19.12.1956
Neðri deild: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er eingöngu um þingsköp. Áður en greidd verða atkv. um afbrigðin, vil ég láta þess getið, að þetta frv., sem er í 40 greinum og með tilvísun í fjölda lagaboða, sem mjög mikið verk er að kynna sér, hefur fyrst borizt Sjálfstfl. í hendur rétt fyrir kl. 5 í gær og grg. þó ekki fyrr en rétt fyrir kl. 11 í gærkvöld. Það er því með öllu ómögulegt fyrir Sjálfstfl. á þessu stigi málsins að taka afstöðu til þess, hvort hann getur veitt atbeina til þess, að málið verði afgreitt með afbrigðum í Alþingi. Ég hafði skilið það svo, að það væri samkomulag um það, að málinu yrði einungis útbýtt á þessum fundi og afstaða tekin til þess síðar í dag, hvort Sjálfstfl. féllist á afbrigði, og vil láta þann skilning koma hér fram. Mér er það ljóst, að stjórnarflokkarnir hafa það í hendi sér að knýja málið áleiðis, en ég hefði talið, að það væri ekki óeðlilegt, að stærsti flokkur þjóðarinnar ætti þess a. m. k. kost að skoða þetta mál nokkrar klst., áður en afstaða yrði tekin til þinglegrar meðferðar. Við höfum því farið þess á leit, að okkur gæfist tóm til þess í dag að kynna okkur efni frv., og að þeirri athugun lokinni mundum við taka afstöðu til þess, auðvitað efnis frv., en einnig þess, hvort við vildum veita atbeina að því, að málið væri afgreitt með afbrigðum í gegnum þingið. Eins og stendur nú, tel ég ekki fært að greiða atkv. með afbrigðum. Það er þá á ábyrgð stjórnarflokkanna, ef þeir vilja knýja það í gegn.