20.12.1956
Efri deild: 41. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. 1. þm. Eyf., að hann rakti nokkuð ástæður fyrir því, hversu erfitt hafi verið að fá athugun á þessu stóra máli framkvæmda á þann hátt, sem sæma mundi virðingu Alþ. Get ég tekið undir flest, ef ekki allt af því, sem hann sagði um málið eða réttara sagt meðferð þess og möguleikana á meðferð þess, og fyrir hönd minni hl. get ég sagt það að við höfum ekki við hv. formann fjhn. neitt að sakast í þessu máli, þó að okkur af eðlilegum ástæðum, eins og raunar þinginu í heild, hafi ekki unnizt tími til að gera á þessu máli þær athuganir, sem þm. væri í rauninni skylt að gera, ef tök væru á. Ljósasti vottur þess er það, að núna í dag verður að halda fjárhagsnefndarfund svo seint, að þeir, sem þurftu að gera grein fyrir afstöðu sinni í n., höfðu ekki til þess svo rúman tíma, að skjöl gætu hér legið fyrir prentuð, eins og vera ætti, þegar fundur hófst.

Það hafa, eins og hv. form. fjhn. tók fram, farið fram um þetta allmiklar umr. í báðum deildum þingsins, þó ekki raunar mikið í þessari hv. deild, því að hér hafa talað af hálfu stjórnarandstöðunnar 2 menn, að ég hygg, en 3 ráðh. Og margt af því, sem mætti segja um þetta mál, er sagt þegar og þó kannske fleira ósagt.

Síðan sá háttur komst á, að Alþ. hefur tekið að sér að skipta sér af framleiðslunni á þann hátt, sem hér liggur fyrir og fyrir fleiri þingum hefur legið áður, hafa þessi mál eiginlega sífellt orðið stærri í vöfunum og því miður erfiðari viðfangs, eftir því sem fram í hefur sótt. Það eru ekkert mörg ár síðan, það var í tíð fyrstu stjórnar Alþfl., sem kölluð var, í ráðuneyti Stefáns Jóh. Stefánssonar, að fyrst, varð að ganga út á þá braut að veita sjávarútveginum sérstakan stuðning eða uppbót á afurðir sínar með löggjöf frá Alþ. Þó var það ekki sú stjórn, sem átti upptökin að því að stíga þetta spor, heldur varð hún á þeim tíma að leysa af hólmi fyrirheit, sem Alþ. var búið að gefa, áður en sú stjórn varð til, en það féll í hennar skaut að uppfylla gefið loforð, standa við fyrirheit fyrirrennara sinna í ríkisstjórninni.

Við þetta var reynt að standa, og þá var sá háttur á hafður, að stuðningurinn var veittur með beinni peningagreiðslu á hvert kg af fiski, fyrir fram ákveðinni, áður en veiðar hófust, og aflað til þess tekna með sérstökum álögum. En þetta var í þá tíð tengt við sjálfa fjárlagaafgreiðsluna, og fyrir því varð fjárlagaafgreiðslan fyrir skakkaföllum að því er það snerti, að fjárlögum var ekki hægt að skila eins fljótt og ella hefði orðið, vegna þess að í hvert sinn þurfti samkomulags að leita innan ríkisstj. og við Alþ. um það, hversu þessi greiðsla væri há og á hvern hátt henni yrði að mæta.

Þegar fram í sótti, ég held 1949, þótti mörgum, að þessi háttur væri gersamlega óhæfur, og einkum veittist Framsfl. mjög, þó að hann ætti menn í ríkisstj. á því tímabili, að þeim hætti, sem þarna var upp tekinn.

Svo kom að því, að þessi stjórn, sem ég nefndi, fór frá og önnur stjórn tók við, og þá voru raddir uppi um það, sérstaklega frá Framsfl. og raunar öðrum, að með framhaldandi þeirri aðferð, sem ráðuneyti Stefáns Jóh. Stefánssonar hafði haft, þeirri að afgreiða stuðninginn til sjávarútvegsins í sambandi við sjálf fjárlögin, væri stefnt í strand með fjárhag ríkisins. Það yrðu óbærilegar byrðar í framtíðinni, sögðu þessir menn, og framsóknarmenn voru alls ekki einir um það.

Það, sem svo skeði næst því, var það, að farið var út á aðra braut, þá að breyta gengi peninganna þannig, að vegna gengisbreytingarinnar gætu framleiðendur bæði til sjávar og aðrir framleiðendur flutt út og fengið hærri krónutölu fyrir sinn afla, og ég held, að ég fari rétt með það, að Framsfl. hafi verið mjög andvígur þeirri ráðstöfun á tímabili, á meðan ráðuneyti Ólafs Thors stóð fyrir svörum í því efni, en það leið ekki langur tími þangað til sá hv. stjórnmálaflokkur sameinaðist við sjálfstæðismenn í því að koma þessari gengisfellingu í gegn, sem hann var áður búinn að telja dauðasynd annars stjórnmálaflokks.

