18.12.1956
Efri deild: 33. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

90. mál, skemmtanaskattsviðauki

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. N-Ísf. (SB) varðandi endurskoðun gildandi laga um skemmtanaskatt er mjög eðlileg. Í því sambandi vildi ég skýra frá því, að fyrir tveimur til þremur mánuðum fól ég þremur embættismönnum að endurskoða gildandi lög um skemmtanaskatt, með sérstöku tilliti til þeirra undanþáguákvæða, sem í l. eru varðandi gjaldskyldu og þá framkvæmd, sem verið hefur á l. að því er þetta snertir. En það er rétt hjá hv. þm., að nokkurt handahóf hefur ríkt að því er snertir veittar undanþágur undan greiðslu skemmtanaskatts. Ég hef ekki enn fengið tillögur þeirra þremenninga, en einmitt fyrir rúmum tveimur vikum óskaði ég eftir því, að þeir hröðuðu störfum sínum. Ég fékk þá það svar, að mál þetta væri mjög viðamikið og mjög flókið og væri það ástæðan til þess, að þeim þremenningunum hefði ekki tekizt að ljúka störfum sínum.

Varðandi fsp. hv. þm, V-Sk. (JK) um afdrif frv. hans um aukna hlutdeild félagsheimilasjóðs í tekjum skemmtanaskatts vil ég segja þetta: Mér hefur alla tíð verið mjög ljós þörf félagsheimilasjóðs fyrir sem mestar tekjur. Og því vildi ég við bæta, að mér hefur orðið þörf félagsheimilasjóðsins enn ljósari, eftir að ég tók við síörfum í menntmrn. og kynntist af eigin raun þeirri miklu fjárþörf, sem þar er að mæta. Hins vegar er málið ekki einfalt viðureignar, eins og gildandi lög um skemmtanaskatt eru, því að hinn aðalaðilinn, sem skemmtanaskattsins nýtur, þ. e. rekstrarsjóður þjóðleikhússins, hefur einnig mjög brýna fjárþörf, svo mikla, að hluti þess af skemmtanaskattinum nægir ekki til þess að greiða þann halla, sem verið hefur á þjóðleikhúsinu undanfarin ár, og kannast sérstaklega þeir, sem í fjvn. eru, við það, að þurft hefur að bæta hér við um 400 þús. kr.

Flokksmenn hv. þm. V-Sk. allmargir hafa og flutt í Sþ. tillögu um það að ráða 5–10 nýja starfsmenn við þjóðleikhúsið, þ. e. söngvara. Það er mál, sem hefur verið í athugun í þjóðleikhúsráði og menntmrn. og ég er persónulega mjög hlynntur. En til þess að geta látið verða af því, er auðvitað um gjöld að ræða, sem núgildandi tekjur hrökkva ekki fyrir. Og það er auðvitað alveg augljóst mál, að meðan skattstofninn sjálfur er óbreyttur, þ. e. a. s., meðan skemmtanaskatturinn er ekki beinlínis hækkaður, er ógerningur að gera hvort tveggja, auka fjárveitingar af skemmtanaskatti til félagsheimilasjóðs og auka fjárveitingar af skemmtanaskatti til þjóðleikhússins, þó að hvort tveggja sé nauðsynlegt. Þess vegna er það, að ég mun taka það til athugunar sérstaklega, þegar þessi þriggja manna embættismannanefnd hefur skilað störfum, hvort endurskoðun þeirra á undanþáguákvæðunum mundi geta leitt til aukinna tekna af skemmtanaskattinum, og ef mér þykir hún ekki duga til til þess að mæta fjárþörf félagsheimilasjóðs og þjóðleikhússins, mun sjálfur grundvöllur skemmtanaskattslöggjafarinnar verða tekinn til endurskoðunar.