19.12.1956
Neðri deild: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég læt í ljós nokkur vonbrigði yfir því, að ræður hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, hafa í rauninni ekki verið neitt annað en endurtekning þeirra fátæklegu upplýsinga, sem eru í grg. þessa frv., að öðru leyti en því, sem hæstv. síðasti ræðumaður, hæstv. menntmrh., flutti hér dálítinn kafla um hagfræði. En við, sem höfum verið í stjórn undanfarin ár, erum nú orðnir svo vanir hagfræðinni, að okkur þykir ekki nýnæmi, þó að við heyrum einn slíkan kafla.

Áður en ég ræði þetta mál almennt, þykir mér rétt, einnig vegna þess, hversu fátæklegar þessar upplýsingar eru allar, að bera fram örfáar fsp., og ég vænti, að engan undri það. Ég er ekki einn um það að telja þetta frv. torf, og mér er sannast sagna nær að halda, að það hafi verið lögð sérstök áherzla á að klæða frv. þeim búningi, að almenningur ætti örðugra með að átta sig á því.

Mig langar að spyrja í fyrsta lagi um það, hvort þeir sérfræðingar, sem stjórnin hafði til þess að rannsaka þetta mál fyrir sig, — og þeir munu hafa starfað í nokkra mánuði, — hvort þeir töldu, að landbúnaðurinn þyrfti meiri eða minni stuðning en þann, sem fyrirmæli þessa frv. ákveða honum til handa.

Mig langar í öðru lagi að spyrja, hvort þessir sömu sérfræðingar eða þeir aðrir, sem unnið hafa fyrir stjórnina, telja, að sjávarútvegurinn hafi þurft meiri eða minni stuðning en frv. gerir ráð fyrir þeim til handa.

Mig langar í þriðja lagi að spyrja: Hver er breytingin á þeim stuðningi við sjávarútveginn, sem frv. gerir ráð fyrir, frá því, sem gildir árið 1956, hver er breytingin varðandi bátana, hver er hún varðandi togarana, frystihúsin, reiknað í aurum á kg?

Einnig langar mig að spyrja um í fjórða lagi: Hver er kostnaðarauki þessara aðila, miðað við aura á kg?

Ég spyr í fimmta lagi um það, hvers vegna allir útreikningar nú um uppbætur séu í prósentum, en ekki eins og áður hefur verið í aurum á kg.

Ég spyr í sjötta lagi um það, hvort rétt sé, að daginn áður en stjórnin leggur þetta frv. fram, en frv. er lagt fram í dag, hafi hæstv. atvmrh., Lúðvík Jósefsson, skriflega tilkynnt Landssambandi ísl. útvegsmanna, að uppbætur á hrogn samkv. 7. gr. ættu ekki að vera 14.18% af fob.-verði útfluttra hrogna, heldur 24.45. Er hér um misprentun að ræða, eða er hér um misskilning að ræða? Mér er sagt, að þessi mismunur muni nema um 1½ millj. kr., sem útveginum sé minna ætlað á þessum eina lið samkv. frv. en samkv. bréfi atvmrh. Ég spyr einnig um það, og ég vil sérstaklega leggja áherzlu á að fá rétt svar við því: Er það staðreynd, og á hverju er hún byggð, að bátaútvegsmönnum eigi að greiða úr útflutningssjóði útflutningsuppbætur samkv. þessari sömu grein, sem nema 24.45% af fob.-verði freðfisks, saltfisks og skreiðar, sem framleidd er eftir 1. jan. 1957? Og ég spyr: Á hverju er þessi tala byggð? Ég spyr alveg sérstaklega um: Á hverju er þessi tala byggð? Ég veit, að útvegsmenn reikna með, að þetta ákvæði, eins og þeim er sagt að eigi að framkvæma það, muni færa þeim miklu meiri bætur en þarna komi fram, svo að mörgum prósentum nemur. Ég spyr: Hvernig stendur á þessu, og liggja nokkrar sérstakar ástæður fyrir því, að þessi misskilningur eða misgáningur eða hvað menn nú vilja kalla það kemur þarna fram?

Ég leyfi mér enn fremur í sjöunda lagi að spyrja um, hvaða áhrif nýju skattarnir muni hafa á vísitöluna.

Í áttunda lagi spyr ég: Hefur væntanleg vöruverðs- og þar með vísitöluhækkun verið tekin til greina í ákvörðunum um stuðning við framleiðendurna, því að það liggur fyrir, skilst mér, að það eigi ekki að binda vísitöluna, og þá liggur nærri að spyrja einmitt um þessa spurningu, því að auðvitað veltur afkoma útvegsins, sem hæstv. atvmrh. leit mjög björtum augum, á því, hvort í vændum kynni að vera og þá ekki sízt vegna þessara ráðstafana, sem hér eru gerðar, hækkun á framleiðslukostnaðinum vegna hækkandi vöruverðs og þar af leiðandi einnig hækkandi vísitölu.

Ég leyfi mér enn fremur að spyrja um í níunda lagi: Hefur verið rannsakað, hvort aðrar leiðir mundu hafa snert betur hagsmuni almennings en sú, sem hér er farin?

Ég spyr um þetta í tíunda lagi alveg sérstaklega vegna þess, að blað stærsta stjórnarflokksins, Alþýðubandalagsins, Þjóðviljinn, hefur margskýrt frá því, að Framsfl. og Alþfl. hafi óskað eftir gengislækkun, en að það hafi verið Alþýðubandalagsmenn, sem hafi knúið þá frá því.