Við sjálfstæðismenn fylgdum þessu þjóðráði þeirra hv. stjórnmálaforingja, sem fyrir gengisfellingunni stóðu, foringja Sjálfstfl. og Framsfl., og þeir, sem höfðu reynt að fara aðrar leiðir í tíð Stefáns Jóhanns-stjórnarinnar, fengu í blöðum og ræðum að heyra það, að þeirra aðferð mundi hafa leitt til glötunar í þeim efnum.

Nú var nýr háttur upp tekinn. Það leið ekki mjög langur tími, þar til gengisfellingin sýndi sig að vera ófær um það einsömul að standa undir því hlutverki að halda sjávarútveginum gangandi, og þá varð enn að grípa til nýrra ráða, sem fram komu á sínum tíma, ég held undir forsæti Steingríms Steinþórssonar, með bátagjaldeyriskerfinu. Það hefur verið núna um hríð og allt til þessa dags raunar, að þessum vandkvæðum á framleiðslu helztu útflutningsvöru landsmanna hefur verið reynt að afstýra bæði með því breytta gengi, sem lögleitt hafði verið, og jafnframt með bátagjaldeyrisstyrkjunum.

Áður en allt þetta skeði, voru margar raddir sjávarútvegsmannafulltrúa hér á Alþingi komnar fram, en lítt heyrðar af þáverandi valdhöfum, þar sem við sýndum fram á það ár eftir ár, að gjaldeyrir sjávarútvegsins væri vanmetinn, rangt skráður, og að þessi gjaldeyrir, sem fátækir sjávarútvegsmenn í þá daga, er óhætt að segja, öfluðu með súrum sveita og oft stórkostlegri skuldasöfnun í bönkunum, var af þeim tekinn og látinn í hendur þeirra manna í landi hér, sem aldrei hafa nálægt sjávarútvegi komið, sérstaklega meðan haftakerfið var ríkjandi og haldið uppi af Framsfl. og Alþfl. Þessum mönnum var gerður greiður aðgangur að því að raka saman fé á því andvirði, sem fátækir útvegsmenn höfðu fengið fyrir sinn fisk, og sá aðili, sem fékk í gegnum haftakerfið og leyfisveitingar, hlutdrægar og vitlausar, eins og þær voru oft og tíðum, að ráðskast með þennan gjaldeyri, fleytti rjómann ofan af, en þeir, sem höfðu aflað þessa dýrmæta gjaldeyris, höfðu í flestum tilfellum, ef ekki öllum, sum árin skaðann einan að bera frá borði.

Það má sjálfsagt um það deila, hversu rétt það hafi verið í upphafi vega sinna að ljá því eyra fyrir Alþingi og ríkisstjórn að fara inn á þessa braut, ábyrgð á atvinnuframdrætti sjávarútvegsins. Margt hefur getað mælt með því í upphafi og margt á móti. En ég held, að frumorsökina hafi verið að finna í ýmsum þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru af ríkisstjórn í síðasta ófriði og fyrst leiddu Alþingi og ríkisstj. út á þá braut að hafa þessi afskipti af framleiðslunni til sjávarins, sem síðan hafa vaxið. En hvað sem um það má segja, hvort rétt eða rangt hafi verið í upphafi að ganga þessa braut, þá er það víst, að hvorki þær ríkisstjórnir, er setið hafa nú síðustu árin, né heldur núverandi ríkisstjórn eiga þess kost í einu vetfangi að breyta til í þessum efnum og hverfa frá því fyrirkomulagi, sem á hefur verið haft í þessum málum.

