28.01.1957
Neðri deild: 46. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. minni hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Í nál. minni hl., sem lagt hefur verið fram í þessu máli, hefur verið prentuð slæm villa, svo að ég vil leyfa mér að lesa nál. eins og það væri rétt prentað:

„Nefndin er ósammála um frumvarpið. Meiri hlutinn mælir með frumvarpinu, en undirrituð geta hins vegar ekki fallizt á það.

Frumvarp þetta, ef að lögum verður, mun auka vald Alþýðusambandsins á kostnað Alþingis, en Alþýðusambandið á skv. frv. að fá tvo fulltrúa í stað eins áður í stjórn sjóðsins. Vinnuveitendasamband Íslands á einn fulltrúa í stjórn sjóðsins, og gerir frv. ekki ráð fyrir breytingu þar á.

Minni hluti nefndarinnar telur breytinguna, sem í frumvarpinu felst, rangláta og til þess eins gerða að fá þeim pólitíska flokki, sem hefur á hendi stjórn Alþýðusambandsins, frekari völd.

Auk þess skal á það bent, að í sjálfum lögunum um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um endurskoðun þeirra árið 1958. Þess vegna teljum við breytinguna ótímabæra, andmælum efni hennar og leggjum til, að frv. verði fellt.“

Þetta frv. fjallar um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar frá 7. apríl 1956, sem fela í sér ákvæði um endurskoðun tveim árum eftir gildistöku þeirra. Það gegnir því nokkurri furðu, að ástæða skuli þykja til að breyta þeim nú, eins og sakir standa. Nú mun ekki hafa verið sýnt fram á, að breytinga sé þörf á skipan stjórnarinnar, en breytingin, sem felst í þessu frv., er fyrst og fremst pólitísk. Hún er við það miðuð, að í stað fulltrúa Sjálfstfl. bætist einn kommúnisti í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs.

Það er sjálfsagt og var umsamið í upphafi, að Alþýðusambandið ætti aðild að stjórn sjóðsins. Alþ. hefur kosið fimm menn, Alþýðusambandið einn og Vinnuveitendasambandið einn, enda greiða vinnuveitendur 1/4 af tekjum sjóðsins og var frá byrjun ætlað sæti i stjórninni. Breytingin í frv. mundi raska hlutfallinu milli Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins, og það sem er enn þyngra á metunum, hún mundi færa út vald kommúnista.

Hæstv. ríkisstj. lætur sér sæma að fá kommúnistum ýmis þýðingarmikil störf í hendur, eins og nú síðast formennska útflutningssjóðs er dæmi um. Og þetta frv. er spor í þá sömu átt. Þegar af þeirri ástæðu mælir minni hluti heilbr.- og félmn. gegn breytingunni í frv. og þykir hún ótímabær, þar eð aðeins eitt ár er til þess tíma, er endurskoða á lögin um atvinnuleysistryggingar.