20.12.1956
Efri deild: 36. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í ræðu frsm. meiri hl. n., hv. 1. landsk. þm. (AG), voru færð fram þau rök fyrir þessu frv., að það væri fráleitt, að Sjálfstfl. hefði fleiri fulltrúa i þessari stjórn en verkalýðssamtökin. Átti hann þá við það, að eftir núgildandi lögum, þar sem kosnir eru fimm í Alþingi, hefði Sjálfstfl. tvo, og auk þess væri fulltrúi Vinnuveitendasambandsins hlynntur Sjálfstfl., en Sjálfstfl. væri flokkur atvinnurekendanna, eins og hv. þm. orðaði það.

Nú er það að vísu, sem allir vita og þessi hv. þm. einnig, að af kjósendum Sjálfstfl. eru miklu fleiri verkamenn en atvinnurekendur, ef á að telja þá eftir höfðatölu. En látum það liggja á milli hluta. Mér virðist hins vegar, að þessi röksemd sé harla einkennileg, og spyrst fyrir um það, hvort hún sé fram sögð fyrir hönd allra stjórnarflokkanna.

Hv. þm. virðist byggja á því, að fulltrúi Alþýðubandalagsins eins sé fulltrúi fyrir verkalýðinn og svo fulltrúi Alþýðusambands Íslands. Hann virðist þannig ganga út frá því, og á því byggist afstaða meiri hl. n. að verulegu leyti, að þeir fulltrúar, sem Framsfl. og Alþfl. eiga í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, séu alls ekki fyrir verkalýðinn í landinu. Ég spyr nú fulltrúa Alþfl. hér í þessari hv. d.: Er þetta talað með þeirra samþykki og fyrir þeirra munn, að sá fulltrúi, sem þeir eiga í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, sé alls ekki fyrir verkalýðinn, heldur fyrir eitthvað allt annað ?

Þetta var út af þessari höfuðröksemd hv. 1. landsk. þm. En ég vil til viðbótar því, sem ég sagði hér út af ræðu hv. þm. S-Þ. (KK), þar sem hann andmælti minni till. um, að sveitarfélögin fengju einn mann í stjórn, aðeins bæta þessu við: Ég hafði þá ekki við höndina lögin um atvinnuleysistryggingar, en vildi nú vitna í þau. Ég tel nefnilega, að röksemdir hans fái alls ekki staðizt um það, að þessi brtt. um, að sveitarfélögin fái mann í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, sé harla lítils virði. Það er sú stjórn, sem á að ávaxta fé sjóðsins. Nú veit hv. þm. S-Þ. það manna bezt, að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, sem hann hefur lengi átt sæti í, hefur hvað eftir annað lagt á það megináherzlu, að sveitarfélögin fengju einhvern aðgang að lánsfé til sinna framkvæmda, og margar samþykktir hljóða um það frá þingum Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég hefði því búizt við, að það mætti vera m.a. hlutverk þessa hv. þm. sem ágæts fulltrúa sveitarfélaganna að stuðla að þessu áhugamáli þeirra.

Nú er það víst, að atvinnuleysistryggingasjóðurinn kemur til með að hafa þegar á þessu ári og á næsta ári og jafnan, meðan full atvinna eða allt að því full atvinna er í landinu, milljónatugi til ráðstöfunar. Nú er það stefna hæstv. núverandi ríkisstj. að tryggja fulla atvinnu í landinu, og við skulum því ætla, að hv. núverandi stjórnarflokkar geri ráð fyrir því, að meðan þessi hæstv. ríkisstj. situr að völdum, verði hér næg atvinna, væntanlega næstu ár, kannske út þetta kjörtímabil. Ég býst við, að stjórnin vænti þess að geta lifað eitthvað, a.m.k. nokkur ár enn. Það er því augljóst mál, að stórkostlegar fjárfúlgur verða í atvinnuleysistryggingasjóði. Till. mín um það, að sveitarfélögin fái einn mann af sjö í þessa stjórn, er m.a. byggð á því, að eitthvert tillit yrði tekið til þessara óska sambands sveitarfélaganna, m.a. um ávöxtun þessa fjár, til þess að sveitarfélögin, sem mjög hefur skort lánsfé til margvíslegra framkvæmda víðs vegar um land, gætu þó haft einhverja von um að fá eitthvað af lánum úr þessum sjóðum og að tillit yrði til þeirra tekið. Þess vegna tel ég það stórmál fyrir öll sveitarfélög á landinn, að þessi brtt. mín yrði samþykkt.

Hv. þm. S-Þ., sem tók að sér að andmæla henni, vegna þess að hún gengi allt of skammt, virðist hafa gleymt þessum áskorunum, þessu mikla áhugamáli sambands sveitarfélaga og þinga þeirra. Ég vil nú skora á hann að endurskoða sína afstöðu.

Í 13. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar segir svo, að ef handbært fé verður meira en ætla má nauðsynlegt til greiðslu bóta samkvæmt lögum þessum, er stjórn sjóðsins, — ekki nefndunum heima í héraði, heldur stjórn sjóðsins, heimilt að ávaxta þann hluta fjárins í útlánum eða vaxtabréfum gegn ábyrgð ríkissjóðs eða annarri öruggri tryggingu.

Ég skal ekki fara út í þær deilur, sem hér hafa orðið að öðru leyti um hlutfallið milli Alþýðusambands og Vinnuveitendasambands. Það hefur komið fram hér frá tveim hv. þm., að þeir telja, að samið hafi verið á þeim grundvelli, að þessir aðilar hefðu jafnmarga fulltrúa. Ég skal ekki fara út í það. En ég vil undirstrika það, að ég tel fullkomið sanngirnismál og nauðsyn, að sveitarfélögin fái hér sinn fulltrúa, sérstaklega þegar þess er gætt, að sveitarfélögin munu á næsta ári greiða milli 9 og 10 millj. kr. í þennan sjóð, jafnmikið og atvinnurekendur og helminginn af því, sem ríkissjóður greiðir í þennan sjóð, en ríkissjóður hefur samkvæmt gildandi lögum 5 fulltrúa, eftir frv. 4, sveitarfélögin engan.