Það var hæst um þörfina á nýjum leiðum talað við myndun núverandi ríkisstj., og eftir ýmsar þær heitstrengingar, sem hlusta mátti á á s. l. sumri og raunar lengur af hálfu þeirra manna, sem nú fara með stjórnarvöldin í landi hér, var svo eðlilegt, að búast mætti við, að nú yrðu fetaðar nýjar leiðir og nú yrði horfið af þeirri eyðimerkurgöngu, sem núverandi hæstv. forsrh. taldi þjóðina vera á fyrir og eftir síðustu kosningar, ekki sízt fyrir það, að í veðri hefur verið látið vaka og það hefur raunar líka sýnt sig í verki, að núverandi ríkisstj. hefði valið sér þá vígstöðu í þessu máli að hafa breiðari og sterkari grundvöll undir sinni starfsemi með samtökum og bakábyrgðum Alþýðusambands Íslands og stéttarfélaga landsins yfirleitt, hefur mér skilizt. Þess vegna leit það ekkert ótrúlega út, að nú yrðu stokkuð upp spilin fyrir alvöru og reynd hollari úrræði en hinir höfðu haft á takteinum, er fyrr höfðu stjórnað þessum málum. Þegar svo það fréttist, að útlendir sérfræðingar hefðu verið kvaddir til skrafs og ráðuneytis við hæstv. ríkisstj. og innlendir sérfræðingar að auki og allt væri þannig í garðinn búið, að undirstaða hinna fróðustu manna, útlendra og innlendra, væri fengin undir hin nýju viðreisnaráform í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem þessi hæstv. ríkisstj. ætlaði að beita sér fyrir, þá virtist leikmönnum í landi hér líkurnar fyrir árangri og fyrir því, að fundnar yrðu hagkvæmari leiðir til þess að glíma við þá erfiðleika, sem verðbólgan hefur valdið í atvinnumálunum, vaxa mjög. Þingið hefur nú setið yfir tvo mánuði, að ég held, og það er fyrst núna fyrir örfáum dögum, að fyrsti og kannske stærsti árangurinn af öllum þessum íhugunum og útlendu og innlendu sérfræðingastörfum liggur nú fyrir, og það er í því frv., sem nú liggur fyrir þessari hv. d. Eftir hinar miklu fyrirætlanir, sem sagt var að lægju í loftinu eftir píslargöngu hæstv. forsrh. í eyðimörkinni, sem hann lýsti að hann og þjóðin væru að fela, virðist það nú koma í ljós með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að þau úrræði, sem hæstv. stjórn hefur á takteinum til þess að buga erfiðleikana, séu í eðli sínu ekkert annað en endurtekning á því, sem aðrar ríkisstjórnir hafa gert, en þó í miklu stærra mæli, með miklu meiri fórnum af hálfu gjaldendanna í landinu, en að vísu með góðum stuðningi handa þeim atvinnuvegi, sem þær eiga að koma að gagni, það skal játað, ef hægt er að ráða svo fram úr hinu torskilda frv., sem hér liggur fyrir, að sá stuðningur verði að veruleika.

Hæstv. ríkisstj. hefur, eins og sagt var í hv. Nd., með þessu sínu frv. ekki farið inn á neinar nýjar brautir, heldur fetað þær gömlu, troðið sömu göturnar sem margir af hennar stuðningsmönnum og sumir a. m. k. af hæstv. ráðh., sem nú eru, höfðu talað um með lítilsvirðingu fyrr á tímum og fordæmt í einu og öllu. Þetta sýnir það m. a., að upphrópanir í kosningum og fyrirheit út í bláinn verða haldlítil, þegar að því er komið fyrir þá, sem eiga að bera þunga ábyrgðarinnar, að standa við orð sín. Svo virðist mér einkum og sér í lagi hafi farið fyrir hv. Framsfl. í þessu máli. Þegar svo þetta mál er lagt fyrir Alþingi, sem hefur setið tiltölulega aðgerðalítið í tvo mánuði, þá er það gert með svo stuttum fyrirvara og svo mikið hert á að fá málið í gegnum þingið, að það er ekki hægt að ætlast til þess, að málið geti af alþm. fengið þá gaumgæfilegu athugun, sem — eins og ég sagði áður — skylt væri og þinginu sæmandi. Það m. a. er orsök þess, eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, að brtt. þótt sanngjarnar væru, geta hvorki orðið ræddar, tæpast stílaðar og því síður samþykktar vegna tímaleysis.

Ég hef heyrt því haldið fram sem áheyrandi í hv. Nd., og það þyrfti raunar ekki að binda sig við hana eina, því var held ég haldið fram af hæstv. menntmrh. hér í dag í þessari hv. d., að hér væri einhver stórnýjung á ferðinni hvað þetta frv. snerti, og aðrir hæstv. ráðh. hafa notað um það eitthvað í þá átt, að það væri meginkjarninn og þungamiðja málsins, og nýjungin er að þeirra dómi þau samtök eða samvinna við stéttasamtökin, sem haft er á orði að liggi á bak við þetta frv. Það er að vísu vel, ef þessi samtök við stéttarfélögin í landinu geta leitt til þess, að betur takist að ráða fram úr þessum málum en áður hefur til tekizt. En þó er þess að gæta, að þó að stéttarfélögin séu máttugt vopn í þessu landi, þó að stéttasamtökin séu sterkt afl og eigi fullan rétt á sér, þá er það þó þjóðin í heild sinni og hinn einstaki borgari, sem á líka sinn rétt í þessu. Og þeir, sem hælast mest í dag um það, að þeir hafi stéttasamtökin á sínu bandi, mega ekki í ofurgleði sinni gleyma því, að það er líka til þjóð í þessu landi. Það er fólkið allt, sem verður að búa við þessi lög. Og ánægja stéttasamtakanna yfir þessum lögum eða hvaða lögum sem er, á meðan sett eru, er ekki nægilegur slagbrandur til að girða fyrir óánægjuöldu þjóðarinnar yfir löggjöf, sem hefur í sér nægilegar bakteríur til að vekja í landinu ókyrrð, truflun og allt annað, sem fylgir of mikilli ríkisíhlutun um atvinnumál, framleiðslumál, verzlunarmál og önnur mál, iðnaðarins t. d., líkt og orðið var sérstaklega á valdatímum Framsóknar- og Alþýðuflokks áður fyrr í þessu landi.

