20.12.1956
Efri deild: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Mér þætti betra, ef einhver ráðherranna hefði tíma til að vera viðstaddur þessar umræður, af því að telja má, að hér sé um nokkurt stórmál að ræða, og ekki sízt hæstv. menntmrh., sem flutti hér síðustu ræðuna. (Forseti: Hæstv. forsrh. og félmrh. munu nú heyra máli hv. þm.) Af því að ég ætlaði nú einkum að svara hv. síðasta ræðumanni, þá vildi ég spyrja, hvort hann muni hér nærstaddur eða nokkur þá að flytja honum boð. (Gripið fram í: Hann er kominn.)

Herra forseti. Ég held, að ég verði nú að taka að mér það verkefni í tilefni af ræðu hæstv. menntmrh. að byrja á því að bera blak af hagfræðingunum, því að mér virtist á ræðu hans eins og hagfræðingar væru skoðanalausar lífverur, sem hefðu það hlutverk eitt að benda á, hvaða leiðir séu beztar eða hverjar leiðir beri að fara til úrlausnar málunum.

Ég held, að þetta sé reginmisskilningur hjá þeim ágæta hagfræðingi og hæstv. ráðh. Ég veit hins vegar, að hinir beztu og þekktustu hagfræðingar hafa yfirleitt ekkert verið myrkir í máli um sínar skoðanir. Þeir hafa ekki aðeins bent á, hvaða leiðir væru til og færar, heldur einnig, hverjar leiðir væri æskilegast og heppilegast að fara, og það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., að maður hætti að vera hagfræðingur, ef hann leyfir sér að hafa skoðun, og verði þá stjórnmálamaður, eins og mér skildist á honum, því að hinir beztu hagfræðingar víðs vegar í heiminum hafa einmitt haft ákveðnar skoðanir um lausnir hagfræðilegra efna.

Annars er það einkenni þessa máls, hversu tregt er um að fá allar upplýsingar og skýringar, sem um er beðið, bæði í nefndum og hjá aðstandendum frv. yfirleitt.

Í gær voru sameiginlegir fundir fjhn. beggja deilda. Þá var spurt um skýringar og skilning á mörgum atriðum og greinum frv. vegna þess, hve margt er á huldu. Það var spurt um, hvað fælist í þessu ákvæði, hvað í þessu, en stjórnarliðum var mjög þungt um svör, og síðan ég kom á þing, hef ég aldrei tekið þátt í meðferð máls, þar sem flm. og aðstandendur hafa verið jafnófróðir og óvissir um skilning á einstökum ákvæðum máls eins og þessa. Það var m. a. spurt um, hversu þungar væru álögur á vissar vörutegundir samkv. þessu, af hvaða verði skyldi reikna þessar nýju álögur o. s. frv. Svör fengust lítil sem engin.

Hæstv. menntmrh. hefur stundum verið orðheppinn maður, og hann komst ákaflega vel að orði nú í ræðu sinni, þegar hann talaði um hinn „óttalega leyndardóm“, því að aldrei hef ég vitað frv., stórmál, flutt í þingi, sem hefur jafnmikið svipað til hins „óttalega leyndardóms“ eins og þessu. Og vegna þess að manni er illa við, að mál sé lögfest og það stórmál, sem þingheimur skilur ekki í verulegum atriðum, eftir því sem fram er komið í nefndum og á þingi, þá vildi ég aðeins á þessu stigi freista þess að fá örfáar upplýsingar um nokkur meginatriði.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ríkisstj.: Hver áhrif mun samþykkt þessa frv. hafa á vísitöluna? Er það rétt, sem haft er eftir hæstv. menntmrh., að við samþykkt frv. muni vísitalan annaðhvort hækka ekkert eða í mesta lagi um 2 stig? Mér hefur verið tjáð af mönnum, sem kvaddir voru á hans fund til að leita álits þeirra á þessu máli, að hann hafi látið þessi orð falla.

