20.12.1956
Neðri deild: 39. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er nú orðið upplýst, að í því frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu og ætlunin er að koma í gegnum Alþ. á þremur dögum, er ráðstafað gjöldum á almenning sem svarar a. m. k. 500 millj. kr., og þar af eru nýjar álögur a. m. k. í kringum 240 millj.

Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að það væri engin nýjung, að slík frv. hefðu áður verið drifin í gegnum Alþ. með jöfnum hraða eins og ætlað er um þetta frv., og taldi, að á okkur sjálfstæðismönnum sæti ekki að finna að slíkri meðferð, þar sem við hefðum sjálfir átt sem þátttakendur í ríkisstj. fullan hlut að þvílíku áður. Ég fullyrði, að aldrei hefur neitt sambærilegt átt sér stað. Ég fullyrði, að aldrei fyrr hefur nokkurt eitt frv. fólgið í sér neitt svipaða gjaldabyrði á Íslendinga eins og ákveðið er með þessu frv. Ég fullyrði, að það er aðeins lítið brot, ¼ eða 1/5 öllu heldur, sem í einu frv. var ákveðinn um síðustu áramót, í janúar, og þá samþ. á fáum dögum hér á Alþingi. Og ég fullyrði, að þá var ekki aðeins um miklu lægri fjárhæð að ræða, heldur var það frv. allt í sinni uppbyggingu og frágangi miklu einfaldara og ljósara en það frv. er, sem hér er til umræðu, því að það er sízt orðum aukið, sem sá þm., sem lengst hefur verið á Alþ. allra Íslendinga frá upphafi, hv. þm. Borgf., sagði hér áðan, að hver sá, sem ætlar sér inn í þótt ekki sé nema myrkviði einnar greinar, kemur þaðan seint út aftur. Og það var aðeins ein grein, sem hann talaði um. En þær greinar, sem óskiljanlegar eru mennskum mönnum, eru ekki ein, heldur margar í þessu frv., því að það er fullkomin staðreynd, að eftir frv. er ómögulegt að átta sig á, hvaða hlunnindi bátaútvegurinn á að fá.

Ég fullyrði, að þetta sé gert af ásettu ráði til þess að dylja bæði Alþ., almenning og útgerðarmennina sjálfa þess, hvað þeim er ætlað. Það er ekki mitt að segja til um, hver tilgangur þess skollaleiks er, en feluleikurinn dylst engum.

Ég hef aldrei verið hræddur við að ætla útveginum eða útgerðarmönnum það, sem þeir þurfa, til þess að atvinnurekstur þeirra sé rekinn stöðvunarlaust og þannig, að þeir, sem við hann starfa, hvar í fylking sem er, beri hæfilegt úr býtum og séu ekki verr staddir en aðrir sambærilegir menn í landinu. En ef menn eiga að greiða atkv. um tilteknar ráðstafanir tilteknum atvinnuvegi til framdráttar, þá er það minnsta, að þeir, sem eiga að rétta upp höndina því til styrktar, fái fullnægjandi grg. um, hver framlögin eru og á hvaða rökum þau framlög eða tillögurnar um þau framlög séu reist. Það hefur algerlega verið vanrækt við framlagningu þessa frv. að gera grein fyrir þessu, og hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til þess enn að svara ýtarlegum og mjög málefnalegum spurningum þess efnis, sem hv. þm. G-K. bar fram hér í gær.

Það kann að vera rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan og var búinn að segja hér áður í þingsalnum í dag, að þetta frv. hefði hlotið rækilega meðferð hjá ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar. Vel má vera, að svo sé og að þeir viti, hvað í frv. felst. Það hefur þó komið í ljós og sannazt á nefndarfundum í fjhn., að því er þeir segja, sem þar hafa verið, að mjög hefur stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. vafizt þar tunga um tönn um það, hvað í einstökum ákvæðum frv. felist. Ef það er svo ljóst sem þessir herrar vilja nú vera láta, af hverju er þá ekki hinum einföldu og greinargóðu spurningum, sem hv. þm. G-K. bar fram í gær, skýlaust svarað? Af hverju eru svörin annaðhvort alger þögn eða ósæmilegur útúrsnúningur, eins og hæstv. sjútvmrh. lét sér sæma að viðhafa hér í gærkvöld.

