19.12.1956
Neðri deild: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Magnúss Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en eftir að ég hef hlýtt á það, sem fram hefur farið hér í kvöld, voru nokkur atriði, sem mig langaði til að minnast á.

Það er vitanlega mjög merkilegur atburður hér í hinu háa Alþ., ef það er rétt, að við stöndum frammi fyrir „aldahvörfum“, en það var það orð, sem hæstv. menntmrh. notaði um það frv., sem hér er lagt fram. Og það væri fullkomin ástæða til þess, að það hefði verið reynt að hliðra svo til, að þm. gæfist kostur á að hafa lengri tíma er, raun ber vitni um til að átta sig á þessum stórkostlegu tíðindum, sem gerzt hafa. En því mun nú ekki vera að heilsa, að það sé um langan tíma að ræða, og er ég því hræddur um, að aldahvörfin kunni að fara fram hjá æðimörgum, af því að margt í þessum ráðstöfunum er það óljóst og flókið, að það virðist ekki hafa verið sérstakt kappsmál hæstv. ríkisstj., að almenningur gerði sér allt of ljós þessi aldahvörf.

Eftir þessu plaggi, sem hér liggur fyrir okkur, hefur verið beðið með mikilll eftirvæntingu, og það er ekki að undra, þótt eftirvæntingin hafi verið mikill, þegar þess er gætt, hvernig málið var undirbúið gagnvart alþjóð. Eins og öllum er kunnugt, bæði hv. þm. og öllum landslýð, var því haldið fram fyrir síðustu þingkosningar og m. a. til þeirra efnt af þeim sökum af hálfu Framsfl., að það bæri brýna nauðsyn til þess að breyta gersamlega um stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég hirði ekki að vera að rekja hér öll þau fjölþættu ummæli, sem fram komu í Tímanum um það efni og málgagni litla bróður Framsóknar, sem að lokum varð að vísu stóri bróðir, sem var í öllum efnum bergmál af því. En staðreynd málsins er sú, að ég hygg, að kjósendur þessara flokka hafi almennt gert ráð fyrir því, að það mundi verða um stórfellda breytingu að ræða og að nú mundi renna upp nýr tími, það yrði horfið frá þeirri stefnu, sem þeir fordæmdu mjög, ekki hvað sízt núv. hæstv. forsrh., og hann taldi að væri að leiða þjóðina inn á eyðimörk, og að það yrði tekin upp gersamlega ný stefna í efnahagsmálunum, sem byggðist á því, að hægt væri að afnema þær stórkostlegu álögur, sem lagðar hafa verið á þjóðina, og þá styrki, sem orðið hefur að veita útflutningsframleiðslunni.

En einmitt vegna þeirra miklu vona, sem bundnar voru til þeirra ráðstafana, sem hér loksins sjá nú dagsins ljós, er hætt við, að vonbrigðin hjá fólki verði því meiri og þá fyrst og fremst hjá stuðningsmönnum hv. stjórnarflokka, því að við sjálfstæðismenn höfum að sjálfsögðu aldrei búizt við miklu frá hæstv. ríkisstj.

Og því miður er það sýnilegt, að ríkisstj. hefur brugðizt þeim stéttarsamtökum, sem hún telur sig byggja vald sitt á, því að fyrir mjög skömmu var gerð fyrsta ráðstöfunin, sem átti að verða bráðabirgðaráðstöfun, þ. e. binding vísitölunnar í haust, og var þá tekið fram af hálfu verkalýðsfélaganna, að sú kaupskerðing væri gerð í trausti þess, að endanlegar ráðstafanir til hjálpar framleiðsluatvinnuvegunum yrðu gerðar um áramót og að þær ráðstafanir yrðu ekki til að skerða frekar kjör alþýðu manna. Og 25. þing Alþýðusambands Íslands undir forsæti hæstv. félmrh. samþykkti langa ályktun um kjaramál, þar sem m. a. segir svo um væntanlegar ráðstafanir, að ekki komi til mála, að auknum kröfum útflutningsframleiðslunnar verði mætt með nýjum álögum á alþýðuna. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. félmrh. hafi verið þeirrar skoðunar á þinginu, hann stjórnaði því og var endurkjörinn forseti sambandsins, og að þessi till. hafi naumast verið samþykkt gegn atkvæðum hans. Þegar þessa er gætt og þeirra ráðstafana, sem nú sjá dagsins ljós, þá sést, að þær eru allt annars eðlis en alþýðusamtökin hafa gert ráð fyrir fyrir örskömmum tíma. Það er þess vegna kannske ekki að undra, þótt það tæki ríkisstj. vikutíma eða meira að fá Alþýðusambandið og forustumenn þess til þess að fallast á þá lausn, sem hér loksins er komin fram í þessu frv.

