06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Stundum er hægt að fyrirgefa mönnum, þegar þeir segja eitthvað, af því að þeir vita ekki betur. En þeim, sem vita betur, er ekki hægt að fyrirgefa, þegar þeir vita, að þeir eru að fara með ósatt mál, — og hér er hægt að fullyrða þetta um þennan hv. ræðumann, sem hér var að enda við að tala, því að hann er fyrrv. ráðh. úr fyrrverandi ríkisstj., og það getur þess vegna alls ekki hafa farið fram hjá honum, að hans stjórn, sem hann átti sjálfur sæti í, ákvað, með hvaða reglum, hvaða hætti skyldi afla fjár til húsnæðismálakerfisins, almenna veðlánakerfisins. Það er skammturinn, sem hann gekk frá, sem hefur ekki hrokkið til þess að fullnægja í húsnæðismálunum. Við erum ekki enn þá komnir fram að 1. jan. 1957, og það er tómt þetta kerfi, af því að þörfin var meiri en það fé, sem fyrrverandi ríkisstj., þ. á m. þessi hv. þm., ákvað til þessara hluta. Það hefur ekki gerzt neitt annað en það, að húsnæðisþörfin er slík, að féð, sem hv. fyrrv. ríkisstj. ákvað til þessara hluta, er langtum of lítið. Það var gerður samningur við Landsbankann og aðra banka um fjáröflun til þessa veðlánakerfis, og bankarnir halda því fram, að þeir hafi staðið að öllu leyti við sitt, og það verður varla sagt annað. Þessi stjórn hefur því hvorki rýrt þetta fé né aukið. Þetta samkomulag var lögbundið og gildandi til 1. jan. 1957, og á því tímabili erum við enn.

Þeirri leið, sem hann vildi lýsa, og þeim sökum, sem hann vill lýsa á hendur stjórnendum landsins, er hann að lýsa á hendur sjálfum sér, og er það vel.

Það kemur fyrst til kasta þessarar núv. ríkisstj. að afla fjár til hins almenna veðlánakerfis með nýjum hætti, þegar útrunnið er það tímabil, sem fyrrverandi ríkisstj. samdi um og lögbatt fjáröflunina fyrir. Og þá ætti hv. þm. að taka til máls og ásaka núv. ríkisstj., en fyrr ekki. Þangað til er hann að ásaka sjálfan sig og sína meðráðherra.

Hér er ekki um að ræða, að það hafi verið sett nefnd, þar sem ekki var fyrir nefnd áður. Það var til húsnæðismálastjórn, og það er til húsnæðismálastjórn. Skipun hennar hefur aðeins verið breytt á þann hátt, að núv. stjórn hefði ekki íhaldsmann sem sinn aðaltrúnaðarmann, og það hefði fyrrv. stjórn ekki heldur gert, hefði ekki heldur haft mann úr stjórnarandstöðunni sem sinn aðaltrúnaðarmann. Samt er þessi sjálfstæðismaður ekki tekinn út úr stjórninni, en hann er ekki hafður með í framkvæmdastjórn. Það er það einasta, sem Sjálfstfl. hefur undan að kvarta í þessu máli, en það hefur engin áhrif haft á fjáröflunina, eins og hver maður hlýtur að skilja.

Húsnæðismálastjórnin er nú skipuð sjö mönnum í staðinn fyrir fimm áður, og þrír af þessum mönnum eru í framkvæmdastjórn og hafa auðvitað einungis það hlutverk að annast úthlutun á því lánsfé, sem fyrrv. ríkisstj. ákvað inn í þetta kerfi. Það hafa þeir vitanlega gert.

Hv. 1. þm. Rang. sagði líka, að það hefði engin úthlutun lána farið fram á síðari hluta þessa árs. Þetta er líka rangt hjá honum. Hann komst varla frá nokkurri málsgrein án þess að skrökva, og er leiðinlegt til þess að vita, því að þarna vissi maðurinn betur. Það er búið að úthluta lánum um meginhluta landsbyggðarinnar, um Vestfirði, Norðurland, Austurland. Og Landsbankinn sagði í gær aðspurður, að það væri búið að senda öll þessi lán út. Það er nokkuð langt síðan þessum lánum var úthlutað, en þau lágu nokkurn tíma í Landsbankanum. En Landsbankinn tilkynnir nú, bæði hagfræðingur og bankastjóri, að það sé búið að senda þessi lán núna út og afgreiða þau frá bankanum. Þetta er því algerlega ósatt hjá hv. ræðumanni.

