20.12.1956
Efri deild: 37. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það var áreiðanlega gert meira af vilja en af mætti hjá hv. þm. N-Ísf. (SB) að mæla gegn þessu frv., því að hann gat ekki komið nálægt málinu á nokkurn hátt, sem það liggur fyrir hv. þd. Hér er ekkert um það að ræða að veita neinum kommúnistaflokki neinn fulltrúa í stjórn þessa sjóðs. Það er um það að ræða, hvort á að færa til fulltrúa frá Sjálfstfl. og til Alþýðusambands Íslands, og ég skil ósköp vel, að hann vilji, að Sjálfstfl., einn allra stjórnmálaflokka, hafi tvo menn í stjórn þessa sjóðs. Ég tel það hins vegar enga nauðsyn og sízt af öllu nauðsyn verkalýðsins. Ég tel það miklu meiri nauðsyn, að Alþýðusamband Íslands hafi tvo fulltrúa í þessari sjóðsstjórn, og tel, að allir muni skilja það nema kannske hv. þm. N-Ísf. Hann talar um kommúnista. Sjálfur er hann fyrrverandi kommúnisti. Hvað djúpt kann að vera orðið á kommúnistanum í honum nú, veit ég ekki, ég hef engin tæki til að mæla það, en kommúnisti var hann og gerir sér þess vegna mjög tíðrætt um kommúnista.

Það er honum enginn stuðningur í sambandi við þetta mál að brigzla Alþýðusambandi Íslands um, að það hafi ekki sýnt Ungverjum samúð, en þá sést bezt, hvað maðurinn er kominn langt frá málefninu. Ég efast um það, að Sigurður Bjarnason hafi í orði eða verki sýnt Ungverjum meiri samúð en Alþýðusamband Íslands, og það er bezt, að hann leiði einhverjar líkur að því, áður en hann fleiprar hér á hv. Alþingi um samúð sína og samúðarskort annarra í þeim efnum.

Hann fór hér með bein ósannindi, þegar hann sagði, að Alþýðusamband Íslands eitt allra sambanda frjálsra verkalýðsfélaga hefði haft sig undan því að stofna til vinnustöðvunar þann 8. nóv., þegar alþjóðasamband frjálsra verkalýðsfélaga hefði farið fram á það. Það er rétt, að Alþýðusamband Íslands gat ekki orðið við þeim tilmælum, þegar af þeirri ástæðu, að beiðnin um þetta kom síðari hluta dags þann 7. nóv. í hendur Alþýðusambandsstjórnar og þessi ráðstöfun átti að vera komin til framkvæmda fyrir hádegi daginn eftir. En þá nokkuð mörgum dögum áður hafði miðstjórn Alþýðusambands Íslands ótilkvödd utan frá gert samþykkt um það einróma að veita 15 þús. kr. úr sjóðum sinum til Ungverjalandssöfnunarinnar, sem þá var að hefjast undir merkjum Rauða krossins, og veit ég ekki til, að nein önnur félagasamtök á Íslandi hafi verið búin að sýna Ungverjum samúð í verki á undan Alþýðusambandi Íslands. Ég gæti bezt trúað, að hv. þm. N-Ísf. hafi ekki verið búinn að opna sína pyngju, ef ég þekki hann rétt.

Ég hef hérna fyrir framan mig tímarit Alþýðusambands Svíþjóðar, hefti frá 16. nóv. Þar byrjar forsíðugreinin á þessa leið: „Fria Fagföreningsinternasjonalen har riktat en maning til de anslutna medlemsorganisasjonarna i olika länder att vid 12-tiden torsdagen den 8. november företa en 5-minuter lång proteststrejk mot det ryska övervåld Ungern utsatts för. LO's styrelse behandlade denna fremställningen den 7. november, men slöt att ersäitta den föreslagna formen för protest med ett mer reelt stöd. I stället för en 5-minutestrejk sätter LO i gång med en insamliug av ekonomiska resurser till hjälp at det ungerska folket.“ M.ö.o.: Það er verið að saka Alþýðusamband Íslands um hér, að það hafi, vegna þess að það séu kommúnistar, sem ráða í Alþýðusambandi Íslands, ekki sett í gang 5 mínútna verkfall fyrir hádegi þann 8. nóvember, en hér er það upplýst af aðalmálgagni sænska alþýðusambandsins, að það varð ekki heldur við beiðni alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga, en ákvað eins og Alþýðusamband Íslands að svara þessum tilmælum — það höfðum við þá þegar gert — með raunhæfari aðgerðum, þ.e.a.s. með fjársöfnun og fjárframlögum, og við höfðum þá beint því til blaðanna að flytja félögum innan Alþýðusambands Íslands þau boð, að Alþýðusambandið óskaði, að verkalýðsfélögin innan Alþýðusambandsins beittu sér fyrir fjársöfnun. Nákvæmlega það sama gerir sænska verkalýðshreyfingin, og við fáum fyrst vitneskju um það, eftir að búið er að skamma okkur og svívirða í margar vikur, að þetta var svona.