Það er eitt atriði í sambandi við þetta frv., sem mig langaði til að varpa hér fram og hefur vakið nokkra undrun, og það eru þær fullyrðingar, sem fram hafa komið í blöðum tveggja stjórnarflokkanna, þ. e. a. s. þeirra flokka, sem kalla sig verkalýðsflokka, um það, að þeir hafi átt í mikilli baráttu með að fá fram ýmsar lagfæringar til handa alþýðu manna á þessum fyrirhuguðu ráðstöfunum. Í leiðara í Þjóðviljanum í dag segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar gengislækkunin var úr sögunni vegna andstöðu Alþýðubandalagsins og verkalýðshreyfingarinnar, komu fram tillögur til að afla fjárins með allsherjar gjaldeyrisskatti, jafnháu álagi á svo til alla gjaldeyrisnotkun landsmanna. Slík aðferð hefði auðvitað aðeins verið dulbúin gengislækkun og haft sömu áhrif, skert lífskjör að miklum mun. En einnig þessi aðgerð var stöðvuð af Alþýðubandalaginu og verkalýðshreyfingunni.“

Það eru ýmis önnur atriði, sem hefur verið vikið að einnig í sambandi við umr. við verkalýðssamtökin, að þeir menn, sem telja sig talsmenn verkalýðsins, hafi staðið í einhverjum átökum um, að ekki væri framkvæmd stórfelld skerðing á rétti alþýðunnar. Nú væri ákaflega fróðlegt að fá upplýsingar um það, við hvern þessi barátta hefur staðið. Ekki hefur hún staðið við stjórnarandstöðuna, ekki hefur verið við hana talað. Það virðist þess vegna vera einhver aðili að ríkisstj., sem hefur ekki neinn sérstakan áhuga á því að hlynna að kjörum alþýðu manna í landinu og byggir hugmyndir sínar um úrræði í efnahagsmálunum á því, að það eigi að skerða lífskjör almennings.

Þetta væri vissulega fróðlegt að fá upplýsingar um.

Svo er annað atriði í framhaldi af því, sem ég áðan sagði hér um þær vonir, sem menn hafa gert sér um þau miklu átök, sem nú yrðu gerð, — önnur spurning, sem hlýtur að vakna, og hún er sú, hvort það sé í raun og veru hugmynd stjórnarflokkanna, að þessar till. hér séu varanleg lausn á vandamálum atvinnuveganna í landinu. Það væri mjög fróðlegt fyrir þjóðina að fá upplýsingar um það, hvort það raunverulega er skoðun hæstv. ríkisstj., að þessi leið, að ganga enn lengra í skattlagningarátt, að framkvæma dulbúna gengislækkun og margar aðrar ráðstafanir, sem mjög hafa verið fordæmdar af þeim, sem töldu, að það væri eina bjargráðið að leysa vandamálin með því að koma Sjálfstfl. úr stjórn, — hvort það er nú skoðun þessara sömu flokka, að þessi úrræði séu hin varanlegu úrræði til lækningar á vandamálum þjóðfélagsins, sem eigi að leggja grundvöll að bættum lífskjörum alþýðunnar í landinu, eins og segir í ályktun þeirri, sem verkalýðsmálanefnd Alþýðusambandsins sendi frá sér.

