20.12.1956
Efri deild: 37. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ef um það væri að ræða í sambandi við þetta mál að auka áhrif verkalýðsins raunverulega á stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, þá teldi ég það horfa nokkuð öðruvísi við heldur en það gerir nú. Af hálfu hv. frsm. meiri hl. við 2. umr. og af hálfu hæstv. félmrh. hefur að vísu verið lögð áherzla á, að málið væri flutt til þess að auka áhrif verkalýðsins á stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég dreg mjög í efa, að þessu sé í raun og veru þannig farið. Sá flokkur, sem fyrst og fremst hefur beitt sér fyrir þessu máli hér á hv. Alþ., kommúnistaflokkurinn, telur sig að vísu ekki aðeins verkalýðsflokk, heldur hinn eina sanna verkalýðsflokk. Þetta kom ákaflega greinilega fram i framsöguræðu hv. 1. landsk. fyrir þessu máli við 2. umr. hér í þessari hv. þd. Hv. þm. sagði um flokk atvinnurekenda, er hann kallaði svo, Sjálfstfl., að það væri mjög óviðkunnanlegt, að hann hefði fleiri fulltrúa í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs heldur en sjálfur verkalýðurinn. Hv. 6. þm. Reykv. benti mjög greinilega á það, hvernig þessi hv. þm. fékk þetta út. Hann fékk það út með því að telja fulltrúa atvinnurekenda í sjóðsstjórninni jafnframt fulltrúa Sjálfstfl. og enn fremur með því að telja hvorki fulltrúa Framsfl. né fulltrúa Alþfl. i stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs til fulltrúa verkalýðsins. Sem sagt: Eini fulltrúi verkalýðsins í stjórninni er þá kommúnisti frá stjórn Alþýðusambands Íslands.

Það má hver sem vill lá okkur sjálfstæðismönnum, þótt við lítum með nokkurri tortryggni til máls, sem slíkan rökstuðning hlýtur, ekki aðeins frá frsm. n., heldur og frá þeim hæstv. ráðh., sem að málinu stendur. Ég lýsi því hiklaust yfir, eins og hv. þm. S-Þ. (KK) gerði, að ég tel , að verkalýðurinn eigi að hafa mjög rík áhrif á stjórn slíks sjóðs. Hins vegar er það rétt, sem hv. þm. V-Sk. (JK) einnig benti á, að þessi löggjöf, lögin um atvinnuleysistryggingar, byggist á samningi, sem gerður var milli ríkisvaldsins annars vegar og launþega og vinnuveitenda hins vegar. Það er þess vegna mjög hæpið að breyta þessum samningi svo fljótt, ekki sízt þegar ráð er fyrir því gert í sjálfum lögunum um atvinnuleysistryggingar, að þau skuli endurskoðuð innan tveggja ára.

En ég segi: Enda þótt ég telji, að áhrif verkalýðsins eigi að vera mjög rík á stjórn slíks sjóðs sem atvinnuleysistryggingasjóðs, og enda þótt ég væri jafnvel viðmælandi um það og þá í samvinnu við aðra aðila, sem að þessu máli standa, að auka áhrif verkalýðsins á stjórn sjóðsins, þá tel ég mig ekki ganga raunverulega erinda verkalýðshreyfingar og þess vinnandi fólks í landinn með því að gera það með þeim hætti, sem í þessu frv. er lagt til, vegna þess að á allt þetta verður að líta í ljósi ummæla hv. 1. landsk. og hæstv. félmrh., að það sé ekki til nema einn verkalýðsflokkur í landinu, einn raunverulegur verkalýðsflokkur, að þeirra áliti, þ.e. kommúnistaflokkurinn. Og ég segi hér á hv. Alþ.: Ég vil ekki auka vald þess flokks yfir málefnum verkalýðsins, og ég tel mig ekki vera að ganga erinda verkalýðsins með því að auka vald hans. Þess vegna er ég á móti þessu frv., og þess vegna er það ekkert nema yfirvarp eitt, sem haldið er fram af hv. 1. landsk. og hæstv. félmrh., að hér sé verið að auka raunverulegt vald verkalýðsins. Það er veríð að auka vald og áhrif kommúnistaflokksins.

