30.10.1956
Neðri deild: 8. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég ætla að gera lítils háttar grein fyrir verðlagningu landbúnaðarafurða vegna blekkinga, sem voru bornar hér fram af hv. 1. þm. Rang. En áður en ég vík að því, ætla ég að leyfa mér að fara örfáum orðum um önnur efni vegna ræðu hv. 1. þm. Reykv.

Það er sannast að segja orðið dálítið einkennilegt að eiga orðastað við menn um stjórnmál, þegar bersýnilega er ekki treyst á það fyrst og fremst, heldur það atriði algerlega látið engu skipta, hvort sagt er satt um málefni eða ekki. Það eru að vísu til ýmsar sögur um það, hvernig er hægt að endurtaka lygi þannig, að henni verði trúað, og það er til bréf í safni einu hér á landi frá stjórnmálamanni, sem var uppi stuttu eftir aldamótin og skrifaði einum af flokksbræðrum sínum og sagði, að hann yrði að læra það, að lygin væri jafnnothæf og sannleikurinn, aðeins ef hún væri nægilega oft sögð, þá tryðu menn henni eins og sannleikanum, og hún væri þess vegna jafngott vopn og sannleikurinn. Það er ómögulegt annað en að láta sér detta það í hug, að hv. 1. þm. Reykv. lifi eftir þessari reglu.

Það er búið að skrökva því í Morgunblaðinu hvað eftir annað, — og sennilega, eftir því sem hann talar nú, þessi hv. þm., þá stendur hann að þessum ósannindum, — að það hafi ekki verið samþykki verkalýðssamtakanna og bændasamtakanna fyrir þeim lögum, sem hér voru sett. Hvað eftir annað er búið að lýsa þessu yfir, og enn kemur 1. þm. Reykv. hér fram og heldur því fram, að svo sé.

Þetta er þvert ofan í allar staðreyndir og sannanir, bein ósannindi. Stjórn Alþýðusambands Íslands var spurð, stjórnir allra verkalýðsfélaganna í Reykjavík voru spurðar, og stjórnir fjórðungssambanda verkalýðssamtakanna voru spurðar. Þetta gengur svo langt, að það eru að koma samþykktir frá sumum félögum úti um land, sem betur fer, þar sem þessi ósannindi Morgunblaðsins eru blátt áfram vítt og þau ósannindi, sem voru borin fram núna hér í þingsölunum, og a. m. k. sá ég eina samþykkt núna nýlega, þar sem er sagt, að þeir víti það, að því skuli vera haldið fram, að ekki hafi verið sótt samþykki til verkalýðsfélaganna, þegar þessi löggjöf hafi verið sett, því að það hafi vissulega verið gert á allan þann hátt, sem hugsanlegt var að gera með stuttum fyrirvara, þegar sett voru brbl.

Þau eru svo furðuleg, þessi ósannindi, að á sama tíma og Morgunblaðið heldur því fram, að þessa samþykkis hafi ekki verið leitað, birtir það frétt á öðrum stað í blaðinu, þar sem skýrt er frá fundum í verkalýðsfélögum, sem hafi verið haldnir, og skýrir frá andstöðunni gegn því, að þessi lög voru sett, þ. e. andstöðu, sem Sjálfstfl. hafði skipulagt á nokkrum stöðum. M. ö. o.: Það er skýrt frá því í frétt, að fundir hafi verið haldnir til að leita samþykkis, sem á öðrum stað í blaðinu segir að alls ekki hafi verið leitað eftir. Ég beið hvorki meira né minna en hálfan annan dag, vegna þess að það þurfti að ná sambandi við framleiðsluráð landbúnaðarins, en í framleiðsluráði er stjórn stéttarsamtaka bænda. Það náðist í hvern einasta mann nema einn bónda austur á landi. Og það liggja fyrir tvær yfirlýsingar frá formanni framleiðsluráðs, opinberar, í blöðum, um, að það hafi verið leitað til framleiðsluráðs landbúnaðarins í þessu efni.

Það er þess vegna orðin nokkuð einkennileg málfærsla, þegar þarf að standa í öðru eins og þessu, en þessi málfærsla er auðsjáanlega byggð á því að endurtaka ósannindin nægilega oft.