Hæstv. fjmrh. var að setja ofan í við mig fyrir það hér í umræðum í dag, að ég hefði gerzt svo djarfur að hverfa héðan af þingfundi til þess að tala um þetta mál í stærsta stjórnmálafélagi landsins í gærkvöld. Hæstv. ráðh. sagði, að það færi illa saman, að við sjálfstæðismenn töluðum um það hér í Alþ., að þetta frv. væri að mörgu leyti óljóst, en værum þó að fara til þess að skýra það fyrir öðrum. En þeim mun óljósara sem frv. er, þeim mun meira þurfa menn að leggja sig fram um skýringarnar. Og það er einnig frásagnarvert og skýringarvert, að hæstv. ríkisstj. skuli leyfa sér að bera fram annað eins moldviðri í frv. og myrkviði, óskiljanlegt, eins og gert er með því frv., sem hér er fram borið, enda mun áður en yfir lýkur þykja vert að skreppa lengra en hér út í Sjálfstæðishús til þess að tala um þetta mál. Það mun verða umræðuefni, hæstv. fjármálaráðherra, um allt land, áður en yfir lýkur. Engar ráðstafanir ríkisstj. né aðfinningar á Alþingi munu megna að hindra alþm. í framkvæmd skyldu sinnar, þeirrar að láta almenning heyra um þann óskapnað, sem hér hefur fæðzt að tilhlutan hæstv. ráðherra úr Suður-Múlasýslu, sem hingað til hafa ekki talað svo vel hvor um annan, að von væri til, að annað betra kæmi frá þeim, þegar þeir lögðu saman, en slíkt skoffín sem við hér sjáum.

Hæstv. fjmrh. talaði um það áðan, að það færi illa saman, að við segðum að hér væru farnar troðnar slóðir, og þó vildum við ekki styðja þetta frv. Sannleikurinn er sá, að auðvitað hlýtur stuðningur við slíkt frv., jafnlítið skýrt og það er af hálfu hæstv. ríkisstj. og jafnskamman tíma og við höfum til athugunar þess og þingheimur yfirleitt, að jafngilda traustsyfirlýsingu á hæstv. ríkisstjórn. Það væri óverjandi af nokkrum þm. að styðja frv. eftir þá þinglegu meðferð, sem því er ætluð, nema hann með því vildi lýsa trausti á hæstv. ríkisstj. Og ég hygg, að það gengi ærið illa að fá hina svokölluðu stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. til þess að vinna henni traust sitt, ef hugur þeirra væri skoðaður, og svo margir fyrirvarar eru gerðir nú við samþykkt þessa frv., t. d. af hálfu Alþýðusambandsins, að ekki er að búast við því, að við, sem yfirlýstir erum andstæðingar stjórnarinnar og höfum fram að þessu reynzt hafa rétt fyrir okkur í öllum okkar deilumálum við hana og hún fullkomlega rangt, — þess er ekki að vænta, að við förum að nota þetta tækifæri til þess að votta henni traust gersamlega að óverðugu.

Sannleikurinn er sá, að það er auðvitað rétt, að hér eru farnar troðnar slóðir að því leyti, að ekki örlar í þessu frv. á neinum nýjum hugmyndum til lausnar verðbólguvandans. Það má vera, sem hæstv. fjmrh. var að gefa í skyn, að eitthvað annað ætti að koma í öðrum frv., en það er ekki í þessu frv. gert. Hins vegar er í þessu frv. farið miklu lengra á þeirri braut, þar sem vegurinn hefur verið vísaður, heldur en nokkru sinni áður hefur verið gert, og þar er farið miklu lengra en hæstv. ríkisstj. hefur fært eða gert nokkra tilraun til að færa skynsamleg rök að að gera þurfti eða að gagni muni koma. Þegar af þeirri ástæðu er ómögulegt að vera með þessu frv., enda er, að svo miklu leyti sem í því felast nokkrar formbreytingar, t. d. að bátagjaldeyrir er niður lagður, en á er lagt gjald, sem honum svarar, í þessu frv., fyrir utan þær 240 milljónir, sem eru algerlega nýjar í frv., ekki gerð tilraun til þess að rökstyðja, að heppilegra sé að hverfa frá bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu heldur en að halda því. Þegar mál er undirbúið á slíkan veg, þá er vitanlega ekki nokkur möguleiki fyrir þá, sem ekki bera gersamlega blint traust til hæstv. ríkisstj., að styðja málið.

Veilan í rökstuðningi hæstv. ríkisstj. fyrir flutningi frv. kemur berlega fram í því, þegar hæstv. ráðh. segja t. d., og ég skal aðeins víkja að því eina atriði nú, — þeir segja: Það er að vísu rétt, að vöruverð á að hækka vegna þeirra gjalda, sem hér eru á lögð, en sú vöruverðshækkun mun nást aftur og ekki bitna á almenningi, vegna þess að verðlagseftirlit verður sett, sem lækkar vöruverðið sem svarar hækkuninni. — Ef þetta er rétt, hefði þá ekki verið miklu einfaldari leið að byrja með því að koma verðlagseftirlitinu og verðlagningunni á og lækka vöruverðið nú þegar svo mikið, að ekki þyrfti að gera þær hækkanir, sem hér eru ákveðnar?

Af hverju á að hækka verðið fyrst og gefa þessum illu milliliðum, hvort sem það er Sambandið eða kaupsýslustéttin, færi á því að hækka vöruverðið og álagningu í sambandi við það, ef öllu þessu á að vera hægt að kippa aftur með verðlagningunni á eftir? Væri ekki miklu betra að ákveða vöruverðslækkunina umsvifalaust þegar í stað og komast hjá þessari 240 millj. kr. álagningu í nýjum sköttum? Það sjá allir, að hér er um gersamlega veilu í rökstuðningi ríkisstj. að ræða. Vitanlega er þessum mönnum ljóst, að þó að ef til vill verði á pappírnum einhverjar smávegis vöruverðslækkanir vegna verðlagseftirlits, þá er það ekkert, sem neina úrslitaþýðingu hefur varðandi þær 240 millj., sem hér á að leggja á allan almenning, enda hafa stjórnarflokkarnir, og þá ekki sízt Framsfl., lýst yfir því, að bezta verðlagseftirlitið væri, samkeppni Sambands íslenzkra samvinnufélaga og kaupfélaganna við kaupmannastéttina. Af hverju er nú ekki treyst á þetta verðlagseftirlit?

Jú, Þjóðviljinn svaraði þessu fyrir fáum dögum og sagði: Sambandið hefur orðið aftur úr í samkeppni við kaupmennina, vegna þess að forustumenn þess eru „hreinlega ölvaðir af fjárfestingaræði“, eins og Þjóðviljinn sagði. En er þetta skýringin? Er það rétt? Ég spyr hæstv. fjmrh. sem einn af stjórnendum Sambandsins? Er það rétt, að vöruverð almennt hafi hækkað vegna þess, að í verzlunarálagningunni hjá Sambandinu sé tekið fé til hinnar miklu fjárfestingar, sem Sambandið hefur lagt í? Er þess fjár ekki aflað með öðru móti, tekið af eðlilegum sjóðum og með stórkostlegum lántökum?

Hæstv. fjmrh. ræður því, hvort hann svarar þessari spurningu eða ekki. Hún varðar ekki hans starf sem fjmrh., svo að ég hef ekki þinglega kröfu til, að hann svari henni.

En það var annað atriði, sem sker úr um haldleysi rökfærslu Þjóðviljans varðandi þetta atriði, og það er, að kommúnistar, sem Þjóðviljinn er málgagn fyrir, reka hér kaupfélag í bænum, sem stendur í harðri samkeppni við kaupmenn. Þeir ráða KRON, sem sannarlega hefur ekki varið sínu fé til æðisgenginnar fjárfestingar. En hver er niðurstaðan? Á sama tíma og kaupmannastéttin blómgast, vex óeðlilega vegna óhóflegs gróða, að því er sagt er, þá tapar KRON stórkostlegu fé. Bendir þetta til þess, að um óhæfilegan gróða hjá kaupmannastéttinni sé að ræða?

Sannar þetta ekki miklu heldur, að þessar sögur um stórkostlegan gróða hjá verzlunarstéttinni í heild eru að langmestu leyti byggðar á því, að margur hyggur auð í annars garði og verið er að reyna að koma vandræðum þjóðfélagsins yfir á herðar lítils hóps manna, sem talið er tiltölulega auðvelt að gera tortryggilegan?

Ef það væri rétt, að kaupmannastéttin í heild tæki of mikið í sinn hlut, þá væri áreiðanlega búið að jafna þau met með þeirri forréttindaaðstöðu, sem kaupfélögin hafa hér á landi. Þau hafa alla aðstöðu fram yfir kaupmannastéttina til þess að selja vörur með hagstæðu verði, og ef þau verða þar á eftir, þá er það vegna þess, að verzlunargróðinn er minni en látið er.

Það breytir svo ekki þessu, að auðvitað hafa einstakir menn hagnazt fyrr og síðar, bæði á verzlun, viðskiptum og ýmsum öðrum ráðstöfunum, af ýmsum ástæðum, hyggindum, útsjónarsemi, sumir af brasknáttúru og einhverju slíku, sem er miður æskilegt. En hafi, þeir menn haft góðan jarðveg hér að undanförnu, þá mun þeirra garður fyrst blómgast, þegar fimmfalt eða tífalt gengi kemur á gjaldeyrinn og allir þeir möguleikar til þess að fara í kringum ákvæðin skapast, sem hinn margfalda gengi hljóta óhjákvæmilega að fylgja.

Við sjáum og ákaflega vel heilindin í þessu tali um, að það eigi að stöðva óhæfilegan verzlunargróða, og þegar sagt er, að það sé ein af aðalnýjungunum í sambandi við þetta mál, að strangt verðlagseftirlit eigi að koma, og það eigi að taka af þeim ríku og skipta á milli þeirra fátæku, þegar þetta er sagt af sömu mönnunum aðeins viku eftir, að þeir hafa verið að knékrjúpa Sambandi ísl. samvinnufélaga og Olíufélaginu um að láta sér nægja 14 millj. kr. gróða á hinu nýja skipi um fimm mánaða bil, — 14 millj. kr. í hreinan ágóða um fimm mánaða bil. Þessum mönnum eru ekki eins og öðrum landsmönnum settar reglurnar. Það er ekki sagt við Sambandið og Olíufélagið: Komið þið með skip ykkar og siglið þið skipi ykkar hér eins og þið eruð skyldugir til. — Það er ekki sagt við þá: Verðlagsstjóri og ríkisstj. ákveða, hvað þið eigið að borga. — Nei, við þá er samið. Þeir eru beðnir um að koma með skipið, og olíumálaráðh. að austan (LJós) segir: Ég hef verið að semja við þá um þetta, og þeir koma með skipið fyrir mín orð, en það er honum Hannibal að kenna, hvað þeir græða mikið.

Slík er frammistaðan, og það er beint sannað, að vegna óheppilegra afskipta sama ráðh. af einum skipsfarmi skaðaði hann landið um milli 3 og 4 millj. kr. Afskipti hæstv. ríkisstj. hafa hækkað olíuverðið að óþörfu um 17–18 millj. kr. nú á næsta fimm mánaða bili. Í þessu frv. er ráðgert, að það á að leggja á okkur, almenning í þessu landi, 21 eða 22 millj. í skatta til þess að borga niður hækkunina á olíunni. Hefði nú ekki verið nær að spara neytendum þessi útgjöld, spara þarna í einu lagi 18 millj. kr. á fimm mánuðum? Ætli það hefði ekki hrokkið nokkuð langt til þess, að falla hefði mátt frá því að innheimta af okkur öllum 21 millj. kr. í því skyni að leggja stjórninni fé í hendur til þess að geta gefið Sambandi ísl. samvinnufélaga og Olíufélaginu slíkt stórfé sem hér um ræðir, stórfé, sem Þjóðviljinn hefur sagt að alls ekki verði varið til þess að lækka vöruverðið í landinu eða skapa hæfilega samkeppni, heldur til þess, að Sambandið geti haldið áfram æðisgenginni fjárfestingu.

Ég er ósköp hræddur um, að að svo miklu leyti sem nýjungar eru í þeim ráðagerðum, sem nú eru uppi, og vitanlega verður að taka nýjungarnar með, um leið og við metum þetta frv., þá horfi þær ekki til góðs, ekki til aukins réttlætis og ekki til þess, að traust borgaranna á þeirri hæstv. ríkisstj., sem nú situr, aukist.

Hæstv. fjmrh. var að reyna að sýna hér fram á, að það væri ekki um tóm svik að ræða hjá hæstv. ríkisstj. Við munum eftir því, sem lofað var um varanlegu úrræðin, enda var aumingja piltum austur í Árnessýslu hóað saman fyrir skemmstu til þess að samþ., að nú yrðu þær að fara að koma, frambúðarráðstafanirnar í dýrtíðarmálunum, sem leystu þau málefni í eitt skipti fyrir öll. Þetta hefur verið prédikað, svo að það er von, að þessir saklausu unglingar tækju boðskapinn alvarlega og sendu þessa samþykkt frá sér. En ef þeir eru komnir til þess þroska, að þeir skilji mælt mál, blessaðir piltungarnir, þá er hætt við, að þeim hafi brugðið, þegar þeir heyrðu Helga Hjörvar lesa upp boðskapinn í útvarpinu um það, í hverju þessar „frambúðarráðstafanir“, „varanlegu úrræðin“ eru fólgin, vegna þess að meira hrófatildur, meiri bráðabirgðaráðstöfun til bráðabirgða hefur aldrei verið sett á Alþingi heldur en þessi.

Hæstv. fjmrh. var að reyna að bera í bætifláka fyrir stjórnina og vildi ekki viðurkenna, að þetta væri hrein bráðabirgðaráðstöfun. Hann sagði, að það gæti vel farið svo, að ráðstafanirnar gætu orðið til nokkurrar frambúðar. Þetta var það bezta, sem hann þorði að segja um þær, eftir öll loforðin um, að ekki dygði framvegis að afgreiða málin á sama veg og hann og aðrir hafa gert undanfarið, enda sagði hann, að hvorki við né hann hefðum ráðið við málin að undanförnu. Ætli hann hefði ekki getað orðað ósköp svipað í fyrra það, sem hann var með að samþykkja þá, eins og hann orðar þetta núna?

Ég veit raunar ekki, hverja trú hann hefur á þessum samþykktum, sem nú er verið að gera. Hann leyfði sér að segja, að við mundum fagna því, ef þær færu út um þúfur. Ég veit ekki, hvaða heimild hann hefur til þess að segja það, að við mundum fagna því, ef verðbólga mundi aukast. Það er allt annað að gera grein fyrir því, að þetta mál er illa undirbúið og á óhæfilegan hátt lagt fyrir Alþingi Íslendinga og við höfum ekki þá sömu trú á frambúðargildi málsins og hæstv. fjmrh., eða hitt, að hann skuli gera okkur getsakir um það, að við viljum, að illa fari fyrir íslenzku þjóðinni. Ég held, að honum sé sæmra að segja sinn eigin hug skýrar en hann hefur gert um sinn og láta vera getsakirnar í okkar garð. Ég veit, að hæstv. ráðh. er mjög brugðið og það er vegna óróa í hans eigin samvizku, að hann lætur leiða sig til slíkra ásakana, svo hófsamur maður og gegn sem hann að ýmsu leyti er, enda met ég hann mikils og fáa menn meira af mínum andstæðingum. Mér dettur ekki í hug að bera honum það á brýn, að hann vilji illa með þessum till. eða trúi ekki því, sem bann er hér að segja, enda hefur hann allan fyrirvara þar á, þó að honum hafi orðið, það eins og fleirum, að hver dregur dám af sínum sessunaut. Öll þekkjum við söguna um skemmda eplið. Hæstv. ráðh. hefur nú tiltölulega óspilltur lent í návist við hið skemmda epli, svo að nokkurrar varúðar þarf að gæta af vinum hans um að forða honum, áður en of langt líður, úr þeirri hættu, sem hann er í lentur.

Við skulum aðeins athuga það, hvaða trygging er fólgin í því samkomulagi, sem hér er verið að gera. Ég játa, að það er út af fyrir sig og raunar mikils virði að ná samkomulagi um það, ef það næst, sem hér er sagt að náðst hafi, að stöðva verðbólguna og hindra frekari vöxt hennar. En hefur það tekizt með þessu frv. og með þeim samtölum, sem hér hafa átt sér stað? Hefur annað gerzt nú en oft hefur verið reynt áður? Hæstv. fjmrh. var með mér í stjórn á sínum tíma, — stjórn, sem var kölluð fyrsta stjórn Alþfl. á Íslandi undir forsæti Stefáns Jóh. Stefánssonar. Við munum það áreiðanlega báðir, að þá var efnt til stéttaráðstefnu til þess að reyna að leysa verðbólguvandann. Þá var svo mikill vilji að komast að samkomulagi við stéttirnar, að þær voru kallaðar saman og haldnir með þeim fundir og margar ráðstefnur til þess að finna lausn vandans. En þetta entist skammt, og varð tiltölulega lítill árangur af viðleitninni.

Hæstv. fjmrh. man einnig ofur vel, að þegar gengislækkunarlögin voru sett 1950, þá var um einstök atriði í því frv. haft náið samstarf við Alþýðusamband Íslands, og niðurstaðan varð sú, að Alþýðusamband Íslands vildi una frv. gegn vissum breytingum, sem á því voru gerðar, og ég þori að fullyrða, að það var efnislega sízt fyrirvarameira samþykki, sem Alþýðusambandið þá raunverulega veitti gengislækkunarlögunum, heldur en Alþýðusambandið hefur veitt þessu frumvarpi.

Hæstv. ráðh. man líka, að 1951 og 1952 var haft rækilegt samstarf við Alþýðusambandið um hættuna á hækkandi verðlagi; Ég minnist þess, að hv. þm. N-Þ. (GíslG) og hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) voru á þessum árum fengnir til þess sem fulltrúar ríkisstj. að ræða þessi mál við fulltrúa Alþýðusambandsins, sem hafði þá beitt sér fyrir uppsögn samninga að vori til. Þær samningaumleitanir leiddu til þess, að samkomulag komst á um vissar ráðstafanir, sem urðu til þess, að ekki varð af kaupdeilum þá um sinn.

Afstaðan í þessu breyttist hins vegar gersamlega, eins og enginn hefur skýrar tekið fram heldur en hæstv. fjmrh., þegar núverandi hæstv. félmrh. (HV) náði yfirráðum í Alþýðusambandinu. Hæstv. fjmrh. hefur áður vakið athygli á því, að almenningur tók þeirri breytingu á stjórn Alþýðusambandsins með þeim hætti, að ljóst var, að menn skildu, hvað á ferðum var. Þá dró sem sé skyndilega úr eða stöðvaðist algerlega sparifjáraukning hjá landsmönnum um hríð. Þetta er staðreynd, sem hæstv. fjmrh. hefur vakið athygli á einu sinni eða oftar hér á Alþ., svo að ég glögglega man eftir, enda fór hann þar með rétt mál, eins og hann gerði venjulega áður fyrri.

En það er réttlát bending til hæstv. fjmrh. um það, í hvern félagsskap hann er kominn, að alveg sama fyrirbærið eins og varð, þegar hæstv. félmrh. (HV) náði yfirráðum í Alþýðusambandinu, varð nú í sumar, þegar hæstv. félmrh. Hannibal og fjmrh. Eysteinn tóku saman um stjórn landsins. Fólkið í landinu brást við þessu hvoru tveggja alveg á sama veg. Okkur hafði tekizt að yfirvinna það vantraust á gildi peninganna, sem skapaðist við valdatöku Hannibals Valdimarssonar og kommúnista í Alþýðusambandinu, þannig að sparifjáraukningin var orðin mikil og hafði aldrei orðið meiri heldur en fyrri hluta þessa árs. En þegar þessir menn tóku við ríkisstj. í sumar, þá skeði sama fyrirbærið og áður hafði orðið, að fólkið hætti að trúa á gildi peninganna, — fólkið hætti að leggja fé í sparisjóð, og í stað þess, að sparifjáreignin stórykist, þá hefur hún stórlega minnkað síðustu mánuðina. Þetta er glöggur mælikvarði. Þetta er glögg vogarskál, sem sýnir traust fólksins á þeim valdamönnum, sem nú eru komnir til áhrifa á Íslandi. Vonandi fer betur en þetta vantraust bendir til. En það er vissulega íhugunarefni fyrir ríkisstj. að athuga hina ósjálfráðu, þegjandi, en í verkinu hart dæmandi vísbendingu, sem almenningur þannig hefur gefið henni um það, til hvers hann treystir henni og við hverju hann býst af því stjórnarfari, sem nú er hafið hér á landi.