Ég spyr í ellefta lagi: Er það rétt, að þessir tveir stjórnarflokkar, Framsfl. og Alþfl., hafi heldur kosið eða talið ráðlegra og þjóðarhagsmunum heppilegra að fara gengislækkunarleiðina? Sé svo, spyr ég þá, með hvaða rökum þeir hafi stutt þá skoðun sína. Og ég spyr enn fremur, ef þetta er rétt, hvers vegna hafi þá verið fallið frá þeim óskum af hendi Alþfl. og Framsfl. Ég spyr enn fremur: Er það rétt, að hæstv. atvmrh. hafi tilkynnt Landssambandi ísl. útvegsmanna, að fyrirkomulag afurðasölunnar yrði óbreytt? En sé það rétt, þá spyr ég, hvernig standi á því, að í greinargerð frv. stendur, að það eigi að endurskipuleggja fisksöluna til útlanda. Í blaði þessa hæstv. ráðh. stóð alveg nýlega, og ég hef gaman af að minna hann á það og vita, hvort hann vill standa við það, þetta: Afurðasalan hefur verið í höndum einokunarhringa, eins og Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, og að sjálfsögðu ber vinstri stjórn þegar að afnema það kerfi og koma á réttlátu fyrirkomulagi. Ég endurtek: Hvernig ber að skilja þetta? Er það rétt, sem útvegsmenn hver á fætur öðrum herma eftir hæstv. atvmrh., að hann ætli sér engar breytingar, það eigi að koma einhver nefnd, en þessi nefnd eigi engu að breyta? Eða er það rétt, sem stendur í greinargerðinni, að það eigi að breyta sjálfri yfirstjórninni og sjálfu skipulaginu, svo sem áréttað er nú alveg nýverið í blaði hæstv. ráðh., að „afurðasalan hafi verið í höndum einokunarhringa eins og S.Í.F. og að sjálfsögðu beri vinstri stjórn að afnema það kerfi og koma á réttlátu fyrirkomulagi“? Og ef ég mætti aðeins til þess að skemmta hæstv. ráðh. og kannske fleirum halda áfram að lesa í beinu áframhaldi: „allir vita, hvernig olíufélögin hafa haft af þjóðinni og ekki sízt útgerðinni fjölmarga milljónatugi á ári, og verður nú þegar í stað að afnema það fyrirkomulag, að ríkið annist öll olíukaup og afhendi þau síðan olíuhringunum til þess að græða á.“ Er þetta ein af hliðarráðstöfunum, sem á að gera, eða er þetta bara slúður? Við höfum ekki heyrt neitt um, að eigi að taka neitt af olíufélögunum nema þessa 60 skildinga á smálest, sem þessi hæstv. ráðh., atvmrh., segist hafa tekið af einu flutningaskipi hér, þegar hann heimilar því að flytja olíuna fyrir 100 skildingum meira en skipseigendurnir töldu sig þurfa, þegar skipið var keypt til landsins. Mér var að detta í hug, þegar var verið að tala um 22 millj. úr ríkissjóði í olíuna, hvort það væri sérstaklega ætlað þessu skipi eða þessu félagi eða hvort á að deila því á olíufélögin yfirleitt. Og hvar eru nú stóryrðin um þetta allt saman, sem voru í fyrra í munni þessa ráðh. fremur en nokkurs annars manns? Hvar eru öll þessi stóryrði, hvað er orðið um þau núna í frv., og hvað hyggjast menn fyrir í þessum efnum? Ég spyr: Hversu mikið á samkv. frv. að taka af olíuokrinu margumtalaða og af skipaleigunum og öðrum þeim aðilum, sem kommúnistar og þá undir sérstakri forustu hæstv. atvmrh. á öndverðu þessu ári töldu að gætu í raun og veru borið meginþungann af 100 eða 200 millj. kr., sem þá þurfti að leggja á þjóðina útveginum til framdráttar og til þess að standa undir auknum gjöldum ríkissjóðs vegna vaxandi dýrtíðar, sem stafaði frá verkföllunum, sem þessir sömu menn stóðu fyrir?

Ég spyr í sextánda lagi: Á hvaða vörur koma nýju skattarnir þyngst? Víð hljótum að mega vita það.

Ég spyr í seytjánda lagi, hverjir það séu, sem nú eiga von á kærustu og innilegustu kveðjunum frá „Gregory-bræðrum“, sbr. Þjóðviljann í fyrra.

Og svo langar mig svona upp á spaug í átjánda lagi að spyrja: Hver er nýi „Gregory-bróðirinn“, sem hæstv. fjmrh. hefur nú eignazt, eftir að ég „dó“? Hann skyldi þó aldrei heita Lúðvík Jósefsson, svo að maður megi nú fara að taka upp úr Þjóðviljanum myndirnar og breyta um andlit og skrifa: „Með kveðju frá Gregory-bræðrum“?

Ég vona nú, að ég fái svör við þessum eðlilegu og hóflegu spurningum, og skal þá ekki í bili spyrja um fleira, enda þótt frv. gefi tilefni til að spyrja um margt annað, sem kannske líka ýmsir aðrir ræðumenn gera, áður en umr. þessari er lokið.

