20.12.1956
Efri deild: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég vildi gera hér nokkra grein sérstaklega fyrir þeim þáttum þessa frv., sem við koma sjávarútveginum.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa vandamál sjávarútvegsins jafnan legið hér til afgreiðslu á Alþingi um hver áramót nokkur undanfarin ár. og þá hefur sífellt þurft að grípa til ráðstafana, sem þýtt hafa allverulegar nýjar álögur. Það hefur þurft að afla allmikilla nýrra tekna, til þess að hægt væri að standa undir auknum kröfum útflutningsframleiðslunnar, þar sem rekstrarkostnaður hefur sí og æ farið hækkandi á undanförnum árum. Þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, hafa jafnan reynzt þannig, að þær hafa ekki dugað nema í bezta falli út árið, vegna þess að þær hafa fólgið í sér slík ákvæði, að sá vinningur, sem af þeim varð í upphafi, hlaut að étast upp á tiltölulega skömmum tíma.

Þegar þessi mál lágu til úrlausnar í byrjun þessa árs, þá tókst svo til, að vegna ósamkomulags um lausn þessara mála stöðvaðist vélbátaflotinn nær allan janúarmánuð. Ráðstafanir þær, sem Alþingi samþykkti þá, þýddu mjög verulegar nýjar álögur, sem komu mjög fljótlega út í öllu verðlagi í landinu og hækkuðu síðan allan framleiðslukostnað. Það fór því svo sem spáð var af ýmsum, þegar þær samþykktir voru gerðar á Alþingi, að þær mundu ekki endast út framleiðsluárið. Því var það, að svo var komið strax á miðju ári, að ríkisstj. varð að grípa til sérstakra aukaráðstafana og lofa síldveiðimönnum, sem voru að byrja síldveiðar í júnímánuði, að þeim yrðu greiddar mjög verulegar bætur til viðbótar því, sem ráðgert hafði verið í upphafi ársins. Er áætlað, að þau loforð fyrrv. ríkisstj. vegna síldveiðanna fyrir Norðurlandi hafi þýtt í útgjöldum í kringum 20 millj. kr. Þegar núv. ríkisstj. tók við, var svo ástatt, að það mátti segja, að togarafloti landsmanna væri með öllu að gefast upp, og þá varð að grípa enn til nýrra ráðstafana til aukagreiðslna með fiskverði til þess að tryggja áframhaldandi rekstur togaranna. Um svipað leyti varð einnig að semja við útvegsmenn um verulegan stuðning, til þess að þeir treystu sér til þess að halda úti bátum sínum til síldveiða hér að haustinu til, en fyrrverandi ríkisstj. hafði ekki gert neina samninga í þessum efnum, og þar af leiðandi voru ekki heldur neinar tekjur fyrir hendi til þess að greiða, í þessum efnum nýjar bætur.

Þau vandamál, sem við blöstu nú um þessi áramót, voru því ekki aðeins bundin rekstri hins komandi árs, en allir sáu, að vegna þess rekstrar, þurfti vitanlega að auka allar styrkveitingar stórlega frá því, sem áður var, vegna verðlagsþróunarinnar á árinu, heldur þyrfti nú einnig að gera allfjárfrekar ráðstafanir til þess að greiða upp þær skuldir, sem safnazt höfðu vegna loforða, sem gefin voru útveginum vegna rekstrar yfirstandandi árs.

Þá hafði það jafnan verið svo, að einn megingallinn á þeim ráðstöfunum, sem voru gerðar til stuðnings framleiðslunni, var fólginn í því, að sjaldan var samið nema við einn aðila í einu og hann varð síðan að gera samninga við aðra, og fór þá jafnan svo í mörgum tilfellum, að það, sem einum hafði verið veitt til stuðnings, varð að litlu honum til handa, þegar hann þurfti síðan að semja við ýmsa aðra aðila um aukin útgjöld. Þannig var þessu t. d. háttað í sambandi við síðustu ráðstafanir ríkisstj. varðandi togaraflotann. Þá voru að vísu samþykktar bætur til togaranna, sem námu allverulegri fjárhæð en sömu dagana og var verið að samþykkja þessar auknu bætur til togararekstrarins var lögheimiluð stórfelld hækkun á olíuverði, og þá var einnig ákveðið með samningum við ríkisstj. að lækka verð á karfa til togara, sem þýddi vitanlega stórfellda rekjurýrnun þeirra. Auk þess urðu svo togaraeigendur að semja um verulega, breytingu á kaupi togaramanna, og var þá svo komið, að allar þær auknu bætur, sem togurunum voru veittar í janúarmánuði, voru þegar þurrkaðar út hálfum mánuði síðar, enda varð svo reynslan sú, að togaraflotinn var á öllu árinu rekinn með stórkostlegu tapi, og það þurfti hvað eftir annað að grípa þar inn í með auknum stuðningi, til þess að togararnir legðust ekki með öllu.

