20.12.1956
Efri deild: 36. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Fram. meiri hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um lagafrv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á l. nr. 29 1956, um atvinnuleysistryggingar. Gat n. ekki orðið á eitt sátt. Meiri hl. hennar leggur til, að frv. sé samþ. óbreytt, en minni hl. er andvígur því og skilar séráliti.

Þetta frv. felur í sér þá einu breytingu á umræddum lögum, að í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, sem skipuð er 7 mönnum, skuli 2 tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands í stað 1 áður og sem afleiðing af þeirri breytingu skuli 4 menn kosnir af sameinuðu þingi í stað 5 manna eins og lögin mæla nú fyrir. Um aðra breytingu á lögunum er ekki að ræða í þessu frv.

Í sambandi við lausn verkfallsins mikla í apríl 1955 hét ríkisstj. að beita sér fyrir því, að lög yrðu sett um atvinnuleysistryggingar. Við það loforð var staðið og lögin samþ. á Alþingi 26. marz 1956.

Í 1. gr. l. er ákveðið, að stofna skuli atvinnuleysistryggingasjóð, og er þar tilgreint, hverjar árlegar tekjur hans séu.

Í 2. gr. er rætt um stjórn sjóðsins, að hún skuli skipuð 7 mönnum, 1 tilnefndum af Alþýðusambandi Íslands, 1 af Vinnuveitendasambandi Íslands og 5 kosnum af sameinuðu Alþingi.

Lögin áttu að vera og voru samin á grundvelli nokkurra tiltekinna samkomulagsatriða, er aðilar vinnudeilunnar höfðu orðið ásáttir um við lausn hennar. Þessi atriði eru prentuð á fskj. 1 með frv. til l. um atvinnuleysistryggingar. Er eitt þeirra um það, að sjóðurinn skuli geymdur hjá Landsbanka Íslands eða Tryggingastofnun ríkisins og þá undir sérstakri stjórn, er verkalýðssamtökin eigi fulltrúa í. Annað en þetta er ekki tilgreint um skipan sjóðsstjórnar í þessu skjali deiluaðila. Það er sem sé aðeins tekið fram, að verkalýðssamtökin skuli eiga sæti í henni, en hinu sleppt, hverjir aðrir skuli þar vera.

Hitt fer ekki á milli mála, að frá upphafi var ráð fyrir því gert, að vinnuveitendur ættu fulltrúa í þessari sjóðsstjórn, þótt það samkomulag hafi hvergi verið skjalfest af deiluaðilum. Mun samninganefnd þeirra í upphafi hafa gert ráð fyrir, að stjórn sjóðsins yrði skipuð 3 mönnum, einum frá Alþýðusambandinu, öðrum frá Vinnuveitendasambandinu og hinum þriðja skipuðum af ráðherra. Síðar var rætt um 5 manna stjórn, og niðurstaðan varð, að 7 menn skipuðu hana.

Mér finnst eðlilegt, að Alþýðusambandið, sem átti skýlausan rétt til eins manns í 3 manna stjórn, telji hlut sinn skertan, ef það fær aðeins 1 mann í 7 manna stjórn. Við fjölgunina mátti ætlast til, að hlutur verkalýðssamtakanna yrði ekki gerður minni, að fulltrúatala þeirra yrði hlutfallslega aukin, en það varð ekki. Á þessu óskar Alþýðusambandið leiðréttingar, og hefur það orðið að samkomulagi milli þeirra, er að hæstv. ríkisstj. standa, að gera þessa leiðréttingu.

Atvinnuleysistryggingasjóður er ein af kjarabótum verkalýðsins og hans mikla öryggismál. Til þess að koma fram löggjöf um atvinnuleysistryggingar varð verkalýðurinn að slá af öðrum kröfum sínum í verkfallinu mikla 1955. Hann á að njóta ávaxtanna, enda unnið til þeirra. Það er því ekki nema eðlilegt, að verkalýðssamtökin óski þeirrar leiðréttingar, sem hér er um að ræða. Það er sanngirniskrafa frá þeirra hendi. Hvaða réttlæti er það t.d., að stjórnmálafl. atvinnurekenda, Sjálfstfl., hafi fleiri fulltrúa í sjóðsstjórninni en verkalýðssamtökin sjálf? Sjálfstfl. hefur þar nú 2 fulltrúa auk fulltrúa atvinnurekenda. Það liti óneitanlega betur út og eðlilegar, að Alþýðusambandið tilnefndi 2 menn og að Sjálfstfl. fengi þá aðeins 1. Fram á aðra breytingu né stærri er ekki farið.

Vinnuveitendasamband Íslands hefur í bréfi til heilbr.- og félmn. krafizt þess, að verði l. um atvinnuleysistryggingar breytt, þá fái það áfram að tilnefna a.m.k. jafnmarga fulltrúa í sjóðsstjórnina og Alþýðusamband Íslands. Í þessu bréfi er fullyrt, að í samningaviðræðunum hafi því verið slegið föstu, að ef sérstök stjórn yrði sett fyrir sjóðina, skyldu stéttarfélögin fá fulltrúa í hana og vinnuveitendur a.m.k. jafnmarga.

Heilbr.- og félmn. athugaði sérstaklega sanngildi þessarar fullyrðingar, án þess að fá það staðfest. Átti hún í því sambandi viðtöl við sáttasemjara ríkisins, formann þeirrar nefndar, er falið var að semja lögin, og fulltrúa Vinnuveitendasambandsins, en staðfesting fékkst ekki á fyrrgreindri fullyrðingu. Hins vegar kom það fram i þessum viðtölum, að því hafði verið heitið frá upphafi, að hlutur vinnuveitenda skyldi ekki fyrir borð borinn og að þeir skyldu fá fulltrúa í sjóðsstjórnina, en á það hefur enginn mér vitanlega borið brigður. Við þann munnlega sáttmála, að vinnuveitendur skyldu endilega hafa jafnmarga fulltrúa og Alþýðusambandið, virtist enginn kannast nema Björgvin Sigurðsson, erindreki Vinnuveitendasambandsins.

Fram komnar brtt. frá hv. 6. þm. Reykv. um einn mann tilnefndan af sambandi sveitarstjórnanna og 3 menn kosna af Alþingi gat meiri hl. n. ekki fallizt á að svo stöddu. Ef til vill á það samband ekki síður rétt á fulltrúa þar en Vinnuveitendasambandið og þá af sömu ástæðu. Það mál mun þó rétt að athuga betur og þá í sambandi við endurskoðun laganna í heild, en sú endurskoðun skal fara fram eftir rúmt ár.

Að lokum legg ég til, að frv. því, sem liggur fyrir, verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.