Um sjálfa málsmeðferðina skal ég vera fáorður. Ég viðurkenni fyllilega, að slík mál sem þessi þarfnast bæði langs og gaumgæfilegs undirbúnings. Ég hef sjálfur svo oft lent í því að fjalla um slík mál, að mér ber að sýna bæði skilning og sanngirni, þegar ég ræði um það. En samt sem áður get ég ekki komizt hjá því að víta það, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki sýnt Alþingi þá virðingu að gefa því svo mikið sem einn dag, heldur aðeins fáar klst. til að athuga málið, eftir að það er lagt fram að heita má án grg., en hafði hins vegar fjallað um þetta mál, að mér skilst, í öllum aðalatriðum í 10 daga eða meira við ýmis félagasamtök í landinu. Annaðhvort er allt ósatt, sem hér hefur verið sagt um, að þetta mál hafi verið borið undir margvísleg félagasamtök, eða hitt er rétt, að mjög margir menn, sennilega svo að hundruðum skiptir, hafi fengið að vita um aðalefni þessa máls, þó að alþm. hafi ekki fengið að vita það, a. m. k. ekki þeir, sem eru umboðsmenn stjórnarandstöðunnar, þ. e. meira en 2/5 hluta kjósenda í landinn. Mér finnst, að Alþingi sé ekki sýnd með þessu tilhlýðileg tillitssemi eða virðing, og læt nokkra undrun í ljós yfir því, þó að ég viðurkenni hins vegar, að það er eðlilegt, að slíkum málum sem þessum þurfi að hraða.

Ég skal svo víkja fáum orðum að heildarmyndinni, sem blasir við, eins og hún lítur út frá mínum sjónarhól og áreiðanlega mjög margra annarra, ef ekki langflestra landsmanna.

Á undanförnum árum höfum við sjálfstæðismenn oft aðvarað gegn kauphækkunum umfram gjaldgetu atvinnuveganna. Ég hef stundum áður minnzt á, án þess að það sé upphaf þeirrar sögu, að um áramótin 1954 og 1955 flutti ég í embættisnafni útvarpsræðu hinn 31. des., þar sem ég leiddi sterk rök að því, að eins og þá var komið högum framleiðsluatvinnuveganna, væru nýjar kauphækkanir ekki kjarabætur, heldur krónuskerðing. Ég benti þjóðinni á að hún byggi nú við betri kjör en flestar, ef ekki allar aðrar þjóðir, betri og jafnari kjör. Ég minnti á, að verðlagið í landinu hefði verið nær óbreytt í 2–3 ár og aðrar loftvogir efnahagslífsins stæðu vel, og ég leyfði mér að skora á þjóðina að una glöð við sitt, hefja ekki nýja kaupgjaldsbaráttu, meðan óbreytt væri ástand framleiðslustarfseminnar og án þess að henni bærust nýjar tekjur, sem gætu risið undir nýjum útgjöldum. Ég skoraði á landsmenn að slá skjaldborg um krónuna og minnti á, að nýjar kauphækkanir væru ekki kjarabætur, heldur krónuskerðing.

Alþýðuflokkurinn og kommúnistar svöruðu þessum hóflegu tilmælum mínum með allhörðum árásum strax í stað, og nokkru síðar reistu þeir kröfur um óvenjulega risavaxnar kauphækkanir. Þessar kröfur leiddu svo til verkfalls, sem stóð lengur en ég man dæmi til um hér á landi og lauk með því, að frá sjónarmiði atvinnurekenda urðu hækkanir á kaupgjaldinu, sem námu 13–14% þá þegar í stað. En um síðustu áramót, þ. e. a. s. sjö eða átta mánuðum eftir að þessar kauphækkanir fóru fram, höfðu þær spunnið upp á sig nýjar hækkanir, þannig að þá var heildarhækkunin ekki lengur 13 eða 14%, heldur var hún orðin 22%, og í þessum efnum gekk allt því miður eftir, sem við sjálfstæðismenn höfðum sagt fyrir.

Arfur þessarar sóknar kommúnista og fylgifiska þeirra á hendur framleiðslustarfsemi landsmanna var svo sá, að útgerðin stöðvaðist um síðustu áramót vegna rekstrarhalla, og hún hófst ekki fyrr en meira en þremur eða fjórum vikum síðar, þegar búið var að leggja á þjóðina 150–200 millj. kr. í nýja skatta, ýmist beint í ríkissjóðinn til að standa undir hans auknu þörfum eða í svonefndan framleiðslusjóð, en honum var ætlað að standa undir nýjum framlögum til útvegs og landbúnaðar, svo að þessir framleiðsluatvinnuvegir legðust ekki í rúst vegna kauphækkana kommúnista og Alþfl.

Kommúnistar og Alþýðuflokksmenn réðust á þessar ráðstafanir af offorsi, eins og ég skal stuttlega víkja að síðar. Það kom raunar engum á óvart. Hitt má kalla torskildara, að blöð Framsfl. tóku fljótlega upp ádeiluna, og höfðu þó framsóknarmenn staðið að lausn málsins með sjálfstæðismönnum og báru á því jafna ábyrgð og við og áttu jafnan heiður að lausninni sem við. Nú spöruðu framsóknarmenn hvorki sínum eigin úrræðum né sínum eigin mönnum, hæstv. núv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. félmrh., hæðiyrðin út af þessum úrræðum, sem þeir kölluðu bráðabirgðalausnir og margt annað verra. Þeir hétu jafnframt algerri stefnubreytingu, ef þeim tækist að laumast svo myndarlega aftan að stjórnarskrá landsins með þeim samtökum, sem þeir stofnuðu til, Hræðslubandalaginu, og að svíkja svo gaumgæfilega sín fyrirheit um að koma aldrei nærri eiturpöddu þjóðlífsins, sem þeir nefndu, en það voru kommúnistarnir, — ef þeim tækist þetta hvort tveggja, þá mundu þeir mynda vinstri stjórn og þá skyldu menn sjá, að hendur stæðu fram úr ermum.

