20.12.1956
Efri deild: 41. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru nokkur atriði, sem fram komu í ræðu hv. þm. Vestm., sem gefa sérstaklega tilefni til þess, að ég taki hér til máls.

Það er þá fyrst, að hann lýsti hér tveimur till., sem hann mundi flytja til breytinga á frv. Sú fyrri var um það, að ætla þyrfti þann smáfisksstyrk, sem frv. gerir ráð fyrir, einnig fyrir smáfisk af togurum, en binda hann ekki aðeins við smáfisk upp úr fiskibátum, eins og gert er ráð fyrir í frv. Í sambandi við þessa till. hv. þm. gat hann þess, að hætta væri á því, að skreiðarframleiðslan gæti dregizt eitthvað saman, ef ekki yrði orðið við till. hans um að hækka bæturnar út á smáfisk úr togurum. Eins og kunnugt er, hefur skipulagið í þessum efnum verið þannig á þessu ári, að veittur hefur verið stuðningur, sem nemur 26 aurum á kg á smáfisk, sem veiddur er af bát. Þessi smáfisksuppbót hefur því eingöngu verið bundin við bátafisk. Þannig hefur þetta verið á þessu ári, og þannig var þetta í þeirri lagasetningu, sem hv. þm. Vestm. og sú stjórn, sem hann studdi, lögleiddi í upphafi ársins. Nú er hins vegar gert ráð fyrir í þessu frv. að hækka nokkuð þennan vinnslustyrk á smáfiski frá bátum, en það er haldið áfram sömu reglu og áður að greiða ekki þennan styrk á togarafisk. Það er að vísu rétt hjá honum, að vissulega þyrftu fiskvinnslustöðvarnar alveg eins að fá stuðning til þess að vinna smáfiskinn af bátum eins og af togurum. En nú eru það mestmegnis sömu aðilarnir, sem vinna hvoru tveggja aflann, og skiptir þá ekki höfuðmáli, hvort uppbæturnar eru miðaðar við fiskinn úr öðrum veiðiskipunum eða stuðningurinn væri þeim mun minni og veittur yfir hvort tveggja. Það, sem gert hefur, að ekki hefur verið tekin upp sérstök uppbótargreiðsla á smáfisk úr togurum, er það, að mjög er erfitt að koma því við, svo að fullnægjandi geti talizt, að segja til um, hvað fellur undir smáfisk af fiski þeim, sem togararnir landa hér til vinnslu. Það er talið, að það mundi kosta mikla fyrirhöfn og allmikla peninga að þurfa við uppskipun á togaraafla að mæla þar út fiskinn og aðgreina hann í stóran og smáan fisk í fiskilestunum við sjálfa uppskipunina, en vigtun á þessum afla fer fram, eins og kunnugt er, á bílavogum og í miklu stærri hlössum en á sér stað með bátafiskinn, þar sem hinn smái bátafiskur er mestmegnis veiddur að sumarlagi af smábátum víðs vegar um landið.

Af þessum ástæðum var talið, að það væri mjög erfitt, eins og var í upphafi ársins, þegar þessar uppbætur voru fyrst ákveðnar, að ætla að koma þessu einnig við um togarafisk. Þá hefur einnig verið á það bent, að ef horfið yrði að því að bæta upp sérstaklega smáfisk togara, þá væri á óbeinan hátt verið að ýta undir það, að togararnir legðu sig meira eftir smáfiski eða veiddu hér uppi við ströndina, en talið er almennt óæskilegt að stefna okkar togurum þangað. Menn hafa því viljað varast að hækka vinnslustyrkinn á smáfisk úr togurum einnig af þeim ástæðum.

Ég er alveg fullviss um það, að með þessu frv. er ekki raskað þeim hlutföllum, sem gilt hafa í þessum efnum, á neinn hátt. Það er engin ástæða til þess að búast við því, að það verði eitthvað erfiðara fyrir skreiðarframleiðendur að reka sína starfsemi samkv. þessu frv. heldur en þeim reglum, sem áður voru, nema síður sé.

Ég hygg, að það sé enginn vafi á því, að það prósentufyrirkomulag, sem reiknað er með í þessu frv., þar sem verðbæturnar til fiskvinnslunnar eru miðaðar við hundraðstölu af útflutningsverðmæti, muni einmitt vera hagstæðast skreiðarverkuninni, eins og reyndar allri verkun, þar sem mikið er unnið að aflanum innanlands.

Hitt er svo annað mál, að það er ekkert nýtt, að fiskvinnslustöðvarnar, jafnt frystihús sem skreiðarverkunaraðilar, vilja gjarnan fá nokkru meiri stuðning en þeim er ætlaður, bæði í þessu frv. og áður. Það er engin launung, að frystihúsaeigendur og aðrir fiskverkarar fóru fram á miklu meiri aðstoð sér til handa heldur en orðið er við í þessu frv., en hins vegar var þar stuðzt við athugun, sem fram var látin fara á afkomu þessara aðila, þegar uppbætur þeim til handa voru ákveðnar nú.