Það er annars mjög erfitt, eins og hefur verið bent á hér af öðrum, að gera sér grein fyrir því, hvað raunverulega eru forsendur þessa frv., og því ekki að undra, þó að erfitt sé fyrir þá, sem ekki hafa haft aðstöðu að kynna sér þau plögg, að mynda sér skoðun um það, hvort hér sé um hin réttu úrræði að ræða eða ekki. Hæstv. forsrh. sagðist láta sér nægja að miklu leyti að vísa til hinnar ýtarlegu grg. með frv. Á grg. er ekki nokkurn hlut að græða. Þar er ekki neinar upplýsingar að finna um afkomu útflutningsatvinnuveganna eða á hverju þeir styrkir eru byggðir eða þau framlög, sem talin er nauðsyn á. Það er ekki gerð nein grein þar fyrir þeirri athugun, þeirri úttekt á þjóðarbúinu, sem hæstv. forsrh. hafði boðað og hinir erlendu hagfræðingar áttu að vinna að, og það er yfirleitt ekki gerð grein fyrir neinum þeim atvikum, sem eru nauðsynleg til að mynda sér skoðun um, hvort hér sé farin sú leiðin, sem helzt komi til greina, eða ekki, þannig að því fer auðvitað víðs fjarri, að það sé hægt að ætlast til þess, að þeir, sem ekki hafa haft aðstöðu til að kynna sér þetta, geti gleypt við þessu eins og það liggur hér fyrir.

Hæstv. forsrh. sagði í sambandi við álögur þær, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að það hafi verið erfitt að komast hjá að leggja á þær stéttir, sem samráð var haft við og búa við lökustu kjörin. Það gefur nú að skilja, að það hefur verið erfitt, en haft hefur verið samráð við svo að segja allar stéttir þjóðfélagsins, enda er það auðvitað staðreynd málsins, hvað sem öllum umbúðum líður, að álögurnar leggjast á almenning í landinu og það kannske með þyngra móti en hefur verið áður, þótt undan séu þegnar vissar nauðsynjar, sem að vísu hefur nú ekki verið upplýst enn um hverjar væru, en fróðlegt væri að vita, hvað það er, sem hæstv. ríkisstj. telur nauðsynjar fyrir fólkið, og hvað það er, sem er talið vera ónauðsynlegt. En þessir tollar leggjast að vissu leyti þyngra á vegna þess, að það er, eftir því sem manni skilst, leitazt við að forðast það með öllum ráðum, að tollarnir geti haft áhrif á vísitöluna til hækkunar.

Nú hefur það verið upplýst æ ofan í æ af ýmsum þeim flokkum, sem að hæstv. ríkisstj. standa, og það er vafalaust rétt að ýmsu leyti, að vísitalan sé stórgölluð og gefi alls ekki rétta mynd af hinni eðlilegu neyzlu þjóðarinnar. Og ef það er svo, að það á að leggja á 250 millj. kr. skatta, sem eiga ekki að hafa áhrif til verðhækkana, þ. e. a. s. almenningur á ekki að fá uppborna í vísitölu, þá held ég, að þetta kerfi sé eitthvað gallað, og ég efast um, að það sé hægt að segja, að um sé að ræða framfarir fyrir launþega í landinu frá því, sem var síðast, er þær hækkanir höfðu þó meiri áhrif á vísitöluna og til beinna kauphækkana. En það er tilgangur ríkisstj. nú, að þessar miklu tollahækkanir hafi engin áhrif í þá átt.

Hæstv. sjútvmrh. ræddi hér ýmislegt um vandamál útvegsins, og það er vissulega rétt, að hann á við mikla erfiðleika að stríða, sem leiðir af því, að á hann hafa verið lagðar þyngri álögur og gerðar til hans meiri kröfur en hann hefur getað undir risið, og vitanlega byggist öll okkar afkoma á því, að hægt sé að halda útflutningsframleiðslunni gangandi. Hann benti á, að það væri þar við ýmsa nýja erfiðleika að stríða. M. a. vék hann að hinni stórfelldu hækkun á olíuverði, sem gert er ráð fyrir að greiða niður með verulegum upphæðum. Það hefur verið bent á það hér, bæði í þessum umræðum og áður, að þessi sami hæstv. ráðh. og ríkisstjórnin eigi nokkra sök á því, hvernig þeim málum er komið, og í sambandi við þá fullyrðingu ráðh., að það sé ábyggilegt, að olíusalarnir eigi að taka á sig verulegar byrðar, væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvort það er þá ætlunin, að sá stórkostlegi gróði, sem eitt olíufélag fær nú fyrir beint tilstilli ríkisstjórnarinnar, sé tekinn að einhverju verulegu leyti af félaginu aftur, til þess að það gangi til þarfa útvegsins eða til að lækka þann mikla kostnað, sem hann býr við.