Svipað mátti nú segja um bátaflotann. Honum var að vísu veittur nokkur stuðningur, en tiltölulega lítill, í upphafi þessa árs. En eftir að ríkisstj. hafði samið við bátaútvegsmenn um þessar bætur, urðu þeir síðan að semja við sjómennina á bátaflotanum um allbreytt skiptakjör, og fór þá meginhlutinn af því, sem bátaútveginum hafði verið ætlað, í sambandi við breytt skiptaverð til sjómanna og í annan kostnað, sem á útgerðinni skall um svipað leyti. Af því hefur svo einnig stafað hallarekstur hjá verulegum hluta bátaflotans á þessu ári.

Nú hefur verið reynt að vinna að þessum málum á þá lund að ná sem allra víðtækustu samkomulagi við alla þá aðila, sem hér eiga hlut að máli í ríkustum mæli. Nú hafa tekizt samningar á milli ríkisvaldsins og bátaútvegsmanna um rekstrargrundvöll bátanna á næsta ári. Jafnframt hafa tekizt samningar við fulltrúa sjómannanna á bátaflotanum, og gengið hefur verið út frá því þegar í upphafi að taka tillit til þeirra kauphækkana, sem sjómennirnir á bátaflotanum eiga að fá. Einnig hefur nú verið gengið frá því í samkomulaginu strax í upphafi, að olíuverð skyldi ekki breytast í sambandi við rekstur fiskiskipaflotans. Nú hefur einnig verið gengið frá samkomulagi við togaraeigendur og sömuleiðis við togarasjómenn, en auk þessa hefur svo verið samið við eigendur helztu fiskvinnslustöðva um, að þeir hlíti þeim ákvæðum, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, um fiskgreiðslur og styrkveitingar aftur til þeirra, og jafnframt þessu hefur svo náðst samkomulag við launþega í landi og við bændasamtökin í landinu, að þessir aðilar uni í aðalatriðum þeim ráðstöfunum, sem hér er verið að gera, svo að nú standa fullar vonir til þess, að þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera, geti komið að fullu gagni og geti orðið þannig, að reksturinn haldi áfram óslitið og truflanalaust yfir aðalúthaldstímann.

En í hverju liggja svo breytingarnar að öðru leyti samkv. þessu frv. varðandi stuðning við aðalþætti framleiðslunnar, sjávarútveginn?

Sú breyting er gerð frá því, sem verið hefur í sambandi við stuðning til bátaflotans, að bátagjaldeyriskerfið gamla er lagt niður, en eins og kunnugt er, fengu bátarnir í fyrsta lagi fast fiskverð frá fiskvinnslustöðvum, en í öðru lagi fengu þeir einnig nokkurt viðbótarverð á fisk sinn í gegnum hið svonefnda bátagjaldeyriskerfi. Nú hefur þetta kerfi verið lagt niður, en þess í stað fá útvegsmenn hið fasta fiskverð frá fiskkaupendum, en til viðbótar fastan hundraðshluta af fob. verði helztu útflutningsafurða bátaútvegsins, og þessar uppbætur, sem eru miðaðar við hundraðshluta af útflutningsverði, eru greiddar úr sjóði þeim, sem ráðgert er að stofna með lögum þessum, útflutningssjóði.