Ég tel því, að það sé ekki ástæða til þess að samþykkja þessa till. hv. þm. Vestm. um sérstaka uppbót á smáfisk úr togurum og jafnt skreiðarframleiðendur sem aðrir séu sæmilega settir með þær uppbætur, sem þeim eru ætlaðar í þessu frv.

Þá er síðari till. Hún er í sambandi við það, að gert er ráð fyrir í frv. að leggja 10% gjald á vátryggingariðgjöld, og mundi þetta gjald einnig falla á þau vátryggingariðgjöld, sem fiskframleiðendur verða að greiða í sambandi við vátryggingar af frystum fiski, saltfiski og skreið, sem hér liggur í geymslu og er vátryggt. Mér var ljóst, að þessi gjöld féllu á þessa framleiðslu, hafði gert mér það fyllilega ljóst áður, og sömuleiðis er það, að þessi nýju gjöld, 10% gjöld, falla einnig á vátryggingar í sambandi við afurðir bænda og allra annarra. En hér er um sáralitið gjald að ræða, svo lítið, að ég fyrir mitt leyti taldi ekki ástæðu til þess að berjast fyrir því að undanþiggja þetta. Ég kynnti mér það nokkuð, að það er talið, að vátryggingariðgjöld þau, sem frystihúsin öll í landinn verða að greiða af fiskbirgðum sínum, mundu nema 500–600 þús. kr. á ári. Gjaldið af þessum brunatryggingum á birgðum hér heima yrði þá 50–60 þús. kr. á ári fyrir alla þessa framleiðslu. Til viðbótar því kemur svo að vísu trygging í sambandi við útflutning á þessum afurðum, því að tryggja verður vöruna á leiðinni yfir hafið, en þar er um heldur lægri upphæð að ræða og gæti því verið í sambandi við frosna fiskinn í kringum 100 þús. kr. eða rétt þar um bil að ræða á ársframleiðsluna fyrir öll frystihúsin í landinn, og skiptir þetta gjald því ekki neinu teljandi máli. Að vísu mundi þarna koma til viðbótar gjald af saltfiski og af skreið, en ég hygg, að þar sé síður en svo um hærri upphæðir að ræða, því að hæstu tryggingagjöldin munu einmitt vera af frystihúsunum, þar sem brunahættan hefur verið talin mest.

Ég tel því ekki ástæðu til þess að samþ. þessa till. heldur, þar sem hún hefur sáralitla þýðingu í sjálfu sér, borið saman við þær ráðstafanir, sem þetta frv. felur í sér til stuðnings og tryggingar útgerðinni á næsta ári.

Þá var það atriði, sem var höfuðatriðið hjá hv. þm. Vestm. að minnast hér á, spurning, sem hann lagði fyrir mig varðandi samninga mína við Landssamband ísl. útvegsmanna eða fulltrúa þeirra og skilyrði þau, sem þeir hefðu sett í sambandi við þessa samninga. Hann spurði um það, hvort það væri ekki rétt, að þeir fulltrúar útgerðarmanna hefðu sett þau skilyrði fyrir samþykki sinn, að ekki yrði hróflað við sölusamtökum útvegsmanna. Nei, það er ekki rétt; þeir hafa ekki sett þessi skilyrði. Þeir hafa skrifað rn. ekki minna en 4 bréf með fjölmörgum atriðum í, sem þeir óskuðu eftir að fá afgreiðslu á og settu sem skilyrði fyrir samkomulagi. Ekkert af öllum þessum mörgu atriðum, sem liggja fyrir í þessum bréfum, var varðandi fisksölumálin, ekki eitt einasta. En þegar samkomulag hafði tekizt við útvegsmenn, sem fengið var á grundvelli þessa frv. og bréfs, sem ég skrifaði þeim, að því leyti til sem gengið var til samkomulags við þá, og þeir höfðu gert samþykkt um að lýsa yfir starfsgrundvelli hjá útgerðinni á þeim grundvelli, þá var eins og ónotalegur kippur hefði komið í suma menn víðs vegar hér úti í bæ og hér uppi i Alþ., og þá var farið að kippa í einstaka menn og reyna að setja fram viðbótarskilyrði við það, sem búið var að semja um, og þá jafnvel stóð á því að fá á eðlilegan hátt afhent þau bréf, sem búið var að ganga frá, og þær samþykktir, sem búið var að gera, með tilraun um að reyna að koma hér inn viðbótarákvæðum varðandi fisksölumál og reyna að fá fram loforð um það, að þar skyldi engin breyting á gerð. Um þetta hefur svo staðið hörð barátta eins og gengur í þessum samtökum, sem hefur svo komið fram í því, að til viðbótar við sjálfa staðfestinguna á samkomulaginu, sem skilyrðislaust liggur fyrir, hefur mér verið sent viðbótarbréf með margvíslegum ábendingum og óskum og enn fremur um það, að í trausti þessa og hins séu ýmsir samþykkir því samkomulagi, sem gert hefur verið um rekstrargrundvöll útvegsins.

Við mig hafa fulltrúar útvegsmanna ekki rætt um sölumál sjávarútvegsins á neinn hátt í sambandi við þau skilyrði, sem þeir hafa annars sett fyrir lausn þessara mála. Hins vegar hafa einstakir fulltrúar þeirra minnzt á það við mig, hvað fyrirhugað væri í sambandi við breytingar í fisksölumálunum, og ég hef ekki dregið neina dul á það við þá, hvað þar væri fyrirhugað af minni hálfu, og hafa ýmsir þeirra aðalforustumenn beinlínis séð það frv., sem samið hefur verið og ákveðið að leggja fram.

Ég hef lýst því yfir, sem rétt er og koma mun skýrt í ljós innan tíðar, að meginefni þess frv. felst í því, að sett verður á stofn sérstök útflutningsnefnd, sem hefur á hendi yfirstjórn fisksölumálanna. Þegar ég hef verið spurður um það, hvort áformað væri að leggja niður þau sölusamtök, sem framleiðendur hefðu með sér, þá hef ég svarað því neitandi. Ekkert slíkt er í þessu frv., og ekkert liggur fyrir um að banna framleiðendum að hafa sín samtök til sölumeðferðar á sínum afurðum. En hitt er líka jafnljóst, að þrátt fyrir tilraunir, sem gerðar kunna að vera um einhver aukaskilyrði, þá er ekkert til í þá átt, að þeir fái frá mér einhverja yfirlýsingu um það, að í sambandi við skipulag afurðasölumálanna eða fisksölumálanna skuli ekki gera neitt til breytinga frá því, sem nú er. Allt, sem haft er eftir mér í sambandi við deilumál, sem upp hafa komið í samtökum þeirra um það, hvað felist í ráðstöfunum, sem fyrirbugaðar eru í sambandi við fisksölumálin, og er fram yfir það, sem ég hef nú greint, er ekki sannleikanum samkvæmt og hefur ekkert gildi.

Það er svo ekkert nýtt, ég hef oft lýst því yfir áður, að ég tel það aðeins heilbrigt og sjálfsagt og mun ekki af minni hálfu reyna að setja þar á neinn hátt fótinn fyrir, að framleiðendur jafnt til sjávar sem til sveita geti haft með sér framleiðenda- og sölusamtök og vinni þar á eðlilegum grundvelli.

Ég vænti, að það, sem ég nú hef sagt í þessum efnum, sé fullnægjandi fyrir hv. þm. Vestm. og alla þá aðra, sem hafa haft áhuga á þessu máli. Það er sem sagt ljóst, að frá hálfu útvegsmanna hafa ekki verið sett við mig skilyrði varðandi samkomulag um rekstrargrundvöll bátanna í sambandi við þetta mál, og ég hef ekki lofað þeim einu eða neinu fram yfir það, sem ég hef hér greint. Mun það líka sýna sig, að það er í fullu samræmi við undirbúning þessa máls, sem verður lagt fyrir Alþingi síðar.

Hitt er ég svo líka alveg sannfærður um, að það er með öllu tilgangslaust að reyna að hafa nokkur áhrif á það, úr því sem komið er, að samkomulag mitt við útvegsmenn mun standa, því að þeir telja, að það hafi verið unnið að þeim samningum á eðlilegan hátt og það sé gengið þannig frá rekstrargrundvelli bátanna á komandi ári samkv. þessu frv. og samkv. því samkomulagi, sem við rn. hefur verið gert, að þeir geti búið við miklu betri og hagstæðari rekstrarskilyrði en þeir hafa búið við á undanförnum árum. Það mun því ekki takast af neinum að raska því samkomulagi, og ég efast ekkert um, að bátaflotinn mun hefja veiðar af fullum krafti strax upp úr áramótum.

Ég skal svo ekki orðlengja hér frekar um það, sem hér hefur fram komið. Ég hafði hugsað mér fyrr í sambandi við þessar umræður að ræða hér nokkur atriði, en ég sé, að þeir kappar, sem þá töluðu hér hæst og vildu efna til mikilla umræðna bæði um olíusölumál og fleira, hafa runnið hér af hólminum gersamlega og ekki látið sjá sig í kvöld, eftir að þeir fluttu sínar upphaflegu ræður, og þykir mér þá ekki ástæða til þess að vera að lesa þeim lesturinn frekar en orðið er.