Þá gat ráðh. þess og taldi það til mikilla umbóta, að það hefði orðið samkomulag milli sín og útgerðarmanna um að skipa nefnd til að athuga leiðir til sparnaðar í útveginum og bætt vinnubrögð. Ég man ekki betur en hér á Alþ. hafi í fyrra verið kjörin sérstök n. til þess að sinna þessu hlutverki, þannig að hér sé ekki um neina nýbreytni að ræða og gersamlega ástæðulaust að vera að kjósa nýja nefnd, þegar sú n., að ég hygg, starfar af fullum krafti, og væri skynsamlegra og líklegra til, að það þyrfti ekki að dragast allt of lengi að fá niðurstöðu í þessu efni, að byggja á starfi þeirrar n., auk þess sem verður að teljast mjög óeðlilegt, að það sé farið að ganga fram hjá n., sem beinlínis er kjörin hér á Alþ. til þess að inna ákveðið verkefni af hendi.

Það eru ýmis atriði, sem hljóta að vakna í huga manns við að athuga þetta frv. hér. Ég man eftir því í vor fyrir kosningar, að þá voru hvað eftir annað í Þjóðviljanum og reyndar í Tímanum líka fluttar fregnir af því, að bráðnauðsynlegar vörur fengjust ekki, en það væri flutt inn gegndarlaust af alls konar skrani og glingri. Ég sé nú ekki betur en að með þessu frv. sé beinlínis verið að lögfesta þá stefnu, að það verði að láta óþarfann sitja fyrir, því að annaðhvort er það, að ríkisstj. býst við, að hún hafi yfir að ráða mjög miklum gjaldeyristekjum, þannig að ekki þurfi á neinn hátt að draga úr innflutningnum, — og það kann vel að vera, að ríkisstj. hafi opnazt einhverjar nýjar leiðir til gjaldeyrisöflunar, — en miðað við þær spár, sem a. m. k. hæstv. fjmrh. hefur alltaf flutt í því efni í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, þá virðist sem þar gæti meiri bjartsýni hjá honum en hefur verið að undanförnu um möguleika á að afla fjár og hvaða líkur séu til, að útflutningur okkar verði mikill. Ég er því hræddur um, að það sé síður en svo verið nú að laga þann ágalla, sem vissulega er mikill ágalli, að ef um gjaldeyriserfiðleika er að ræða, neyðist stjórnarvöldin til þess að hlynna að innflutningi á ýmiss konar ónauðsynlegum varningi, vegna þess að ella fái hún ekki tekjur til að standa undir framleiðsluatvinnuvegunum. Þetta er beinlínis sú stefna, sem hér er mörkuð, jafnvel enn skýrar en áður hefur verið gert, og mjög kynlegt og eitt af þeim atriðum, sem er sláandi, þegar þess er gætt, hvaða aðilar standa að framlagningu þessa frv. hér.

Hæstv. ráðherrar reyndu mjög að láta í það skína, að þessar álögur, stórfelldu skattar, sem hér er um að ræða, væru ekki nema að mjög litlu leyti álögur á alþýðuna. Í fyrsta lagi væri þriðjungur innflutningsins undanþeginn þessum nýju tollum, og í annan stað væri um að ræða margs konar nýmæli, sem ættu að bæta kjör alþýðunnar stórkostlega. Og hæstv. menntmrh. spurði hér, hvort það væri hægt að segja, að þar væri um troðnar slóðir að ræða, bæði varðandi stóreignaskatt, varðandi verðlagseftirlit og varðandi önnur atriði, sem þarna eru fram sett. Vitanlega þekkjum við bæði stóreignaskatt og verðlagseftirlit. Það hefur áður verið lagður á stóreignaskattur og á miklu skynsamlegri hátt en gert er ráð fyrir hér, vegna þess að það var í sambandi við ráðstafanir, sem ætla mátti og hefðu átt að geta leitt til miklu varanlegri lausnar á þeim vanda, sem hér er við að glíma, heldur en þær algeru bráðabirgðaráðstafanir, sem hér er talað um. Um verðlagseftirlit er alveg það sama að segja.