Hér er komin fram önnur kenning, sem er jafneinkennileg. Ég skal ekki fara mörgum orðum um hana. Það er vitað mál, að okkar atvinnulíf og fjármálakerfið, eins og við oft orðum það, er vitanlega helsjúkt. Það getur enginn maður breytt þeirri staðreynd heldur. Ef ekki er gripið í taumana, þá er bersýnilegt, hvernig fer. Nú á að búa til úr þessu eina blekkinguna. Og það er þess vert að benda á það, hvernig á að búa blekkinguna til. Jú, fjármálakerfið, það orð er ákaflega skylt orðinu fjármálaráðherra. Hér á að búa til nýja blekkingu, hún er endurtekin í öllum blöðum stjórnarandstöðunnar hvað eftir annað: fjármálakerfi þjóðarinnar sé spillt, það er fjármálaráðherra að kenna.

Nú vitna ég til þess, og það hygg ég að allir þm. úr fyrrv. stj. kannist við, að það er búið að gefa hér út tvö hagfræðingaálit, eitt á seinasta ári og annað álit nokkru áður, af öðrum aðilum. Þess vegna liggur fyrir bæði frá útlendum aðilum og innlendum aðilum grg. um þetta atriði. Einasta — takið eftir því — einasta grein fjármálakerfisins íslenzka, sem er talin vera í lagi þessi ár, er meðferð ríkissjóðs, meðferð fjárlaganna og framkvæmd. En vegna þess að orðið fjármálakerfi, þ. e. a. s. atvinnulíf og það, sem þar er í kring, er skylt, þá á með endurtekningum að reyna að búa til þá villu, að það sé fjmrh., sem hafi fari þannig að ráði sínu, þó að það sé m. a. þannig, að í leyniplaggi fyrrv. forsrh. og þeirra hagfræðinga, sem hann sjálfur nefndi til, er tekið beinlínis fram, að það eina, sem ekki hafi valdið dýrtíð, eyðileggingu á fjármálakerfinu, sé það, hvernig farið hafi verið með fjárlögin. Þetta liggur fyrir. En svo kemur 1. þm. Reykv. hér, og þið heyrðuð ræðu hans. Þetta er málfærslan. Og svo er málfærslan að öðru leyti eftir þessu.

Maðurinn, sem stóð hér og sagði: Ég vona, að þær hörmungar hendi aldrei Ísland, eins og það var statt þá, að það þurfi á ölmusu að halda — kemur hér og segir við mig: Ég hef sagt, að það horfði þannig með fjármálin, að það liti út fyrir, að það væri verið að fara með allt norður og niður — eða eitthvað á þá leið. Og hvers vegna fór það ekki? Vegna þess að það var þegin ölmusa, — annars hefði það farið það, — og sú ölmusa þegin í stærri stíl en a. m. k. hann hefur dreymt um þá og nokkurn hefur dreymt um þá — og hvað eftir annað og í alls konar myndum. Það er ekki ástæða til að rekja það nánar, en það er ekki hægt að komast hjá því að minna á það, þegar svona er talað. Og hann minnist hér á Keflavíkurflugvöll. Jú, það var fækkað um 1000 á Keflavíkurflugvelli frá því, að hann stjórnaði.

Það, sem hefur farið hér með fjármálakerfið, er vitanlega, eins og hagfræðingarnir sýna fram á, ekki fjmrh. og hans stjórn á fjármálunum, heldur alveg þvert á móti fjárfesting og ýmislegt annað, þar sem ráðherrar Sjálfstfl. hafa haft yfirráð.

Ég er ekki að letja í því efni, að farið sé eins hratt og hægt er í öllum framkvæmdum. En í allri hógværð vil ég, þegar hv. 1. þm. Reykv. talar á þessa leið, bara minna á þetta: Það fyrsta, sem ég tek við, þegar ég kem að framkvæmdum í rafmagnsmálum, er það, að það vantar 18–23 milljónir til þess að framkvæma það, sem ríkisstj. er búin að lofa, og ekki einn einasti eyrir til að framkvæma það. Það er farið til bankanna, og þá er um leið svarað hv. 1. þm. Rang., sem segir, að bankarnir hafi tæmzt vegna þess, að fólkið hafi ekki tiltrú á núverandi ríkisstj., — það er farið til bankanna og kallað á þá. Sama sagan þar: allt tómt. Hægt að lýsa því hér yfir opinberlega, sem þeir sögðu á þeim fundi allir, fulltrúar frá öllum bönkunum, að það væri búið að lána óeðlilega mikið og raunar óleyfilega mikið og engir peningar til í nokkur útlán, þegar þeir voru beðnir um fjármuni til þess að standa undir rafmagnsframkvæmdunum.

