09.11.1956
Neðri deild: 13. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

32. mál, orlof

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Með frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að ákvæðum gildandi laga um orlof verði breytt varðandi þrjú atriði. Í fyrsta lagi, að orlofstíminn verði lengdur úr 12 virkum dögum í 18 virka daga á ári og að í samræmi við þetta hækki orlofsfé úr 4% í 6%. Annað atriði er það í frv., að sérregla sú, sem gilt hefur um orlof starfsmanna á fiskiskipum, verði afnumin og að sömu ákvæði gildi um þá, sem taka laun sín í hluta af verðmæti, eins og um þá, sem taka laun sín í peningum, þ.e.a.s., að hlutarsjómenn fái fullt orlof. Þriðja breytingin, sem í frv. felst, er um það, að fyrning orlofskrafna verði með sama hætti og fyrning kaupkrafna, þ.e.a.s., að fyrningarfresturinn verði 4 ár, en samkv. gildandi lögum falla orlofskröfur nú úr gildi vegna fyrningar, ef þær hafa ekki verið viðurkenndar eða lögsókn verið hafin innan loka næsta orlofsárs frá því að kröfurnar voru stofnaðar.

Ég vil fara örfáum orðum um hverja þessara breytinga um sig.

Þá er um fyrstu breytinguna þetta að segja: Í desemberverkfallinu 1952 var orlofsfé hækkað með samningum úr 4% í 5%, og í verkfallinu 1955 var það aftur hækkað úr 5% í 6%, en í lögum er enn þá ákveðið, að orlof skuli vera 4%. Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og einnig reglugerð samkv. þeim lögum er ákveðið, að orlof og veikindaforföll starfsmanna ríkisins skuli vera 15 virkir dagar. Þegar sérstaklega stendur á, má orlof þó vera allt að 18 virkum dögum, en með reglugerð er ákveðið, að 18 daga orlof skuli gilda fyrir alla þá, sem eiga að baki sér 10–15 ára þjónustualdur. Starfsmönnum, sem verið hafa í þjónustu ríkisins lengur en 15 ár, ber orlof í 24 virka daga. Á síðasta sumri var opinberum starfsmönnum þó veitt orlof í 18 virka daga þrátt fyrir 15 daga ákvæði laganna, og þeim, sem höfðu verið í þjónustu ríkisins í 10–15 ár, var veitt 24 daga orlof þrátt fyrir lagaákvæðið um 21 dags orlof. Nú liggur fyrir Alþingi frv. til l. um breyt. á l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem felur í sér þá breytingu á ákvæðunum um orlof, að í stað 15 daga komi 18 dagar hjá opinberum starfsmönnum og í stað 18 daga hjá þeim komi 21 dagur. Sú breyting á orlofstíma og orlofsfé, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er í raun og veru að öllu leyti til samræmingar við þær reglur, sem þegar er fylgt með samningum stéttarfélaga og atvinnurekenda, og verður einnig í fyllsta samræmi við lágmarksákvæðið um orlof viðvíkjandi opinberum starfsmönnum.

Ef menn vilja fá upplýsingar um það, hvernig þessu er háttað í nágrannalöndum okkar, þá er hægt að upplýsa það, að í Noregi var 18 daga orlof, eins og hér er verið að fara fram á, lögfest árið 1947, eða fyrir níu árum, í Svíþjóð árið 1951, fyrir fimm árum, og í Danmörku árið 1953, fyrir þremur árum. Við erum því einnig að færa okkar lagasetningu til samræmis við það, sem þegar er orðið viðurkennt í öllum nágrannalöndunum.

Um annað atriðið vil ég taka það fram, um sérregluna í 1. gr. orlofslaganna um starfsmenn á fiskiskipum, sem ráðnir eru eftir reglu um hrein hlutaskipti, að þau ákvæði hafa þótt vera óljós, og hefur það hvað eftir annað valdið ágreiningi, hvernig eigi að skilja þessi lagaákvæði. Hefur hvað eftir annað komið til kasta félagsdóms að úrskurða og dæma um slíkan ágreining.

Mér finnst, að það beri að líta svo á, að hlutaskiptafyrirkomulag sé ekkert annað en ákveðin aðferð, sem höfð sé um ákvörðun og útreikning launa þessara starfsmanna á fiskiskipunum, og sá skilningur staðfestist raunar af hæstaréttardómi, sem fallið hefur um slíkt málsatriði. Það verður ekki séð, að það skipti verulegu máli varðandi greiðslu orlofsins, hvort laun starfsmannsins eru ákveðin með þessum sérstaka hætti eða á annan hátt, hvort það er eftir hlutaskiptareglu eða beinni peningagreiðslu fyrir unna klukkustund. Þetta ákvæði, ef að lögum verður, veitir þess vegna sjómönnum fiskiskipa, sem ráðnir eru upp á hlut, sama rétt til orlofs og öðrum launþegum, og fæ ég ekki betur séð en að það sé í alla staði sanngjarnt. Við þurfum fyrst og fremst að nema úr gildi þau lagaákvæði, sem gefa sjómönnum okkar skarðan hlut, og miklu fremur að innleiða ný lagaákvæði, sem veiti þeim fyllri rétt en öðrum í þjóðfélaginu, til þess að tryggja, að við fáum fólk til þess að starfa við undirstöðuatvinnuveg okkar, sjávarútveginn.

Þriðja atriðið, sem felst í þessu frv., er svo ákvæði um fyrningu orlofsins. Orlofið er, eins og kunnugt er, ákveðið sem hundraðshluti af kaupgjaldi og er í raun og veru aðeins hluti af kaupgjaldinu, enda fær sú skoðun stuðning af því, að samkv. lögum á að greiða skatt af orlofsfé alveg eins og um kaupgjald væri að ræða. Þess vegna virðist eðlilegt, að lagaákvæði um fyrningu þessa hluta kaupgjaldsins séu þau sömu og fyrningarákvæðin um kaupgjaldið sjálft. Kaupkröfur fyrnast á fjórum árum, og því tel ég vera rétt, að orlofsrétturinn fyrnist ekki heldur á skemmri tíma en í jórum árum, en nú, eins og ég áðan sagði, getur svo farið, að hann fyrnist á næsta ári á eftir.

Ég held, að með þessu, sem ég nú hef sagt, liggi það alveg ljóst fyrir þingheimi, hvað í þessu frv. felst, það eru þessar þrjár breytingar á orlofslögunum, og vil ég því láta máli mínu lokið og legg til, að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. að lokinni umr.