06.12.1956
Neðri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. 6. landsk. þm. (GJóh) lauk hér ræðu sinni með aðdróttunum í garð þeirra manna, sem hafa annazt úthlutun úr húslánasjóði að undanförnu, að þeir hefðu misnotað þar sína aðstöðu og úthlutað ranglega úr sjóðnum. Ég hef að sjálfsögðu ekki neinar upplýsingar um það, hverjir hafa fengið lán úr þessum sjóði, og eigi heldur um pólitíska afstöðu þeirra manna. Ég vil jafnframt vekja athygli á því, að þessi hv. þm. sagði, að hann hefði ekki átt aðgang að úthlutunarplöggunum. Mér finnst það því nánast sagt furðu djarft að bera fram slíkar sakir sem hann gerði á þá menn, sem úthlutað hafa þessum lánum, jafnhliða því sem hann upplýsir, að hann hafi alls ekki haft aðstöðu til þess að kanna til hlítar, hvort þetta hefði við nokkur rök að styðjast. Þetta tel ég fulla ástæðu til að vita.

Það hefur verið á það minnzt hér áður við þessa umr., hversu einkennilega þetta mál er hér til komið og hversu nánast sagt það auglýsir vandræði og úrræðaleysi hæstv. núverandi ríkisstj. Ríkisstj. fór mjög geyst af stað, eins og allir vita, lýsti því yfir, að hún ætlaði að gera marga hluti, uppfylla helzt allra þarfir, eftir orðunum að dæma, og að það mundi þar rösklega verða tekið til höndum.

Eitt af þeim vandamálum, sem við var að stríða, voru húsnæðismálin, og það hefði mátt ætla, að þar hefðu skjótt komið i ljós hin skörpu og djarfmannlegu átök ríkisstj. En það má segja, að upp úr öllu þessu hafi, eins og segir í máltækinu, fæðzt lítil mús, og það var þetta frv., sem hér liggur fyrir. (Gripið fram í.) Ja, við skulum vona, að fjöllin fari að fæðast, en það er nú ekki farið að sjá neitt bóla á þeim enn, ekki einn sinni smáþúfum, og það mætti þess vegna kannske ætla, að það yrði einhver bið á því. En við skulum sem sagt vona, að það verði nú tekið rösklega til höndunum og hæstv. ríkisstj. sé nú búin að safna svo miklum kröftum, að hún geti farið að taka til við stóru átökin. Við getum alveg látið það liggja á milli hluta að dæma um það, þangað til þau sýna sig. En endalaust er að sjálfsögðu ekki hægt að lifa á því hjá hæstv. ríkisstj. að segja: Þetta kemur bráðum. — Einhvern tíma verður það að koma.

Það má vel finna rök fyrir því, að hæstv. félmrh. hafi gjarnan viljað breyta þessum svokölluðu helmingaskiptum, sem hann kallar, í þriðjungaskipti. (Gripið fram í.) Já, vafalaust, ég skal ekkert um það efast, að það hefur verið reynt a.m.k. Það er út af fyrir sig röksemd. En ég vil bara vekja athygli á því, sem ég tel vægast sagt mjög ósæmilegt, að þegar þessi brbl. eru sett, þá er það vitanlega gert með ákveðnum forsendum, og þær forsendur er að finna í upphafi laganna, og þar segir forseti Íslands, að félmrh. hafi tjáð sér, að störf húsnæðismálastjórnar hafi reynzt miklu umfangsmeiri en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Þetta eru rökin, og á þessum rökum setur forseti brbl. Og ég sé ekki betur eftir þær upplýsingar, sem eru fram komnar í þinginu, en að forseti Íslands hafi blátt áfram verið blekktur til þess að setja þessi lög á allt öðrum forsendum en þau raunverulega byggjast. Eftir að það er upplýst hjá hæstv. ráðh., að ekkert fé hafi verið til úthlutunar, og það er enn fremur upplýst af frsm. meiri hl. þeirrar n., sem hafði með málið að gera hér í þinginu, að húsnæðismálastjórninni sé alls ekki ætlað að afla neins fjár, þá sé ég ekki, hvernig þessi störf hafa getað vaxið. Uxu þau svona óskaplega mikið við það að hafa ekkert fé til ráðstöfunar? Ég held þess vegna, að sannleikurinn sé sá, að þetta sé hrein hringavitleysa og það hefði verið miklu eðlilegra að segja bara í forsendum laganna: Stjórnarflokkarnir telja svo miklu varða, að þeir fái úthlutunarrétt úr þessum sjóði yfir því fé, sem þar verður til ráðstöfunar, að þeir vilja koma strax sínum fulltrúum til valda við þá úthlutun. Það eru hin raunverulegu rök.