Sementsverksmiðjan: Seinasti eyririnn virðist hafa verið borgaður, sem ríkisstj. hafði yfir að ráða til framkvæmda í þeim málum, dagana áður en hún fór frá völdum, því að þegar ríkisstj. tók við, heimtuðu verkamennirnir greiðslu, og þá var ekkert til þess að greiða þeim kaup, allt búið að tæma þar.

Í íbúðarhúsasjóðnum voru til lán í milli 30 og 40 íbúðir, en 1600–1700 manns biðu, þegar ríkisstj. fór frá völdum, eftir því að fá lán.

Framleiðslusjóður: Jú, hann hafði verið settur á stofn, en án þess að sjá fyrir auknum tekjum í framleiðslusjóð var norðanlandssíldinni bætt á framleiðslusjóð með hækkun á sunnanlandssíldinni, hækkun á karfa, hækkun á fiskverði til togara og fleira.

Tómur fiskveiðasjóður, tómir útlánasjóðir landbúnaðarins, án þess að séð hefði verið fyrir nokkrum einasta eyri í þá sjóði. — Gjaldeyrislaust og síversnandi horfur í framleiðslunni, eins og sést á því, að framleiðslusjóður þarf raunverulega að afla tekna, svo að skiptir tugum milljóna, ef ekki eitthvað á annað hundrað milljóna, sem ég þori ekki að segja um á þessu stigi.

Þetta er nú að skilja þannig við, að það er ekki furða, þó að hv. 1. þm. Reykv. komi hér upp og belgi sig. Þetta er viðskilnaður til þess að belgja sig út af. Hann var að tala um, að það hefði einhver maður þagað í 25 ár og það hefði verið vel gert. Ég held nú satt að segja, að þeim ráðherrum, sem hafi staðið að þessu, sæmdi bezt að fara eftir þeirri reglu, og sannast að segja hélt ég, að hann ætlaði að fara niður úr ræðustólnum og fara eftir reglunni.

En það, sem ég ætlaði að minnast á, — og hefði ekki minnzt ú þetta atriði, nema ég sat hér undir þessum lestri og taldi rétt þess vegna að minna á það, — voru orð hv. 1. þm. Rang. um landbúnaðinn.

Það er allt á sömu bókina lært. Hann segir, að það eigi nú að fara að svíkjast að bændum og þeir eigi engan málsvara í ríkisstj., nú eigi að fara að svíkjast að þeim, og nefnir dæmi þess, hvernig að þeim hafi verið svikizt, — allt, eftir því sem nákvæmar upplýsingar liggja fyrir um, allt, eins og ég skal sýna fram á, tómar falsanir.

Það er alveg furðulegt, að hv. þm. frá Sjálfstfl. skuli koma hér fram og minna á það, sem gerzt hefur í þessum málum áður. Sannleikurinn er sá, að það, sem hefur kannske staðið í vegi fyrir því meira en nokkuð annað, að hægt hafi verið að koma á stöðvun, er, að það var samið af Framsfl. og Sjálfstfl. um afslátt til þess að stöðva dýrtíðina 1944 um 9.4%, og síðan tók Sjálfstfl. við framkvæmd þeirra mála og lofaði bændum því, lofaði búnaðarþingi því, að kaup skyldi ekki heldur hækka, ef bændurnir fengjust til að samþykkja að gefa eftir 9.4% af þeirri hækkun, sem þeir áttu að fá þá um haustið. Muna hv. þm., hvernig var farið með þetta mál? Það var svikið. Loforðið var svikið. Það er það eina orð, sem því hæfir, og ekkert annað orð. Síðan var haldið áfram með framkomu við bændur í þessum stíl. Félagssamtök þeirra voru heft í fjötra, þeim skipuð stéttarsamtök, sem er einsdæmi í sögu íslenzku bændastéttarinnar fram til þessa og verður vonandi einnig framvegis. Það gleymdist allt í nýsköpunarstjórninni, sem snerti bændur. Það gleymdist að útvega þeim fé til framkvæmda, og sjóðirnir í Búnaðarbankanum voru tómir. Það voru lánaðar svo litlar fjárhæðir þar út, að ef þær eru nefndar, þá trúir því enginn, að slíkt skyldi geta átt sér stað.

Ég held satt að segja, að hv. þm. hefði ekki átt að minna á þetta, því að það liggur alveg ljóst fyrir, að eftir að Framsfl. kom í ríkisstj. 1947, voru þvingaðar fram þær framkvæmdir fyrir landbúnaðinn, sem hafa orðið síðan, og hattar alveg greinilega fyrir frá því, sem var, meðan Sjálfstfl. fór með völd án þátttöku Framsfl.