Hv. 1. landsk. sagði, að Sjálfstfl. væri flokkur atvinnurekenda. Hverra flokkur er þá kommúnistaflokkurinn? Er hann flokkur verkalýðsins? Hefur það t.d. komið fram í sambandi við þá atburði, sem hafa verið að gerast mestir og hryggilegastir í heiminum í dag? Hefur það sýnt sig, að allsherjarsamtök verkalýðsins á Íslandi, sem eru í höndum kommúnista, hafi sýnt skilning sinn og samúð sína gagnvart þeim harmleik, sem er að gerast meðal verkalýðs eins lítils lands í heiminum í dag?

Ég segi nei. Alþýðusamband Íslands undir stjórn kommúnista og hæstv. félmrh. hefur eitt allsherjarverkalýðssambanda frjálsra lýðræðisríkja skorið sig út úr, þegar til þess hefur verið leitað til þess að sýna samúð með verkalýð Ungverjalands, sem daglega færir blóðfórnir.

Ég segi: Ég vil ekki hér á hv. Alþ. eiga þátt í því að auka vald samtaka, sem stjórnað er af kommúnistaflokki, sem þannig kemur fram og þannig sannar eins greinilega og hægt er, að það eru ekki hagsmunir og heiður íslenzks verkalýðs, sem liggur honum þyngst á hjarta, heldur stuðningurinn við erlenda ofbeldisstefnu.

Það var ákaflega athyglisvert að heyra ummæli hv. þm. S-Þ. hér áðan. Hann lýsti yfir andstöðu sinni við þetta frv., en sagði síðan: Sem stjórnarstuðningsmaður nenni ég ekki að bregða fæti fyrir það. Ég skil hv. þm. S-Þ. mætavel. Undir niðri hjá honum hrærast alveg greinilega sömu hugsanir og hjá mér, að hann finnur, hvaða skollaleik hér er verið að leika.

Því miður hefur hæstv. félmrh. flutt hér inn á Alþ. mál, sem er algerlega pólitískt brellumál. Þetta er engin tilviljun. Hann hefur flutt fleiri slík mál hér inn á hv. Alþ. þann stutta tíma, sem það hefur staðið á þessu hausti.

Ég vildi ekki láta þetta mál fara þannig út úr hv. þd., að mín rödd kæmi ekki til viðbótar við þær, sem áður hafa heyrzt, til þess að túlka skilninginn á þessu. Það, sem er að gerast, er ekkert annað en það, að kommúnistaflokkurinn, sem stjórnar Alþýðusambandi Íslands og notar það í sína pólitísku flokksþágu, er með þessu frv. að gera tilraun, sem heppnast með aðstoð hinna stjórnarflokkanna, til þess að ná einum fulltrúa undir sig, fulltrúa, sem nú er kosinn af Sjálfstfl. á Alþ., og með þessu auðvitað að rýra áhrif Alþingis á stjórn þessa sjóðs.

Í sambandi við það, að Sjálfstfl. sé flokkur atvinnurekenda, þá held ég, að það hnigi öll rök til þess, að það séu fleiri verkamenn á Íslandi, sem kjósa Sjálfstfl. heldur en jafnvel sjálfan hinn eina „sanna“ verkalýðsflokk, kommúnistaflokkinn. Ég hugsa, að það muni a.m.k. ekki miklu. En engu að síður er Sjálfstfl. ekki verkalýðsflokkur, en hins vegar flokkur atvinnurekenda að áliti kommúnista og þeirra málsvara.

Ég álít, að það sé mjög miður farið, að hv. stjórnarflokkar, þ.e.a.s. lýðræðisflokkarnir í ríkisstj., skuli hafa látið kommúnistaflokkinn komast upp með það, að slíkt mál eins og þetta skuli gert að stjórnarfrv., og það mun einhvern tíma síðar koma í ljós, að það er ekki hyggilegt og það er ekki raunverulega í þágu verkalýðsins í landinu að vera að auka áhrif kommúnista og styrkja aðstöðu þeirra eins og gert er með þessu frv.