Hæstv. félmrh. (HV) sýndi hér á dögunum gersamlega vanþekkingu um áhrif þessa á fjármálaástandið og lausn þeirra mála, sem hann á sérstaklega að standa fyrir, þegar hann brást hinn reiðasti við, þegar á þessa staðreynd var bent og sagt, að hún gerði erfiðara fyrir um útvegun fjár til íbúðarhúsalána. Hann sagði, að það kæmi bara ekkert málinu við, hvort fólkið legði peninga í sparisjóð eða ekki. En ég spyr: Hvernig á að fá fé til fjárfestingar innanlands, án þess að verðbólgu leiði af, ef sparifjársöfnunin hættir? Mér dettur ekki í hug, að maðurinn í félagsmálaráðherrasætinu geti svarað þessu, en ég veit, að hæstv. fjmrh. er ekki svo lengi búinn að vera í þeim félagsskap. sem hann nú er í, að hann muni ekki enn þá hinar réttu kenningar um þetta og viti ekki þau sannindi, að ef sparifjársöfnunin hættir, þá er erfitt að halda áfram framkvæmdum innanlands með innlendu fé, nema til verðbólgu horfi.

Nei, almenningur tók strax með kvíða því, þegar Hannibal Valdimarsson og kommúnistar náðu yfirráðum í Alþýðusambandinu, enda leið þá ekki á löngu, þangað til byrjað var á stórfelldum kauphækkunarherferðum og eins og hæstv. fjmrh. stundum hefur réttilega tekið til orða: „Þeir hófu sig alveg upp af jafnsléttu,“ — þeir hófu herferðina án þess, að nokkurt tilefni væri til. Það er t. d. margsannað, að ástæðurnar, sem voru færðar fyrir því, að lagt var út í verkfallið mikla vorið 1955, voru falsástæður. Í það verkfall var ekki lagt af fjármálalegum ástæðum, heldur af pólitískum ástæðum. Það var verið með því að sýna íslenzka þjóðfélaginu, að ekki væri hægt að stjórna landinu nema með samþykki Alþýðusambandsins.

Það getur vel verið, að sumir trúi á, að það sé gott, að ekki sé hægt að stjórna landinu án Alþýðusambandsins. En gera menn sér grein fyrir, hvað felst í þeim fagnaðarboðskap, sem hæstv. fjmrh. og forsrh. leyfa sér að bera hér fram, þegar þeir segja, að það sé ánægjuefni, að leita þarf út fyrir veggi Alþingis Íslendinga til þess að ráða til lykta mikilsverðustu málefnum þjóðarinnar? Gera þeir sér ljóst, að með því eru þeir í raun og veru að segja, að lög og réttur eigi að hætta að gilda á Íslandi?

Ég geri ekki lítið úr gildi stéttasamtakanna. Þau eru vissulega mikilsverður þáttur í íslenzku nútímaþjóðlífi, eins og þau eru í öllu þjóðlífi nú á dögum. En hverjum verður að ætla sitt hlutverk, og ef við viljum halda lögbundnu, frjálsu stjórnskipulagi á Íslandi, þá verður það að vera ljóst, að úrslitayfirráðin á Íslandi séu hjá kjörnum fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi Íslendinga, hjá löglega kjörnum forseta Íslands og hvergi annars staðar, nema auðvitað að lokum og fyrst og fremst hjá þeim, sem eru uppspretta valdsins, hjá kjósendunum. Það eru íslenzkir kjósendur. sem með því að kjósa Alþingi á lögformlegan hátt og kjósa forseta Íslands á lögformlegan hátt eiga að ráða því, hvernig málefnum þjóðarinnar er ráðið til lykta. Það er uppgjöf, það eru svik við íslenzkt sjálfstæði, við íslenzkt frelsi, við lýðræði á Íslandi, ef það er viðurkennt og ef það er farið að hæla sér af því, að úrslitavöldin séu komin frá Alþingi Íslendinga og til einhverra, hvaða stofnana sem er, utan þessara veggja, sem við erum nú staddir innan.

