan nokkurn veginn sómasamlega var staðið við þessi loforð um verðstöðvanir og verðlækkanir. En þegar svikin komu og hagfræðingar komust að þeirri niðurstöðu, að það væri búið að hleypa verðlaginu svo lausu, að það væri orðin um 20% kjararýrnun hjá verkafólkinu, þá var ekki lengur setið um kyrrt. Það var ekki Alþýðusambandsstjórnin, ekki forseti Alþýðusambandsins, það voru verkalýðsfélögin, sem tóku að ræða málið og ákváðu þá að leggja til samningahríðar við atvinnurekendur, og ef það ekki bæri árangur, þá leggja út í verkfall. Það er ekki ólukku núverandi félmrh., sem otaði þeim út í þetta. Það var verðhækkunar- og verðbólguskriðan, sem Sjálfstfl. og þáverandi stj. hafði stjórnað, sem hratt verkfallaöldunni af stað.

Þannig hefur það alltaf gengið. Þegar verkafólkið hefur horft upp á það, að allar lífsnauðsynjar þess hækkuðu í verði, gat það ekki lengur unað við sama kaupgjald og hóf samninga um lagfæringu á kaupinu til samræmis við verðlagið, og þegar, það hefur ekki fengizt með góðu neitt viðunandi móti hinu hækkaða verðlagi, þá hefur komið til verkfalla. Ef fyrrv. hæstv. ríkisstj. hefði tekið á sig þá rögg að stöðva verðlagið fyrst og fremst, þá er ekki nokkur vafi á því, að verkalýðshreyfingin hefði ekki talið sig fá fótfestu fyrir hækkun kaupgjalds og verkfallsátökum.

Hér eru því algerlega höfð endaskipti á hlutunum, á staðreyndunum, þegar talað er um það, að ég hafi gert allt, sem í mínu valdi hafi staðið, áður en ég varð ráðherra, til þess að skrúfa hér verðlagið upp og espa verðbólguna. Ég hef staðið í stríði við ríkisstjórn, sem virtist hafa það á stefnuskrá sinni að spenna allt verðlag upp, en vilja halda kaupgjaldinu niðri.

Ég er því algerlega sama sinnis nú eins og áður. Ég fékk aðeins aðstöðu nú til þess að framkvæma það, sem ég hafði staðið í stríði við fyrrv. ríkisstj. um. Ég fékk aðstöðu til þess nú að leggja fyrir verkafólkið þessa spurningu: Viljið þið stöðvun kaupgjalds, ef um leið er sýnd ærleg viðleitni í því að stöðva verðlagið? — Verkafólkið sagði já. Það stóð ekkert á því. Það, sem Sjálfstfl. þá reyndi, var það í Morgunblaðinu lengi vel að koma því inn hjá verkafólki, að þetta hefði verið gert að því fornspurðu, og því er haldið enn áfram af hv. 9. landsk. hér sérstaklega, sem blygðast sín ekki fyrir að kvarta undan því, að það hafi ekki verið leitað til þeirra samtaka, sem hann er í fylkingarbrjósti fyrir. En hann var ekki hér á landi, þegar þetta mál var á dagskrá. Ég efast um, að hann hafi verið í Evrópu. Sennilega hefur hann verið í Kína eins og fleiri. Og varaformaðurinn var ekki heldur hér. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja var hauslaust, þegar þetta var til umræðu. Það var ekki hægt að leita til þess, og var þó gerð tilraun til þess. Svo kemur hausinn, þegar hann er heim kominn, og segir: Það var ekki talað við mig, það var ekki talað við hausinn á Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. — Hann var úti í löndum og varaformaðurinn líka. (Gripið fram í.) Nei, það var ekki hægt að fá löglegan fund í stjórninni. Þeir sögðu, að það væri minni hlutinn heima, meiri hlutinn væri úti í löndum. (Gripið fram í: En það eru varamenn.) Það er kannske löglegt þar að hafa stjórnarfund með minni hluta, að fjarverandi meiri hlutanum.