Hitt liggur svo auðvitað í augum uppi, að hér er um að ræða, ja, a.m.k. óhætt að segja, að það er teflt mjög tæpt varðandi þá stjórnarskrárheimild, sem heimilar setningu brbl., að halda því fram, að það hafi alls ekki mátt bíða þings í örfáa mánuði með þessa lagasetningu, heldur hafi þurft að ákveða þetta með brbl. Það er þó önnur saga.

Hv. 6. landsk. sagði hér áðan og bar sig mjög illa yfir því, að m.a. ætti það nú þátt í erfiðleikum stjórnarinnar að útvega lánsfé, að ríkisstj. fengi engan starfsfrið. Ég spyr: Hvaða starfsfrið þarf ríkisstj. að fá til þess að hún geti unnið að þessum málum sínum? Það má helzt ekki tala hér í þingi, þá er verið að tefja tíma þingsins, enda þótt ríkisstj. leggi engin mál fyrir þingið. Og ég veit nú sannast sagt ekki, ef stjórnarandstaðan hefði ekki lagt fram nein mál hér á þinginu og hefði alls ekki tekið hér til máls, að það hefðu verið nokkur tök á því að halda hér fundi, — og það er kannske það, sem stjórnin vill, að þingið fari bara heim, til þess að hún fái nógan starfsfrið. Ég hef hingað til haldið, að það gæti engin ríkisstj. ætlazt til þess, að hún fengi að sitja án þess að fá einhverja gagnrýni. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, að þegar hann er að tala um starfsfrið ríkisstj., þá mætti hann og hans flokksbræður gjarnan íhuga, hvaða starfsfrið þeir hafa veitt fyrrverandi stjórn og fyrrverandi stjórnum, þar sem þeir hafa æ ofan í æ misnotað aðstöðu sína í fjöldasamtökum í landinu til þess blátt áfram að eyðileggja, eftir því sem þeir hafa komið höndum undir, ýmsar viðreisnarráðstafanir þeirra ríkisstjórna, sem setið hafa. Það er nú allur sá starfsfriður, sem þær hafa átt við að búa. Ég held, að a.m.k. enn sem komið er hafi ekki núverandi ríkisstj. við þá erfiðleika að stríða.

Annars kom fram frá hv. 6. landsk. ákaflega mikill misskilningur á því, hvað raunverulega var verið að deila hér á. Ádeilurnar á þetta frv. byggðust alls ekki á því, að verið væri að halda því fram, að húsnæðismálastjórnin ætti að útvega fé, heldur byggðust ádeilurnar á því, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki, úr því að hún leggur fram og sér ástæðu til að setja brbl. varðandi húsnæðismálin, láta þá löggjöf varða neitt fjármálahlið þessa vandamáls, sem er vissulega stærsta hliðin. Það er það, sem deilt var á, en ekki verið að halda því fram, að húsnæðismálastjórnin hefði þá skyldu, sem ekki hvílir á henni.

Ég man eftir, að þegar voru rædd hér húsnæðismál við 1. umr., þá var uppistaðan i ræðu hæstv. félmrh. sú, að það hefði ekki verið staðið við það, sem fyrrv. ríkisstj. hefði gert ráð fyrir. Nú skilst mér hins vegar af hans ræðu, að það sé viðurkennt, að við það hafi allt verið staðið. En hins vegar virðist þessi hæstv. ráðh. telja, að það hafi alls ekki verið heimilt að fara lengra og að þessari ríkisstj., sem nú situr, séu algerlega bundnar hendur til áramóta um það, hvað megi verja miklu fé til húsnæðismála.

Þessi kenning er náttúrlega fráleit með öllu. Það mátti þá alveg eins segja, að það hefði ekki verið hægt að breyta húsnæðismálastjórninni, úr því að löggjöf var til um það áður, að hún ætti að vera svo sem þar segir. Þessum ákvæðum er vitanlega hægt að breyta á sama hátt.

Hæstv. ráðh. segir, að af því að fyrrv. stjórn hafi verið búin að eyða meginhluta þess fjár, sem hafi verið til ráðstöfunar á þessu ári, hafi ekki verið um annað að ræða en sitja yfir tómum sjóði, því að ekki hafi verið hægt að breyta löggjöfinni. Það var náttúrlega hægt á nákvæmlega sama hátt að breyta löggjöfinni varðandi þetta atriði eins og stjórn sjóðsins. Það er alveg rétt hjá ráðh. að vísu, að það voru ákveðnir samningar við bankana um, hvaða fé yrði varið til þessara þarfa. En það var auðvitað ekkert, sem hindraði, að það væri hægt af hæstv. ríkisstj., sem vill eða hefur viljað telja sig líklegri til allra umbóta og framfara heldur en fyrrv. stjórnir, að gera sérstakar ráðstafanir umfram það til fjáröflunar. Það lá ekkert bann við því, ekki á nokkurn hátt.