Og hvað er svo djúptækur sá stuðningur, sem hæstv. ríkisstj. hefur fengið hjá stéttarfélögunum? Það er búið að lýsa því hér í mörgum ræðum áður, að Stéttarsamband bænda var klofið um sinn stuðning við þetta mál hæstv. ríkisstj., að Alþýðusambandið hefur samþykkt eitthvað um að gefa stjórninni vinnufrið, á meðan það sæist, hver áhrif af þessu yrðu, svo að það er ekki alveg óskoraður stuðningur, sem hæstv. ríkisstj. hefur hjá þessum stéttarfélögum og hún státar þó mest af og telur vera meginkjarna málsins. Ég er sannfærður um, að hún mælir þar af fullu hjarta, af einlægu hjarta, með því líka að hún hefur sýnt það í verkinu, að þetta mál, þetta stórmál, sem fyrir liggur í frv., sem hér er til umr., er búið að liggja hjá Alþýðusambandi Íslands í 10 daga til athugunar og hver veit hvað lengi hjá öðrum hópum og nefndum utan Alþingis, en það er ekki sýnt alþm. fyrr en svo seint, að það er eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. tók fram, að tími vinnst ekki til að athuga málið gaumgæfilega né til þess að sinna sanngjörnum brtt., þó að vilji væri fyrir hendi. Það á kannske ekki við um þessa ríkisstj. eina, þó að það hafi komið fram í einna sterkustum mæli við meðferð þessa máls hjá núverandi hæstv. ríkisstj., að tilhneiging virðist vera orðin mikil hjá þeim, sem stjórna í þessu landi, til þess að sniðganga í lengstu lög löggjafarsamkomu þjóðarinnar, en leita út fyrir hana til annarra áhrifahópa til þess að undirbúa stórmál, sem síðan er heimtað að lögfest séu „í hvelli“, ef ég mætti svo að orði komast.

Nei, það er fjarri því, að hér sé neinn „voltakross“ á ferðinni. Það er nú kannske hugtak, sem ýmsir eru farnir að gleyma, en ég man eftir því, að þegar ég var unglingur, þá var mikið auglýstur „voltakrossinn“ í blöðunum. Hann var að sögn þeirra, er selja vildu og selja gerðu í stórum stíl, allsherjarlækningatæki eða meðal við öllum sjúkdómum. Ef menn báru hann á brjóstinu, þá var heilsan alveg örugg og í lagi. Mér datt „voltakrossinn“ í hug, þegar hæstv. félmrh. var að tala hér um það, hversu hér væri algerlega ný regla á ferðinni og það væri nú eitthvað ólíkt því, sem verið hefði, vinnubrögðin hjá þessari hæstv. ríkisstj., því að hún væri varin öðrum megin af Alþýðusambandinu og hinum megin af stéttarfélögum bænda og launþegasamtökum utan Alþingis, svo að ekki þyrfti neitt að óttast.

Ég er því miður hræddur við, að það nýja í þessu máli muni reynast eitthvað svipað útlits, þegar dagsbirta veruleikans fellur á það og við komum fram á næsta ár, þeir sem þá lifa, eins og var á nýju fötunum keisarans í gamla daga. Nýju fötin keisarans voru mjög lofuð og rómuð af öllum, sem frá þeim kunnu að segja. Þau voru sá skrúði, sem allur almenningur átti að dást að, og fólkið lifði í mikilli eftirvæntingu eftir því að sjá þessi nýju föt keisarans. Þegar svo keisarinn kom í sínum nýju fötum fram á torgið, þá var búið að berja það svo inn í höfuðið á öllum almenningi, að hann væri í nýjum og skrautlegum fötum, að það var ekki fyrr en lítið barn í hópnum sagði og benti: Nú, hann er nakinn, maðurinn, hann er ber, — þá fyrst fékk fólkið augun opin fyrir því, að nýju fötin keisarans voru ekki annað en skvaldur. Og mér segir svo hugur um, því miður, að nýju fötin, sem hæstv. menntmrh. var hér að lýsa í sambandi við þetta frv., nýja reglan, nýju völdin og nýja tryggingin verði svona, þegar fram í sækir, enn ein bráðabirgðaráðstöfunin, sem menn hafa orðið að sætta sig við núna í mörg undanfarin ár til að leysa eða gera tilraun til að leysa þessi erfiðleikamál atvinnulífsins.

Við tökum það fram í minnihlutanál., eins og sjálfsagt er, að sá stuðningur, sem í þessu frv. er ætlaður útvegsmönnum og iðnaði í sambandi við útveginn, er sízt of mikill, eftir því sem nú er komið í þeim efnum, og það er von, að hans sé þörf, eftir það, sem gert hefur verið til þess að gera aðstöðu útvegsins örðuga nú um mörg undanfarin ár. Þeir menn, sem nú eru stjórnarherrar hér í landi sumir hverjir, hafa sannarlega líka skyldu til þess, þegar þeir hafa valdaaðstöðu slíka sem raun ber vitni um, að gera myndarlegt átak til þess að rétta við hag sjávarútvegsins, ekki sízt fyrir það, að sumir þessara manna hafa gengið í fararbroddi yfir lengri tíma og þó hraðast á síðustu árum til þess að íþyngja sjávarútveginum með því að æsa menn upp til þess að gera æ vaxandi kröfur í garð þessa atvinnuvegar.