Og ef svo er, þá verð ég að varpa fram þeirri spurningu: Hvernig má það vera, að við skulum segja 240 millj. kr. nýjar álögur, við skulum sleppa stóreignaskattinum svokallaða, sem hefur nú ekki verið útskýrt, í hverju á að vera fólginn eða hvernig verður á lagður; við skulum líka sleppa því, að þessar álögur verða vafalaust miklu hærri en 240 millj., eins og ríkisstj. gefur í skyn, — en þó að við höldum okkur við þessar 240 millj., hversu má það vera, að slíkar nýjar álögur á landslýðinn hafi engin eða sáralítil áhrif á vísitöluna? Ég spyr ekki að tilefnislausu, því að hæstv. menntmrh. komst svo að orði í ræðu sinni áðan, að með þessu frv., með þessum nýju álögum væri ekki lagður einn einasti eyrir til viðbótar á helztu rekstrarvörur útgerðar og landbúnaðar. Þetta er nú rangt, eins og þeir vita allir, sem hafa kynnt sér frv. rækilega. Enn fremur sagði hann: Það er ekki einn einasti eyrir samkv. þessu frv. lagður til viðbótar á brýnustu nauðsynjavörur almennings, — en síðan bætti hann við orðrétt, og það skýrir málið nokkuð: brýnustu nauðsynjavörur almennings, þ. e. helztu meginvörur, sem eru í vísitölunni. — Þar kom útskýringin.

Frv. þetta virðist af stjórnarinnar hendi samið fræðilega og vísindalega með það fyrir augum að falsa vísitöluna. Það hefur oft verið sakazt um það á undanförnum árum, að vísitalan sé röng, að hún hafi verið fölsuð, en allt, sem í þeim efnum hefur verið á undanförnum árum, er þó vafalaust barnaleikur einn á móti þeim ósköpum, sem hér eru að gerast.

Þess vegna spyr ég: Hefur hæstv. ríkisstj. gert sér grein fyrir því, hvort þessar nýju álögur hækka vísitöluna eða hækka hana ekki? Ef svo er, að hæstv. ríkisstj. hafi samið þetta frv. með það fyrir augum, að þessar þungbæru álögur á allan landslýðinn muni ekki hækka vísitöluna, þá er hæstv. ríkisstj. að bæta hér enn einum vænum pinkli ofan á svikabagga sinn, sem hún rogast með og er þó orðinn ærið þungur fyrir.

Í öðru lagi eru það byggingarmálin, sem eru ein stærstu viðfangsefni og erfiðustu viðfangsefni þessarar þjóðar í dag. Nú spyr ég: Mun þetta frv. hafa í för með sér hækkun gjalda á byggingarvörum eða ekki? Þetta stórmál er eitt af þeim, sem ómögulegt hefur verið að fá svarað. Það fengust engin svör við þessu í fjárhagsnefndum. Það hafa ekki fengizt skýr svör við þessu í umr. í Nd. Hins vegar hafa fullyrðingar stjórnarliða verið sitt á hvað. Einn háttsettur maður í stjórnarliðinu taldi, að yfirleitt mundi byggingarefni hækka um 16%, þ. e. a. s. sem næmi yfirfærslugjaldinu, en þó mundu einhverjar undantekningar vera frá því. Annar liðsmaður stj. lýsti því yfir á fundi bæjarstj. Reykjavíkur í nótt, að byggingarefni mundi ekki hækka um einn einasta eyri fyrir þessar álögur; þessar álögur næðu alls ekki til byggingarefnis. Hvað er sannleikurinn í þessu? Þær upplýsingar, sem ég hef fengið, eru svo mismunandi, að þær eru ýmist þannig, að þetta frv. hækki alls ekki gjöld á byggingarefnum, upp í það, að það hækki um 20%. Ef síðari talan er rétt, að byggingarefni hækki um 20%, þá þýðir það, að allur byggingarkostnaður í landinu hækkar upp undir 10%, því að nú í dag munu byggingarvörurnar vera tæpur helmingur af byggingarkostnaði íbúðarhúsa a. m. k. Ef reiknað er með, að venjuleg 3 herbergja íbúð kosti nú um 250 þús. kr. fullgerð, þá mundi 20% hækkun á gjöldunum þýða 25 þús. kr. hækkun á byggingarkostnaði hverrar íbúðar. Ef við reiknum með, að nú séu hér í Reykjavík og nágrenni einu saman um 2000 íbúðir í smíðum, þá er þetta nýr skattur á þá, sem eru að byggja, sem nemur 50 millj. kr.