Hæstv. fjmrh. sagði að vísu, að það væru horfur á, að það væri hægt að lækka stórkostlega álagningu í heildsölu. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., sem er varaformaður stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga, að ég hygg, að því, hvort það sé raunverulega rétt, að Samband ísl. samvinnufélaga, sem okkur hefur ætíð verið sagt að væri bezti hemillinn á verðlagið í landinu, hafi haldið uppi þeirri venju að undanförnu að selja vörur í heildsölu með mjög óhæfilegri álagningu. Ég hef a. m. k. ekki heyrt, að það væri um stórfelldan verðmismun að ræða hjá Sambandinu og öðrum heildsölum, enda ef svo væri, þá ætti það að koma fram einnig hjá kaupfélögunum og leiða til þess, eins og framsóknarmenn hafa ætíð bent á og verið rök þeirra gegn verðlagseftirliti, að viðskiptin drægjust til samvinnufélaganna. Það væri hin heilbrigða og rétta pólitík í verðlagsmálum, og það er vissulega rétt hjá þeim, að það væri ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að viðskiptin drægjust til þeirra aðila, sem selja ódýrast, hvort sem það eru samvinnufélög eða önnur. En mér skilst, að með þessari fullyrðingu hæstv. fjmrh. sé staðfest, að hér hafi Sambandið ekki gætt hófs eða kaupfélögin hafi brugðizt sinni skyldu og ríkisstj. telji, að það megi nú lækka stórkostlega þessar álögur á almenning, sem þarna er um að ræða, og er vissulega mjög eftirtektarvert að heyra það.

Það er svo annað, sem bent hefur verið á, sem ætti að vera til mikilla hagsbóta, það er þessi stóreignaskattur, sem ég minntist á áðan. Það er nú dálítið einkennilegt út af fyrir sig, þegar þess er gætt, hvaða aðilar standa að þessum málum, að allar þær ráðstafanir, sem eiga að snerta gróðann í þjóðfélaginu, sem þeir tala um, eiga að bíða, en það á að byrja með hinum almennu álögum á alþýðuna. Það er dálítið einkennilegt a. m. k. miðað við þær till., sem þeir lögðu hér fram á síðasta þingi.

Svo er aðeins eitt atriði, sem mér fannst vera mjög eftirtektarvert og hefur grundvallarþýðingu, en það er sú yfirlýsing hæstv. fjmrh. hér áðan, sem hann lagði mikla áherzlu á, að ástæðan til þess, að Framsfl. hefði talið ógerlegt að vinna með Sjálfstfl. og teldi nú svo dæmalaust gott viðhorf, eins og sakir stæðu nú, væri það, að Framsfl. og Alþfl. hefðu ekki getað tryggt sér fylgi verkalýðssamtakanna, það hefði þessi ríkisstj. gert, og hann bætti því við, sem ég held að ég hafi tekið rétt eftir, að leið sú, sem verkalýðssamtökin vildu fara í þessu, væri alltaf bezta leiðin. Þessu held ég að ég hafi tekið rétt eftir. Þetta eru mjög eftirtektarverð ummæli, bæði vegna þess, að eftir að þessu er yfir lýst, sýnist mér í raun og veru vafasamt, hvað við og hæstv. ríkisstj. höfum að gera, hvort það væri ekki miklu einfaldara að láta hæstv. félmrh. og félaga hans uppi í Alþýðuhúsi taka við þessu öllu saman, ef það er alltaf bezta leiðin, sem þeir vilja fara, og sú eina, sem til farsældar getur horft. Og í annan stað, ef þetta er skoðun hæstv. fjmrh., þá verður því alvarlegri hlutur framsóknarmanna og Alþfl., sem beinlínis hafa valdið því, að þessi voldugu samtök, sem þeir telja að ein geti öllu ráðið, eru nú í höndum kommúnista. Þessu er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir. Það var hægurinn hjá að tryggja allt aðra forustu í Alþýðusambandi Íslands. Ef lýðræðisflokkarnir hefðu staðið þar saman, hefðu þeir auðveldlega getað farið þar með sigur af hólmi. Það fór hins vegar svo, að þeir forustumenn þessara flokka a. m. k., sem eru í ríkisstj., lögðu á það mikla áherzlu og beittu til þess öllum sínum áhrifum að tryggja, að fylgismenn þeirra í verkalýðsfélögunum styddu kommúnista til áhrifa, og það gekk jafnvel svo langt, að Framsfl. lánaði flokksskrifstofu sína undir baráttu kommúnista í einu verkalýðsfélagi, svo náin voru tengslin þar á milli.

