20.12.1956
Efri deild: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi fyrst leyfa mér að lýsa þeirri skoðun minni, að það sé mjög óviðurkvæmilegt að afgr. stórmál eins og það, sem hér liggur fyrir til umr., án þess að vísa því til athugunar í n. En hæstv. forsrh. lét þau orð falla í framsöguræðu sinni fyrir málinu, að hann teldi óþarft, að það sætti athugun nefndar. Já, ég heyri, að hæstv. menntmrh. lýsir því yfir, að ríkisstj. fallist á það, að málið fari til n., og tel ég það vel farið, þar sem hér er um að ræða stærsta mál þess þings, sem nú situr, ráðstöfun gífurlegra fjármuna og aðrar þýðingarmiklar ráðstafanir.

Þegar gengið var til kosninga á s. l. sumri, lofuðu Framsfl. og Alþfl. nýrri stefnu í efnahagsmálum. Í sameiginlegri kosningastefnuskrá, sem þessir flokkar eða bandalag þeirra gaf út, var m. a. komizt að orði á þessa leið: „Nú verður að brjóta blað í íslenzkum stjórnmálum. Ef ekki verður gripið fast í taumana, mun skapast algert öngþveiti í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar. Þess vegna ber nú brýna nauðsyn til þess, að tekin sé upp ný stefna í efnahagsmálum þjóðarinnar“.

Þetta var þá fyrirheit tveggja hæstv. núverandi stjórnarflokka. Það var lofað nýrri og gerbreyttri stefnu í efnahagsmálum landsmanna. Áður en efndir þessa fyrirheits eru athugaðar nánar, er rétt að skyggnast nokkuð um öxl, líta á þróun efnahagsmálanna frá árinu 1949 og síðan.

Árið 1949 var svo komið, að öllum var ljóst orðið, að sú stefna, sem þá hafði um skeið verið fylgt í efnahagsmálum, styrkja- og uppbótastefnan, hafði gengið sér til húðar. Það var ekki lengur hægt að leggja á nægilega háa skatta og tolla, til þess að tryggt yrði nægilegt fjármagn til þess að halda framleiðslunni í gangi. Hallarekstur atvinnutækjanna var orðinn svo mikill, að öllum ábyrgum, hugsandi mönnum var það ljóst, að nauðsynlegt var að snúa við, freista þess að fara aðrar leiðir og ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Þrjár leiðir voru þá taldar koma til greina í þessum efnum: Í fyrsta lagi hin svokallaða niðurfærsluleið eða verðhjöðnun, í öðru lagi gengisbreyting og í þriðja lagi áframhaldandi uppbætur, sem þó var, eins og ég sagði áðan, talin ófær leið. Niðurstaðan varð sú, og þarf ég ekki að orðlengja um það, að gengisbreyting var valin og talin áhrifamest að ráði sérfróðra manna til þess að tryggja rekstur tækjanna og enn fremur talin hafa í för með sér minnsta kjaraskerðingu fyrir launþega í landinu.

Þáverandi ríkisstj., sem var minnihlutastjórn Sjálfstfl., markaði þessa jafnvægisstefnu, og það kom í hlut nýrrar ríkisstj., sem mynduð var í kjölfar hennar, samsteypustjórnar Sjálfstfl., að framkvæma hana. Enda þótt breytt viðhorf í alþjóðamálum, Kóreustyrjöldin o. fl., sköpuðu ýmsa erfiðleika á framkvæmd þeirrar jafnvægisstefnu, sem í þessum ráðstöfunum fólst, og nauðsynlegt yrði að gera viðbótarráðstafanir, sem m. a. fólust í bátagjaldeyrinum, má þó segja, að mjög hafi miðað í rétta átt með framkvæmd þessarar stefnu, þeirrar jafnvægisstefnu, sem mörkuð var í ársbyrjun 1950.

Verðlag hélzt nokkurn veginn stöðugt í landinu á árunum 1952–55, og liggja fyrir útreikningar um það, sem framkvæmdir hafa verið bæði af hagfræðingum hæstv. fyrrv. ríkisstj. og hagfræðingum Alþýðusambandsins, að kaupmáttur launa hélzt nokkurn veginn ólbreyttur á þessu tímabili. Verðlag hélzt stöðugt, sparifjármyndun jókst mjög verulega, og unnt var að halda uppi miklum framkvæmdum í landinu. Ríkisbúskapurinn var hagstæður og greiðsluhallalaus og meira að segja mikill afgangur á rekstri ríkisbúsins á ári hverju, sem síðan var hægt að verja til nytsamlegra framkvæmda. Allt þetta eru staðreyndir, sem ekki verða hraktar.

Önnur staðreynd stendur einnig, sú, að í ársbyrjun 1955 vildi þáverandi stjórnarandstaða ekki una þessari þróun. Kommúnistar og þeir, sem þeim stóðu næstir í Alþfl., töldu nauðsyn bera til þess að sýna mátt sinn í þjóðfélaginu og áhrif, — áhrif, sem þeir ekki höfðu á löggjafarsamkomunni og ekki í stjórn landsins. Niðurstaðan varð því sú, að verkalýðssamtökin voru notuð í pólitískri refskák þessara flokka undir forustu kommúnista til þess að knýja fram stórfelldar launabreytingar, — launabreytingar, sem í upphafi voru aðeins 13–14% hækkun eflir geysilöng og áhrifamikil verkföll, en í árslok höfðu haft í för með sér 22% almenna kauphækkun. Með þessum ráðstöfunum kommúnista voru í raun og veru brotnar niður allar varnir gegn verðbólgu og dýrtíð. Jafnvægisstefnunni var sagt stríð á hendur, og með hinu mikla valdi verkalýðssamtakanna tókst í raun og veru að brjóta hana á bak aftur. Þegar á þetta er litið, verður það að teljast meira en í meðallagi mikil óskammfeilni, þegar einmitt leiðtogar þessara flokka halda því fram, að það ástand, sem nú ríkir í efnahagsmálum okkar, sé afleiðing af stefnu Sjálfstfl., sem beitti sér fyrir jafnvægisstefnunni frá 1955.

Ég mun síðar koma að því og benda á það, hversu gersamlega kommúnistar hafa étið þessa yfirlýsingu sína ofan í sig og ekki einungis kommúnistar, heldur og samstarfsmenn þeirra aðrir í ríkisstj. Í þessu sambandi vil ég einnig benda á það, sem ég hef að vísu áður gert hér í hv. þd., að við eldhúsdagsumræður 1956, snemma á þessu ári, lýsti hæstv. fjmrh. (EystJ) því yfir, að vaxandi dýrtíð og verðbólga í landinu og þyngri aðstaða fyrir atvinnureksturinn og útflutningsframleiðsluna væri bein afleiðing af framkomu og aðgerðum þáverandi stjórnarandstöðuflokka, þ. e. a. s. kommúnista og Alþfl. Nokkrum vikum síðar lýsti svo sami hæstv. ráðh. því yfir, að þetta hefði allt saman verið misskilningur, eftir allt saman væri þetta Sjálfstfl. að kenna, það væri ekki hægt að leysa vanda efnahagsmálanna með þeim flokki og þess vegna bæri að mynda stjórn — þá var nú að vísu sagt með Alþfl., kommúnistarnir voru ekki teknir með. En síðan var mynduð stjórn með kommúnistum, — mönnunum, sem Eysteinn Jónsson, hæstv. fjmrh., lýsti yfir í janúar í fyrravetur að ættu alla sök á því með verkföllunum og stefnu sinni í verkalýðsfélögunum, hvernig komið væri í íslenzkum efnahagsmálum.

Ég vil þá þessu næst minnast lauslega á ráðstafanir hæstv. ríkisstj. í sumar, nokkru eftir að hún hafði verið mynduð. Þá var að því snúizt fyrst alls að festa vísitölu og beinlínis lækka kaupgjald. 6 vísitölustig voru tekin af launþegum. Í þessu fólst fyrsta viðurkenning hinna nýju stjórnarflokka, kommúnista og Alþfl., á því, að stefna þeirra í kaupgjaldsmálunum undanfarin ár hefði verið alröng. Með brbl. í sumar sögðu þessir hv. stjórnarflokkar, kommúnistar og Alþfl.-menn, fyrst og fremst þetta við launþegana: Kæru vinir. Við verðum að biðja ykkur afsökunar. Við höfum skrökvað að ykkur. Þið hafið ekki verið að bæta kjör ykkar undanfarin ár með kauphækkununum. Þvert á móti hafið þið stefnt afkomu ykkar í geigvænlega hættu, og nú verðið þið að drepa við fótum.

Þetta var það, sem raunverulega fólst í setningu bráðabirgðalaganna á s. l. sumri um festingu kaupgjalds og verðlags, vegna þess að þessi lög voru fyrst og fremst um festingu kaupgjalds, þar sem stjórnin hafði heimild í gildandi löggjöf til þess að stöðva hækkun verðlags. Það var því bara sett inn í brbl. til þess að sýnast, til þess að reyna að draga fjöður yfir það, að fyrsta og eina úrræði hinna nýju stjórnarflokka var ekkert annað en kaupfesting og meira að segja kauplækkun.

Ég verð nú að segja, að þessi stefnubreyting, þessi viðurkenning hinna nýju stjórnarflokka var út af fyrir sig góðra gjalda verð. Það er hins vegar rangt, að ríkisstj. hafi haft einhver viðtæk samráð við launþegasamtökin og við framleiðendasamtökin í landinu. Það hefur svo oft verið hrakið, að ég tel ekki ástæðu til þess að byrja á því enn einu sinni. Það er það, sem hefur verið gagnrýnt hjá hv. stjórnarflokkum, þetta skrum þeirra um samvinnu, sem engin var önnur en sú, að leiðtogar kommúnista töluðu við nokkra forustumenn sína í verkalýðsfélögunum, en almenningur í félögunum var auðvitað alls ekki virtur viðtals, og sama átti sér auðvitað stað um bændur. En sjálf festing kaupgjaldsins og verðlagsins, og þó fyrst og fremst kaupgjaldsins í þessu tilfelli, vegna þess að hina heimildina hafði stjórnin, var áreiðanlega rétt spor, og því fer fjarri, að við sjálfstæðismenn höfum deilt á það. Við höfum aðeins gert samanburð á þessari framkomu hinna nýju stjórnarflokka nú og því, sem þeir áður höfðu sagt, og þeim ásökunum, sem þeir höfðu beint til okkar, meðan við bárum ábyrgð á stefnunni í þessum málum. En þó að þessar ráðstafanir væru góðra gjalda verðar, þá voru þær einungis bráðabirgðaráðstafanir. Og eftir nýju stefnunni, sem lofað var í kosningastefnuskrá Hræðslubandalagsins, og eftir hinum varanlegu úrræðum hefur síðan verið beðið og víða með allmikilli óþreyju.

Og nú liggja úrræði hæstv. ríkisstj. fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir til umr. En stefna þess — það verður að segjast í upphafi — er hvorki ný né úrræði þess varanleg, og það viðurkenndi m. a. hæstv. sjútvmrh., sem lauk máli sínu hér fyrir skömmu. Hann sagði, að viss hætta væri á því, að verðlag kynni að fara hækkandi, og viðurkenndi það, að með þessu frv. er hvergi sett upp í gáttir gegn nýju dýrtíðarflóði. Þetta frv. felur þess vegna aðeins í sér bráðabirgðaúrræði ein. Aðalatriði þess eru þrjú: 1) Styrkja- og uppbótastefnan er lögfest á enn þá greinilegri hátt og í stærri stíl en áður. 2) Lagðir eru á hærri skattar en nokkru sinni fyrr til þess að standa undir útflutningsuppbótum og niðurgreiðslum á verðlagi og öðrum skyldum ráðstöfunum. Í þessu skyni er ráðstafað í frv. samtals um 500 millj. kr., þar af um 300 millj. kr. í nýjum álögum á þjóðina. 3) Samkv. frv. er ákveðið að setja á stofn víðtækt og viðamikið verðlagseftirlit.

Ég vil nú leyfa mér að fara nokkrum orðum um hvert og eitt þessara þriggja atriða. Eins og ég sagði, þá örlar ekki á neinni nýrri stefnu í frv. Styrkja- og uppbótastefnan heldur áfram, og nú er gengið lengra á braut hennar en nokkru sinni fyrr. Nú eru gerðar meiri kröfur til skattþegnanna, til almennings í landinu, til þess að standa undir þessari stefnu heldur en nokkru sinni fyrr. Engin tilraun er gerð til þess með þeim till., sem hér liggja fyrir frá hæstv. ríkisstj., að koma rekstri útflutningsframleiðslunnar og atvinnuvega þjóðarinnar í heild á heilbrigðan grundvöll, þannig að t. d. útflutningsframleiðslan geti borið sig halla- og styrkjalaust. Það er viðurkennt sem staðreynd, að ekki sé hægt að reka útflutningsframleiðsluna á Íslandi án stórkostlegra opinberra styrkja og framlaga.

Nú er það fjarri mér að halda því fram, að t. d. sjávarútvegurinn þurfi ekki á þessari aðstoð að halda. Ég hygg, að allir hv. alþm. geti verið sammála um það, að sjávarútvegurinn, eins og komið er fyrir honum, þurfi á aðstoð að halda, stóraukinni aðstoð. Ég hef að vísu ekki heyrt fullnægjandi upplýsingar um það, hvernig ætlunin er að styrkja sjávarútveginn með þessu frv. Það hefur heldur enginn samanburður verið gerður á því, hvernig varið sé stuðningi ríkisvaldsins við sjávarútveginn samkvæmt þessu frv. og samkvæmt þeim leiðum öðrum, sem hæstv. ráðh. hafa m. a. lýst yfir í ræðu og riti að til greina kæmu.

Mér er t. d. kunnugt um það og hygg, að það sé rétt með farið, að hæstv. félmrh. hafi lýst því yfir á þingi Alþýðusambands Íslands, að til greina kæmu þrjár leiðir til lausnar þeim vanda, sem íslenzku efnahagsmálin væru komin í, það væri verðhjöðnunarleið, það væri gengisbreyting og það væri áframhaldandi styrkjastefna og niðurgreiðslur. Það felast engar upplýsingar um það í grg. frv., hvernig hæstv. ríkisstj. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, sem getur að líta í þessu frv. Og það hefur ekki heldur komið fram í ræðum hæstv. ráðh., sem ég hef heyrt, hvernig þessi niðurstaða hefur verið fengin, hvernig stendur á því, að þessi leið hefur verið valin, þessi leið, sem allir viðurkenna þó að er bráðabirgðaúrræði eitt. Ég tel engu að síður nauðsynlegt að veita sjávarútveginum þann stuðning, sem lagt er til í þessu frv. hæstv. ríkisstj. Að vísu er það allt saman svo óvíst og svo margt óupplýst í sambandi við þetta mál, að það er ákaflega erfitt að taka afstöðu til þess og ekki sízt til þeirra stórfelldu nýju álagna, sem í frv. felast. Við, sem erum fulltrúar sjávarútvegsins og teljum okkur bera skyldu til þess að stuðla að því að fylgja fram og beita okkur fyrir ráðstöfunum til þess að tryggja afkomu hans, getum þess vegna naumast greitt atkv. með þessu frv. Og raunar er langsamlega eðlilegast, að við snúumst gegn því, eins og málið er í pottinn búið. En ég vil taka það alveg skýrt fram, að vitanlega getur Alþingi ekki farið svo heim fyrir þessi jól, að það gangi ekki frá einhverjum ráðstöfunum til stuðnings útgerðinni og útflutningsframleiðslunni í heild. Þannig hefur þetta líka verið á undanförnum árum. hví miður hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina fyrir útflutningsframleiðslunni á Íslandi, af þeirri ástæðu m. a. og fyrst og fremst, sem ég nefndi hér áðan og er frumorsök þess, að komið er eins og komið er í íslenzkum efnahagsmálum, nefnilega að öflugustu samtökum þjóðarinnar, verkalýðssamtökunum, hefur á undanförnum árum verið beitt skefjalaust og samvizkulaust fyrir pólitískan stríðsvagn ákveðins pólitísks flokks, kommúnistaflokksins, sem ekki telur sér fyrst og fremst skylt að líta á íslenzka hagsmuni, heldur erlenda. Í þessu felst hin mikla ógæfa. Og þetta er ein meginástæðan fyrir því, að við stöndum í þeim sporum, sem við stöndum nú. og hæstv. núverandi ríkisstj. hefur talið sig knúða til þess að leggja fram frv., sem felur í sér jafngífurlegar álögur á almenning og raun ber vitni.