Til eru fleiri stofnanir og fleiri félagasamtök hér á landi, sem gætu, ef þau vildu, sýnt hnefann og sannað, að ekki væri hægt að stjórna þessu landi nema með þeirra samþykki, jafnt og Alþýðusamband Íslands, ef menn vilja innleiða þá stjórnarhætti, sem guð gefi að ekki verði. En þeir menn bera þunga ábyrgð, sem bera ábyrgð á því og hæla sér nú af því og segjast hafa það eitt nýtt til að leggja, að komið er ískyggilega langt út á þessa braut.

Með því, sem nú hefur verið gert, er staðfest, eins og hv. 5. þm. Reykv. sagði hér fyrr í kvöld, að Framsfl. hefur til þess að öðlast meiri völd en hann gat vonazt eftir í samvinnu við okkur sjálfstæðismenn gert samning við kommúnista. — Í þessu sambandi hefur fylgiféð í Alþfl. sannast sagt enga þýðingu, hvorki til né frá. — Framsfl. hefur gert samning við kommúnista um það að bjarga þeim úr einangrun, úr eymd fordæmingar fólksins, inn í stjórnarráðið til þess að halda þar höfuðstöðvum kommúnismans á Íslandi. Á sömu stundu, á sömu vikum og þessir menn verða fyrir réttmætri og réttlátri fordæmingu í öllum lýðræðisþingum hins frjálsa heims, þá er þeim leyft að slá upp tjaldbúðum sínum innan þessara gömlu, fornhelgu múra og í stjórnarráðinu til þess þannig að sleppa úr einangruninni, til þess þannig að geta haldið áfram að vera hið sundurgrafandi og niðurbrjótandi afl í íslenzku þjóðlífi. Slíkt er verðið, sem borgað er fyrir það samkomulag, sem nú hefur komizt á. Kommúnistar fara meira að segja ekki dult með það, að það er þetta verð, sem borgað er. Um þetta vitna orð Eðvarðs Sigurðssonar, sem Þjóðviljinn hermdi á þriðjudaginn var, á þá leið, að verkalýðurinn væri út af fyrir sig mjög óánægður með þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera, en þeir vildu ekki steypa núverandi ríkisstjórn.

Það er þetta, sem um er samið í raun og veru. Kommúnistarnir segja: Í því skyni að fá að vera í ríkisstjórninni enn um sinn erum við reiðubúnir til þess að leggja á almenning þessar 240 millj. kr. og vísítöluskerðingu um 6 stig. — Þeir mundu vera til með í dag að fallast á hvaða álögur sem er, bara ef þeir héldu þeim möguleika að hafa skjól í stjórnarráðinu og á Alþingi, meðan hættan gengur yfir. En þeir taka jafnframt fram, að ef þeim líkar ekki, þá eiga þeir „opna hina gömlu leið“. Ef þeim líkar ekki þjónslund hæstv. fjmrh., ef hann lætur einhvern tíma verða úr hótunum, sem hann hefur verið með bak við tjöldin undanfarna daga, er hann hefur sagt, að með þessum mönnum væri ekki vinnandi, af því að engu þeirra orði væri trúandi, þá segja þeir: Leiðin er opin fyrir áframhaldandi verkföll.

Játa verður þó, að munurinn er sá, að kommúnistar hafa viðurkennt með öllum sínum málflutningi, að þegar þeir halda því fram, að vísitöluskrúfan og eilífar kauphækkanir séu verkalýðnum til góðs, þá eru þeir að tala á móti betri vitund. Þegar þeir eru að egna til pólitískra verkfalla, þá eru þeir að efla sína eigin valdaaðstöðu á móti hagsmunum almennings. Fyrir þessu hefur nú fengizt játning. Þess vegna er núverandi ófremdarástand e. t. v. nauðsynlegt í þróun íslenzkra stjórnmála, því að vá lér vits og menn læra af biturri reynslu. Kommúnistar — og fyrir framan mig situr einn þeirra eins og glottandi náhrafn — vinna nú sjálfir drýgsta verkið við að afhjúpa sjálfa sig. Almenningur á eftir en áður miklu hægara með að átta sig á, að þeir eru að berjast fyrir annarlegu málefni, að þeir eru að auka sín eigin völd, að þeir eru að efla baráttu fyrir því að kollsteypa þjóðfélaginu, þegar þeir tala um og þykjast vera að berjast fyrir hagsmunum fólksins. Þessi lærdómur hefur nú áunnizt, og hann er vissulega ómetanlegur.