Svo á að binda þetta við sparifjársöfnunina og segja: Það er nú hægt að lána minna gegnum hið almenna veðlánakerfi, af því að það hefur dregið úr sparifjársöfnun landsmanna. — Þetta er í engu samhengi við sparifjársöfnunina, því að það voru ákveðnir hlutir, sem áttu að renna í þetta kerfi og hafa runnið í það, alveg óháð því, hver sparifjársöfnunin yrði.

Það hefur verið upplýst af hagfræðingi Landsbankans, að til íbúðarhúsalána hafi verið veittar um 120–130 millj. kr. á þessu ári, eða verði það fyrirsjáanlega, og það sé nokkru meira en gert hafi verið ráð fyrir í áætluninni, sem fylgdi þeirri lagasetningu, sem gilt hefur s.l. tvö ár.

Og hvað um sparifjársöfnunina? Sparifjársöfnunin, segja bankarnir, að hafi verið heldur meiri en næsta ár á undan, — en alltaf hafi dregið mjög úr sparifjársöfnuninni síðustu mánuði ársins, mörg undanfarin ár, líklega að öllum jafnaði; þetta sé því ekkert nýtt, að það dragi úr sparifjársöfnuninni í nóvember- og desembermánuðum, en það er það út af fyrir sig, sem hv. 1. þm. Rang. er alltaf að klifa á til þess að reyna að villa um fyrir þingheimi. En hér eru bara engin börn í þessum efnum, þetta vita allir. Þeir, sem ekki hafa verið ráðherrar, vita það líka.

Ég skil raunar ekki, hvað vakir fyrir hv. þm., þegar bann tekur undir þá afstöðu síns flokks, að þetta frv. skuli ekki samþykkt, heldur skuli það fellt. Þetta eru hin gildandi lagaákvæði nú um húsnæðismálastjórn, og sennilega vakir ekki fyrir þessum mönnum, að engin húsnæðismálastjórn sé til, engin löggjöf sé til um þetta lánveitingafyrirkomulag til íbúðarhúsa. Það væri að skiljast ærlega við málið. Ég hefði þó búizt við því, að þeir, sem voru hér á móti, hefðu komið með brtt. við frv., t.d. á þann veg að færa skipun stjórnarinnar í sama horf og áður, þannig að framkvæmdin væri í höndum þeirra tveggja manna, sem voru tilvaldir út frá flokkspólitískum sjónarmiðum á sínum tíma, eins og allir vita, og áttu að framkvæma hina alkunnu helmingaskiptareglu fyrrv. ríkisstj. Ég hefði skilið það, og það hefði verið hreinskilnislega rétt til gengið, ef það hefði verið lagt til. En það er bara engin till. frá þeim um annað en að fella þessa löggjöf niður.

Það er ástæðulaust að fara fleiri orðum um þetta. Því miður hefur hv. 1. þm. Rang. orðið ber að því að fara rangt með, hvernig stæði um fjáröflun til þessarar lánastarfsemi. Hún hefur ekki verið ákveðin af núverandi ríkisstj., heldur af þeirri ríkisstj., sem hann átti sjálfur sæti í, og það kerfi á að gilda til 1. janúar n.k., er nú í framkvæmd, og því fé, sem það kerfi átti að veita, hefur verið ráðstafað til lána. Það atriði er þannig einnig ósatt, að það hafi engin lán verið veitt á síðari hluta þessa árs. Öll lán hafa verið veitt, sem nokkurt fé var til samkvæmt fjármálaráðstöfunum fyrrverandi ríkisstjórnar.

Hitt er annað mál, að það er auðséð, að það verður að ákveða með einhverjum hætti meiri fjármagnsöflun til þess að ráða bót á húsnæðisvandræðunum heldur en fyrrverandi stjórn taldi ástæðu til eða sá sér fært að gera — og það stórkostlega mikið, því að það eru þúsundir fjölskyldna, sem búa við húsnæðisneyð í landinu þrátt fyrir fulla framkvæmd á þessu veðlánakerfi. En núverandi ríkisstj. er ekki að saka í þessu máli fyrr en á næsta ári og þá því aðeins, að ekki takist að tryggja jafnmikið fé eða meira til þessarar lánastarfsemi í framtíðinni en útvegað hefur verið síðastliðin tvö ár af fyrrverandi ríkisstj. Takist það hins vegar ekki, þá játa ég, að þá væri nokkur ástæða til fyrir hv. 1. þm. Rang. að koma hér og hælast um og gera sig og sína meðráðh. góða á kostnað núverandi ráðh. En fyrr hefur hann ekki efni á því heldur.