En svo kem ég að því atriði, sem ég ætla að leiðrétta. Það er þá fyrst, að hv. þm. tekur hér í ræðu sinni sem gefið mál, — og verð ég að biðja þm. afsökunar á því, að þetta er leiðindastagl, en ég verð að fara í gegnum það, vegna þess að hér eru bornar fram blekkingar, sem er ekki rétt að ganga fram hjá, — hann tekur þá fyrst sem gefið, að 13 kg dilkur, segir hann, með leyfi hæstv, forseta, „hann er greiddur núna nákvæmlega 289.85 kr., en ætti að vera með 8.2% hækkun frá því í fyrra kr. 298.40. Hér vantar 3.3%, til þess að bændur fái þessa 8.2% hækkun:

Fyrst verður að minnast á það, sem að vísu er þó víst flestum þm. ljóst, að bændur áttu í haust inni hækkun, sem nam 8.2%. Þeir áttu að fá hækkun á landbúnaðarvörur 8.2% samkv. vísitölu 178. Verkamennirnir féllu frá 6 stigum. Vísitalan var komin upp í 184, og eftir að þeir féllu frá kauphækkun samkv. þessum stigum, ættu bændur raunverulega ekki rétt á hækkun á landbúnaðarvörum fyrir kauphækkun, sem ekki hafði átt sér stað, vegna þess að landbúnaðarverðið á að hækka á eftir. En til þess að vera viss um, að þessi lögskýring væri eðlileg og réttmæt, var leitað þeirra samþykkis fyrir því, og þeir töldu það vitanlega í alla staði eðlilegt, eins og hefur komið áður fram. (Gripið fram í.) Þeir töldu sig ekki geta gert kröfur til þess. (Gripið fram í.) Það er bezt fyrir hv. þm. að bera sig ekki allt of mannalega. Nú veit hann, að ég ætla að fara að reka ofan í hann, og þá byrjar hann á því að reyna að bera sig svolítið mannalega áður. Maður skilur nú orðið aðferð þessa hv. þm. og þekkir hann dálítið persónulega.

Í fyrsta lagi er þá það, að hann veit ekkert um þetta verð. Það veit enginn núna um það á Íslandi, hvað verður verð á dilk með 13 kg kroppþunga. Þar eru fjöldamargir liðir enn þá óreiknaðir, þannig að hann getur undir engum kringumstæðum gefið sér þessa tölu. Þetta er alveg tvímælalaust samkv. upplýsingum frá þeim aðilum, sem bezt vita. Tala þessi er þess vegna tilbúningur. En síðan heldur hann áfram. „Ég ætla að taka,“ segir hann, „ýmislegar kjöttegundir“ — og tekur alikálfakjöt, svo tekur hann aðra tegund af nautakjöti, svo tekur hann í þriðja lagi enn eina tegund af nautgripakjöti. Síðan tekur hann kýrkjöt, alikálfakjöt af ungkálfum og folaldakjöt, tekur þetta og reiknar hvert dæmi fyrir sig og telur sig sýna fram á, að með verðlagningu á þessum vörum sé ekki náð verðhækkuninni 8.4%. En hann skýrir ekki frá annarri staðreynd, sem hann hlýtur þó að vita um, og þessi staðreynd er sú, að við verðlagninguna miðar framleiðsluráð við það að geta náð sem beztum árangri fyrir bændur, beztu verðlagi fyrir afurðir þeirra í heild, og við verðlagninguna 1955 er gert ráð fyrir því, að bændur fái kr. 17.25 fyrir kg af dilkakjöti, en við verðlagninguna í haust er gert ráð fyrir því, að bændur geti fengið kr. 19.05 fyrir kg af dilkakjöti, og þetta er 10.45% hækkun, ekki 8.2%, ég á eftir að koma að, af hvaða ástæðum það er. Ef gert er ráð fyrir 13 kg kroppþunga og farið er eftir verðlagningu grundvallarins, þá hefðu bændur átt að fá 285 kr. fyrir dilkinn í fyrra, en ættu að geta fengið núna 312 kr. Þetta er 9.4% hækkun. Sá liður grundvallarins, sem er afurðir af nautgripum, afurðirnar teknar í heild, var í fyrra 53975 kr., en er nú, eftir að verðlagningu lauk s. 1. haust, 58421 kr. Þessi hækkun er 4446 kr., eða 8.2%.