Frómar óskir framsóknarmanna um að mynda vinstri stjórn tókust, eins og allir vita, og nú hófst tímabil hinna miklu vinstri vona á Íslandi. Nú skyldu allir hinir réttlátu standa við fyrirheitin og sýna, að þeir væru hjörð heilagra, en ekki samfélag syndugra eða svikara. Það eru liðnir fimm mánuðir síðan stjórnin var mynduð. Ég held, að það sé ekki ofmælt, að vonirnar hafi heldur dofnað, en þær dóu nú víst ekki fyrr en í dag, að lagt var fram frv. það, sem hér er til umræðu.

Vinstri stjórnin hefur í dag sýnt Alþingi framan í sína nýju stefnu, og nú vita menn, hver vinstri úrræðin eru. Ráðh. hafa verið að streitast við að snyrta þau og fegra eftir föngum, en ég held, að það sé óhætt að hugga sig við það, að ásjónuna dylur nú enginn, hversu vel sem hann kann tæknina.

Umbúðalaust færir stjórnin þjóðinni þennan boðskap: Faðir minn refsaði ykkur með svipum, en ég mun refsa ykkur með sporðdrekum. Vondar voru stjórnir framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, en verri skulum við þó vera. — Þetta er boðskapurinn, sem þetta frv., sem hér er til umr., flytur þjóðinni. Till. ríkisstj., skrásettar í þessu frv., eru þessar efnislega: Þjóðin skal halda áfram að greiða hinn svonefnda bátagjaldeyri allan, hvern einasta eyri, bara með öðru nafni. Í öðru lagi: Þjóðin skal líka halda áfram að greiða alla tollana, sem fyrrverandi ríkisstj. fyrir tæpu ári heimtaði í ríkissjóð og framleiðslusjóð, alla, hvern einasta eyri. Í þriðja lagi: Þjóðin skal halda áfram að greiða alla aðra eldri tolla og skatta, alla, hvern einasta eyri nema söluskattinn í smásölu, um 20–25 millj. kr. Í fjórða lagi: Í viðbót við þetta allt skal svo allur almenningur í landinu borga nýja skatta, að upphæð 250 millj. kr., eða 7500 kr. á hvert 5 manna heimili í landinu. Til að fegra þetta lofar svo stjórnin að bæta ofan á þetta enn nýjum skatti, alls 80 millj., eða 2500 kr. á hvert 5 manna heimili. Stjórnin segir: Þennan skatt ætlum við að láta þá ríku borga, og við skulum þá ekki hirða svo mjög, þó að þeir séu ekki allir meira en bjargálna og kannske tæplega það.

Þetta er nú boðskapur stjórnarinnar. Á þetta á svo að hengja eitthvert punt svona fyrir jólin. Gjaldþegnunum á víst að sýnast þetta vera jólatré. Það gerir svo minna, þó að puntið detti af eftir jólin og gjaldþegninn vakni við það eftir nýárið, að tréð er ekki jólatré, heldur gálgi. Já, ég segi: Til hamingju, vinstri höfðingjar í landinu, og ég segi líka: Verði ykkur að góðu, og ég bæti enn við því, sem ég stundum hef sagt áður: Ykkur var nær að láta minna, þegar fyrrverandi stjórn var að basla við að afstýra því atvinnuleysi, sem kommúnistar og Alþfl. og sumir framsóknarmenn stofnuðu til og báru ábyrgð á með langa verkfallinu vorið 1955 og hinum ógiftusamlegu kauphækkunum, sem í kjölfarið sigldu. — En það getur hugsazt, að einhverjir vinstri kjósendur verði ekki út af eins hrifnir, þegar þeir sjá, hve mikið eða öllu heldur hversu lítið er að marka af orðum sinna forustumanna. Ég skal þessum kjósendum til minnis rifja upp eilítið, aðeins örfá af mörgum ummælum stjórnarliða um skatta fyrrv. stjórnar, skattana, sem nú er bætt ofan á, að eigin sögn 320 millj. kr., og gæti þó kannske reynzt nær 400 millj., þ. e. a. s. frá 10000 til 12500 kr. á 5 manna heimili í landinu.

