17.12.1956
Neðri deild: 33. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

4. mál, bifreiðaskattur o. fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um bráðabirgðabreyting á lögum nr. 68 frá 1949, um bifreiðaskatt o. fl.

Samkv. 1. gr. frv. er til þess ætlazt, að á árinu 1957 verði innheimt viðbótarinnflutningsgjald af benzíni, er nemi 20 aurum af hverjum lítra, þar af skuli 5 aurar renna í brúasjóð og 5 aurar í sérstakan sjóð, sem varið verði til að gera akfæra þjóðvegi milli byggðarlaga. Enn fremur er ákvæði um það, að bifreiðaskattur fyrir árið 1956, er fellur í gjalddaga 1. jan. 1957, skuli innheimtur með álagi og einnig skuli innheimta innflutningsgjald af hjólbörðum og gúmmíslöngum á bifreiðar hærra en gilti í lögunum frá 1949.

Með lögum frá 29. jan. 1956 — þau eru nr. 3 — var ákveðin slík hækkun á þessum gjöldum fyrir árið 1956 og hefur því verið innheimt síðan þau lög tóku gildi. Er hér lagt til, að gjöldin verði jafnhá á næsta ári og þau hafa verið nú á þessu ári, síðan lögin nr. 3 1956 gengu í gildi.

Þá er ákveðið í 2. tölulið 1. gr. frv., að bifreiðaskattur fyrir árið 1957, sem kann að verða innheimtur á því ári vegna eigendaskipta á viðkomandi bifreiðum eða af öðrum ástæðum, skuli innheimtur með sama álagi.

Frv. þetta var lagt fram í hv. Ed. og er komið hingað þaðan. Það hefur verið til athugunar hjá fjhn., og hún mælir einróma með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.