20.12.1956
Efri deild: 36. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég flyt brtt. á þskj. 83 um það, að Samband íslenzkra sveitarfélaga fái að tilnefna einn mann af sjö í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég mælti fyrir þeirri till. við 1. umr. þessa máls og hirði ekki eða nenni ekki, svo að ég noti orð síðasta ræðumanns, að endurtaka þær röksemdir. Hv. þm. S-Þ. (KK) viðurkenndi, að sú till. væri sanngjörn, en hann kvaðst ekki geta fylgt henni vegna þess, að hún væri of lítil réttarbót fyrir sveitarfélögin. Það, sem skipti meira máli, væri, að í stjórnunum í héraði væru fulltrúar frá sveitarfélögunum.

Ég verð nú að segja, að harla léttvægar eru þessar röksemdir. Ef þetta ætti að vera meginástæðan fyrir andstöðu hv. þm. við brtt. mína, hví í ósköpunum flytur hann þá ekki bara viðaukatill. um þá breytingu, að sveitarfélögin skuli fá fulltrúa, einn eða tvo t.d., í stjórnirnar heima í héraði? Og ég skal lýsa yfir, að ég mundi með ánægju styðja og jafnvel gerast meðflutningsmaður hans að þeirri till. nú þegar við þessa umr. eða þriðju, og vænti þess, að hann láti þá ekki sitja við orðin tóm, heldur styðji málið, þar sem það virðist í hans augum vera meiri réttarbót. En meginástæðan fyrir því, að hann getur ekki fylgt málstað sveitarfélaganna nú, er sú, að hann telur mína till. of litla réttarbót. Við skulum því leggja saman og flytja hina meiri réttarbót, annaðhvort nú við þessa umr. eða þá þriðju.