Hvað var það, sem hv. vinstri sinnar, sem nú kalla sig, sögðu þá, áður en þeir tóku sporðdrekann sér í hönd til þess að berja gjaldþegninn dálítið duglegar en fyrrv. stjórn hafði svo mikið sem hugkvæmzt að gera? Við skulum byrja á minnsta flokknum, hvað hann sagði, þ. e. a. s. hv. Framsfl. Tíminn segir 20. júní s. l.:

„Það er kosið um vaxandi upplausn, pólitíska og efnahagslega eða gerbreytt viðhorf með sigri bandalags umbótaflokkanna.“

Og þar stendur enn fremur, og það er nú aðalatriðið, að menn gleymi því ekki: „Niðurgreiðsluleiðin er engin frambúðarlausn, heldur hættuleg svikaleið.“

Niðurgreiðsluleiðin, leiðin, sem nú er verið að fara, er að dómi Framsóknarblaðsins í umboði hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra engin frambúðarlausn, heldur hættuleg svikaleið, sem brátt hefnir sín, „ef hún er framkvæmd í eins stórum stíl og íhaldið vill, og er þegar komið of langt á þeirri braut“. Þ. e. a. s.: þegar Tíminn er að dæma skattana, sem hæstv. fjmrh. stóð að með mér, þá segir hann, að það sé ekki frambúðarlausn, heldur hættuleg svikaleið, sem brátt hefni sín, ef hún er farin í jafnstórum stíl, og sé þegar komið allt of langt á þeirri braut. En hvað er verið að gera í dag? Það er verið að tvöfalda það, sem þá var búið að gera.

Svo segir Tíminn daginn fyrir kosningar: „Þess vegna er hugmynd sjálfstæðisforingjanna að halda áfram sem fyrr eftir kosningar, ef þeim og kommúnistum í sameiningu tekst að koma í veg fyrir sigur umbótaflokkanna. Þá verður haldið áfram með bráðabirgðaúrræði eins og síldaruppbæturnar síðustu, aukna skattheimtu af almenningi í einni eða annarri mynd, meðan sárustu kvalirnar minnka með gróða af hernaðarframkvæmdum og hernum.“

Ja, það er von, að þeir hlæi. Ég er nú ekki hláturmildur núna, en það er von, að menn hlæi. Ef við sjálfstæðismenn sigrum, þá á „að halda áfram bráðabirgðaúrræðum eins og síldaruppbótum, og svo verða auknar skattheimtur af almenningi í einni eða annarri mynd, meðan sárustu kvalirnar minnka með gróða af hernaðarframkvæmdum og hernum;“

„Þannig er mynd þess þjóðfélags,“ heldur Tíminn áfram, „sem íhaldið byggir á.“ — Ja, þannig er mynd þess þjóðfélags, sem íhaldið byggir á, því að verra íhald en Framsfl. þekki ég nú ekki. — „Eyðileggjandi dýrtíð og upplausn, sem halda landsfólkinu í úlfakreppu, annars vegar, en hins vegar von um líkn frá erlendu fjármagni, sem tengt er varanlegri hersetu.“

Það eru nú bara spámenn í Tímanum, held ég, sem þetta skrifa. Annars vegar eru það álögur á fólkið og hins vegar von um erlenda peninga sem líkn frá erlendu fjármagni, sem tengt er varanlegri hersetu. Ja, við hefðum hlegið saman að þessu, fjármálaráðherrann og ég, í fyrra, þegar við vorum í stjórn, ef einhver annar hefði verið svona fyndinn.

Og svo kemur lokaþáttur minnsta flokksins: „Gegn þessum voða þarf þjóðin að rísa, áður en það er of seint.“ Þ. e. a. s. þingið í dag. Gegn þessum voða þarf þjóðin að rísa, áður en það er of seint. Þetta var nú Framsfl.

Ég hirði nú ekki mikið að vitna í Alþfl. hér, en mér þykir þó gaman að vitna í nokkur orð, sem hæstv. menntmrh. þá sagði. Hann segir við umræðurnar á Alþ. um framleiðslusjóðinn, þ. e. a. s. miklu minni skatta en þetta:

„Ég sagði áðan, að þetta frv. væri í raun og veru engin lausn á grundvallaratriðum þess vanda, sem að steðjar. Það er áframhald á rangindaráðstöfunum undanfarinna ára. Fyrir sex árum kom gengislækkun, af því að tvöfalt gengi var talið enn verra. Svo kom tvöfalda gengið, þ. e. a. s. bátagjaldeyririnn, af því að skattar og tollar voru taldir enn verri. Og nú loksins koma skattarnir og styrkirnir, sem ávallt hafa verið taldir hið versta, svo að við höfum fengið allt þrennt. Við höfum fengið gengislækkunina, við höfum fengið bátagjaldeyrinn og við höfum fengið skattana og styrkina.“

Og hvað gerir hann nú? Ekki aðeins hefur hann djörfung og virðist ekki bera kinnroða fyrir að bera hér fram stærstu skattaálögur, sem þekkzt hafa, í viðbót við það, sem áður gilti, heldur er hann líka kominn með margfalt gengi, eftir því sem mér skilst þetta frv. vera. Það er í raun og veru margfalt gengi. Og þó að sumir segi, að hann hafi heldur kosið gengislækkun, og ég kunni ekki um það að segja og vilji ekki um það fullyrða, þá hefur hann a. m. k. látið leiðast til að fara þá leiðina, sem hann telur langversta, nýja skatta. Og það þýðir ekkert að vera að koma hér og segja okkur, að af því að 36% af þessum vörum, sem fluttar eru til landsins, séu undanþegnar þessum sköttum, þá lendi þeir ekki á almenningi. Haldið þið, að almenningur kaupi ekki neitt nema fyrir 450 millj.? Hverjir eru það þá, sem kaupa fyrir hinar 800 eða 900 milljónirnar? Nei, hér er gerð stórfelld tilraun enn á ný og miklu geipilegri en nokkurn tíma hefur verið til þess að svíkja vísitöluna undir forustu hans og hæstv. atvmrh., sem mest hafa deilt á hv. Framsfl. og Sjálfstfl. fyrir að hafa gert þetta á undanförnum árum. Ég öfunda ekki heldur hann af sínu hlutskipti.

