20.12.1956
Neðri deild: 39. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér kemur dálítið undarlega fyrir sjónir sá tónn, sem er í ræðum hv. Sjálfstfl. þm. nú. Það er allt í einu eins og þeir hafi alveg umskapazt. Þeir ern farnir að bera slíka umhyggju fyrir almenningi, að þeir eru jafnvel farnir að tala um, að lífskjörin megi ekki skerðast, og þegar verið er að ræða þetta frv., þá láta þeir í ljós ótta við, að það skyldi þó aldrei vera, að lífskjörin kynnu að skerðast með þessu? Hvílík ósköp !

Sömu ræðunni, sem einn hv. þm. Sjálfstfl. áðan, hv. 1. þm. Reykv. (BBen), var að halda hérna, þegar hann byrjaði með allri umhyggjunni fyrir almenningi, lauk hann með því að segja, að almenningur hér í Reykjavík og annars staðar hefði framið aðra eins ósvífni og að leggja til verkfalls, þegar búið var að skerða lífskjör hans um 20% frá því 1947 og það hvað snertir kaup á almennustu nauðsynjavörunum eftir gömlu, vitlausu vísitölunni, sem hv. 9. landsk. (ÓB) var að tala hérna um áðan, og án þess að húsaleigan væri reiknuð þar með. Þetta er nú umhyggjan fyrir almenningi í byrjun ræðnanna og í lok ræðnanna hjá hv. þingmönnum Sjálfstfl.

Nei, ég er hræddur um, að það sé eitthvað annað, sem vakir fyrir hv. þm. Sjálfstfl., þegar þeir eru að tala um umhyggjuna fyrir almenningi og óttann um, að það kynni að verða einhver lífskjaraskerðing af þessu. Ég vil láta þá vita það, að hvað lífskjaraskerðingu snertir, þá skulu þeir treysta þeim aðila, sem hingað til hefur gætt þess eins og hann hefur getað, að hans lífskjör væru ekki skert, og það eru verkalýðssamtökin. Það þýðir ekkert fyrir þá að koma hérna núna og ætla að fara að láta eins og það væru þeir, sem hefðu afstýrt því á undanförnum árum, að lífskjörin væru skert. Þvert á móti. Það er ekki nóg með, að þeir hafi samþ. framleiðslugjaldið í fyrra. Þetta gekk svona ár eftir ár: Bátagjaldeyrir, söluskattur, gengislækkun. Fluttu þeir ekki hvert einasta ár nýjar álögur og nýja bindingu á þjóðina, nýja og nýja skerðingu lífskjara? Nei, ég er hræddur um, að það sé dálítið annað, sem vakir hérna fyrir. Og mér finnst það satt að segja, þegar þm. Sjálfstfl. eru búnir að halda þær ræður, sem þeir hér hafa haldið, og koma ekki fram með eina einustu till. í sambandi við þessi mál, ekki eina einustu till. um aðra lausn, en spyrjast fyrir um, hvort útlendingar hafi ekki látið ljós sitt skína, hvort það sé ekki einhvers staðar eitthvert álit frá einhverjum útlendingum. Ja, hvernig var það seinast, þegar við fengum álit frá útlendingum? Hvernig var seinast, þegar t. d. Alþjóðabankinn sendi álit, og Sjálfstfl. varð voðalega glaður og skellti því áliti í eitt stórt og mikið frv.? Hann fór þá einn með stjórn í landinu. Jú, ráðið var gengislækkun. Var það þess vegna, sem var verið að auglýsa eftir, hvort það væru ekki einhverjir útlendingar, sem vildu eitthvað ráðleggja núna, og hv. Sjálfstfl. langaði til þess að sjá framan í það, hvort það væri ekki hægt að fá einhverja svipaða sendingu og 1950 frá Alþjóðabankanum.

Ef sá draumur Sjálfstfl. hefði rætzt, sem þeir alltaf virðast vera að harma nú að ekki skuli hafa rætzt hjá þeim, að Sjálfstfl. hefði setið hér í ríkisstj. í stað t. d. Alþýðubandalagsins, þá er ég hræddur um, að ráð Sjálfstfl. hefðu verið þau að lækka gengið um 40–50–60%, og mikið má vera, ef það hefði ekki komið kaupbinding í viðbót. Ég held þess vegna, að Sjálfstfl. ætti alveg að gera sér ljóst, að það, sem er að gerast í dag með því frv., sem hérna er, er fyrst og fremst það, að það er verið að afstýra því, að það verði gengislækkun í landinu. Það er verið að hindra gengislækkun upp á 40–50%, sem Sjálfstfl. eftir útlendum leiðbeiningum hefði skellt yfir þjóðina, ef hann hefði staðið í þeim sporum í stjórninni, sem Alþýðubandalagið stendur í nú. Og við skulum um leið gera okkur ljóst, hvað það hefði þýtt, ef slík von Sjálfstfl. hefði rætzt. Það var gengislækkun 1950, og það hefði orðið gengislækkun núna, og það hefði orðið gengislækkun fimmta hvert ár með slíku áframhaldi, vegna þess að þá varð fyrst verðbólgubröskurum Sjálfstfl. fullnægt og þá var helzt von til þess, að það tækist smám saman að rýra þannig lífskjör almennings, að hann hefði ekki við að berjast fyrir því að bæta þau.

Ég held þess vegna, að Sjálfstfl. verði að reyna að setja sig í þau fótspor, meðan hann þorir ekki sjálfur að koma fram með neinar till. um þetta, að verkalýðurinn liti svo á, að með þeim tillögum, sem verið sé að framkvæma núna, sé þó a. m. k. verið að koma í veg fyrir gengislækkun upp á 40–50%, sem ekki hefði verið hægt að afturkalla, því að hver ný gengislækkun, sem yfir Ísland dynur, er hlutur, sem er gerður, og það verður ekki hægt að hækka það gengi á eftir.

Hitt er gefið mál, að til lausnar á þeim almennu efnahagsmálum, sem fyrir okkar þjóð liggur að leysa, þarf náttúrlega miklu meira en þetta frv., sem hér er. Það er öllum ljóst, sem um þau mál hugsa. Ef við ætlum að reyna að laga okkar þjóðlíf þannig, að það geti verið undirstaða bæði undir góðum lífskjörum og undir þeirri gífurlegu fjárfestingu, sem okkar þjóð þarf, vegna þess að hún hefur tekið við lítt numdu landi og okkar kynslóð er að byggja það upp, þá þurfum við að gera margar ráðstafanir í okkar efnahagsmálum, sem taka nokkurn tíma. Fjárfesting upp á 1200 millj. kr. á ári hjá þjóð, sem hefur 3500 millj. kr. tekjur, er svo gífurleg fjárfesting, að það eitt mundi hálfkaffæra þjóðfélagið efnahagslega, ef ekki væri hugsað um að byggja undirstöðuna betur en gert hefur verið undanfarin ár. Það er þess vegna vitanlegt, að til þess að koma efnahagslífinu í það horf, sem það þarf að vera, þarf í fyrsta lagi að stórauka framleiðslutækin. Það þarf að fá mikla og góða undirstöðu undir öll þau lífskjör, sem við viljum byggja á, togara, verksmiðjur, fiskiðjuver, báta og annað slíkt, og það er þetta, sem hefur verið vanrækt undanfarin átta ár, sem Sjálfstfl. hefur verið í ríkisstj. Það hefur ekki verið keyptur einn einasti togari í átta ár til landsins, meðan keyptir hafa verið og fluttir inn 5000 bílar. Það er þannig, sem hefur verið vanrækt að byggja þá undirstöðu undir allt okkar efnahagslíf, sem við þurfum á að halda, ef hún á að bera þá miklu yfirbyggingu, sem við höfum hlaðið á hana. Og það þarf í öðru lagi að koma skynsömu skipulagi á framleiðsluna sjálfa, þannig að það sé ekki gegndarlaust arðrán ýmissa einokunaraðila eða sá dýri glundroði, sem við reynum ekki sízt í sambandi við verzlunina. Það þarf að koma á slíku skipulagi, að það sé hægt að útrýma braskinn, í staðinn fyrir að gera það stórkostlegra með hverju árinu sem líður. Og það þarf jafnhliða öllu þessu að koma á réttlátri skiptingu þjóðarframleiðslunnar, þannig að það fari ekki eins og verið hefur á undanförnum árum.

Í dag eru lífskjör verkalýðsins lakari en þau voru fyrir 10 árum, þrátt fyrir alla þá baráttu, sem verkalýðurinn hefur orðið að heyja, og þó að Sjálfstfl. hafi alltaf álasað honum fyrir hverja einustu tilraun, sem hann hefur gert til þess að reyna að bæta sinn hag. Við skulum gera okkur ljóst, að þessar stórfelldu ráðstafanir viðvíkjandi framleiðslunni, viðvíkjandi réttlátri skiptingu afraksturs þjóðarbúsins, viðvíkjandi skynsamlegu skipulagi, viðvíkjandi áætlunarbúskap og annað slíkt, það eru hlutir, sem þurfa að gerast, áður en við leysum okkar efnahagsmál, þannig að við fáum staðið undir góðum lífskjörum og stórkostlegri fjárfestingu hér heima. Og þó að þetta frv. feli ekki í sér slíkt og við séum stundum spurðir að því, hvort við höfum gefizt upp við þess háttar hluti, þá skulu menn vera vissir um, að því fer fjarri. Það verður haldið áfram að vinna að slíku. Það frv., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru aðeins ráðstöfun til þess að láta ekki stórversna, eins og gert hefði, svo framarlega sem gengislækkun hefði orðið. Það er þess vegna tilraun til þess að halda í horfinu og láta ekki gera hluti, sem hefði verið ómögulegt að bæta úr á eftir.

Ef til vill muna einhverjir sjálfstæðismenn eftir því, hvað þeir gerðu sjálfir fyrir tæpum fimm árum, þegar þeir tóku við því að stjórna hér verzlunarmálunum og létu það vera eitt sitt fyrsta verk að gefa alla verðlagningu frjálsa, gefa allt braskið laust, spenna upp dýrtíðina í landinu, skapa húsnæðisokrið, sem núna er til, og hrinda þar með af stað þeirri dýrtíðarskrúfu, sem síðan hefur reynzt þjóðinni erfið. Það er spurt að því í dag: Hvað verður nú með þær álögur, sem nú koma á? Það er horfið með þeirri stefnu, sem nú er tekin, frá stefnu hinnar frjálsu verðlagningar. Það er horfið til stefnu algers verðlagseftirlits. Og í sambandi við það algera verðlagseftirlit koma verkalýðssamtökin líka til með að hafa sitt orð að segja. Það er spurt að því hérna: Er hægt að veita öllum þessum 200 milljónum, sem á eru lagðar, yfir á þá, sem núna taka gróða af verzluninni? Þjóð, sem hefur 3500 millj. kr. tekjur, og allmikill hluti af því fer áreiðanlega til auðmannastéttarinnar hér í Reykjavík, sú þjóð hefur, ef hún beitir sér, áreiðanlega allmikla möguleika til þess að velta allmiklu af þessum álögum yfir á þá, sem bezt gætu borið þær, yfir á þá, sem Sjálfstfl. alltaf hefur gefið leyfi til að græða eins og þeir bezt gætu á almenningi, og alltaf álasað verkalýðnum, ef hann hefur reynt að rétta sinn hlut. Við skulum engu spá um það núna. Við skulum ekkert gylla möguleikana á því. En við skulum bara gera okkur ljóst, að við munum berjast fyrir því. Og verkalýðssamtökin munn ekki láta sitt eftir liggja að reyna að sjá um, að það verðlagseftirlit verði sem bezt framkvæmt. Það er reynslan ein, sem þar fær skorið úr.