Annars veit ég ekki til þess, að þessi hv. formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafi verið í öðru hlutverki þar en að þjóna Morgunblaðinu á undanförnum árum, ljúga í blýhólk, þegar hann átti að túlka hagfræðilegar kenningar, og mundi hafa haldið því áfram og heldur því áfram.

Ég veit ekki betur en að yfirleitt hafi opinberir starfsmenn og þau samtök, sem þessi maður hefur veitt forustu, hengt sig aftan í verkalýðssamtökin í kjaramálum. Þegar hafa orðið breytingar eftir verkfallsátök og miklar fórnir verkafólksins, hefur hann, þrátt fyrir öll sín mótmæli gegn kauphækkunum, þrátt fyrir allar vísindalegar útlistanir sínar á því, að kauphækkanir væru til bölvunar, farið í fráfarandi ríkisstj. og beðið um bráðabirgðahækkun fyrst og síðan endurskoðun á launalögum, um meiri hækkanir en verkafólkið hafði fengið fram. Þetta hafa verið hans ær og kýr og verða það áfram vafalaust. Svona hefur hans stéttarbarátta verið. Það er nú svo komið fyrir löngu, að það lítur enginn á formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem forsvara fyrir lífskjör launafólksins í landinu, heldur eingöngu sem verkfæri Morgunblaðsins. (Grípið fram í.) Það er ekki gott að komast að þeim samtökum, þar sem meiri hluti stjórnarinnar er fjarverandi. Það er ekki til neins. En ef ég hefði átt að fara að spyrja einhvern meðlim í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, þá hefði það ekki þótt hafa neitt gildi. Það duldist heldur engum, að þegar menn voru að ræða þessi mál hér sín á milli, var það alveg sama hjá opinberum starfsmönnum og öðrum, að þeir voru á því, að það bæri að stöðva verðbólguskrúfuna. Það var enginn skoðanamunur á milli þeirra og verkafólksins, sem leitað var til. Það voru allir á því, og höfuð Sjálfstfl., 1. þm. Reykv., er á því, að þetta hefði verið gott. 2. þm. Reykv. er meira að segja á því, að það hafi verið ástæða fyrir englana að fagna því, að þetta var gert. En sá 9. landsk., heim kominn, er í miklum vafa enn þá og getur ekki myndað sér skoðun um þetta fyrr en seinna meir, þegar þetta skýrist nánar.

Ég skal játa það, að meginhlutann af hans ræðu skildi ég ekki, og það virtist svo, að stéttarbróður hans, hagfræðingnum, hæstv. menntmrh. (GÞG), virtist koma mjög spánskt fyrir þær niðurstöður, sem hv. 9. landsk. þm. komst nú að, borið saman við niðurstöður hans í Morgunblaðsdálkunum á undanförnum árum. Og þegar hagfræðingarnir skilja ekki hvor annan, þá skyldi engan undra það, þó að þeir, sem ekki eru hagfræðingar, skilji ekki vísindin og spekina.

Mér heyrðist á hv. 2. þm. Reykv., að allt væri gott, dágott a. m. k., í frv. nema eitt atriði, sem hann sagði að væri vafasamt, og það var verðbindingin. Það var ekkert afleitt að binda kaupgjaldið, en þann skratta áttuð þið ekki að gera að fara að binda líka verðlagið.

Þetta er allur sannleikurinn í málinu. Þetta er allt, sem menn þurfa að vita um afstöðu Sjálfstfl. fyrr og síðar til þessara mála. Þeir hefðu gjarnan viljað binda allt kaupgjald. Þeir hefðu viljað koma því niður á við, en láta blessað verðlagið geta hoppað upp á við látlaust. Þá hefði þeim líkað lífið. Og þetta var ljóti skrattinn, að þeir skyldu líka fara að binda verðlagið. Það er það eina, sem orkar tvímælis í þessu frv. Það er það varasama. Ja, það er í raun og veru það, sem þeim líkar ekki. Það var ágætt, að þetta kom fram.

