06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég skal ekki efast um það, að hún hafi unnið allt fram í andlátið, fráfarandi ríkisstj., eins og henni entist aldur til. En svo mikið er víst, að hún var búin að vinna svo mikið að framkvæmd lánveitinga samkvæmt lánakerfinu, sem hún hafði sjálf búið út, að þar var skilið við tóman sjóð. Og þótt henni hefði enzt lengri aldur, þá hefði hún setið yfir þessum tóma sjóði, það sem eftir var ársins, því að það var ekki hægt að breyta, áður en Alþingi kom saman, með brbl. þessari löggjöf, sem var byggð á samkomulagsgrundvelli við bankana. Það varð að sitja út þetta ár og hugsa síðan til þess, hvernig hægt væri að afla meira fjár frá því tímabili, sem ný löggjöf tæki við.

Hv. 1. þm. Rang. segir, að það sé aðaládeiluefnið, að hér hafi verið gerð breyting með brbl. á stjórn húsnæðismálanna. Ég held, að það hefði verið full ástæða til fyrir hv. þm. að þakka núverandi ríkisstj. fyrir að hafa leyst fulltrúa Sjálfstfl. frá lánveitingastarfseminni, þegar hann var búinn að tæma sjóðinn og úthluta öllu fénu, láta hann ekki sitja yfir tóma kassanum sínum, sem hefði verið maklegast.

Að síðustu skal ég svo aðeins þakka hv. 1. þm. Rang. fyrir það, að hann kom hér núna í ræðustólinn áðan til að viðurkenna það, að dæmið, sem hann hafði sett fram tvívegis í tölum um ákveðnar upphæðir sparifjármagnsins yfir árið, miðað við tölurnar, sem hann hafði frá fyrri helmingi ársins, væri rangt hjá sér, því að það væri viðurkennt af honum og öðrum, að sparifjársöfnunin minnkaði seinustu mánuði ársins. Þar með er hans dæmi rangt, og hann er búinn að viðurkenna það. Þetta talnadæmi ætti hann því ekki að koma með í þriðja sinn fyrir þingheim.

Hann gat þess, hvað það væri mikill munur á fyrrverandi ríkisstj. og þeirri núverandi. Þá hefði verið unnið hraðar að ýmsum framkvæmdaráætlunum, m.a. rafvæðingaráætluninni, — og það kom nú ekki til af góðu. Það er af því, að raunveruleikinn átti ekki samleið með áætlunum fyrrv. ríkisstj. Það máttu þeir þó vita, að fyrstu árin, meðan væri verið að byggja aflstöðvarnar austanlands og vestan, legðust rafveituframkvæmdirnar þyngra á en að meðaltali yfir allt árabilið, en þessu reiknuðu þeir ekki með. Og það var engri dyggð fráfarandi ríkisstj. að þakka, að þetta kom svona út, að rafveituframkvæmdirnar heimtuðu meira fé fyrstu árin, heldur einmitt af misreikningi í áætluninni hjá fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn.