20.12.1956
Efri deild: 41. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Fram. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir þau svör, er hann gaf viðvíkjandi þeirri fsp., er ég til hans beindi að gefnu tilefni, vitandi um það traust, sem Landssamband ísl. útvegsmanna hefur staðfest til hans í bréfum, dags. 20. des.

Mér virtist nú að nokkru leyti hæstv. ráðherra jafnvel ekki vilja viðurkenna framan af sinni ræðu, að neinar málaleitanir hefðu til hans borizt um það atriði, sem ég spurði um. En í síðari hluta ræðunnar varð ljóst, að þær hafa verið fram settar, og hef ég það bréflega staðfest að öllu leyti, og það traust, sem Landssambandið greinir hæstv. ráðh. frá í sínu bréfi 20. des., byggist á viðtölum, þeim orðum, eftir því sem þeir halda fram, sem hann hafi haft á þeirra fundum eða í þau skipti, sem þeir hafa rætt þessi mál.

Ég las nú að vísu upp nokkurn kafla úr bréfi, öðru bréfinu frá 20. des., og þetta virðist hafa allt skeð á líkum tíma, því að bréf hæstv. ráðh. til Landssambandsins er dags. 18. des., svo að það hefur ekki liðið neinn langur tími frá því að það kom og þangað til þeir skrifa, enda vísa þeir til viðtala, og í viðbót við það, sem ég áðan las hér upp, vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa viðbótarbókun í bréfinu 20. des., er segir svo:

„Þá leyfum vér oss einnig að staðfesta samtöl fulltrúa vorra, sem átt hafa viðræður við yður, hæstv. ráðberra, þar sem þér skýrðuð frá því, að breyting á fyrirkomulagi yfirstjórnar útflutningsmála, sem ráðgert er að gera og rætt hefur verið um, væri aðeins í því fólgin, að sett yrðu lög að tilhlutan ríkisstjórnarinnar, þar sem kveðið yrði á um, að skipuð yrði útflutningsnefnd, sem tæki við störfum forstöðumanns viðskiptadeildar utanrrn. Enn fremur leyfum vér oss að staðfesta þau orð yðar, að yðar ætlun, hæstv. ráðherra, væri, að engar meiri háttar breytingar yrðu gerðar á því fyrirkomulagi, sem nú er á skipan sölumála útflutningsafurða sjávarútvegsins.“

Það sýnir sig bezt hér, að Landssambandið tekur þarna beinlínis orð hæstv. ráðh. sjálfs og endurtekur þau í þessu bréfi til hans.

Mér var ekki vel ljós öll framsetning hæstv. ráðh. í þessu máli, en þó virtist mér mega ráða það sérstaklega af síðari hluta ræðu hans um þetta atriði, að hann væri þeirrar skoðunar, að engar meiri háttar breytingar yrðu gerðar á því fyrirkomulagi, sem nú er á skipun sölumála útflutningsafurða sjávarútvegsins. Ef ég hef misskilið hæstv. ráðh., þá ætla ég að biðja hann um nú í heyranda hljóði að leiðrétta þann misskilning minn, ef hann er fyrir hendi. Að öðrum kosti verð ég að líta svo á, að svo framarlega sem hæstv. ráðh. vill ekki lýsa Landssambandsstjórnina, sem skrifar undir þetta bréf, ósannindamenn, þá sé það rétt, sem þeir segja í sínu bréfi, að hæstv. ráðh. hafi sagt þeim, að sín ætlun væri, að engar meiri háttar breytingar yrðu gerðar á því fyrirkomulagi. sem nú er á skipan sölumála útflutningsafurða sjávarútvegsins. Ég tel nauðsynlegt, að það sé upplýst í sambandi við það mál, sem hér stendur til að afgreiða, hvort svo merkur félagsskapur sem stendur að þessu bréfi fer með rétt mál eða ekki, og eins það, hvort hæstv. ráðh. vill bera brigður á, að þeir hafi rétt eftir honum það, sem þeir segja að hann hafi við sig talað.

Ég tel ekki þörf á þessu stigi málsins að ræða um þessi atriði frekar en ég hef hér gert, nema tilefni gefist til. En þetta atriði, sem ég nú gerði að umræðuefni, tel ég mikla nauðsyn á að liggi skýrt fyrir, einkum og sér í lagi vegna þeirrar áherzlu, sem mér virtist hæstv. menntmrh. leggja á skipulagsbreytingu þá, er hann nefndi á söluaðferðum sjávarútvegsins, og líka vegna þess, að grg. frv. telur þetta sem einn lið af hliðarráðstöfununum, og virðist það þá vera eitthvert sérstakt áhugamál þeirra, sem samið hafa þetta frv. En hvort sem deildarstjóri viðskiptadeildar utanrrn. er látinn vera með því embættisheiti, sem nú er, eða hvort einhver önnur yfirstjórn er sett á þá deild, tel ég ekki vera neitt þýðingarmikið atriði gagnvart sölusamtökum útvegsmanna, heldur er það breyting á skipulaginu, sem ég tel að mundi leiða til ófarnaðar, og á það atriði hafa Landssambandsmennirnir lagt höfuðáherzlu í sinum bréfum til hæstv. ráðh. Mér þykir ekki líklegt, að hæstv. ráðh. vilji halda því fram, að Landssambandsstjórnin eða Landssambandsfulltrúarnir, sem fyrir þessum bréfaskriftum hafa staðið, fari með hans orð öðruvísi en þau hafa verið sögð, og læt ráðh. um það, hvort hann vill samþykkja þau með þögninni eða á annan veg. En sé rangt farið með hans orð, þá vildi ég gjarnan heyra það, því að það má ekki liggja í þagnargildi, ef hæstv. ráðh. vildi gera þá að ósannindamönnum, sem bera það fram, að hann hafi viðhaft þessi orð á þeirra fundi, um það leyti er samið var um þessi mál.