Þeir, sem hafa fellt niður varnargarðinn eða rofið í hann skörð, eiga ekki hvað sízt að reyna úr því að bæta, og það hefur verið hlutverk sumra þeirra flokka, sem nú eru í stjórnaraðstöðu hér í landinu, að koma sér til vegs hjá fjöldanum með því að vega sí og æ í hinn sama knérunn, þ. e. að gera kröfur á hendur atvinnurekendum í landinu. Og afleiðingin blasir ekki einvörðungu við í dag. Hún hefur sýnt sig fyrr árum saman.

Afleiðingin er sú, að ríkisvaldið hefur orðið að hlaupa undir bagga til að rétta við hlut atvinnurekendanna við sjóinn og ekki haft til þess önnur úrræði en að leggja gjöld á almenning í landinu.

Þessar 500 millj., sem hæstv. forsrh. sagði að væru álögur í þessu frv. og ábyggilega helmingurinn er alveg nýjar álögur, eru inngangseyrir sumra valdhafanna í landi hér til þess að komast í stjórnarráðið og sitja í ráðherrastól. Það er dýrt „bílæti“, sem kommúnistarnir í landi hér hafa fengið til þess að komast í það að vera meðal stjórnenda landsins, en þeir eru nú stærsti og valdamesti stjórnmálaflokkurinn, og Framsfl., sem hefur hafið þá til vegs og virðingar með sér í þessu landi, leggur blessun sína yfir og verður að leggja blessun sína yfir að láta skattborgara í þessu landi, smáa og stóra, borga aðgöngumiðann. Af hálfu fyrirsvarsmanna þess flokks hefur því raunar fyrr verið haldið fram, að hagsmunir þjóðarinnar og hagsmunir kommúnista á landi hér færu aldrei saman. Ég held, að það hafi verið hæstv. núverandi fjmrh. sem lét sér það um munn fara og mörg önnur svipuð ummæli um þann flokk og áhrif hans, en þessi ummæli hæstv. fjmrh. eru lögð á hilluna nú í bili, vegna þess að hann þarf á að halda stuðningi þessara skaðræðisgripa, sem hann áður hefur lýst, til að halda sér og sínum flokki við völd og til þess að geta skammtað sér og sínum flokki og Sambandi ísl. samvinnufélaga og þess öngum og álmum gróðaaðstöðu, eins og lýst hefur verið í olíumálinu, sem hv. form. fjhn. minntist á í ræðu sinni áðan.

Hæstv. forsrh. talaði nú fyrstur fyrir þessu frv. og minntist á nefnd sérfræðinganna, en álit þeirra hefur vitaskuld ekki verið lagt fyrir þm., það heyrir ekki til, að sagt er, og hann minntist á, að athugaðar hefðu verið gengisfellingarleið og verðhjöðnunarleið og svo að síðustu, að sú leið, sem fyrir lægi hér í þessu frv., hefði verið valin. En hann var þó hreinskilinn, eins og einn af hv. þm. hefur sagt hér í sinni ræðu, svo hreinskilinn, að hann játaði, að þetta frv. og ákvæði þess, er snertu álögur á fólkið eða skattaaukningu, tollaaukningu, væri í raun og veru gengisfelling, og það er vitaskuld vitað af öllum þeim, sem sjá og hafa lesið frv. og vilja kannast við, hvers eðlis eru þær tekjuöflunarleiðir, sem þar eru greindar.

Því er svo haldið fram af ýmsum, þó mest af hæstv. ráðh., að þau gjöld, sem þarna er rætt um, komi svo sem ekki á almenning, því að bráðnauðsynlegustu neyzluvörurnar séu undanþegnar. Hitt er þó vitað, að það er fjöldinn allur af vörutegundum, sem of langt yrði upp að telja, ef maður ætti ekki að taka svo að segja nóttina til þess að telja upp úr tollskránni, — fjöldinn allur af vörutegundum, sem skattarnir nýju ná til og ýmist eru útgerðarvörur, framleiðsluvörur, neyzluvörur eða klæðavörur, sem svo að segja hvert einasta mannsbarn í landinu brúkar.

Því hefur verið haldið fram af hæstv. menntmrh., að það væri allveruleg gagnráðstöfun gegn vaxandi dýrtíð í þessu frv., þar sem væri gert ráð fyrir að lækka hina svokölluðu milliliðaálagningu. Það er mikið búið um hana að tala, og ég skal ekki eyða mörgum orðum að því, því að hún er slíkt hugtak, að það er ekki bara milliliðaálagning á einum stað. Það má kalla millilið svo að segja í hverju einasta verki, einhvern aðila, sem framkvæmir það, en mér er ekki ljóst, hversu þeir geta dregið úr dýrtíðaráhrifunum, svo að nokkru nemi, með lækkun á milliliðaálagningu. Hitt er ljóst, að eins og önnur ákvæði þessa frv. hníga í þá átt að hafa stjórnarafskipti með alls konar eftirliti, sem kallað er, o. s. frv., þá erum við að sigla inn í gamla haftakerfið, og þetta er góð leið til þess að innleiða svartamarkaðsbrask og annan þann óþverra, sem fylgdi verzlunarstefnumálum Alþfl. og Framsfl. hér fyrr meir.

Það er víst flestum enn þá hugstætt það ástand, sem komið var á í slíkum málum hér, þegar búðirnar voru svo að segja tómar, ef maður leit inn í þær að framan, en fyrir góð orð og peninga gátu menn fengið stundum út um bakdyrnar eitthvað afgreitt af þeirri vöru, sem viðkomandi taldi sig ekki geta látið eftir öðrum leiðum, en þurftu þá að borga svartamarkaðsverð fyrir. Það er ein af þeim bakteríum, sem ég minntist á áðan og felast í þessu frv. ásamt öðru fleiru, sem til ógagns horfir, þó að sumt kunni þar að horfa í rétta átt.

Hæstv. menntmrh. hélt hér mikinn olíufyrirlestur. Ég hef heyrt hæstv. ráðh. halda marga fyrirlestra hér í þinginu, því að hann er náttúrlega vel til þess fær og vanur að standa eða sitja í kennarastól og fræða menn, og þessi olíufyrirlestur af hans hálfu varð mér talsverð nýjung. Ég hefði átt von á því frá öðrum hæstv. ráðh., sem vanur er að tala hér um olíu bæði sýknt og heilagt, þegar atvinnumál eru til umr., og það er starfsbróðir hans í ríkisstj., hæstv. sjútvmrh.

Hæstv. ráðh. var mjög vel talandi og eyddi í það nokkuð löngum tíma að færa mönnum heim sanninn um, hvaða velgerningur það væri við þjóðina, olíuprísarnir, sem hið íslenzka olíufélag hefði fallizt á að láta borga nú fyrir olíuna. Mér hefur skilizt, að þeir hafi samið við Olíufélagsforstjórana um það verð, sem þeir fái fyrir olíuna. Ég skal engan dóm á það leggja, hvort það er hagstæður samningur eða óhagstæður fyrir þessa þjóð, en ég tel allar upplýsingar vanta um það, hvort það verð, sem hæstv. ríkisstj. hefur samið um við olíuflutningafélagið, sé réttlátt fyrir bönd íslenzku þjóðarinnar, miðað við þá greiðslu fyrir olíuflutninginn, sem Olíufélagið þarf. Ég býst við, að hjá öðrum aðilum í þessu landi, sem flytja eitthvað til landsins og komast undir verðlagseftirlit, sem kallað er, skv. þessu frv., verði metin í hverju einu tilfelli þörfin fyrir álagninguna, hvað þurfi til þess að geta sér að skaðlausu flutt inn þessa og þessa vöruna, en ég hef ekki heyrt neitt frá opinberri hálfu um það, ekki svo mikið sem áætlun um, hvað væri réttlátt í þessu efni gagnvart þeim, sem olíuflutningana annast.

Eitthvað hljóta samt sem áður að hafa stungið hv. flokksbræður sumra hæstv. ráðh., þá sem eiga sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur, þessir samningar, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert út af olíunni, ef maður lítur á þá samþykkt, sem gerð var í bæjarstjórn Reykjavíkur og þessir menn, einmitt flokksbræður hæstv. ráðh., stóðu að.

Annars er það, eins og ég sagði áður, hæstv. sjútvmrh., sem á undanförnum þingum hefur verið skeleggastur í því að útmála það okur, sem haft væri á olíu hér á landi, og að ég hygg samkvæmt hans till. er það gefið í skyn hér í þessu frv., að það sé heimild fyrir ríkisstj. að greiða niður olíuna fyrir bátaútvegsmenn, skilst mér, og það eins og annað á svo að greiðast með sköttum, sem teknir eru af þjóðinni á þann hátt, sem í frv. er lýst.

Það er mikill styrkur vissulega, eins og hv. frsm. fjhn. minntist á, að setja löggjöf, ef menn hafa fyrir fram vissu um, að þeir, sem við hana eiga að búa, ætli að sætta sig við hana. Mér skildist, að hann teldi sig „hafa bréf“ upp á það, og mundu þá ekki vera í hans huga þær yfirlýsingar um samþykktir stéttarfélaganna, sem ég áður minntist á og fleiri þm. hafa minnzt á og eru engan veginn brotalamalausar. En í sambandi við þetta vildi ég beina nokkurri fyrirspurn að hæstv. sjútvmrh., ef hann má mitt mál heyra, og það stendur í beinu sambandi við þá samninga, sem hann hefur lýst yfir að hann hafi gert við Landssamband ísl. útvegsmanna eða fyrirsvarsmenn sjávarútvegsins. En hæstv. ráðh. er kannske ekki við látinn, og ég get þá beðið með þá fsp. þangað til síðar, en við þessar umr. vildi ég ekki skiljast, fyrr en ég hefði átt kost á að heyra glögg svör hans við henni. — Hæstv. ráðh. er víst ekki við látinn, og get ég þá horfið frá því efni í bili og minnzt á aðra hluti, er þetta mál varða.