Svo kemur Alþýðubandalagið. Það tók eiginlega mest upp í sig, eins og stundum kemur fyrir. Þjóðviljinn segir 29. jan. 1956:

„Stjórnarflokkarnir ætla að hækka allt verðlag í landinn um 230–240 milljónir. 7000 kr. neyzluskattur lagður á hverja fimm manna fjölskyldu. Stórgróðafélögunum ekki ætlað að greiða einn eyri.“

Það er félegt, sem þetta dót þá hafði í hyggju að gera. Svo heldur Þjóðviljinn áfram: „Í gær lagði ríkisstjórnin loks fram „bjargráð“ sín, og fela þau í sér enn stórfelldari árásir á lífskjör almennings en nokkurn óraði fyrir og hleypa af stað verðbólguskriðu, sem jafnast á við það, sem gerðist með gengislækkuninni. Álögurnar nýju nema samtals á þriðja hundrað milljónum eða sem næst 7000 krónum á hverja fimm manna fjölskyldu. Þær eru allar teknar með verðhækkunum og neyzlusköttum, en auðfélögin eru ekki látin leggja fram einn eyri.“

Það stendur í þessu: „Í gær“ lagði ríkisstjórnin. Ég segi: Í dag. Önnur er nú eiginlega breytingin ekki. Í dag lagði þessi ríkisstj. fram þessi skattafrumvörp, sem leggja þessa nýju skatta á almenning í landinu og nú miklu hærri en fyrr. Og Þjóðviljinn heldur áfram:

„Í dag hefur öll alþýða, allir vinstri menn, tækifæri til að gera Alþingi að vígi sínu, að brjóstvörn sjálfstæðis og velmegunar. Í stað gengisfellingar getur komið nýsköpun. Í stað tolla og skatta og kaupbindingar getur komið hækkandi kaupmáttur launanna. Í stað hernáms getur komið blómlegt atvinnulíf frjálsrar þjóðar, sem býr ein í sínu landi.“

Það væri nú gaman að fá eitthvað af þessu, sem getur komið. En enn þá er hernámið, er það ekki? Og enn þá er nú nýsköpunin ekki byrjuð, en kaupbindingin er búin að vera, og tollar og skattar eru nú í fullum blóma. — Og Þjóðviljinn heldur áfram, — ég skal nú ekki þreyta ykkur með allt of miklu af þessu:

„Ræddi Lúðvík Jósefsson sérstaklega um hinar nýju og óhemju álögur ríkisstjórnarinnar. Sýndi hann fram á, að hér væri ekki aðeins um að ræða einhverja stórfelldustu árás, sem gerð hefur verið á lífskjör vinnandi fólks í landinu, heldur efnahagslegt glapræði, sem draga mundi enn meiri ófögnuð á eftir sér.“

Þetta hefði nú Lúðvík bara átt að segja áðan í staðinn fyrir sína ræðu, sem ég nú sannast sagna græddi lítið á. Hann „sýndi fram á, að hér væri ekki aðeins um að ræða einhverja stórfelldustu árás, sem gerð hefur verið á lífskjör vinnandi fólks á Íslandi, heldur efnahagslegt glapræði, sem draga mundi enn meiri ófögnuð á eftir sér“. Og hvað var þá verið að gera? Það var verið að afstýra atvinnustöðvun með því að leggja nýja skatta á þjóðina. Þá taldi þessi maður, að það ætti að taka það af gróðafélögunum og af olíufélögunum sérstaklega og af skipafélögunum, vátryggingarfélögunum og bönkunum. En nú hefur hann ekkert af þessu gert, nema tekið einhvern smáskilding af bönkunum, ef hann hefur þá gert það. Ja, þeir eru ekki feimnir, þessir höfðingjar. — Og loks segir svo Þjóðviljinn um þetta daginn eftir:

„Bjargráð ríkisstjórnarinnar eru ekki aðeins ósvífnasta og mesta skattpíning, sem nokkur ríkisstjórn hefur lagt á þegnana, heldur eru þau einnig gersamlega haldlaus fyrir útgerðina nema rétt í svip. Á þetta benti Lúðvík Jósefsson meðal annars á Alþingi í fyrradag, en hann er öllum þingmönnum fróðari um hag og afkomu útgerðarinnar.“

Og svo kemur hann sjálfur, þessi fróði maður, og segir við útgerðina: Þið hafið nú ekki á móti því, að ég rétti ykkur eitthvað meira kannske en fyrrverandi stjórn gerði, þó að það geti nú ekki orðið rausnarlegt, því að það er nú sami fjmrh., sem alltaf er dragbíturinn. Hann er orðinn það núna, er það ekki, hvað sem var um mína daga? Hann er afleitur orðinn, fjármálaráðherra, síðan ég skildi við hann, segja útgerðarmennirnir eftir einhverjum, ekki veit ég eftir hverjum. En þeir lærðu það ekki af mér, það veit ég.

En „bjargráð ríkisstjórnarinnar eru ekki aðeins ósvífnasta og mesta skattpíning, sem nokkur ríkisstj. hefur lagt á þegnana, heldur eru þau einnig gersamlega haldlaus fyrir útgerðina nema rétt í svip“. Á þetta benti þessi fróðasti á Alþingi. Og þetta var allt saman áður en bætt var 10–12 þús. kr. á meðalheimili með nýjum sköttum, sem núverandi stjórn er að gera.

