06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég gerði þetta mál að umtalsefni við 1. umr. og reyndi að færa rök að því þar, að það væri með nokkuð annarlegum hætti, sem þetta mál væri fram komið, og ríkisstj. virtist ekki sinna því þýðingarmikla vandamáli, sem hér væri um að ræða, eins og vera skyldi. Hæstv. félmrh. segir hér áðan, að hér séu engin börn í deildinni og það sé ekki hægt að tala við menn í slíkum tón að gera ráð fyrir því. En hvað mega menn ætla, þegar sjálfur hæstv. félmrh. í sömu andránni segir, að fulltrúar Sjálfstfl. í félmn. komi ekki með neinar till. og ekki með neina aðra skipan um húsnæðismálastjórn, og ef farið væri að þeirra till., þá væri engin húsnæðismálastjórn til? Þetta mundi nú einhver telja barnalegt, því að að sjálfsögðu sjá allir, sem vilja um þessi mál hugsa, að ef orðið er að till. sjálfstæðismanna, þá fellur bara niður bráðabirgðalöggjöfin og sú húsnæðismálastjórn, sem áður var, verður óbreytt. Það er efnislega till. sjálfstæðismanna í n., að þessi bráðabirgðalög falli niður, vegna þess að þau hafi að tilefnislausu verið fram borin og bæti ekkert um í þessu máli.

Það er furðulegt að heyra það af hæstv. félmrh., að það sé ekki þessa ríkisstj. um að saka, ef ekki sé nægilegt fé til íbúðabygginga núna, vegna þess að fyrrv. ríkisstj. hafi sett þann ramma, sem átt hafi að fara eftir. Sannleikurinn er sá, að bæði í þessum málum og öðrum geta þau eftir atvikum krafizt endurskoðunar á hverjum tíma, og ég held, að hv. þingmönnum sé kunnugt um, ef við tökum annað mál hér til samanburðar, að þegar hæstv. fyrrv. ríkisstj. lagði fram till. sínar um 10 ára áætlun um rafvæðingu landsins, þá leið ekki á löngu, þangað til sú áætlun var endurskoðuð, og í framkvæmdinni hefur verið farið miklu hraðar en upphaflega var ráðgert. Þess vegna hefur einnig raforkumálaráðh. hæstv. átt viðræður um það við banka þessa lands að auka fjárframlög til raforkuframkvæmdanna. Og hvað var eðlilegra, þegar fólkið er í neyð sinni í húsnæðisvandræðunum, heldur en að hæstv. ríkisstj., sem nú er búin að sitja í marga mánuði, hefði beitt sér fyrir því, eins og hv. 1. þm. Rang. benti réttilega á, að gera það eina, sem þurfti, til þess að rétta þeim hjálparhönd, sem i vandræðum voru, að afla meira fjár til veðlánakerfisins en fram til þessa hafði verið ráðgert. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh.: Hefur ríkisstj. raunverulega ekkert gert í því, á þeim tíma sem hún hefur setið, að afla meira fjár til veðlánakerfisins? Og ég vildi mega spyrja beinlínis: Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert til að afla erlendra lána, eins og þó er gert ráð fyrir í lögunum um húsnæðismálastjórn; í 5. gr. þeirra? Þar segir svo, að til útlána á vegum hins almenna veðlánakerfis komi m.a. erlend lán, sem veðdeild Landsbanka Íslands kann að taka til íbúðabygginga. Það er ástæða til að spyrja: Hefur ríkisstj. farið þess á leit eða beitt sér fyrir því við veðdeild Landsbanka Íslands, að hún tæki erlent lán einmitt i þessu skyni og á þeim tíma, sem erlend lántaka er bæði mjög nauðsynleg og í alla staði fullkomlega verjanleg til þess að létta húsnæðisvandræðin, eins og ég benti á við 1. umr. þessa máls og færði þar óyggjandi rök fyrir? Eins og ástandið er í húsnæðismálunum nú, þá er langlíklegasta og eina úrræðið, sem um munaði, að sérstakar ráðstafanir — og þær verða tæpast gerðar með öðru en erlendri lántöku — verði gerðar til þess að flýta fyrir því, að við þær mörgu íbúðir, sem nú eru í smíðum, verði lokið.

Nei, ég ásaka hæstv. ríkisstj., ef hún hefur á þeim tíma, sem hún hefur setið, ekkert gert til þess að afla meira fjár í hið almenna veðlánakerfi til íbúðabygginga eða gert neina tilraun til þess að afla erlendra lána í þessu skyni.

Það verður ekki heldur fallizt á þá skoðun hjá hæstv. félmrh., að lánin til íbúðabygginga standi í engu sambandi við sparifjársöfnun landsmanna. Að sjálfsögðu, ef ekki er um að ræða erlenda lántöku til þessara eða annarra framkvæmda, þá er ekkert, sem stendur undir áframhaldandi og auknum framkvæmdum í landinu annað en aukin sparifjársöfnun landsmanna. Þetta eru of einfaldar staðreyndir og sannindi til þess, að hæstv. félmrh. geti leyft sér að viðhafa annað eins og það, að sparifjármyndun landsmanna sé í engu sambandi við möguleikana til lánsfjáröflunar til íbúðabygginga. Það er vitað, að þegar hæstv. fyrrv. ríkisstj. beitti sér fyrir því við banka þessa lands, að þeir legðu fram ákveðið fé til raforkuframkvæmda á næstu árum og til íbúðabygginga, þá var það allt saman gert í skjóli mikillar sparifjáraukningar, loforðin voru veitt í skjóli mikillar sparifjáraukningar, sem átt hafði sér stað, og af hálfu a.m.k. sumra bankanna var það beinlínis sett sem skilyrði fyrir þeirra þátttöku í lánveitingum til þessara framkvæmda, að sparifjáraukning landsmanna héldi áfram. Og þá var það viðurkennt af þeim hæstv. ráðh., fyrrv. hæstv. raforkumrh. og bankamálarh., sem töluðu við bankastjóra um þessi mál m.a. og ég minnist, að að sjálfsögðu yrði að fallast á, að forsendan fyrir möguleikum bankanna til þess að leggja fé til slíkra framkvæmda væri aukin sparifjármyndun landsmanna.

Því miður fær það ekki staðizt, sem hæstv. félmrh. sagði, að rýrnun sparifjárins væri nú með engum öðrum hætti en á undanförnum árum 2–3 síðustu mánuði ársins. Hún er því miður miklu meiri en hún hefur verið undanfarin ár, og í sumum bönkunum a.m.k. hefur engin sparifjáraukning átt sér stað, þegar árið er tekið í heild, miðað við það, sem var í nóvember og desember 1955. M.ö.o.: Rýrnunin hefur orðið það mikil síðari hluta ársins, að sú sparifjáraukning, sem myndazt hafði fyrri hluta ársins, hefur öll orðið uppurin.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins hafa fleiri orð um það, hvaða orsakir til þess liggja. En hér er auðvitað um miklu alvarlegra vandamál að ræða en á undanförnum árum, í sambandi við síðustu mánuði ársins, því enda þótt það sé rétt, að það sé venju samkvæmt, að sparifé bankanna minnki að jafnaði síðustu mánuðina, hefur þó niðurstaðan alltaf orðið sú allt fram til þessa, að í heild hefur stórkostleg sparifjáraukning átt sér stað á undanförnum árum og hefur, eins og ég sagði áðan, verið auðvitað fyrst og fremst grundvöllurinn undir mörgum þeim miklu og hraðskreiðu framkvæmdum, sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginn, bæði í húsnæðismálunum og raforkumálunum.