Ég sagði áðan, að í þessu máli væru sóttkveikjur til þess að auka hér verðbólguna og hrinda verðhækkunarhjólinu af stað á hraðari ferð en það hefur undanfarið verið. Þegar hæstv. ríkisstj. s. l. sumar, held ég hafi verið, eða nokkru eftir að hún settist að völdum tók sig til og batt sem kallað var kaupgjald og verðlag, sem þá var talið gert með samþykki stéttarfélaganna, þá fannst mér, að hún væri þar á réttri leið, og ég var alls ekki einn um þá skoðun. Ég heyrði það á mörgum, að þeir töldu þarna rétt farið af stað. Um það mátti svo deila, hvort það samþykki, sem hæstv. ríkisstj. þóttist hafa í höndum frá stéttarfélögunum, væri fullkomið eða haldgott eða ekki. En það kom ekki að sök, að því er virtist, því að þann tíma, sem þetta ákvæði gilti, var ekki hafin nein uppreisn á móti því. En í þessu frv. virðist vera alveg horfið frá þeirri braut, sem virtist vera holl í þessum málum, og nú með þessu frv. er ekki annað að sjá en að stjórnin hafi ekki þorað að halda lengur áfram á þeirri vísitölubindingarbraut, sem hún byrjaði sinn feril á, heldur horfir nú allt þannig, að verðbólgunni er með frv. boðið heim upp á nýtt, og það getur farið svo, þótt óskandi væri, að það færi ekki svo, að það frv., sem hæstv. ráðherrar hafa verið að tala um að væri nokkurs konar lokatakmark í baráttunni við dýrtíðina, verði það ekki, einkum og sér í lagi vegna þessarar stefnubreytingar hjá hæstv. ríkisstj. að því er það snertir að halda kaupgjaldi og verðlagi í skefjum.

Hæstv. sjútvmrh. er nú kominn hér inn, og ég var einmitt að óska eftir því að mega leggja fyrir hann spurningar í sambandi við það, að allir hæstv. ráðh. halda því fram, að þessi löggjöf sé sett í samráði við stéttarfélögin, og meðal stéttarfélaganna verð ég þá að telja Landssamband ísl. útvegsmanna.

Mér er kunnugt um það og það er raunar eðlilegur hlutur, því að bæði er því haldið fram í grg. frv., að ein af þeim hliðarráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur á prjónunum og virðist eiga að vera fylgifiskur þessa frv., er sú að koma nýju skipulagi á sölu afurðanna, og hæstv. menntmrh. fylltist nærri því eldmóði áðan í sinni ræðu, þegar hann fullyrti, að þar yrði komið nýju skipulagi á í þessum málum, og mér skildist á hans framsetningu á þessu, að það væri nú eitt bjargráðið, sem hæstv. ríkisstj. hefði með höndum eða ætlaði að hafa með höndum.

Nú veit ég, að hæstv. sjútmrh. fer rétt með það, að átt hafa sér stað bréfaskipti eða samningar í bréfaskiptaformi milli hans og Landssambands ísl. útvegsmanna, þar sem þeir hafa fellt sig við, að mér skilst, það verð eða þær verðuppbætur, sem fyrir liggja í frv. á hinum ýmsu tegundum fisks, sem að vísu eru nefndar þar í hundraðshlutum og töluvert erfitt á þeim sig að átta, en hann lýsti líka heildarupphæðinni og nefndi hana í krónum, svo að það var næg skýring.

Þessir samningar hafa þá farið fram, og þeir, sem þar eiga forsvar fyrir útvegsmönnum, virðast hafa sætt sig við það, sem hæstv. ráðh. og þeir hafa komizt niður á. En í sambandi við þetta mál hafa útvegsmenn eða landssambandið beinlínis gert það að skilyrði fyrir sínu samþykki, að ekki yrði hróflað við þeim sölusamtökum útvegsmanna, sem eiga sér nú stað. Ég hef vitneskju um, að þann 20. des. er hæstv. sjútvmrh. skrifað bréf frá þessum félagsskap, frá landssambandinu, þar sem segir: „Við undirritaðir, sem höfum f. h. vélbátadeildar L. Í. Ú. starfað að samningsumleitunum við sjávarútvegsmálaráðherra um starfsgrundvöll fyrir vélbátaútveginn á árinu 1957, mælum með því við fulltrúaráðsfund L. Í. Ú., sem haldinn er í Reykjavík 17.–18. des. 1956, að samkomulag það, er náðst hefur og lýst er í bréfi atvinnumálaráðuneytisins, dags. 18. des. 1956, verði samþykkt á fulltrúaráðsfundinum. Meðmæli okkar eru fram komin í fullu trausti þess, að starfsskilyrði vélbátaútvegsins verði í engu rýrð frá því, er í bréfinu greinir og munnlegt samkomulag hefur orðið um.“

