31.01.1957
Efri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

3. mál, húsnæðismálastjórn

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Vestm. bar hér fram fsp. til mín um það, hvar þessar 7 millj. kr. hefðu verið útvegaðar.

Því er fljótsvarað. Meginhluti þeirra var útvegaður með viðbótarláni, sérstaklega hjá Landsbankanum, eftir ítrekaðar tilraunir til þess. Fyrst hafði maður fengið neitun; menn þurfa ekki að kippa sér upp við það. (JJós: Það var eftir ramma laganna.) Nei, utan við ramma laganna. Það var allt þrotið. Bankinn taldi sig vera búinn að gera það, sem honum var skylt samkv. lögunum, og ég hygg, að það hefði ekki verið hægt að sækja neitt meira fé í hendur honum samkv. þeim. En þetta fékkst þó, þegar hægt var að leggja það fram, að víss aðili mundi taka þetta fé út í Landsbankanum og lána það húsnæðisveðlánakerfinu, ef það ekki fengizt afgreitt heldur sem lán í Landsbankanum, og þá gerði hann það. Þessari upphæð var siðan úthlutað á siðasta ársfjórðungi, í desembermánuði, og ég hygg, að nokkurt lán hafi farið til Vestmannaeyja einmitt af því fé. Það er búið að ráðstafa því, og var einmitt gert til þess, að hægt væri að ráðstafa lánveitingum út um land og hér í Reykjavík sérstaklega í desembermánuði, á síðasta ársfjórðungi.

Fjáröflun sjóðsins barst eiginlega mjög að því, að það voru viss hlutföll í löggjöfinni milli vísitölutryggðra bréfa og beinna peningaframlaga, sem skyldu koma frá bönkum landsins, frá almannatryggingunum, frá lífeyrissjóðunum og frá sparisjóðum. En þetta hlutfall var það lágt af vísitölutryggðu bréfunum, að menn héldu, að sá markaður mundi hafa þolað meira og að það hefði verið hægt að tryggja sölu á meira af vísitölutryggðum bréfum. Landsbankinn var eiginlega þeirrar skoðunar, að það mundi kannske hafa tekizt, en hann var ófáanlegur til að breyta löggjöfinni að því er þetta efnisatriði snerti, þegar svo langt væri liðið á það tímabil, sem lögin ættu að gilda fyrir.

Hins vegar er það, eins og ég hef áður skýrt hér frá, ekki óhugsandi, að sala vísitölutryggðra bréfa geti í nýrri löggjöf tryggt meiri möguleika til fjáröflunar, og á það verður gengið og um það hefur verið rætt við Landsbankann og hann tekið vel í það. En fyrir áramót vildi hann ekki gera breytingu á því.

Ég held, að með þessu sé svarað fsp. hv. þm. Vestm., og er mér ljúft að gera það, sem sé að upplýsa allt um framkvæmd þessara mála. En satt er það hjá hv. 1. þm. N-M., að allar þessar umr. eru langt utan við frv., m.a. vegna þess, að till., sem hér var lögð fram í sambandi við þetta frv., var nokkuð fjarskyld því í sjálfu sér og efni þess.