Samkv. því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. um hundraðshluta þann, sem útvegsmenn eiga að fá til viðbótar hinu fasta fiskverði, má áætla, miðað við reynslu þá, sem fengizt hefur, að viðbótargreiðslur til bátaútvegsins í heild geti samkv. þessu numið 36–38 millj. kr. frá því, sem hefur verið á þessu ári. Samkv. athugun, sem sérfræðingar af hálfu ríkisstj. gerðu á stuðningsþörf bátaútvegsins, töldu þeir, að það þyrfti að áætla bátaútveginum a. m. k. 26.3 millj. kr. meira í beinum framlögum heldur en verið hafði á þessu ári.

En hér er, eins og ég sagði, gert ráð fyrir 36–38 millj. kr., en þessi mismunur stafar fyrst og fremst af því, að nú er tekið tillit til kauphækkana, sem samið hefur verið um við sjómennina á bátunum, m. a. í formi aukins orlofs samkv. frv., sem hér hefur legið fyrir Alþingi, en aukin út. gjöld bátaflotans af því frv. munu nema 4–5 millj. kr. Þá er einnig gert ráð fyrir svonefndu skiptaverði til sjómanna, en hlutur sjómanna á bátaflotanum var á þessu ári reiknaður út frá verði, sem var kr. 1.30 á kg, miðað við þorsk, en nú er gert ráð fyrir, að skipta verði miðað við verðið kr. 1.38 á kg, og hækkun af þessum sökum mun nema 5–6 millj. kr. fyrir bátaflotann í heild. Í þessum tveimur liðum er fyrst og fremst að leita þeirra hækkana, sem hér hafa verið gerðar, en auk þess er um nokkru ríflegri upphæðir að ræða en ráðgerðar höfðu verið af fulltrúum ríkisstj.

Varðandi stuðning við togaraflotann er gert ráð fyrir því, að togararnir njóti áfram fastra daggreiðslna úr hinum nýja útflutningssjóði, svipað því sem þeir nutu áður úr framleiðslusjóði, en þó er sú breyting gerð á, að nú er gert ráð fyrir því, að daggreiðslur verði nokkru hærri til skipanna, þegar þau stunda saltfisksveiðar, heldur en þegar stundaðar eru svonefndar ísfisksveiðar fyrir innanlandsmarkað, en lægstar þegar skipin stunda veiðar í ís með siglingar á erlendan markað fyrir augum. En auk þessara breytinga á dagstyrknum er svo gert ráð fyrir því, að fiskverð til togaranna hækki sem nemur 22 aurum á kg fyrir karfa. Þessar breytingar á stuðningi við togaraflotann er áætlað að muni nema í kringum 38 millj. kr. á rekstri allra togaranna yfir árið, og er það svo til sama fjárhæð og sérfræðingar ríkisstj., sem athuguðu þessi mál, komust að niðurstöðu um að þyrfti að veita togurunum, ef ætti að gera sér vonir um, að togararnir yrðu að meðaltali til reknir hallalaust og gætu einnig staðið undir eðlilegum afskriftum á árinu.

Þær breytingar, sem eru fyrirhugaðar varðandi stuðning við fiskvinnsluna í landinu, eru einnig fólgnar í því eins og hjá bátunum, að gert er ráð fyrir því, að það fé, sem fiskvinnslustöðvarnar hafa fengið frá bátagjaldeyriskerfinu, hverfi sem slíkt, með því að bátagjaldeyriskerfið er lagt niður, en þess í stað fái fiskvinnslustöðvarnar fastan hundraðshluta af útflutningsverði hverrar vöru um sig og sé hann greiddur úr útflutningssjóði til viðbótar sjálfu útflutningsverði vörunnar.

Samið hefur verið við fiskvinnslustöðvarnar á þeim grundvelli, að auknar bætur til þeirra eru tiltölulega litlar. Gert er ráð fyrir því, að þær geti numið samanlagt til allra fiskvinnslustöðva í landinu, jafnt þeirra, sem verka skreið, saltfisk, og hinna, sem frysta fisk, um 9 millj. kr. yfir árið samkv. þeim ákvæðum, sem er að finna í 8. gr. frv. Sú upphæð er að vísu lítið eitt hærri en sérfræðingar ríkisstj. höfðu gert ráð fyrir, en þeir höfðu reiknað með því að greiða fiskvinnslunni í landinu um 5.3 millj. kr. fram yfir það, sem hún hefur notið á þessu ári. Hækkunin er að nokkru leyti í því fólgin, að fallizt er á það sjónarmið að hækka nokkuð til fiskvinnslufyrirtækja stuðning vegna vinnslu á smáfiski og vegna vinnslu á ýsu, sem reynzt hefur mjög óhagstæð á árinu vegna verðfalls á erlendum mörkuðum, og einnig þegar tekið er tillit til fiskverðshækkunar í nokkrum greinum, sem kemur á fiskvinnslustöðvarnar.