Í öðru bréfi, stíluðu til hæstv. ráðh. og sendu af sama félagsskap, landssambandinu, segir svo: „Fulltrúafundur L. Í. Ú. felur stjórn L. Í. Ú. að staðfesta bréflega viðtöl þau, sem fram hafa farið milli fulltrúa L. Í. Ú. og sjávarútvegsmálaráðherra varðandi sölufyrirkomulag sjávarafurða, þar sem ráðherrann tók fram, að hann teldi heppilegast, að sala og útflutningur sjávarafurðanna yrði í höndum félagssamtaka framleiðenda sjálfra, svo sem verið hefur. Telur fundurinn það skipta höfuðmáli fyrir afkomu útvegsmanna, að salan verði áfram í höndum félagssamtaka framleiðenda sjálfra, og treystir því, að sjávarútvegsmálaráðherra geri ekki breytingar í þessu efni, og í trausti þessa samþykkir fundurinn bréf ráðherrans, dagsett í dag.“

Bréf ráðh., sem þeir samþykkja í þessu trausti, er bréfið um þann verðlagsgrundvöll eða uppbótagrundvöll á sjávarafurðunum, sem hæstv. ráðh. hafði sent þeim og fyrir liggur í frv. því, er hér er til umr.

Nú vil ég fyrir mitt leyti spyrja hæstv. ráðh. að því, og það er eiginlega von ég spyrji, þegar starfsbróðir hans í ráðherrastóli, hæstv. menntmrh., fullyrti það í ræðu sinni hér í dag, að nýtt skipulag ætti að taka upp á sölu sjávarafurðanna, sem þýðir það, að starfsemi sölusamtakanna yrði vitaskuld með því raskað, — nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. um það: Er það rétt, sem Landssamband ísl. útvegsmanna hefur eftir honum, að hann hafi í viðtali lofað því, að þessi samtök yrðu látin í friði, eða er það ekki? Ég vil benda á það, að fulltrúaráðsfundur L. Í. Ú. leggur svo mikið upp úr þessu atriði, að hann telur það skipta höfuðmáli, og hann segir enn fremur, að hann samþykki till. ráðh., sem komu fram í hans bréfi, í fullu trausti þess, að loforð hæstv. ráðh., sem þeir herma upp á hann í þessum bréfum, verði haldin. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðh. að þessu: Er það rétt, sem Landssamband ísl. útvegsmanna heldur fram í þessum sínum bréfum, og er það rétt, að hann hafi lofað því, að sölusamtök sjávarútvegsmanna yrðu látin starfa óhreyfð, eða er það ekki? Ég vona, að það, sem landssambandið leggur hér fram skriflega í bréfum sínum, sé rétt og að hæstv. ráðh. hafi lofað því, sem þeir segjast setja traust sitt á. En þá væri mér spurn: Hvernig er það samstarf í hæstv. ríkisstj., þegar annar ráðh. finnur ástæðu til þess að taka það sérstaklega fram, að sölusamtökin verði sett undir eitthvert annað skipulag í þessu atriði, m. ö. o., að þau verði ekki látin hafa þann starfsfrið, sem hæstv. sjútvmrh. hefur lofað?

Ég hef persónulega fullan áhuga á því, fyrir utan það, að ég tel mér skylt sem þm. að fá að vita sannleikann í þessu efni, af því að ég hef í áratugi starfað í þessum sölusamtökum og veit af eigin reynslu, hvað mikið gagn þau hafa á ýmsum tímum unnið þjóðinni í heild og þó sérstaklega umbjóðendum sínum, sjávarútvegsmönnum víðs vegar um land.

Ég er nú búinn að taka hér svo mikinn tíma í umr. um þetta mál, að ég sé, að hæstv. ráðh. gá mjög á klukkuna, sem vonlegt er. En þó er hætt við, að ýmis atriði séu enn órædd, því að málið er svo stórt og það er hespað af í svo miklum flýti, að það geta orðið mörg atriði, sem manni sést yfir, en þó þyrfti að minnast á. Ég hef til dæmis alls ekki minnzt á það atriði, sem hv. formaður fjhn. drap á í sinni ræðu, að hann sagðist eiga von á því, að það kæmu kannske fram brtt. Ég vil minnast á það, að ég hafði hug á því og hef hug á því, ef tími vinnst til, að bera hér fram brtt. við frv. Þær eru ekki stórar eða margar, en þær eru að minni hyggju nokkuð veigamiklar, og skal ég minnast á, hvað það er, sem fyrir mér vakir í því efni.

Það er vitað, að það er sérstakri fríðindagreiðslu heitið í 8. gr. þessa frv. til handa fiskvinnslustöðvum, hraðfrystihúsum, framleiðendum saltfisks og skreiðar, niðursuðuverksmiðjum og fiskimjölsverksmiðjum fyrir að taka á móti smáum fiski af bátum. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Greiða skal bætur úr framleiðslusjóði á allan