Ég get ekki betur séð en að þetta sé allt á eina bók lært. Mér finnst þetta nú satt að segja, ef maður mætti viðhafa svo óþinglegt orð, alveg drepandi fyndið hjá þeim, þó að það sé kannske meira drepandi fyrir þeirra mannorð og mannvirðingu en það er nú fyndið, og er þó sannarlega vel fyndið. En af öllu finnst mér útgönguversið bezt, sem er í Þjóðviljanum þann 6. júní, en það hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta, sem alltaf hefur gaman af að heyra Þjóðviljann:

„En það er ekki hægt að eilífu að blekkja fólk, svo að fyrir kosningar sé svarið og svarið, en eftir kosningar allir svardagar rofnir.“

Það „er ekki hægt að eilífu að blekkja fólk, svo að fyrir kosningar sé svarið og svarið, en eftir kosningar allir svardagar rofnir“. Og nú var ég ekki að tala um herinn, sem var svarið og svarið fyrir, heldur bara um skattana, sem var svarið og svarið, og „eftir kosningar allir svardagar rofnir“.

Ég held, að þetta sé alveg rétt. Það er ekki hægt að blekkja fólk svona herfilega eins og hæstv. núverandi stjórn er að gera tilraun til að gera. Og ég hygg, að hún muni fá að sanna það, áður en allt of langt um líður, að þjóðin lætur ekki bjóða sér allt.

Ég vil að öðru leyti segja það um þetta frv., að ég tel það ekki aðeins stórt háðsmerki, mjög stórt háðsmerki, aftan við allar fyrri staðhæfingar og fyrirheit vinstristjórnarsinnanna, heldur tel ég, að bæði það og fylgihnettir þess muni marka nýtt tímabil hafta, banna, vöruskorts, svartamarkaðs og falsaðrar vísitölu. Hér er vitandi vits stefnt frá frjálsræði til þvingana, og mun þá á ný hefjast sú öfugþróun, sem oft áður hefur gert þjóðinni ama og ógagn og jafnan virðist vera skotta, þ. e. a. s. draugur, slíkra ófagnaðarafla sem nú ráða þjóðmálunum. Ég mun því fyrir mitt leyti eindregið — og það hygg ég að geri allir eða flestir mínir flokksbræður, þó að við höfum ekki rætt um það sem flokksmál enn þá — snúast gegn þessu frv. í heild enda þótt einstök ákvæði þess hljóti að sjálfsögðu að vera þörf, eins og það að rétta útgerðinni hjálparhönd og landbúnaðinum að sama skapi, þó að okkur hafi ekki gefizt kostur á að dæma um, á hvaða rökum þau úrræði eru byggð.

Hæstv. forsrh. lagði á það ríka áherzlu, að nú hefði verið rætt í fyrsta skipti við marga aðila, og hæstv. menntmrh. sagði, að það hefði verið rætt við alla, sem eiginlega væri talandi við um þetta, og þetta væri í fyrsta skipti, sem allir hefðu verið sammála um allt.

En ég hef nú einhverjar aðrar sagnir um þetta. Mér er sagt, að þessu hafi verið tekið með allmikilli ólund af mörgum, og ég sé ekki betur en að t. d. komi það í þessum fátæklegu fylgiskjölum hér, að framleiðsluráð landbúnaðarins hafi ekki verið á einu máli um þetta, heldur þvert á móti hafi það verið mjög klofið, þ. á m. hafi tveir úr hópi allra elztu og þjóðkunnustu alþm., Pétur Ottesen og Jón Sigurðsson, greitt atkv. á móti þessu og gert grein fyrir af hverju. Þetta stendur í sjálfri grg., og mig minnir, að ég hafi eitthvað séð í grg. líka um ólund, svo að ég orði það nú væglega, hjá miðstjórn Alþýðusambandsins og nítján manna nefndinni, sem Alþýðusambandaþingið kaus til að vera til ráðgjafar um þessi mál. Þar stendur: „Telur miðstjórnin og efnahagsmálanefndin, að veita beri núverandi ríkisstjórn starfsfrið, þar til úr því fæst skorið, hvernig framkvæmdin tekst.“ Annar aðilinn er alveg klofinn, hinn segir: „Við skulum veita henni starfsfrið til að sjá, hvernig þetta tekst.“ Og hvað segir svo blað hæstv. atvmrh. um þetta? Það segir: „Ja, það á ekki lengur að binda vísitöluna:“ Ef þetta tekst ekki eins og okkur líkar, þá höfum við bara okkar gamla úrræði, við hækkum kaupið, hækkum grunnkaupið með verkföllum. Hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að ef kommúnistar þora að fara úr stjórn, ef blóðið þornar í Ungverjalandi og þeir þyrðu að fara úr stjórn, þá mundu þeir vera fljótir að reisa verkalýðinn gegn þessum ráðstöfunum. Hann er alveg óbundinn. Það er friður í bili, ótímabundinn, til þess að athuga, hvernig þetta fer úr hendi. Það er allt og sumt, sem fram hefur komið. Og ég spyr nú hæstv. atvmrh. og einnig hæstv. forsrh.: Eru þeir búnir að fá samþykki, sem hæstv. atvmrh. hældist mest um yfir, samþykki útvegsmanna til að hefja starfsemi á þessum grundvelli? Mér er þvert á móti sagt, að það sé mikill ágreiningur um, hvort þeir vilja samþykkja kjör þau, sem þeim eru boðin. Mér skilst, að þar standi sakir þannig, að mjög margir útvegsmenn segi: Við viljum ekki samþykkja þetta tilboð, sem atvmrh. hefur gefið okkur, nema því aðeins að hann standi við það, sem hann er búinn að segja okkur, að það eigi engar breytingar að gera á sölu útflutningsframleiðslunnar.