Það hefur stundum verið spurt um það, hvernig stæði á því, að allar þær tillögur t. d., sem þeir, sem nú eru þm. Alþýðubandalagsins, hefðu flutt í fyrra, kæmu ekki fram núna. Mér liggur nú næstum því við að spyrja: Hvernig í ósköpunum stendur á, að Sjálfstfl. tekur þær ekki upp, með þessari óskaplegu umhyggju fyrir almenningi og umhyggju fyrir því, að lífskjörin verði ekki skert, og mér liggur við að segja umhyggju fyrir því, að auðmennirnir fái helzt að bera byrðarnar, eftir því sem mér skilst? Hvernig stendur á því? Ég held, að einu mótmælin, sem hafa yfirleitt borizt á móti þeim álögum, sem lagðar eru á í þessu frv., og efast ég samt ekki um, að ýmsir kunna að vera óánægðir, — einu mótmælin, sem opinberlega hafa borizt til okkar, eru frá Landsbankanum, — Landsbankanum, sem á á þriðja hundrað milljónir í skuldlausum eignum og græðir sínar 40–50 millj. kr. á ári.

Það er hér lýst yfir af hálfu verkalýðssamtakanna, hverja afstöðu þau taka til þessara tillagna. Það er raunsæ yfirlýsing. Reynslan mun skera þar úr. Verkalýðssamtökin eru velviljuð þessari stjórn, verkalýðssamtökin vilja styðja þessa stjórn. Þetta er fyrsta stjórn um langan tíma, sem hefur sýnt verkalýðssamtökunum það, að hún vill taka tillit til þeirra, að hún vill reyna að vinna að því, að þeirra lífskjör batni. Og þá kom allt í einu fram hv. 9. landsk., sem var að tala hérna áðan, með óskaplega umhyggju fyrir því, að það geti nú farið svo, að kaupgjald verkalýðsins jafnvel lækki og lífskjörin verði skert. Mér er spurn: Hefur ekki þessi hv. 9. landsk. þm. í hvert einasta skipti, sem verkalýðurinn hefur þurft að leiðrétta sín lífskjör á undanförnum árum, gefið út langar og vísindalegar leiðbeiningar og yfirlit um, að það væri alveg ófært fyrir verkalýðinn að vera að gera slíkt, það væri alveg þýðingarlaust fyrir verkalýðinn að vera að gera slíkt? Núna allt í einu kemur þessi óskaplega umhyggja. Hann talaði um vísitöluna og hvað hún væri óskaplega fölsuð. Ég skal hugga hann með því, að verkalýðssamtökin hafa séð til þess, að það verður útbúin önnur vísitala. Það verður reiknuð út jafnhliða þessari gömlu vísitölu önnur, miðuð við lífskjörin eins og þan eru nú, þannig að við getum líka séð, hvernig breytingarnar á vöruverðinu verða eftir þeirri vísitölu. Hún gildir að vísu ekki, sú vísitala, því að sú gamla gildir eftir lögunum og eftir samningunum, en við getum haft hana tjl hliðsjónar við þær ákvarðanir, sem teknar verða. Og við getum látið hana koma í gildi, svo framarlega sem verkalýðssamtökunum finnst það betra. Ég efast hins vegar um, að verkalýðssamtökunum mundi finnast það betra. Og það er af ástæðu, sem þau sjálf hafa rætt og þau hafa sjálf athugað.

Ég get þess vegna fullvissað hv. 9. landsk. um, að það verður fylgzt með vísitölunni eða hitamælunum, eins og hann vildi kalla það, ekki þannig, eins og hann vildi vera láta í gær, að hitamælirinn yrði brotinn, heldur hitt, að það yrðu hafðir tveir hitamælar, ef það skyldi vera þannig, að annar þeirra væri eitthvað vitlaus. Og það er meira en gert hefur verið undanfarið, þegar fjallað hefur verið um þessi mál.