Ég held, að ef menn íhuga þetta niður í kjölinn, þá verði öllum ljóst, hversu frámunalega ógætilega hefur hér verið á málum haldið, ef það er sem sagt skoðun hæstv. ríkisstj., að alþýðusamtökin og forustumenn þeirra á hverjum tíma séu það afl, sem eigi að marka stefnuna og móta hana, að þá skuli þeir jafnframt eiga hlut að því og bera á því ábyrgð, að þessi samtök eru í höndum kommúnista í dag. Með þessu móti hafa þeir tryggt, að það eru kommúnistar, sem hafa öll tögl og hagldir í sambandi við líf þessarar stjórnar. Þeir hafa að vísu fórnað miklu, þeir hafa látið undan í mörgum málum og kingt mörgum sínum fyrri fullyrðingum, frá því að þessi ríkisstj. var mynduð, og skal ég ekki rekja þá sögu hér, hún er öllum kunn. En síðasta yfirlýsing Alþýðusambands Íslands um það, að hún ætli að veita ríkisstj. starfsfrið um sinn, er alvarleg áminning til ríkisstj. um það og vísbending, hverjir telja sig hafa líf hennar í hendi sér og hverjir telja sig hafa hin raunverulegu völd.

Ég skal ekki á þessu stigi fara að ræða um afstöðu mína sérstaklega til þessa máls. Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri eiginlega merkilegt og sýndi ábyrgðarleysi, að Sjálfstfl. skyldi ekki lýsa hrifningu yfir því, að samvinna hefði tekizt um þá löggjöf, sem hér liggur fyrir. Það er vissulega alltaf gleðiefni, þegar vandamál leysast, og það er mikið gleðiefni, ef útflutningsframleiðslan getur gengið af fullum krafti, — það veit ég að allir sjálfstæðismenn taka undir. En varðandi það atriði, hvort eigi sérstaklega að vera hrifning út af þessu frv., sem hér liggur fyrir, það er önnur saga. Í fyrsta lagi er það, að enn er allt á huldu um það, hversu endingargott það samkomulag er, sem talið er hafa verið um þetta mál, og í annan stað, eins og ég áðan sagði, er þetta mál svo óljóst, að það er gersamlega ómögulegt að gera sér grein fyrir því, hvað hér er raunverulega um að ræða. Ég veit t. d. ekkert um það, hver hefur áætlað tekjurnar af þessum sköttum og tollum, sem hér er gert ráð fyrir, en ég þekki hæstv. fjmrh. það vel að gætni, — og ég býst við, að hann hafi mjög átt hlut að því að áætla þetta, — að ég þykist nokkurn veginn viss um, að það muni heldur vera nokkrum milljónatugum of lágt heldur en of hátt áætlað. Enn fremur er ómögulegt að gera sér grein fyrir því, a. m. k. á þessu stigi, hvernig þetta leggst á hina ýmsu vöruflokka. Og þó að við vitnum hér í það, sjálfstæðismenn, að hér séu í mörgum atriðum farnar troðnar slóðir og gersamlega um bráðabirgðaúrræði að ræða og margt af því beri keim af því, sem áður hafi verið gert, þá er alls ekki þar með sagt, að það þurfi endilega að leiða til þess, að við séum ánægðir með málið, eins og það liggur fyrir hér. Það gefst tími til þess síðar í þessum umr., eftir að búið er að kanna það í n., að gera sér frekari grein fyrir því, en á þessu stigi þarf engan að undra það, þó að við höfum fullkominn fyrirvara um afstöðu til málsins, þótt við hins vegar viðurkennum fyllilega þá mikilvægu nauðsyn, sem er að efla útflutningsframleiðsluna sem mest og tryggja það, að hún stöðvist ekki.