Þetta er heildarhækkunin á afurðum af nautgripum. En vegna þess að sumar nautgripaafurðirnar hafa selzt illa, einmitt þær, sem hv. 1. þm. Rang. taldi upp, eru þær hækkaðar minna en 8.2%, en þær vörur, sem betur seljast, eru hækkaðar meira og þannig næst jöfnuður, vitanlega algerlega án nokkurra afskipta frá landbrn., því að sjálfsögðu telja bændur sér það hagkvæmt að láta ekki hækkunina koma fram á þeim afurðum, sem hv. 1. þm. Rang. taldi hér upp og þeir eiga talsvert mikið óselt af, en láta hækkunina frekar koma fram meiri á mjólk og dilkakjöti, sem er seljanlegri vara, og jafna þannig metin. Af þessu getið þið séð, að annaðhvort er hér um þá stórkostlegustu vanþekkingu að ræða hjá manni, sem fæst við verzlun á landbúnaðarafurðum, eða um beinar falsanir. Hann hlýtur að gera sér það ljóst, að þessar vörur, sem hann telur upp, eru verðlagðar lægra og það með ráði framleiðsluráðsins eins að sjálfsögðu, vegna þess að af þeim liggur talsvert fyrir og þær eru minna seljanlegar, en verðhækkuninni hins vegar náð nokkru meiri til jöfnunar á þeim vörum, sem eru betur seljanlegar.

Það er nú eiginlega auðsætt, að hv. þm. gerir sér ljóst, að hann fer hér með blekkingar, kemur fram í ræðu hans, að það er næstum því, að liggi fyrir sannanir, með leyfi hæstv. forseta:

Mér kæmi það ekkert á óvart, segir þm., þó að þeir ætli að reyna að klína því, þ. e. framsóknarmennirnir, á framleiðsluráð, að ekki hefur verið betur gert en nú, eftir að hafa þó sett lög, sem hér er verið að ræða, um að taka réttinn af framleiðsluráðinu.

Hér gerir þm. auðsjáanlega ráð fyrir því, að það verði sagt, sem hver einasta ríkisstj. hlýtur að segja og getur ekkert annað sagt: Framleiðsluráðið ræður þessum málum, án þess að landbúnaðarráðherra geti gripið fram fyrir hendurnar á ráðinu á nokkurn hátt. Það hefur ráðin sjálft að landslögum eftir ákveðnum reglum, og það verður ekki gripið fram fyrir hendurnar á því, enda hefur það ekki verið reynt. Hvers vegna slær hv. þm. þennan varnagla? Hann slær hann vegna þess, að hann veit, að það hlýtur hver einasta stjórn að segja þetta, vegna þess að þetta er staðreyndin. En svo þykir honum þetta ekki nægilegt, því að hann segir: Ég er alveg sannfærður um það, og ég þekki marga menn í framleiðsluráði, að þeir eru ekki ánægðir með þessar framkvæmdir, og þetta getur ekki verið framkvæmt svona nema vegna þvingunar frá hæstv. ríkisstj. — Hitt dugir ekki, því að hann veit, að það er auðvelt að svara því, eins og ég hef gert. Það er framleiðsluráðið, sem ræður. En þá ætlar hann að halda því fram, að það hafi komið einhver þvingun — og hvaðan hefur hún komið? Hún hefur komið frá ríkisstj. Vill ekki hv. þm., næst þegar hann talar, gera svo vel að koma fram með sannanir um þessar glósur? Vill hann ekki gera það — ellegar heita minni maður fyrir allt saman? Það er bersýnilegt, að hann kemur fram hér, tekur hér vörur, sem framleiðsluráðið telur sér ekki rétt og ekki fært vegna hagsmuna bænda að hækka, minnist síðan ekki á vörurnar mjólk og kjöt, sem hækka meira til þess að jafna metin, og ætlar svo að reyna að koma því á landbrh., að hann hafi beitt framleiðsluráðið þvingun.

Fyrst er sjálft efni málsins falsað, því að það eru vitanlega hreinar blekkingar að taka sumar af vörunum, en minnast ekki á aðrar, — og síðan reynt að koma því þannig fyrir, eins og ég hef hér lesið. Nú skora ég á hann að koma fram með sannanir fyrir sínum glósum. (IngJ: Já, já.) Það er gott, það kemur sennilega næst, og þá skulum við talast betur við.