Svo eru till. Sjálfstfl. Jú, það er eitt atriði, sem hefur komið fram hjá Sjálfstfl., þeim tveim fulltrúum hans í fjhn., í sambandi við umr. um þetta mál hér. Það er eitt atriði, sem þeir alvarlega hafa fundið að og alvarlega mótmælt, og það er, að Landsbankinn og Útvegsbankinn eigi að fara að greiða 10 millj. kr. Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að það væri ekki greiði við útveginn að fara að láta bankana borga 10 millj. kr. Ég spyr: Er það þá heldur ekki greiði við almenning að láta þá borga það? En svo liggur mér nú líka við að spyrja: Væri það ekki greiði við útveginn, að þessir bankar væru ekki látnir taka alveg eins mikið og þeir gera af útveginum í vöxtum og niðurfærslufé og öðru slíku? Ætli það hefði ekki verið óhætt að lækka það eitthvað ofur lítið? (Gripið fram í.) Það er gert á vissan hátt, vegna þess að það eru teknar 10 milljónir af Landsbankanum, sem fara í þessa fúlgu. En svo framarlega sem það hefði verið eitthvað dálítið meira, og ef ég man rétt, þá lögðum við í fyrra til, að það yrðu 25 millj. kr., þá hefði ef til vill verið hægt að létta frekar ýmsu af tollunum, sem nú eru lagðir á almenning. Ég held þess vegna, að fyrst Sjálfstfl. telur eftir einu álöguna á ríkustu fyrirtækin í landinu, þá sýni hann nú ekki mikla umhyggju fyrir almenningi, þegar verulega er þó á einum litlum stað komið við þau kaun, sem honum þykja sárust.

Ég vil líka segja það með ákvæði eins og t. d. viðvíkjandi iðgjöldum af vátryggingunum, að þar er auðveldur hlutur að láta vátryggingarfélögin borga þetta, og þau væru sannarlega rétt til þess.