En í sambandi við þetta vildi ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hverjar hafi verið till. hinna erlendu sérfræðinga, sem ríkisstj., fékk á s. l. sumri til þess að benda sér á leiðir og helzt nýjar leiðir út úr þeim vanda, sem við erum komnir í. Ég minnist þess, að árið 1950, þegar minnihlutastjórn Sjálfstfl. fól íslenzkum hagfræðingum að rannsaka efnahagsmálin, kryfja þau til mergjar og leggja fram till. um þau, þá var grg. hagfræðinganna gerð öllum kunn, og það hefur oft verið þannig hér á landi og oftast held ég, þegar sérfróðir menn hafa verið kvaddir til að gera till. um lausn vandamála efnahagslífsins, að till. þeirra hafa verið birtar. Stundum hafa þær aðeins verið afhentar þm. sem trúnaðarmál. En í þessu tilfelli hefur ekki einu sinni þm. verið afhent álit hinna erlendu sérfræðinga sem trúnaðarmál. Það er alveg „tabú“. Það er rétt eins og hæstv. ráðherrar hafi þetta undir koddanum og það megi enginn komast í það. Það mætti nú segja mér, að þeir svæfu ekki rétt vel, ef þeir ætla að hafa það áfram undir koddanum, eftir að hafa flutt þær till., sem hér liggja fyrir, — a. m. k. ekki um jólin!

Ég kem þá að öðru meginatriði þessa frv., sem sagt hinni miklu skattheimtu. Það stendur ómótmælt, að samtals sé ráðstafað með þessu frv. um 500 millj. kr., þar af um 300 millj. kr. í nýjum sköttum og álögum. Kjarni þess, sem gert er, er í raun og veru það, að bátagjaldeyririnn er afnuminn og tekinn í nýju formi. Hann og álagning sú, er í honum fólst, er látin í aðalatriðum halda sér á þeim vörum, sem hún var lögð á skv. bátagjaldeyriskerfinu. Það er meira að segja vitnað í lögunum beint í reglugerðina um bátagjaldeyrinn. Þetta hefur svo í för með sér stórfellda hækkun tolla, sem kemur m. a. mjög tilfinnanlega niður á ýmsum nauðsynjavörum. Bátagjaldeyrisskipulagið var framkvæmt þannig, að yfirleitt voru þær vörur ekki settar á bátagjaldeyri, sem taldar voru til brýnustu nauðsynja almennings, svokallaðar vísitöluvörur. Nú lenda aftur á móti ýmsar nauðsynjavörur undir tollaákvæðum þessa frv., t. d. bæði klæðnaður og byggingarvörur. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það hjá hæstv. ríkisstj., hvaða áhrif þessi hækkun á aðflutningsgjöldum á byggingarvörum hefur á byggingarkostnaðinn í landinn. Ég tel ákaflega þýðingarmikið atriði, að það verði upplýst. Allir núverandi hæstv. stjórnarflokkar hafa lofað því hátíðlega, að greitt skyldi fyrir byggingarframkvæmdum í landinu. Ef fyrstu efndirnar á því eiga að vera sköttun byggingarefnis, þá býð ég ekki mikið í velvilja hæstv. ríkisstj. gagnvart umbótum í húsnæðismálum landsmanna.

Þá hefur hæstv. ríkisstj. boðað á næstunni stóreignaskatt á „hina ríku“. Samkv. frv. um þann skatt eiga hinir ríku á næsta ári að borga 15 millj. í stóreignaskatt. En „hinir fátæku“, þ. e. a. s. almenningur í landinu, svo að ég tali nú mál hv. stjórnarflokka sjálfra, á ekki að borga 15 millj. kr., nei, hann á að borga hvorki meira né minna en 300 millj. kr. Þetta gerist þrátt fyrir það, að tveir hv. stjórnarflokkar, kommúnistaflokkurinn og Alþýðuflokkurinn, hafa á undanförnum árum lýst því yfir, að hægt sé að leysa öll vandamál framleiðslunnar án álagna á almenning, það eigi að taka fé til stuðnings útflutningsframleiðslunni, hafa þessir mildu höfðingjar sagt, með því að skattleggja auðfélög, banka, skipafélög, olíufélög og vátryggingarfélög. Sem sagt, það á alls ekki að skattleggja almenninginn, bara „hina ríku“. Efndirnar eru þá þessar, að á sama tíma sem hinir ríku eiga að borga 15 millj. kr. á einu ári, þá á almenningur á Íslandi að borga 300 millj. kr. Þannig framkvæma þá þessir flokkar loforð sín um það að skattleggja „hina ríku“, en láta almenninginn sleppa.