Þá er einnig gert ráð fyrir í frv., að til viðbótar við þessar fjárhæðir, sem ég nú hef nefnt og nema í kringum 85 millj. kr. fram yfir það, sem þessar greinar sjávarútvegsins hafa notið á þessu ári, er gert ráð fyrir því, að vegna sjávarútvegsins þurfi að afla aukinna tekna til annarra ráðstafana, sem miða að því að tryggja reksturinn, og er þar fyrst til að nefna um 22 millj. kr., sem ráðgert er að verja þurfi til verðlækkunar á olíu, ef tryggja á bæði togaraflotanum og bátaflotanum sama verð á olíum og þeir hafa búið við fram til þessa, en eins og kunnugt er, hefur orðið stórfelld hækkun á olíunni vegna gífurlegrar hækkunar á frögtum.

Ég vil taka það fram í sambandi við þessa fjárhæð, að þrátt fyrir það, að hún sé þetta há, er hér aðeins um nokkurn hluta af þeirri gífurlegu hækkun að ræða, sem fyrirsjáanleg er og þegar er á skollin í sambandi við olíuflutningana til landsins. Hér er beinlínis gert ráð fyrir því að veita mjög verulegum hluta af hækkuninni yfir á olíusalana í landinu. Það hefur verið gert fram til þessa nú síðustu mánuðina, því að olíuverðinu hefur verið haldið óbreyttu, þótt hins vegar hækkanir hafi orðið í sambandi við flutningsgjöld, og ég tel, að það sé ekki minna en 10–12 millj. kr., sem núna síðustu mánuðina hafa verið lagðar á olíufélögin, þar sem þeim hefur verið gert að skyldu að halda olíuverðinu óbreyttu þrátt fyrir þessar verðlagsbreytingar.

Þá er einnig gert ráð fyrir því, að vegna bátaútvegsins verði nú að afla sérstakra tekna til greiðslu á skuldum, sem safnazt hafa í gegnum bátagjaldeyriskerfið. Óhjákvæmilegt er að greiða upp þessar skuldir, þegar bátagjaldeyriskerfið var þannig, að þar myndaðist verulegur skuldahali, sem útvegsmenn þurftu að bíða eftir allt upp í heilt ár. En um leið og þetta kerfi er lagt niður, er óhjákvæmilegt að afla nú tekna til þess að greiða upp þessar gömlu skuldir, sem eru vitanlega að mestu leyti frá framleiðslu ársins 1956, en einnig að nokkru leyti frá framleiðslu ársins 1955. Einnig er svo hitt, sem ég minntist á áður, að aflað verði nú tekna vegna framleiðslunnar, sem nema a. m. k. 21 millj. kr. til beinnar skuldagreiðslu vegna þeirra loforða, sem gefin hafa verið út af framleiðslusjóði, en tekjur framleiðslusjóðs hrökkva ekki til að greiða á þessu ári. Það má því segja, að greiðslur í þessu frv., sem beinlínis er gert ráð fyrir að afla vegna útgerðarinnar á einn eða annan hátt, en vitanlega tilheyra ekki allar rekstri útgerðarinnar á næsta ári, heldur eru einnig til þess að greiða upp gamla skuldahala, nemi samtals í kringum 144 millj. kr. (Gripið fram í.) Nei, bæði vegna viðbótargreiðslna til útgerðarinnar á rekstri næsta árs og til þess að greiða upp gamla skuldahala og til verðlækkunar á olíu. Upphæðin, sem þannig má reikna beint til sjávarútvegsins, er í kringum 144 millj. kr.