Nú skulum við segja, að það rétta sé einhver millivegur milli 0 og 20%, t. d. 10%, þá er, miðað við þessar tölur, alltaf a. m. k. 25 millj. kr. nýr skattur.

Ég skal ekkert fullyrða um, hvað er það rétta, en mér finnst það furðulegt, að í jafnmiklu stórmáli eins og hér er um að ræða skuli ekki fást skýr og glögg svör frá hæstv. ríkisstj. um þetta atriði. Um leið og hér er vafalaust verið að leggja talsverðar nýjar álögur á byggingarefni, gefur ríkisstj. rausnarleg fyrirheit, hún ætlar að verja hvorki meira né minna en 15 millj. kr. til lánastarfsemi vegna bygginganna. Ég býst við, að þessar 15 millj. séu kannske svipuð upphæð, kannske hluti af því, sem hún ætlar að leggja á byggingarefnið með þessu nýja frv. Um þetta óska ég upplýsinga.

Í þriðja lagi er það varðandi verðlagseftirlitið, sem er í munni stjórnarliða eitt meginatriðið í þessu máli. Hæstv. menntmrh. ræddi hér ýtarlega um olíumálið svokallaða. Ég skal nú ekki koma inn á ummæli hæstv. menntmrh. um það, en þau ummæli hans báru sorglegan vott um sorglegan „móral“ í verðlagsmálunum. Megininntakið í hans ræðu um það efni var þetta: Af því að Eimskipafélagið græddi á stríðsárunum og af því að Shell og B. P. eru auðhringar og af því að Hamrafell flytur undir heimsmarkaðsverði, þá má þessi milliliður, — ég segi ekki óþarfi milliliður, þvert á móti þarfur milliliður, en milliliður er það eftir skilningi og orðalagi stjórnarflokkanna, — þá á þessi milliliður, sem við fögnum allir að hingað hefur komið, þetta ágæta og stóra skip að geta hagnazt um nokkra tugi milljóna á kostnað almennings. Ég veit ekki og get ekkert fullyrt um, hversu þessi hagnaður er mikill, en hæstv. menntmrh. gaf nokkrar upplýsingar um það. Hann sagði: Það hefur verið samið við þetta skip um, að það flytji undir heimsmarkaðsverði, og sá mismunur, sem er á því farmgjaldi, sem hefur verið samið um við það, og heimsmarkaðsverði, nemur, ef ég hef tekið rétt eftir, 2½ millj. kr. í ferð. Ef nú samið hefði verið um farmgjöld, sem upplýst er og játað að var eðlilegt og sanngjarnt miðað við kostnaðarverð og annað, þá hefði eftir þessum tölum ráðherrans mátt spara 5–6 millj. í hverri ferð, eða réttara sagt: félagið hagnast um 5–6 millj. kr. í hverri ferð.

Ég ætla ekki að fara út í þetta atriði frekar. En ég vil endurtaka það, þar sem hæstv. ráðh. er hér nú mættur, að mér fundust ummæli hans um olíumálið, sem hann talaði hér langt mál um, bera sorglegan vott um sorglegan „móral“ í verðlagsmálunum. En hann sagði: Nú ætla vissir hópar að ærast út af þeim samningum, sem ríkisstj. hefur gert við Hamrafell um olíuflutningana. — Ja, hverjir eru þessir hópar, sem ætla að ærast? Einn þessara hópa voru nokkrir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. í bæjarstj. Reykjavíkur. Á fundi bæjarstj. í gærkvöld fluttu bæjarfulltrúi Þjóðvfl., bæjarfulltrúi Alþb., Alfreð Gíslason, hv. 1. landsk., Óskar Hallgrímsson, bæjarfulltrúi Alþfl., og Ingi R. Helgason, bæjarfulltrúi Sósfl. sameiginlega svo hljóðandi till.:

