20.12.1956
Neðri deild: 39. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég flutti ásamt tveimur öðrum hv. deildarmönnum, þm. G-K. og þm. Snæf., frv., þar sem lagt var til, að dráttarvélar og vélar í fiskiskip skyldu undanþegnar öllum aðflutningsgjöldum. Ég gerði grein fyrir því þá, að innflutningsgjöld á þessum vélum væru um 30% eða rúmlega það, auk þess sem goldinn er af þeim þungaskattur. Ég gerði enn fremur grein fyrir því, að hér væri um svo þýðingarmikla hluti í búskap Íslendinga að ræða, bæði til lands og sjávar, að óeðlilegt væri að hamla kaupum manna á þessum þörfu áhöldum með svo þungum innflutningstollum, og ég gerði enn fremur grein fyrir annarri afleiðingu og öfugþróun, sem leitt hafði af þessu og í sambandi við það, að farið var að skipta um vélar í bátum erlendis, því að þegar þær voru fluttar til landsins með þeim hætti í bátunum, þurfti ekki neinn skatt af þeim að greiða.

Nú virðist mér samkv. því frv., sem nú er hér til umræðu um útflutningssjóð, að ekki horfi vænlega um framgang þessa frv., því að einn liðurinn í þessu stóra og margbrotna frv., sem mjög er erfitt að henda reiður á, eins og hér hefur komið fram, er að hækka nú enn nokkuð skatt á þessum vélum, bæði á bátavélunum og líka á dráttarvélunum. Þetta er þó ekki í stórum stíl gert, en af þessu má nokkuð ráða, hversu ástatt muni verða um afstöðu til þess frv., sem ég ásamt tveimur öðrum flutti hér á þinginu, þar sem að þessu frv. um útflutningssjóð standa þrír stjórnmálaflokkar í landinu, sem vitanlega ráða úrslitum allra mála á Alþingi.

Ég hef nú borið hér fram brtt. við þetta frv. að því er snertir bátavélar og dráttarvélar. Tilgangurinn með þeim er sá að hefta frekari skattaálagningu á þessar vélar og að láta koma fram í sambandi við þær þá skattalækkun, sem felst í niðurfellingu framleiðslusjóðsgjaldsins. Þetta er þá sá tilgangur, sem ég vildi hér hreyfa og þreifa fyrir mér um, hvort ekki væri hægt að fá samkomulag um í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Samkv. þessu frv. um útflutningssjóð koma aðflutningsgjöld í nýju formi á dráttarvélarnar, þ. e. yfirfærslugjald, sem er 16% samkv. 15. gr. þessa frv., en bátavélarnar falla undir ákvæði E-liðar í 27. gr., en þessi 11% ákvæði þar jafngilda 15% á yfirfærslugjaldinu. Þetta hefur hagstofustjóri athugað fyrir mig og gefið mér um þetta upplýsingar. Nú er fellt niður, eins og ég gat um áður, framleiðslusjóðsgjaldið, en það er á þessum vélum 9.9%. Hækkunin verður þá frá því, sem nú er, á dráttarvélunum 6.1% og á dráttavélunum 5.1%. Þessi hækkun bætist þá við þau gjöld, sem nú hvíla á þessum vélum, eftir að framleiðslusjóðsgjaldinu hefur verið aflétt. — Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að skattlagðar verði með 15% vélar, sem settar eru í íslenzk skip erlendis, enda sé þar ekki um nýbyggingu að ræða. Þetta er alveg nýr skattur, af því að áður hefur ekki hvílt neitt innflutningsgjald á þessum vélum, eins og kunnugt er og ég hef hér lýst. Hér er um 15% skatt að ræða, svo framarlega sem hann verður ekki endurgreiddur, en til þess er heimild í þessu frv., gagnstætt því, sem er um bátavélar, sem fluttar eru inn, því að þar er því slegið föstu, að skatturinn af þeim, þ. e. yfirfærslugjaldið, 16%, skuli verða endurgreiddur.

Sú leið, sem ég hef þá valið til þess að koma þessu fram, að standa á móti frekari hækkun á þessu og að láta falla á vélar þessar þá lækkun á skatti, sem leiðir af niðurfellingu framleiðslusjóðsgjaldsins, er eins og brtt. við 16. gr. hermir, sem fjallar um undanþágu frá yfirfærslugjaldi samkv. 15. gr. Eru þar taldar gjaldeyrisgreiðslur, sem fella á undan. Ég legg þess vegna til, að upp í þessa upptalningu á eftir 71. kafla A-liðar komi dráttarvélar, sem falli þannig undan þessum skatti, þ. e. yfirfærslugjaldinu. En að því er snertir bátavélarnar, þá hef ég lagt hér til við 27. gr., þ. e. E-liðinn, að í stað nr. 10–21 í 72. kafla kemur nr. 10–21 og bátavélar í nr. 30 í 72. kafla tollskrárinnar. Með þessum hætti falla dráttarvélarnar undan ákvæðum yfirfærslugjaldsins og bátavélarnar falla undan ákvæðum E-liðar í 27. gr.