Hv. 2. þm. Reykv. vék að því einmitt í sambandi við þessa vafasömu ráðstöfun, verðbindinguna, að það mætti t. d. ekki framkvæma þetta af fyllstu óbilgirni, þannig að um nýja tolla, sem hefðu verið lagðir á í fyrra, sællar minningar, þegar þeir væru komnir núna inn í verðlagið, þá mætti ekki neita þeim um rúm í verðlagningunni. Sannast að segja hefur verið um þetta rætt af verzlunarráðinu við mig, og það fór dável á með okkur, því að ég vildi einmitt ekki sýna þeim þá óbilgirni, þegar það reyndist svo í einstökum tilfellum, að þessir tollar, þessir drápstollar, væru að koma núna inn í verðlagið í fyrsta skipti, að það yrði ekki að taka tillit til þeirra eins og í verðlaginu á vörunum, þar sem þeir voru komnir inn í verðlagið fyrir 15. ágúst.

Þetta er sem sé viðurkennt, að þegar tollarnir eru svo miklir, að ekki sé hægt fyrir innflytjandann að bera þá innan þess verðramma, sem var 15. ágúst, þá verði að taka tillit til þeirra, en það verður jafnframt að draga eins og fært þykir úr álagningunni, og á þetta sættust þeir.

En ef þess fer að verða vart, að kaupsýslustéttin fari að leika þann leik, að heildsali, sem hafði ákveðna vöru fyrir miðjan ágúst, oti henni nú aftur til annars heildsala, sem ekki hafði hana fyrir 15. ágúst, og segi: Nú skalt þú flytja hana inn í fyrsta sinn og fá tollana lagða við, — þá verður einhver mótleikur að koma þar á móti. Ef sviksemi er í framkvæmdinni eða bellibrögðum beitt, verður það ekki aðferð til þess að fá mig til að beita fyllstu sanngirni við viðkomandi aðila. En í heild má segja það, eins og ég sagði í minni framsöguræðu: Kaupsýslustéttin hefur sem heild tekið þessari lagasetningu vel, og ég veit ekki annað en að flestir aðilar hafi orðið að þrengja eitthvað að sér og bera einhverjar byrðar í sambandi við framkvæmd laganna. Það hefur verkafólkið gert fyrst og fremst. Það verða bændur líka að gera, og það er kveinað mjög undan því núna. Það á kaupsýslustéttin líka að gera, og hún má bera talsverðar byrðar, því að það hefur réttilega verið sagt margsinnis, að kaupgjaldið sé mikill liður í verzlunarrekstri sem öðrum atvinnurekstri. Þessir aðilar hafa fengið að sleppa við nú fyrst 6 stiga kauphækkun, sem annars hefði skollið á þá 1. sept., og á móti því verða þeir að taka á sig einhverjar byrðar í þrengri verðlagningu og geta það vel. Enn fremur hefði svo á síðara hluta þessa tímabils kaupið hækkað meira, og það losna þeir líka við, því að því er haldið föstu út þessa fjóra mánuði. En mér þykir ánægjulegt að heyra það, að í gegnum ákveðnar undirtektir hv. 1. þm. Reykv., blönduð ummæli hv. 2. þm. Reykv. og svona andstöðu hv. 9. landsk., og svo koma enn niðurlagsorð hv. 1. þm. Rang., þá er niðurstaðan sú: Það, sem hér hefur verið gert, er það, sem hver einasta ríkisstj. hefði átt að gera — og lýst yfir að lokum í hverri ræðu: Sjálfstfl. er að sjálfsögðu samþykkur þessu frv. — Eina undantekningin, sem hefur verið undirstrikuð, er þessi: Vafasamast er með verðbindinguna, og það hefðu þeir nú eiginlega ekki átt að hafa með. — En þrátt fyrir það er ég ánægður í heild með undirtektirnar og líka, að þetta skyldi koma fram.