Vegna þessara útgjalda, sem ég hef nú gert grein fyrir, og fyrirkomulagsbreytinga, sem hér eru hugsaðar, og vegna ýmissa annarra útgjalda, sem hér hafa einnig verið sameinuð við og fyrirhuguð eru vegna landbúnaðar og vegna ríkissjóðs, er svo lagt til í þessu frv., eins og hér hefur verið gerð grein fyrir af öðrum, að afla allhárra fjárhæða með nýjum álögum í ýmsu formi, og ég skal ekki fara út í að rekja það sérstaklega. Það er rétt, að þær álögur eru þess eðlis, að þó að reynt hafi verið að stefna að því eins og unnt er, að þær hvíldu sem allra minnst á öllum rekstrarvörum útflutningsframleiðslunnar og á öllum brýnustu nauðsynjum almennings, þá eru þær eigi að síður slíkar, að þær hljóta að leggjast með nokkrum þunga á ýmsar þær vörur, sem teljast til almennra vörukaupa í landinu, og af því stafar auðvitað viss hætta á því, að verðlag kunni að fara hækkandi í nokkrum greinum. Aftur á móti er svo gert ráð fyrir, að sett verði á stofn verðlagseftirlit, sem á að hafa það hlutverk að reyna að þrýsta verðinu niður, þannig að ekki þurfi þrátt fyrir hinar nýju álögur, að því leyti til sem þær koma á þær vörur, sem almenningur notar verulega, að koma til teljandi verðhækkana. Einnig er gert ráð fyrir þeim ráðstöfunum að fyrirskipa mjög verulega lækkun á álagningarheimild heildsala, og ætti einnig með þeirri ráðstöfun að vera hægt að hamla gegn þeim hækkunum, sem leiðir af þeim gjöldum, sem er að finna í þessu frv.

Reynslan ein verður að skora úr um það, hvernig þetta tekst, en takist, sem ég vona að megi takast, að halda verðlaginu niðri og stöðugu, þá efast ég ekki um, að þær ráðstafanir, sem felast í þessu frv., eru til stórkostlegra bóta fyrir útflutningsframleiðsluna frá því, sem verið hefur. Og mætti þá svo verða, eftir rekstur framleiðslunnar á þessu ári, að ekki þyrfti um næstu áramót að grípa þar til neinna nýrra viðbótarráðstafana og að hinar ýmsu greinar sjávarútvegsins gætu þá vel unað hag sínum áfram með lög þessi í gildi eins og þau eru nú. En vitanlega veltur allt slíkt á því, hvernig tekst með að halda verðlaginu og þar með öllum framleiðslukostnaði í landinu í skefjum. En um leið og launþegasamtökin í landinu hafa fyrir sitt leyti viljað fallast á þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar, hafa þau kynnt sér það, að hér hefur vorið eftir föngum reynt að koma hinum nýju gjöldum þannig fyrir, að þau hvíldu með sem minnstum þunga að hægt er á hinum almenna launamanni í landinu.

Nú hefur í þessum efnum verið skipt verulega um aðferð frá því, sem áður var, t. d. í upphafi ársins, þegar álögurnar voru lagðar þannig á, að þær hvíldu með jöfnum þunga á svo að segja öllum vöruinnflutningi til landsins, og þegar þannig var haldið á málunum, að þeir, sem réðu yfir vörusölu og þjónustu, höfðu svo að segja ótakmarkaða heimild til þess að breyta sinni verðlagningu eftir vild, og þegar segja mátti, að hver hækkaði sitt verð í kapp við annan meginhluta ársins, án þess að ríkisvaldið hreyfði hönd gegn slíkum framkvæmdum. En það, sem verður þó að teljast mikilvægast fyrir framleiðsluatvinnuvegina í sambandi við þessar ráðstafanir, og þá sérstaklega það, sem snýr að sjávarútveginum, er það, að jafnhliða verulega auknum stuðningi frá því, sem verið hefur í mörg undanfarin ár, er nú samið þannig um málin, að vænta má þess, að stuðningurinn komi að fullum notum, með því að friður takist með öllum þeim, sem hér ráða mestu um það, hvernig framkvæmdin tekst í þessum efnum.