18.12.1956
Efri deild: 33. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

90. mál, skemmtanaskattsviðauki

Sigurður Bjarnason:

Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans glöggu upplýsingar í sambandi við fsp, mína. Hann hefur upplýst, að fyrir skömmu hafi hann skipað nefnd til þess að endurskoða gildandi löggjöf um skemmtanaskatt, eins og rætt hefur verið um, að gert skyldi á undanförnum árum. Ég tel það mjög vel farið, að úr þessu hefur orðið, og vil nú einungis skora á hæstv. ráðh. að sjá um það, að þessi ágæta n. láti nú ekki Alþ. og þá, sem áhuga hafa fyrir þessu máli, bíða eftir því mörg ár enn,

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að ég flutti fyrir nokkrum árum hér á Alþ. frv. um það að breyta nokkuð innheimtuaðferð skemmtanaskatts og auka þar með tekjur af þessum tekjustofni mjög verulega, þannig að unnt væri að styrkja bæði leikstarfsemi og byggingu félagsheimila í miklu ríflegra mæli en unnt hefur verið, Ég er þess alveg fullviss, að ef þessi löggjöf verður endurskoðuð og henni breytt í samræmi við gerbreytta aðstöðu í íslenzku þjóðlífi, er hægt að fá stórauknar tekjur af skemmtanaskatti, tekjur, sem hægt er að nota til þess að standa undir margvíslegri menningarstarfsemi. Það er mjög ánægjulegt, að einmitt með innheimtu skemmtanaskattsins, sem þó hefur fyrst og fremst verið greiddur í stærstu kaupstöðum landsins, hefur verið unnt að styðja merkilega menningarstarfsemi, koma upp þjóðleikhúsi og síðar að stuðla að stórbættri aðstöðu til iðkunar félagslífs um land allt. Hér í Reykjavík er vel á veg komið í þessum efnum. En úti um land brestur mjög á það, að fólk hafi sæmilega aðstöðu til þess að njóta fjölbreytts félagslífs og skemmtanalífs, sem við þó vitum að er víða frumskilyrði fyrir því, næst því, að fólkið hafi góð afkomuskilyrði, að fólkið fáist til að una úti í byggðunum til sjávar og sveita.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en ég vænti, að eftir að skemmtanaskattslögin hafa verið endurskoðuð, verði ekki einungis hægt að styðja strjálbýlið í mjög vaxandi mæli til byggingar félagsheimila, heldur og að færa út starfsemi þjóðleikhússins á svipaðan hátt og hæstv. ráðh. minntist á, að nokkrir hv. flokksmenn mínir í Nd. leggja til, nefnilega að stofnað verði til fastrar óperu við þjóðleikhúsið, en það er skoðun flestra, að að því væri hinn mesti menningarauki og ekki einungis menningarauki, heldur sköpuðust einnig með því auknar líkur fyrir því, að þjóðleikhúsið yrði rekið á fjárhagslega sæmilegum grundvelli. Reynslan hefur sýnt það, að af söngleikunum hefur þjóðleikhúsið haft góðar tekjur. Sú listgrein er svo ný hér á landi og svo vinsæl, að að söngleikum er tryggð meiri aðsókn en yfirleitt er hægt að gera ráð fyrir að leikritum.

Ég vænti þess vegna, að árangurinn af þessari endurskoðun, sem við höfum knúið á um ár eftir ár og hæstv. núv. menntmrh. hefur talið skynsamlega og sjálfsagða með því að skipa þessa nefnd, verði sá, að stórauknar tekjur fáist til þess að standa undir þeirri menningarstarfsemi, sem hér er um að ræða.

Ég hef ekki viljað blanda þessu beint inn í þetta frv., sem hér liggur fyrir, þ. e. a. s. inn í afgreiðslu þess, en mér fannst það liggja beint víð, að þessi fsp. kæmi fram í sambandi við þetta mál. Ég er ekki að mæla gegn því, að hæstv. ríkisstj. fái þá heimild, sem í frv. er og allar undanfarandi ríkisstj. hafa aflað sér á hverju ári. En ég taldi sjálfsagt og eðlilegt að hreyfa þessu máli í heild í sambandi við meðferð þessa frv.