Ég skal aðeins bæta því við í sambandi við það, sem ég hef áður sagt um þetta, að hér er um mjög þýðingarmiklar vélar og tæki að ræða fyrir útflutningsatvinnuvegina, sjávarútveg og landbúnað. Nú eru fiskveiðar allar stundaðar hér við land á vélbátum og togurum og er yfirleitt ekki neinu skipi fleytt út á fiskimið öðruvísi en að það sé vélknúið. Þetta er undirstöðuatriði í fisköfluninni í landinu og öflun þess gjaldeyris, sem við nú þurfum að nota til okkar þarfa og til þess að mæta okkar þörfum og öllu því mikla og margbrotna uppbyggingarstarfi, sem við stöndum að í þessu enn þá hvergi nærri fullnumda landi. Um dráttarvélarnar er það hins vegar að segja, að þær eru undirstöðuatriði í fyrsta lagi allra ræktunarframkvæmda í þessu landi, og þær eru nú orðið undirstöðuatriði allra vegagerða í þessu landi, auk þess eru dráttarvélarnar langsamlega stærsta aflið nú orðið, sem bóndinn beitir fyrir sér við heyöflun og yfirleitt allt, sem lýtur að framleiðslu og því að koma framleiðslunni á markað. Þetta byggist að langsamlega mestu leyti nú orðið á dráttarvélum. Það má því af þessu sjá, hve varhugavert það er að beita eins ströngum innflutningstollum og hér er gert við kaup á þessum nauðsynlegu vélum.

Við hv. 2. þm. Skagf. erum í þessum brtt. okkar ekki stórtækari en það, að við leggjum til, að aðeins 1/3 hluti allra innflutningsgjalda á þessar vélar, eins og nú er, verði felldur niður. Við stígum nú ekki stærra spor í þessum tillögum. En ég vildi þreifa og við á þessu máli þannig, hvort það væri ekki fyrir hendi skilningur hér á því að ganga ekki lengra en gert hefur verið í innflutningsgjöldum eða skattaálagningum á þessar vélar og hvort ekki væri hægt að fá nokkurn bilbug á því, að þeirri þörf yrði lítils háttar mætt að slaka nokkuð til á þessum háu innflutningsgjöldum.

Ég vil enn fremur í sambandi við þessa hækkun á bátavélum beina því til hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega sennilega til hæstv. fiskimála eða sjávarútvegsmálaráðherra, hvort það væri í samræmi við þann samningsgrundvöll, sem lagður hefur verið við útvegsmenn í þessu landi, að skattur á bátavélarnar yrði hækkaður. Ég hef hér í höndum afrit af þessum grundvelli. Ég fullyrði ekki, hvort það er afrit af því, sem endanlega var fundið sem niðurstaða í þessum samningum. Þó hygg ég, að svo muni vera. Þetta mun vera bréf frá hæstv. sjútvmrh. til þeirra manna, þ. e. a. s. til samninganefndar Landssambands íslenzkra útvegsmanna, dags. 18. des. 1956. Þar stendur í 14. lið:

„Ekki er fyrirhugað að leggja ný gjöld á aðalrekstrarvörur bátanna né innfluttar fiskibátavélar og fiskiskip.“

Mér skilst því, að sú hækkun, sem hér er um að ræða á skatti á bátavélarnar, sé í ósamræmi við þá yfirlýsingu, sem hér er gerð, og vildi ég þá, um leið og ég mæli fyrir brtt. okkar hv. 2. þm. Skagf., vekja athygli á þessu og þá fyrst og fremst þeirra aðila, sem að þessum samningum við samninganefnd Landssambands ísl. útvegsmanna standa.

Eins og ég tók fram, er lagður hér nýr skattur á vélar, sem settar eru í báta erlendis, en hins vegar er heimild til að fella þann skatt niður. En ef sú heimild er ekki notuð, þá er í viðbót við þá hækkun á skatti, sem ég gerði hér grein fyrir, 5.1%, skattur á bátavélar hækkaður um 15% samkv. útreikningi hagstofustjóra á því, hvernig þessi E-liður kæmi fram í sambandi við þessar vélar. Það, sem hér er talið vera 11%, samanborið við yfirfærslugjaldið, samgilti því að vera 15%, og er ekki að draga í efa, að hjá hagstofustjóra, jafnglöggum manni og ábyggilegum um alla útreikninga, muni vera rétt með farið.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál og ekki fara að ræða hér almennt um það. Það hefur verið gert, og það hafa mismunandi sjónarmið komið fram. En hitt var mér ljóst, þegar ég fór að athuga um þessar brtt., hvílíkt dæmalaust völundarhús þetta frv. er, og sá, sem hættir sér inn í moldviðri 27. gr., veit það ekki, a. m. k. ekki fyrir fram, hvenær hann kemst út aftur.