Það er ekki nóg að ræða við marga, og það er ekki nóg að koma hér og lýsa yfir, að allir séu um þetta sammála, ef þetta er ekki rétt. Og ef það er rétt, sem ég er hér að segja, að jafnvel sjálft Alþýðusambandið hafi beinlínis í hótunum, ef það er rétt, að útvegsmenn séu ekki enn þá búnir að svara ráðherrunum, af því að það ríki mikill ágreiningur um, hvort það eigi að svara játandi eða neitandi, ef það er rétt, að framleiðsluráðið hafi verið klofið um málið, ja, hvað er þá eiginlega satt um, að hér séu allir sammála um allt? Er það ekki sannara, að hér sé enginn sammála um neitt, hér sé fullkominn ágreiningur og kannske svo mikill, að það takist ekki að brúa hann? Er það ekki sannara?

Hæstv. ríkisstj. hefur haldið því fram, að hún sé eina stjórnin, sem hafi leitað samstarfs við verkalýðinn í landinu og ýmsa þá aðila, sem hér eiga hlut að máli. Þetta er auðvitað hreinasta fásinna. Ég held, að engin stjórn hafi komizt nær því að ná samstarfi við verkalýðinn heldur en nýsköpunarstjórnin, sem Framsfl. beitti sér harðast gegn. En ég held, að allar aðrar stjórnir, frá því að lýðveldið var stofnað, svo að ég fari ekki lengra, hafi reynt að ná samstarfi við verkalýðinn og þá aðila, sem hér hefur verið um að ræða. Það hefur tekizt misjafnlega. En er nokkur kominn til að tryggja, að það takist betur, sem nú á að gera eða menn hafa í hyggju að gera? Ég sé engan mun á því í grundvallaratriðum, sem gert hefur verið núna, og ýmsu því, sem aðrar stjórnir hafa gert í mismunandi ríkum mæli. Það er meira og minna skvaldur út í bláinn, þegar verið er að halda því fram, að hér sé í fyrsta skipti verið að reyna að stjórna landinu í samstarfi við „þjóðina“, eins og hér er látið. Ég hygg, að hæstv. forsrh. hefði ekki þurft að kalla saman framleiðsluráðið til að fá nokkra flokksbræður sína í því til að samþykkja það, sem hann var að fara fram á. Og ég veit ekki betur, eins og ég segi, en að hin aðalframleiðslustéttin, útvegsmenn, sé alveg óákveðin í því enn þá, hvað hún ætli að gera.

Ég held, eins og ég segi, að allar stjórnir hafi leitað samstarfs, enda væri allt annað óhyggilegt, við sem flesta þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, og þessi stjórn eigi þess vegna sammerkt við þær um það, það sé ekkert sérstakt fyrir hana. Ég held einnig, að engri stjórn hafi tekizt nógu vel að ná þessu samstarfi og sérstaklega ekki að ná því í framkvæmd. Og ég veit ekki, það er a. m. k. ekki enn komið á daginn, hvort þessi stjórn hefur nokkra sérstöðu í þeim efnum.

Ég skal ljúka þessu máli mínu að þessu sinni með því að segja, að þessi stjórn hefur sérstöðu umfram allar aðrar stjórnir, sem ég hef haft kunnugleika af, um eitt, og það er það, að henni hefur tekizt á fimm mánuðum að bregðast svo að segja hverju einasta stóru fyrirheiti, sem hún gaf fyrir kosningar. Ég teldi, að stjórninni bæri þess vegna að segja af sér, segja: Við réðum ekki við örðugleikana, úrræðin, sem við ætluðum að finna, þau fundum við ekki, — eða að hún sýndi þann manndóm að rjúfa þing á næsta vori, ganga fram fyrir þjóðina og láta hana um að dæma það, segja: Getið þið fallizt á, að við vinstri menn, sem erum meira og minna rauðir innvortis, þó að það sjáist nú ekki á okkur nema öðru hvoru útvortis, förum áfram með völd? Við játum það, að við fundum ekki úrræðin. Við fundum ekkert, nema eins og einn ráðherrann sagði: Er þá ekkert til, nema gömul íhaldsúrræði? eins og hann orðaði það. Og við urðum að bæta óskaplegum sköttum ofan á þá, sem fyrir voru. Við gátum heldur ekki rekið herinn úr landi, þó að við værum búnir að lofa því. Við höfum því hvorki í efnahagsmálunum né heldur varðandi varnir landsins og vernd landsins né í neinn öðru, sem mestu máli skiptir, getað staðið við okkar orð. Vill kjósandinn samt sem áður fela okkur umboð, eða vill hann það ekki? — Ef stjórnin gerði þetta, þá mundi ég fyrir mitt leyti segja: Henni er ekki alls varnað. En ég er ekki enn að gera því skóna, að hún geri það. Hennar vegur væri meiri, ef hún gerði það.