Ég get ekki stillt mig um það, af því að ég nefndi olíufélögin hér áðan og fyrirheit hv. stjórnarflokka um, að það ætti sérstaklega að krukka í sjóðina hjá þeim, að minnast á, hvernig hæstv. ríkisstjórn framkvæmir þetta fyrirheit tveggja flokka sinna.

Hæstv. sjútvmrh. var í dálitlum vandræðum hér áðan, og ég lái honum það sannarlega ekki. Sú staðreynd blasir nefnilega við, að eitt af olíufélögum landsins er núna þessa dagana og þessar vikurnar að græða milljónatugi fram yfir eðlilegan hagnað á rekstri olíuskips síns í skjóli hæstv. ríkisstjórnar, í skjóli hæstv. viðskmrh., sem mér er nú að vísu sagt að vísi til félaga síns og bróður, hæstv. félmrh. En ég hafði nú haldið, að þetta heyrði undir viðskmrh. (Gripið fram í.) Já, maður verður að læra margt betur á þessum síðustu og verstu tímum. Það er margt, sem kemur almenningi á óvart, enda þótt við ýmsu misjöfnu hafi mátt búast.

Í þessu sambandi get ég heldur ekki setið á mér að minnast á það, að í hv. bæjarstjórn Reykjavíkur er nú svo komið, að fulltrúar tveggja stjórnarflokka treysta sér ekki lengur til þess að verja það fáheyrða hneyksli, sem hér er um að ræða. Ég veit ekki betur en að þar hafi verið samþ. í nótt tillaga, þar sem því var beint til hæstv. ríkisstj. eða einstakra ráðherra hennar að hindra þá framkvæmd, sem stjórnin hefur lýst yfir að hún ætli að hafa á í þessum efnum, og þar var þetta samþ. með öllum atkv. gegn atkvæði framsóknarmannsins eins. Sem sagt sjálfstæðismenn, kommúnistar, Alþýðuflokksmenn og þjóðvarnarmenn stóðu allir saman um að víta þetta hneyksli. Nú býst ég við, að hæstv. ráðh. standi hér upp og berji höfðinu við steininn, ef einhver steinn væri tiltækur, og segi: Engu að síður, hvað sem líður skoðunum okkar góðu flokksbræðra í bæjarstjórn Reykjavíkur, m. a. eins hv. þdm., hv. 1. landsk. þm. (AG), þá ætlum við að segja þjóðinni það, að við séum að lækka milliliðagróðann og við séum að gæta hagsmuna alþýðunnar með því að láta Olíufélagið græða milljónatugi fram yfir eðlilegan hagnað á nokkrum skipsförmum af olíu, sem verið er að flytja til íslenzkra sjómanna og fiskimanna frá Rússlandi. Ég býst við, að hæstv. ráðherrar verði sér þá bara úti um einhvern stein til þess að berja hausnum við og halda áfram að segja þjóðinni, að þeir séu að gæta hagsmuna almennings og berjast við „milliliðina“ með því að leyfa þennan fáheyrða olíugróða og okur. En það er dálítil bót, að við sjálfstæðismenn höfum þó fengið bandamenn í þessu máli. Við höfum fengið flokksmenn sjálfrar hæstv. ríkisstj., þ. e. a. s. verkalýðsflokkana svokölluðu í bæjarstjórn Reykjavíkur, að hliðinni á okkur í baráttu okkar gegn olíuokrinu. Og það er von, að hæstv. félmrh. brosi, þegar hlutverkum er nú orðið þannig skipt, að stærsta stórgróðafélag landsins stendur á bak við hann og hæstv. viðskmrh., en ég og aðrir sjálfstæðismenn sækjum að okrurunum í baráttu okkar fyrir hagsmunum almennings. En þetta er ekkert nýtt.

Ég fæ því ekki betur séð en hæstv. stjórnarflokkar séu komnir, — vil ég nú ekki segja á skipulagt undanhald, ég held hreinlega á dreifðan flótta í þessu máli, og sá flótti mun verða rekinn. Við, sem erum umboðsmenn sjómanna og útvegsmanna hér á hv. Alþingi, munum ekki þegja yfir þessu máli. Það mun verða haldið áfram að segja þjóðinni, hvers konar fáheyrt svindl er verið að reka hér.

Ég er þá kominn að þriðja atriði frv. Það er um hið nýja, víðtæka verðlagseftirlit, sem þar er heitið.

Mér virðast ákvæði frv. raunar fyrst og fremst fela í sér þá breytingu frá gildandi lögum, að breytt er um nafn á þeim manni, sem á að hafa yfirstjórn þessara mála. Hann mun heita verðgæzlustjóri nú, en er ætlað að heita verðlagsstjóri samkvæmt till. hæstv. ríkisstj. Það getur vei verið, að hæstv. ríkisstj. geti framkvæmt einhverja umbót á verðlagseftirliti með því að breyta um nafn á þessum embættismanni, láta hann heita verðlagsstjóra í staðinn fyrir verðgæzlustjóra. Ég dreg það samt mjög í efa.