Varðandi það atriði, að fyrrv. ríkisstj. hafi talið, að þetta fé, sem áætlað var þessi tvö ár, sem samið var við bankana, mundi nægja til að leysa úr þörfinni, þá er því til að svara, að sú áætlun er gerð miðað við vissar framkvæmdir, og framkvæmdir í húsnæðismálum hafa orðið á þessu ári miklu meiri en gert var ráð fyrir. Þessu verður auðvitað að mæta á nákvæmlega sama hátt og varðandi raforkumálin, sem hv. 1. þm. Rang. upplýsti hér um, og það er að auka þá það fé, sem til ráðstöfunar er, til þess að hægt sé að standa við þær lánveitingar, sem gert er ráð fyrir. Þetta er auðvitað vandamál, sem sérhver ríkisstj. verður að búa sig undir að standa andspænis. Það er á öllum sviðum þjóðfélagsins svo og hefur verið undanfarin ár, að það hefur orðið meiri þörf fjármagns og ýmissa ráðstafana en gert hefur verið ráð fyrir, vegna þess að breytingarnar hafa orðið stórstígari. Og þetta hefur gerzt með löggjöf, sem hefur verið mjög vei undirbúin á margan hátt. Ég skal nefna t.d. tryggingalögin. Það var gert ráð fyrir þar, að hægt væri með vissum fjárframlögum að leysa þarfir, sem þar var um að ræða, og þar var byggt á vissri áætlun. Sú áætlun raskaðist af ýmsum atvikum, sem þá voru ekki fyrirsjáanleg. Það hefur leitt það af sér, að það varð að gera sérstakar ráðstafanir til þess að hlaupa undir bagga með tryggingunum, þannig að þær gætu sinnt sínu skyldustarfi. Þetta var auðvitað viðfangsefni, sem þáverandi ríkisstj. og Alþingi varð að horfast í augu við.

Þetta er svona á ótalmörgum sviðum, og þýðir ekki um að sakast. Þegar áætlun er gerð, þá er miðað við þær aðstæður, sem líklegastar eru þá taldar að muni verða, og það var tekið fram, þegar húsnæðismálalöggjöfin var sett, að það væri ekki gert ráð fyrir, að þar væri um endanlega eða nægilega fjáröflun að ræða, enda var ekki samningur um þetta fé, sem þar greinir frá, miðaður við lengri tíma en tvö ár, og gert ráð fyrir, að þetta þyrfti að endurskoðast. Af því leiðir, að það er auðvitað ekki með nokkru móti hægt að koma sér undan því fyrir neina ríkisstj., að hún þurfi ekki að mæta vissum þörfum, sem skapast, vegna þess að stjórn, sem áður hafi setið, hafi ekki séð þessar þarfir fyrir og séð fyrir nægilegu fé til þess að mæta þeim. Ríkisstj., sem þannig hugsar, skilur alls ekki hlutverk sitt sem ríkisstjórn. Og það er kannske einmitt þess vegna, sem hún hefur svo lítið traust sem raun ber vitni um.

Það var svo eitt atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. félmrh., sem ég hygg að hafi vakið nokkra athygli hér í deildinni, en það voru ummæli hans um, að það mundi þurfa e.t.v. á aðstoð Sjálfstfl. að halda til þess að koma fram þeim umbótum, sem hann teldi nauðsynlegar í sambandi við húsnæðismálin. Þetta lítur nú nokkuð kynlega út. Eða er það virkilega svo, og hefur hæstv. félmrh. rökstudda ástæðu til þess að álíta, að þessir ágætu flokkar, sem hann hefur samvinnu við í ríkisstj., hafi alls ekki áhuga á að leysa þessi mál, a.m.k. ekki á þann hátt, sem hann telur viðunandi? Það er naumast hægt að skilja orð hans á annan veg. Við náttúrlega sjáum hvað setur um það, reynslan sker úr því eins og öðru. Og það verður vitanlega að metast, þegar að því kemur, að slík mál verði lögð fram. Ég tel mig hins vegar geta fullvissað hann um það, að Sjálfstfl. er jafnan reiðubúinn til þess að styðja sérhver skynsamleg úrræði til þess að leysa þennan vanda. Það hefur hann gert á undanförnum árum og mun ekki breyta um stefnu í því efni.

Ég vil svo að lokum aðeins láta í ljós þá von, að það verði ekki langt að bíða, að við fáum að sjá það fjall stórra úrræða í þessum málum, sem hæstv. félmrh. boðaði að brátt mundi bera fyrir sjónir þingmanna, og að þar verði þá það myndarlega á málum tekið, að þetta vandamál verði leyst með öðru betra og skynsamlegra móti en því einu að leggja til, að fjölgað verði um tvo menn í stjórn þeirrar stofnunar, sem á að úthluta fé til húsnæðismála.