10.12.1956
Efri deild: 26. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

6. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er að meginefni um að framlengja þau ákvæði, sem undanfarin ár hafa gilt um álagningu á vissa tolla, sem ákveðnir eru í tollskrá. Sé ég ekki, að þurfi að skýra það nánar. Þetta er að því leyti gamall kunningi hér, bæði í hv. d. og þinginu í heild sinni. Og eins og nál. fjhn. á þskj. 120 ber með sér, er öll fjhn. sammála um að mæla með, að frv. verði samþ. að þessu leyti. Einn af nm., hv. 4. þm. Reykv., var að vísu fjarstaddur, þegar n. afgreiddi málið.

Aftur á móti er aðeins eitt nýmæli í þessu frv., og er þó ekki að öllu leyti nýmæli, því að það hefur verið flutt áður — á þinginu í fyrra. Nýmælið er um það að fresta framkvæmd 5. gr. laga nr. 68 1956, um tollheimtu og tolleftirlit, til ársloka næsta árs, en þessi 5. gr. nefndra laga fjallar um það, að 1% af vörumagnstolli og verðtolli samkv. tollskránni og hækkunum, sem samþykktar eru á þeim tollum og af öðrum aðflutningsgjöldum, skuli lagt í sérstakan sjóð, sem síðan á að verja til þess að byggja tollstöðvar. Tollgæzlan telur hina mestu nauðsyn á því, að byggð séu hús eða keypt hús fyrir tollgæzluna, og eftir þeim lýsingum, sem fjhn. hefur fengið af því, sérstaklega í fyrra, við hvaða vinnuskilyrði tollgæzlan vinnur, er alveg vafalaust, að það er hin mesta nauðsyn á því, að slíkar stöðvar séu byggðar eða keyptar, m. ö. o., að tollgæzlan fái betri aðstöðu hvað húsnæði snertir og það miklu betri en hún hefur nú. Á hinn bóginn mun hv. þm. kunnugt um það, að engar líkur eru til þess, að ríkissjóður þurfi ekki á öllum þeim tekjum að halda, sem hann hefur haft. En ef þessi 5. gr. þeirra laga, sem ég nefndi áðan, helzt óbreytt, er tekið af tolltekjunum 1%, sem mun nema eitthvað dálítið á þriðju milljón króna.

Nýmælið í þessu frv. er ekki einasta um það að fresta framkvæmd þessa ákvæðis um að taka 1% af tolltekjunum og leggja í sérstakan sjóð, heldur um það að innheimta sérstaklega á næsta ári þetta eina prósent og leggja það í sérstakan sjóð. Um þetta hefur orðið ágreiningur í fjhn. Tveir hv. nm. vilja fella niður síðari mgr. 1. gr., sem er um þetta ákvæði, en við hinir tveir nm., sem vorum á fundi og afgreiddum málið, viljum ekki, að þetta sé fellt niður, af þeirri ástæðu, sem ég hef þegar tekið fram, að við teljum ekki, að ríkissjóður megi missa þessar tekjur, þó að þær séu ekki stórvægilegar, en viðurkennum hins vegar nauðsynina á því, að tollstöðvar séu byggðar, og viljum því samþykkja ákvæði frv. um það, að þetta gjald sé innheimt sérstaklega.

Um þetta þýðir ekki að hafa mörg orð. Það er auðvitað alltaf æskilegt, frá sérstöku sjónarmiði séð, að spyrna á móti því, að gjöld, þótt í litlu sé, séu hækkuð. En á hinn bóginn eru sífelldar kröfur um meiri framkvæmdir, og því miður geta ekki framkvæmdirnar komið á annan hátt en þann að leggja á gjöld til þess. Þess vegna er ekki hægt að samrýma það tvennt að lækka gjöld til ríkissjóðs og auka framkvæmdir, því miður.

Því var hreyft í n., að það væri yfirleitt óviðkunnanlegt svona almennt séð að vera að leggja í sérstaka sjóði, sem inntu af höndum verk, sem ríkið ætti í raun og veru að gera, heldur væri eðlilegra, að á hverjum tíma væri veitt í fjárl. til þessara framkvæmda eins og annarra. Og ég veit, að þessu hefur oft verið haldið fram. En það er áreiðanlegt, að einmitt með þessu móti er stundum framkvæmt það, sem annars mundi ekki verða framkvæmt. Hverjum dettur það t. d. í hug, að háskólinn með öllum sínum glæsilegu byggingum væri kominn upp, ef honum hefðu ekki verið útvegaðar alveg sérstakar tekjur og það háar tekjur til sinna framkvæmda? Ég er alveg sannfærður um það, að það hefði ekki verið búið að veita slíkt fé úr ríkissjóði, sem allar byggingar háskólans hafa kostað. Það eru að vísu engin sérstök ríkisgjöld, sem lögð hafa verið til háskólans, og ekki neinir skattar, heldur happdrætti, eins og allir vita. En þetta er nú nokkuð það sama, því að auðvitað hefði verið hægt að stofna ríkishappdrætti í staðinn fyrir að leyfa háskólanum að reka það, láta ágóðann af því ríkishappdrætti renna í ríkissjóð og veita svo til háskólabygginga. En ég er bara sannfærður um, að þó að þessi leið hefði verið farin, hefðu ekki allar þær byggingar háskólans verið komnar, sem komnar eru, vegna þess að fjárkröfurnar á hendur ríkissjóði, t. d. frá þingmönnum einstakra kjördæma, eru alltaf svo miklar, að það, sem þarf að gera til almennra þjóðþrifa, situr jafnvel frekar á hakanum fyrir einstökum fjárveitingum í kjördæmum. Eða Reykjalundur. Ætli þær byggingar, sem eru á Reykjalundi, hefðu verið komnar, ef það félag, sem að þeim stendur, hefði ekki fengið rétt til að reka happdrætti og menn hefðu í því efni varpað allri sinni áhyggju upp á ríkissjóð? Þess vegna er það, að þó að það sé að vísu leiðinlegt að leggja til, að tollar hækki, þó að um lítilfjörlega hækkun sé að ræða, aðeins 1% af tollunum, þá held ég, að þetta sé eina ráðið til þess, að þessar tollstöðvar verði byggðar eða keyptar eða yfirleitt, að þær komist upp. Þess vegna er það, að annar hluti n., við tveir nm., leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt einnig að þessu leyti.

Ég hef nú óbeinlínis lýst með þessu, sem ég hef sagt, afstöðu minni og okkar tveggja nm. til þeirrar brtt., sem fyrir liggur á þskj. 125 frá tveimur hv. nm. í fjhn., og geri því ráð fyrir, að ég þurfi ekki að ræða hana frekar eða svara, þó að mælt sé fyrir henni, því að í svona málum er enginn ákveðinn sannleikur til. Það verður að fara eftir mati manna, hvernig þeir greiða atkv. í málum sem þessu.