Það er í sjálfu sér rétt og þjóðholl viðleitni að reyna að halda verðlagi í skefjum og að tryggja sem sanngjarnasta álagningu og sanngjarnastan kostnað við vörudreifinguna í landinu. Okkur frjálshyggjumenn annars vegar og sósíalista hins vegar greinir að vísu á um það, hvaða leiðir á að fara í þessum efnum. Þeir menn, sem eru fylgjandi frjálsri verzlun og athafnafrelsi yfirleitt, telja, að bezta verðlagseftirlitið felist alltaf í samkeppni hinna ýmsu verzlunaraðila um viðskipti fólksins. Sósíalistar telja hins vegar, að alltaf sé meginatriðið og bezta tryggingin fyrir sanngjörnu verðlagi að hafa sem ströngust verðlagsákvæði.

Ég vildi í þessu sambandi spyrja hæstv. ríkisstj., sem ég vænti að vilji vel á þessum efnum, hún vill lækka verðlagið og vill geta framkvæmt þá stefnu sína að koma á jafnvægi, þó að hún hafi ekki borið gæfu til þess að bera fram raunhæfar till. í þá átt, — ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstjórn, hvernig standi á því, að hún byrjaði ekki á því að lækka vöruverðið. Þá hefði hún ef til vill getað komizt hjá einhverjum skattahækkunum. Eða er það þá ef til vill þannig, að stjórnin trúi alls ekki á það, að hún geti lækkað milliliðagróðann og verðlagið, þess vegna segi hún nú, að lækkunin eigi að koma eftir á? Hún ætli sér að stinga þeirri yfirlýsingu eins og nokkurs konar snuði upp í almenning.

Mér hefði fundizt langsamlega rökréttast hjá hæstv. ríkisstj., að hún hefði byrjað á því að lækka álagninguna og lækka milliliðagróðann og sýna fólkinu þar með framan í það, hvað hún gat og hvað var framkvæmanlegt í þessum efnum, hvað var skynsamlegast og hvað var sanngjarnt. Þegar hún var búin að framkvæma þetta, gat hún sagt við fólkið: Nú þurfum við ekki að leggja á eins mikla skatta. Við erum búnir að lækka verðlagið að þessum leiðum, og um leið og við lækkum verðlagið, höfum við áhrif á kaupgjaldið, og um leið og við höfum áhrif á kaupgjaldið, höfum við áhrif á afkomu framleiðslunnar.

En þessa leið virðist hæstv. ríkisstj. ekki hafa trúað á. Við skulum sjá, hvernig henni tekst að lækka verðlagið með verðlagseftirliti og lækkun milliliðagróða, sem mikið hefur verið talað um, en minna gert í að framkvæma.

Reynslan af verðlagseftirliti og höftum frá árunum 1947–49 gefur því miður ekki bjartar vonir um, að mikill árangur verði af viðleitni núverandi hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Allur almenningur á Íslandi man, hvaða fylgifiskar sigldu í kjölfar hins stranga verðlagseftirlits og haftakerfis á árunum 1947–49. Það voru svartur markaður, vöruskortur, biðraðir og margs konar spilling. Og hver er sá, að hann geti haldið því fram, að almenningi sé kjarabót að því, að sett sé lágt verðlag á einhverja vöru, sem er svo ófáanleg á frjálsum markaði á því verði? Ef maður ætlar sér að ná í þessa vöru, þá verður hann að fara ótal krókaleiðir. Hann verður að þekkja einhvern, sem stendur nálægt verzlunarfyrirtæki eða rekur verzlun eða kaupfélag, og þá fær hann kannske fyrir náð með uppskrúfuðu verði, svartamarkaðsverði, þessa vöru. Hvaða gagn er almenningi að því að sjá það á pappírnum, að eitthvert heimilistæki á að kosta 1000 kr., ef hann svo ekki getur fengið það nema fyrir miklu hærra verð?

Það er þessi „kjarabótastefna“, sem við sjálfstæðismenn höfum talið yfirborðslega og heimskulega, en hins vegar hinir sósíalistísku flokkar hafa ríghaldið sér í í oftrú sinni á höft, á fræðikenningar og á heftingu frjálsræðis almennt, gagnvart almenningi. Ég vildi gjarnan mega vona, að árangurinn yrði betri, þ. e. a. s. verðlagið yrði lægra og ástandið í verzluninni betra en niðurstaðan varð á haftatímabilinu 1947–49.

Niðurstaða mín af athugunum á þessu frv. er því í fyrsta lagi sú, að það byggist á styrkja- og uppbótastefnu á hærra stigi en nokkru sinni fyrr og í því felst margfalt gengi á íslenzkri krónu og vísvitandi tilraun til þess að dylja almenning þess, að það er verið að lækka gengi krónunnar, m. a. með þeim gjaldeyrisskatti, sem á er lagður og nær til meginhluta alls gjaldeyris þjóðarinnar.

Þessar ráðstafanir munu gera það erfiðara að hverfa síðar til raunhæfra ráðstafana, sem raunverulega stuðla að því að koma rekstri íslenzkrar útflutningsframleiðslu á heilbrigðan grundvöll. Það er verið að vaða lengra út í ófæruna í staðinn fyrir að snúa við til lands. Þetta er því miður staðreynd, sem þetta frv. ber greinilega með sér. Í öðru lagi felst í þessu frv. stórfelldari skattlagning á almenning en nokkru sinni fyrr, allt að 10 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Allir gömlu skattarnir eru framlengdir, nema söluskatturinn, og nýjum sköttum bætt við. Í þriðja lagi er stefnt út í hafta- og kyrrstöðuástand, m. a. með því að vinna gegn umbótum í húsnæðismálum með nýjum sköttum á byggingarefni.