Við komumst hins vegar ekki hjá að benda á það, sem blasir við allri þjóðinni, að hæstv. ríkisstj. hefur gefizt upp við þann vanda, sem við var að glíma, hún hefur gefizt upp við að finna þau varanlegu úrræði, sem hún lofaði, þegar hún var stofnuð, og var m. a. efnt til kosninga til þess að auðið væri að koma fram. Hún hefur gersamlega horfið frá þeirri stefnu sinni, að það væri hægt með einhverjum sérstökum ráðum, einhverri leið, sem aldrei fékkst að vísu talað um, að lækna þennan vanda. Okkur sjálfstæðismönnum kemur ekkert á óvart, þó að það hafi reynzt erfitt, því að það eru engin leynivopn til í þessu máli. En hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar þóttust hafa einhverju slíku leynivopni á að skipa. Og það er útilokað annað en að við vekjum athygli á því. Þótt við gerum okkur fyllilega ljósa hættuna af þeirri verðhækkun, sem leiðir af kauphækkunum, þá fer ekki hjá því, að við hljótum að benda á það, hvernig þessi ríkisstj. hefur tekið upp gersamlega önnur vinnubrögð en þeir flokkar a. m. k., sem telja sig verkalýðsflokka innan stjórnarinnar, hafa hingað til haldið fram og meðal annars ráðizt á Sjálfstfl. fyrir. Þetta er auðvitað óhjákvæmilegt að benda á, því að það virðist sýnt, að þessir flokkar hafa fyrst og fremst haft áhuga á að tryggja sér setu í ríkisstj., en ekki endilega að halda fast við þær kenningar, sem þeir hafa talið einar geta leitt til aukinna kjarabóta fyrir alþýðu manna. Og það er sérstaklega eftirtektarvert, þegar þessum flokkum tekst að fá nokkra forustumenn sína í verkalýðsfélögunum til að lýsa því yfir, að 250 millj. kr. tollahækkun sé leið til þess að bæta lífskjör þjóðarinnar og jafnframt auka kaupmátt launanna. Það er mjög merkilegt fyrirbrigði.

Ég held, eftir að öll þessi atvik eru athuguð og eftir að sýnt er, hversu gersamlega þjóðin hefur verið blekkt í síðustu kosningum af þessum flokkum, að þá sé það eðlileg afleiðing, sem hv. þm. G-K. benti hér á í sinni ræðu áðan, að það væri efnt til nýrra kosninga, til þess að þjóðinni gæfist kostur á að meta þessi mál á grundvelli þeirra efnda, sem orðið hafa á loforðum hv. stjórnarflokka. Og mér sýnist, að þetta frv. sé þannig úr garði gert, miðað við fyrirheitin og loforðin, að það ætti að mega taka undir það, sem hæstv. núverandi menntmrh. sagði í nál. sínu, þegar dýrtíðarráðstafanirnar og framleiðslusjóðsfrv. var til meðferðar hér fyrr á árinu, að stefna sú, sem núverandi stjórnarflokkar grundvölluðu samstarf sitt á, hefur því beðið algert skipbrot, og það mætti jafnframt bæta því við, sem þessi sami hæstv. núv. ráðh. sagði við sama tækifæri, að það eina, sem ríkisstj. gæti gert, ef hún vildi sjá sóma sinn, þegar þannig væri komið, væri að biðjast lausnar.