19.12.1956
Neðri deild: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

7. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. það frv., sem hér liggur fyrir, er um framlengingu á söluskattinum, sem hefur verið álagður og innheimtur nokkur undanfarandi ár. En nú nýlega barst fjhn., sem hafði frv. til athugunar, brtt. frá hæstv. ríkisstj., þar sem hún leggur til, að niður verði felld úr frv. ákvæðin um 2% söluskatt af sölu vara í smásölu, og voru það tilmæli til n. frá hæstv. stjórn, að n. bæri fram brtt, um þetta atriði. N. hefur orðið við þeim tilmælum og flytur því á þskj. 157 brtt. við 2. og 3. gr. frv. Eru þær eingöngu um þetta atriði að fella niður 2% smásöluskattinn, og leggur n. til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum. Ég skal að vísu geta þess, að einn hv. nm. var ekki á fundi, þegar málið var afgr., eins og fram er tekið í nefndarálitinu.