Það, sem verst er af þessu öllu, er þó það, að í þessum till. felst engin trygging fyrir stöðvun verðbólgunnar í landinu. Það er ekki stöðvuð sú víxlhækkun kaupgjalds og verðlags, sem á undanförnum árum hefur stefnt framleiðslunni út í það öngþveiti, sem nú er komið í.

Nú hafa hv. stjórnarflokkar fundið upp „nýja leið“, sem þeir kalla, þ. e. a. s. nýtt nafn á gamla leið. Þeir kalla þessa leið „millifærsluleið“. En hvað felst í þessari „millifærsluleið“? Ekkert annað en það, að 500 millj. kr. eru „yfirfærðar“. Hæstv. forsrh. skýrði frá því, að það hefði verið álit hinna erlendu sérfræðinga, að einhvers staðar frá yrði að færa 500 millj. kr. yfir til framleiðslunnar, og með þessu frv. er þá víst verið að vinna að þessari millifærslu. Í þessu felst enn ein viðurkenning hinna nýju stjórnarflokka, hinna svokölluðu verkalýðsflokka, kommúnista- og Alþýðuflokksins, á afbrotum sínum gagnvart framleiðslunni á undanförnum árum. Þeir viðurkenna, að framleiðslan hafi verið ofkrafin um mörg hundruð millj. kr. Þeir sögðu: Nú eru launþegar látnir skila þessu fé til framleiðslunnar, en áður höfðu þessir flokkar sagt launþegum, að þeir væru sífellt að bæta kjör sín með því að krefjast hækkaðs kaupgjalds og aukinna útgjalda af hálfu framleiðslunnar. Ég álít, að þessi viðurkenning sé allmikils virði, ekki einungis í dag, heldur og á komandi tímum, því að enda þótt hæstv. sjútvmrh. gerði sér vonir um það í ræðu sinni hér áðan, að ekki þyrfti um næstu áramót að koma til hv. Alþingis með svipaðar ráðstafanir þessum, þá er það alveg áreiðanlegt, að þar er hann of bjartsýnn. Með þessum till. er ekki lagður grundvöllur að heilbrigðum rekstri framleiðslunnar, og engin varanleg úrræði felast í leiðum þeirra.

Það er í raun og veru aðeins eitt, sem hæstv. stjórnarflokkar hanga í í þessum umr., og það er það, að náðst hafi samkomulag allra stétta um þetta frv., um áframhaldandi styrkjastefnu í stórauknum stíl, og það tryggi, að þetta sé framkvæmanlegt, að það sé „samkomulag allra stétta“. Á það hefur verið bent, að því miður fer því víðs fjarri, að þetta sé þannig. Innan framleiðsluráðs landbúnaðarins kom fram hreinn klofningur um málið, og sjálf stjórn Alþýðusambands Íslands setur hæstv. ríkisstj. í raun og veru aðeins gálgafrest. Hún kemst, með leyfi hæstv. forseta, að orði á þessa leið í plaggi, sem er prentað sem fylgiskjal með þessu frv.: „Í trausti þess, að vel takist með framkvæmd þessara ráðstafana, og með tilliti til þess höfuðmarkmiðs að tryggja næga atvinnu, telur miðstjórnin og efnahagsmálanefndin, að veita beri núverandi ríkisstj. starfsfrið, þar til úr því fæst skorið, hvernig framkvæmdin tekst.“

Stjórn Alþýðusambandsins og efnahagsmálanefnd þess lýsir því m. ö. o. yfir, að hún vill veita ríkisstj. nokkurn frest til þess að sjá, hvernig þessi úrræði gefast. En segjum nú svo, að framkvæmdin tækist illa, hvað þá? Hvað tekur þá við? Hæstv. ráðh. lét að vísu ekki upplýsa það, en blað eins stærsta stjórnarflokksins hefur lýst því yfir, hvað þá taki við. Þjóðviljinn lýsti því yfir fyrir nokkrum dögum, að þá væri ekki um neitt annað að gera en að krefjast kauphækkana að nýju. Sem sagt, sverð kommúnista, sem stjórna launþegasamtökunum, vofir yfir stjórninni eftir sem áður. Hún hefur aðeins fengið stuttan gálgafrest.

Hér er þess vegna státað af litlu. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki tryggt neitt allsherjarsamkomulag og neinn Fróðafrið í landinu. Alþýðusambandið hefur lýst því yfir, að það vilji gefa henni „starfsfrið“ um skeið.

Ég get ekki varizt þeirri hugsun, þegar ég les þetta frv. og lít yfir hinn stutta starfsferil núverandi hæstv. ríkisstj., að hún hafi á þeim stutta tíma, sem hún hefur setið, komizt yfir það að bregðast fjölda af fyrirheitum sínum.

Ég tel það ekki beint snerta þetta mál að minna á mörg önnur atriði, sem ríkisstj. hefur hreinlega svikið í stefnuskrá sinni, vil aðeins nefna eitt, sem er stærst og stjórnin byggir tilveru sína á og upphaf, loforðið um að láta varnarliðið fara úr landinu. Ég fæ ekki betur séð en að enda þótt samið hafi verið um óákveðinn tíma um dvöl varnarliðsins áfram í landinu, þá uni meira að segja kommúnistarnir sér alveg prýðilega í stólum sínum í hæstv. ríkisstj. Þetta var nú eitt stærsta kosningaloforðið í utanríkismálunum.

Í innanríkismálunum var það stærst, að ný stefna og varanleg úrræði skyldu verða tiltæk í efnahagsmálum. Og árangurinn er það frv., sem hér liggur fyrir og ég hef hér gert að umtalsefni.

Af tilefni þeirra orða hæstv. sjútvmrh., að nauðsynlegt hafi verið að hækka daggreiðslur til togara um 38 millj. kr. og fiskverð til þeirra einnig og enn fremur hækka mjög greiðslur til bátaútvegsins og fiskiðjuvera, vil ég aðeins segja það, að ég tel mjög líklegt og raunar vitað, að hann fer þar með rétt mál. Hins vegar hef ég ekki haft aðstöðu til þess að staðreyna það, hversu mikill fjárþörf útvegsins er, bátaútvegsins og togaranna. Mér er sagt, að sæmilega sé séð fyrir hag vélbátanna, og ég vona, að svo sé. Ég hef ekki fengið plöggin lögð á borðið um það, en það mun koma í ljós síðar, og ég vænti þá, að hæstv. sjútvmrh. láti ekki undan fallast að gera viðbótarráðstafanir, því að það er staðreynd, sem ekki verður sniðgengin, að afkoma almennings úti um allt land byggist fyrst og fremst á því, að vélbátaflotinn gangi og beri sig skaplega og tryggi hráefni til fiskvinnslustöðvanna. Hins vegar er ég hræddur um, að stuðningur frv. við togarana sé varla nægilega mikill. Mér þætti vænt um að heyra frá hæstv. sjútvmrh., hvað hann álítur um það og hvort hann hefur náð fullu samkomulagi við togaraútvegsmenn um þessar ráðstafanir. Ég hef heyrt frá einstökum togaraútgerðarmönnum, að þeir telja mjög hæpið, að þessi stuðningur dugi þeim. Það þarf hins vegar ekki að orðlengja, að síðan togararnir fóru að landa afla sínum mestmegnis innanlands, hefur það geysimikla þýðingu fyrir allt atvinnulíf í landinu og útflutningsverðmæti landsmanna, að rekstur þeirra sé sem stöðugastur.

En þó að ég telji þessar ráðstafanir til stuðnings sjávarútveginum góðra gjalda verðar, verður að líta á þær eingöngu sem bráðabirgðaráðstafanir. Það er enginn heilbrigður rekstrargrundvöllur tryggður enn þá, hvorki fyrir vélbáta né togara. Það er einungis haldið áfram á þeirri braut að auka styrk og stuðning af hálfu hins opinbera við þessar aðalframleiðslugreinar þjóðarinnar. Að vísu má segja, að þetta séu ekki styrkir, það sé einungis endurgreiðsla á því, sem framleiðslan hafi verið ofkrafin um áður, vegna þess að það er sjávarútvegurinn og útflutningsframleiðslan, sem stendur undir allri eyðslu þjóðarinnar. Það má þess vegna segja, að það sé að vissu leyti mótsögn að tala um styrki til þessara aðila.

Hæstv. forsrh. viðurkenndi það í ræðu sinni hreinlega, að með þessu frv. er verið að framkvæma gengislækkun. Hann sagði, að gengisfellingu mætti framkvæma með ýmsu móti. Það er alveg hárrétt. Og einn mátinn til þess að framkvæma gengislækkun á er sá, sem þetta frv. felur í sér, gjaldeyrisskattur, verulegur gjaldeyrisskattur á meginhluta alls gjaldeyris, sem notaður er til kaupa á vörum til landsins, og enn fremur stórfelldar skattaálögur til þess að styrkja útflutningsframleiðsluna. Í stað þess að skrá gengið opinberlega í samræmi við þarfir útflutningsframleiðslunnar er hér farin sú leið að leggja á gjaldeyrisskatt og stórkostlega nýja skatta, sem síðan ganga til stuðnings útflutningsframleiðslunni. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. og af mikilli hreinskilni mælt, að það má framkvæma gengislækkun með ýmsu móti, og einn mátinn er, eins og ég sagði, sá, sem þetta frv. felur í sér.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta á þessu stigi málsins. Þetta mál er komið í ákveðinn farveg af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þetta frv. verður afgreitt eins og hún vill hafa það. Við, sem í stjórnarandstöðunni erum, hljótum að lýsa okkar áliti á þeim leiðum, sem í því felast, benda á það,lýsa fylgi okkar við það, sem við teljum óhjákvæmilegt, eins og stuðninginn við sjávarútveginn, en andstöðu okkar við annað, sem okkur finnst ekki nægilega rökstutt, og andstöðu okkar við þann hátt, sem hafður er á um afgreiðslu þessa stóra máls, sem Alþ. verður nú að afgreiða á tveimur, þremur dögum eftir að hafa verið aðgerðalaust meginhluta þess tíma, sem það hefur setið.