Annaðhvort hefur hv. þm. N-Ísf. ekki vitað um þetta ellegar hann hefur sagt ósatt vísvitandi í þessu máli, þegar hann sagði, að Alþýðusamband Íslands, eitt allra fagsambanda innan frjálsa alþjóðasambandsins, hefði ekki orðið við tilmælum í þessu formi, því að sænska sambandið hefur sannarlega hagað sér þarna nákvæmlega á sama hátt, og stend ég í þeirri meiningu, að á raunhæfari hátt sé tjáð samúð með Ungverjum á þennan hátt heldur með samþykktri yfirlýsingu. Auk þess hefur Alþýðusamband Íslands á sínu þingi samþykkt samúðaryfirlýsingu vegna Ungverjalandsmálanna, þeirra hörmunga, sem þar hafa dunið yfir þá þjóð, í einu hljóði, ekki eitt einasta mótatkvæði.

Mér þykir það því næsta furðulegt, að enn þá skuli reynt að koma upp með það í sambandi við þetta mál, að Alþýðusamband Íslands hafi ekki sýnt ungversku þjóðinni samúð í raunum hennar.

Ég tel ástæðulaust að fjölyrða um þetta mál. Efni þess er, að það er hér um það að ræða, að stjórnmálaflokkarnir allir eigi áfram sinn fulltrúann hver i stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs. Sjálfstfl. missir að vísu einn fulltrúa við þessa breytingu. Hann einn stjórnmálaflokkanna átti þar tvo. Hins vegar er breytingin sú, að Alþýðusamband Íslands fær aftur tvo fulltrúa í stjórn þessa sjóðs og skiptir þannig hlutverkum við Sjálfstfl., og ég spyr, hvort nokkur telji Sjálfstfl. sem slíkan réttbornari til þess að eiga tvo fulltrúa í þessari 7 manna stjórn heldur en verkalýðssamtökin sjálf. Ef hægt er að leiða rök að því, þá gæti ég trúað, að það hefði áhrif á afstöðu þingmanna.

Í dag var aðallega talað um, að það bæri að harma, að sveitarfélögin hefðu ekki fulltrúa í þessari stjórn, þar sem þau legðu fram fé til sjóðsins. Undir þetta var tekið, m.a. af mér, að það væri þó miklu nær sanni, að sveitarfélögin hefðu þar fulltrúa. En það hefur ekki alltaf verið hugsað um þetta. Ég veit ekki annað en að sveitarfélögin borgi miklar upphæðir í almannatryggingarnar. Ég hef aldrei heyrt talað um af neinum, að það væri talin nauðsyn, að það væru beinir fulltrúar frá sveitarstjórnum í tryggingaráði.

Það var hv. 6. þm. Reykv. (GTh), sem bar sérstaklega sveitarfélögin fyrir brjósti, en það er nú staðreynd, að hann kannske einn allra sveitarstjórnarmanna var einmitt til kvaddur í sambandi við lausn verkfallsins. Þegar þessar tryggingar voru stofnaðar og þáverandi ríkisstj. ákvað, hvernig stjórnin skyldi skipuð, hafði hann engan áhuga á því, að sveitarstjórnirnar hefðu þar fulltrúa. Nú er áhuginn vaknaður. Hann einn hefði þá haft einmitt aðstöðu til sem einn af leiðandi mönnum Sjálfstfl., sem þá var í stjórnaraðstöðu, að koma hagsmunum sveitarfélaganna að. En eins og fyrri daginn, þegar Sjálfstfl. er ekki lengur í stjórn, þá fer hann að sjá það, sem hann hefði kannske talið sig eiga að gera; eins og flokkurinn, sem hafði ekki rænu á því, vilja á því eða áhuga fyrir því að kaupa nokkurn togara til landsins í 8 ár, meðan hann var í stjórn, fær allt í einu brennandi áhuga á því að kaupa tuttugu, þá voru það ekki fimmtán, heldur tuttugu, þegar hann er ekki lengur í stjórn. Svona er samhengið hjá þessum flokki, og ég vissi, að það mátti einmitt vænta þess af hv. þm. N-Ísf., að hann yrði í einu og öllu málsvari þess að spila plötu tvöfeldninnar, eins og hann hefur gert hér.