Þá er talað hér mikið um, hve óljósar séu margar greinarnar í þessu frv. Og það skal vissulega viðurkennt, að það er ekki heiglum hent að eiga að fást við að skilja þessar greinar til fulls og mundi þurfa allmikið verk. Og ég get vel tekið undir þá ádeilu, að margt sé það torf og hefur moldveður. En má ég nú spyrja: Kemur það ekki úr hörðustu átt, þegar Sjálfstfl. og hans þm. fara að deila á, að hérna sé nú verið að setja í lög ákvæði, sem þýði raunverulega að vísa bara í tollskrá, svo að menn þurfi að fletta upp í tollskrá, og það sé allmikil fyrirhöfn, til þess að sjá, hvað þau gildi, — kemur það nú ekki úr hörðustu átt að kalla það alveg óskaplegt moldviðri, kalla það jafnvel ráðstafanir til þess að vera af ásettu ráði að dylja fyrir almenningi hitt og þetta og fara í feluleik, kalla það óskapnað og skoffín og annað þess háttar, eins og hv. 5. þm. Reykv. gerði hér áðan, þegar við rennum huganum til baka og sjáum, hvað það er, sem Sjálfstfl. hefur boðið okkur hér upp á á undanförnum þingum? Það er sagt hér: Ja, það skal nú nokkuð mikið traust á ríkisstjórn til þess að samþykkja þó að setja í lög 27. gr. og annað slíkt. En hvílíkt traust var það, sem heimtað var af ríkisstjórn og öllum, sem henni komu nærri, og Sjálfstfl. heimtaði hér á árunum á Alþingi? Má ég kannske minna á, að hér var ein tvö ár í gildi reglugerð um bátagjaldeyri, sem hafði enga stoð í lögum, þar sem nokkrum mönnum úti í bæ var falið af ráðherra án heimildar í lögum að leggja ákveðinn skatt á þjóðina í landinu? Og má ég svo kannske minna á, að eftir að búið var að innheimta hundruð milljónir króna af almenningi, án þess að nokkur lagaheimild væri fyrir því, og lagaheimild var að lokum sett fyrir því, hvernig hljóðaði þá sú lagaheimild í lögunum um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, sem sett var 1953? Niðurlag 1. gr. hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. hefur heimild til að setja skilyrði um innflutning og gjaldeyrissölu, sem nauðsynleg kunna að vera vegna viðskiptasamninga eða af öðrum ástæðum, svo sem til stuðnings atvinnuvegunum eða einstökum greinum þeirra.“ Þetta var heimildin, sem m. a. þáverandi hæstv. viðskmrh. útvegaði sér. (Gripið fram í.) Þetta var ljóst, já, þarna fengu ákveðin samtök úti í bæ leyfi til þess, ef þau vildu leggja 1000% á korn, ef þau vildu leggja 100% á kaffi, ef þau vildu leggja hvað sem þeim þóknaðist á hvaða vöru sem var, þá máttu þau gera það eftir þessu. Ríkisstj. útvegaði sér heimild til þess að mega leggja allt á allt, sem henni þóknaðist. Þetta var ljóst. Þetta var ekkert moldviðri. Þetta var ekki skoffín. (Gripið fram í: Það var nú góð stjórn, sem fékk þetta.) Já, það var nú þokkaleg stjórn, sem fékk þetta. En hvað gerðist svo nokkru eftir að þessi stjórn fékk þessa heimild? Það var ekki einn sinni svo vel, að ríkisstj. gæti sjálf haldið í að nota þessa heimild sjálf. Nei, hún lét menn úti í bæ taka þessa heimild af sér, og mennirnir úti í bæ fóru að leggja á fólkið, fóru að hækka álögurnar án þess að spyrja ríkisstj., og ríkisstj., þessi góða ríkisstj., kom þá fram hérna á Alþingi og sagði: Ja, hér stend ég, þeir hafa bætt þarna 10% á, en ég get ekkert gert. — Það var eitt ginnungagap allsherjar heimildar til að skattleggja almenning eins og ríkisstj. þóknaðist og eins og mönnum úti í bæ, sem ríkisstj. fékk valdið í hendur til að gera það, þóknaðist, sem sú ríkisstj. útvegaði sér. Það er ekki undarlegt, að þessum háu herrum finnist leiðinlegt, að þessi bátagjaldeyrir og þessi allsherjar einræðisheimild skuli hafa horfið úr lögum, að það skuli þó a. m. k. verið að setja í lög, hvað sé lagt á almenning. Þó að ýmsar greinarnar af því séu meira að segja torf, þá stendur það þó héðan af í lögum, en það geta ekki einhverjir menn úti í bæ lagt á fólkið í landinu eins og þeim þóknast í skjóli annarra eins heimilda og þarna eru. Þetta er þeim mönnum bezt að gera sér ljóst, sem eru mest að atyrða núna.

Hv. 1. þm. Reykv. lauk máli sínu með því, að ef það ætti að fara að halda þeim hætti, sem hérna væri upp tekinn, að semja við verkalýðssamtökin, þá skyldu menn gera sér ljóst, hvert væri verið að stefna, að lög og réttur færu þá að hætta að gilda á Íslandi. Já, ég er anzi hræddur um, að ef Sjálfstfl. hefði komizt upp með það að vera í ríkisstj. nú, setja á gengislækkun og setja á kaupbindingu, þá hefði verkalýðnum verið sýnt valdið á eftir. Ég er anzi hræddur um, að það hefði verið gert. Ég held hins vegar, að okkar þjóðfélagi verði betur stjórnað með því, að það verði haft samráð við þá menn í landinu, sem bera byrðarnar, sem halda þjóðfélaginu uppi með sinni vinnu, mennina, sem eiga kröfur á því, að þeirra lífskjör verði smátt og smátt bætt og að það séu skapaðar undirstöður til þess að standa undir þeim lífskjörum. Ég er hræddur um, að þjóðfélaginu verði betur stjórnað með því, að höfð séu samráð við þessa menn, heldur en að það verði aðeins sýnt valdið, eins og Sjálfstfl. virðist mest langa til.