„Þar sem upplýst er, að fyrirhuguð farmgjöld hjá hinu nýja olíuskipi eru meira en helmingi hærri en nauðsyn krefur, og vitanlegt, að slíkt hefur í för með sér milljónaútgjöld fyrir Reykvíkinga, þá skorar bæjarstjórnin á félagsmálaráðherra að beita áhrifum sínum til þess sem æðsti yfirmaður verðlagsmála að hindra slíkt okur.“

Þessi till. var samþ. með 14 atkv. bæjarfulltrúa gegn einu, þ. e. a. s. fulltrúa Framsfl. og Hamrafells. Hæstv. menntmrh. segir, að þessir hópar séu að ærast. Vill hann ekki athuga fulltrúa þá, sem stjórnarliðið á í bæjarstj. Reykjavíkur, í höfuðborginni, og ræða við þá nánar um það mál?

En vegna þess að verðlagsmálin eru einn stærsti liðurinn í þessu máli öllu eftir ummælum hæstv. ríkisstj. að dæma, þá vil ég spyrja: Eru þessir samningar um olíuflutningana og þá milljónatugi, sem leggjast á almenning vegna þessara samninga, fyrsta sýnishornið af því verðlagseftirliti, sem á að koma? Á verðlagseftirlitið að framkvæmast í þessum anda? Er það „olíuandinn“, sem á að ráða í hinu væntanlega verðlagseftirliti?

Ég vil enn fremur spyrja, vegna þess að það er eitt annað höfuðatriði hæstv. ríkisstj. í þessu máli. Þeir segja: Það er reginmunur á þessu og því, sem áður hefur gerzt, að nú er samið við fulltrúa launþega, fulltrúa bænda, verkamanna, launþega. Það er mál, sem ég skal ekki ræða um hér, hvernig þeim samningum er háttað. Við vitum, að t. d. meðal fulltrúa bænda, sem til voru kvaddir, var mikill ágreiningur um þetta mál og engan veginn einhugur. Ég ætla einnig, að annað fjölmennasta launþegasamband hér á landi, samband opinberra starfsmanna, hafi ekki lýst samþykki sinn á þessum ráðstöfunum þrátt fyrir tilraunir hæstv. ríkisstj. til að fá stjórn þess til þess. Látum það liggja milli hluta. En ég vil spyrja: Til hve langs tíma er samið við verkalýðssamtökin og aðra aðila um þetta? Er samið um eins árs starfsfrið? Er samið um tveggja ára frið? Er samið kannske út kjörtímabilið — eða til hve langs tíma? Eða skyldi hitt vera sönnu nær, að það sé alls ekki samið til neins ákveðins tíma, það sé ekki einu sinni samið í einn mánuð, ekki eina viku, ekki einn dag; það sé allt saman óráðið um það, hversu lengi þessir samningar geta staðið. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, til hve langs tíma hefur verið samið við þessa aðila, sem ríkisstj. talar um.

Loks vil ég spyrja um eitt. Hæstv. menntmrh. ræddi hér lítils háttar um gengislækkunarleið og sagði, að sú leiðin hefði verið valin, sem víðtækast samstarf náðist um, og þá er mér spurn: Þýðir þessi yfirlýsing það, að ef kommúnistarnir í stj. Alþýðusambandsins hefðu leyft gengislækkun, þá hefði ríkisstj. viljað fara þá leið? Því hefur verið lýst yfir af einu málgagni ríkisstj. og það málgagni stærsta Stjórnarflokksins, Þjóðviljanum, að Framsfl. og Alþfl. hafi viljað fara gengislækkunarleiðina, en Alþb. hafi stöðvað það, og þess vegna spyr ég enn: Ef kommúnistarnir í stj. Alþýðusambandsins hefðu leyft gengislækkun, hefði ríkisstj. þá farið þá leið? — vegna þess að ráðh. hafði út af fyrir sig ekkert á móti gengislækkun að segja, hann segir bara: Sú leið var valin, sem víðtækast samstarf náðist um.

Þessi eru þau atriði, sem mér finnst rétt að spyrja um á þessu stigi, og ég vil ítreka það, að mér finnst ekki sæmandi fyrir hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka að afgreiða slíkt stórmál út úr þingi, meðan jafnveigamiklum atriðum og grundvallaratriðum eins og þeim, sem ég hef gert hér fsp. um, er ósvarað.