20.12.1956
Efri deild: 37. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er enginn vafi á því, að þessar umr. hefur borið fyrst til Ungverjalands og svo vestur á Ísafjörð, af því að rök í málinu sjálfu voru ekki nærtæk. Það dylst vafalaust engum. Hins vegar fannst mér ekki rétt annað en að leiða hér fram óyggjandi vitni um það, sem hv. þm. N-Ísf. hafði sagt ósatt varðandi Alþýðusamband Íslands í sambandi við Ungverjalandsmálið, og þótt hann kalli það hér gamalt blað sem ómerkilega sönnun í þessu máli, þá er þetta, eins og ég áðan sagði, tímarit sænska alþýðusambandsins, útgefið núna þann 16. nóv., og þar er þessi afstaða sænska alþýðusambandsins rædd. Ég hefði vænzt þess, að ef hv. þm. N-Ísf. væri maður, sem ætti samleið með sannleikanum, þá hefði hann eftir að hann hafði fengið vitneskju um þetta, beðið afsökunar á þeim ósannindum, sem hann hafði borið á Alþýðusamband Íslands, en þau voru þessi, að Alþýðusambandið eitt allra fagsambanda innan hins frjálsa alþjóðasambands verkalýðsfélaganna hefði ekki beitt sér fyrir fimm mínútna vinnustöðvun. En hv. þm. N-Ísf. lét það rétt vera að biðja afsökunar á þessum ósannindum sínum, þó að hann talaði hér áðan, og sannaði það, að hann er svo sem ekki alltaf meðreiðarmaður sannleikans. Undantekning var a.m.k. gerð núna frá því.

En þegar Ungverjaland hafði ekki gefizt vel sem þáttur í umr. um þetta litla frv. hér, þá vék hann sér í Viðeyjarklaustur, þá vék hann sér vestur á Ísafjörð og fór að segja sögur af því, að ég hefði ráðstafað í burtu togara, sem þar hefði verið, vitanlega jafnfjarstætt þessu máli. Sannleikurinn var sá, að Ísafjarðarkaupstaður og ýmsir borgarar þar höfðu keypt gamlan togara, og þegar hann hafði verið rekinn þar um skeið, þótti sýnt, að þetta skip væri ekki til frambúðar, og hann var seldur til Reykjavíkur, og frá Reykjavík var hann seldur til Englands. Þá segir þessi hv. þm., meðreiðarmaður sannleikans, að ég hafi lofað í staðinn að kaupa allt upp í 40 vélbáta til bæjarins í staðinn, — alger uppspuni, sem þessi hv. þm. er búinn að margendurtaka og kannske farinn að trúa að sé sannleikur. En þegar hann var að skrökva þessu í Vesturlandi í nokkur ár í röð, meðan hann var ritstjóri þess blaðs, þá sagði hann alltaf, að Guðmundur Hagalín hefði lofað 40 bátum í bæinn. Nú er það orðið ég. Það er nýjasta útgáfan af sannleikanum hjá honum. En það var jafnósatt um Guðmund Hagalín eins og mig, að við hefðum lofað 40 vélbátum í bæinn í staðinn fyrir gamla togarann, sem var seldur í burt. Það næsta, sem við gerðum þar á eftir, var að beita bæjarstjórn Ísafjarðar fyrir því máli, að Ísafjarðarkaupstaður gerðist kaupandi að tveimur nýjum togurum, og það bera gerðarbækur bæjarstjórnar Ísafjarðar með sér, að það er undir meiri hl. Alþýðuflokksins, sem gerðar eru samþykktirnar um, að Ísafjarðarbær reyni að fá tvo nýja togara. Við fengum ekki nema einn í fyrstu lotu, og það var fyrst miklu síðar, að við fáum annan, en það er hvort tveggja á grundvelli þeirrar samþykktar, sem við gerðum um að fá tvo nýja togara í staðinn fyrir þann gamla, sem seldur var.

Hv. þm. N-Ísf. þarf ekkert að státa, hvorki í sambandi við togarakaup né bátakaup til Ísafjarðar, því að hann hefur í engu slíku tekið þátt. Íhaldið stóð lengst af bak við búðarborð á Ísafirði og lét það vera að láta hendur standa fram úr ermum í sambandi við atvinnulífið 1 þeim bæ. Jú, það var svo, að einn óvenjulega dugandi íhaldsmaður tók sig til og beitti sér fyrir stofnun togarafélags, hlutafélags um vélbátaútgerð, en hver varð endirinn á þeirri útgerð. Það er landsfrægt, það ætti skilið að verða heimsfrægt. Útgerðarmaðurinn fór til Grænlands með sína báta, af Grænlandsmiðum strauk hann til Newfoundland með alla bátana, og bátarnir voru seldir þar. Það varð endirinn á útgerðarsögu íhaldsins, og þetta var einmitt um þær mundir, þegar hv. þm. N-Ísf. státaði sem forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar. Þetta er útgerðarsagan hans og flokksins hans. Nei, það voru engir 40 bátar, sem þeir keyptu. Þeir ráðstöfuðu þeim bátum, sem þeir áttu, til annarra landa og struku úr landi.

Ekki er þetta betri reisa, þessi Vestfjarðareisa hv. þm. N-Ísf., heldur en Ungverjalandsförin hans áðan, en ég er alveg sannfærður um það, að þessi meðreiðarmaður sannleikans hefur ekki mannlund í sér til þess að biðja afsökunar á þessum ósannindum sínum, sem hann er afhjúpaður af nú, frekar en þeim fyrri.

Ég get ekki gert að því, þó að hann geti ekki gert greinarmun á kommúnistaflokki og Alþýðusambandi Íslands og tali svo um kjósendatölu Alþýðubandalagsins í sömu andránni sem hann er að tala um Alþýðusambandið og einhvern kommúnistaflokk. En ég kemst þó ekki hjá að leiðrétta þarna enn eitt: Alþýðusamband Íslands hefur nú rétt um 29 þúsund félagsmenn, og það er í umboði þeirra, sem Alþýðusambandið fer fram á að eiga tvo menn í sjö manna stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, og ég tel , að sú krafa sé mjög réttilega rökstudd með þessari háu félagatölu Alþýðusambands Íslands.

Ég hélt nú einmitt, að hv. þm. N-Ísf. hefði góðar taugar til Alþýðusambands Íslands, en það virðist eins og hann megi ekki heyra það nefnt. Einu sinni var hann þó í stéttarfélagi. Hann var einu sinni í Sjómannafélagi Ísfirðinga, en var rekinn þaðan.

Það, sem hér stendur þá eftir og nær væri, einmitt að ósk forseta, að tala um, er þetta: Hvort er réttmætara, að Sjálfstfl. einn allra stjórnmálaflokka eigi tvo fulltrúa í sjö manna stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, eða er það eins sanngjarnt eða jafnvel sanngjarnara, að Alþýðusamband Íslands með sína 29 þús. meðlimi eigi tvo menn í stjórn atvinnuleysistrygginganna? Ég tel það síðarnefnda réttmætara, og á því byggist það, að það er ekki neitt brellumál, heldur réttlætismál, sem hér er flutt. Og ég vænti þess, að þegar hv. þm. N-Ísf. athugar sinn gang betur, kemur heim frá Ungverjalandi og heim úr þessari seinustu Vestfjarðaför, þá styðji hann einmitt réttlætismálið og geri sér ljóst, að það er ekkert brellumál hér á ferðinni.