27.05.1957
Sameinað þing: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar þessar eldhúsumræður fara fram, er vor í lofti, og vorið er tími bjartsýnnar trúar á framtíðina, gróanda og þróunar. En því miður er óvenjulega dimmt og uggvænlegt umhorfs í íslenzkum efnahagsmálum og stjórnmálum um þessar mundir. Því fer víðs fjarri, að átta mánaða þinghald hæstv. ríkisstj. hafi leyst nokkurn vanda þjóðarinnar eða komið örlagaríkustu málum hennar í örugga höfn.

Á þessu tímabili hefur það fyrst og fremst sannazt, að þeir stjórnmálaflokkar, sem á undanförnum árum hafa lifað á því að lofa öllum öllu, hafa nú haft það helzt fyrir stafni að svíkja alla og allt, nema örfáa leiðtoga sína um nýjar stöður og bitlinga.

Þjóðinni er nú einnig óðum að verða það ljóst, að hinir nýju valdhafar geta ekki réttlætt getuleysi sitt og úrræðaleysi gagnvart vandamálunum með því að staglast sífellt á því, að fyrrv. ríkisstjórnir hafi siglt öllu í strand. Þjóðin krefst þess, að þeir, sem tekizt hafa stjórn landsins á hendur og heitið henni nýjum leiðum og úrræðum, sýni þessi úrræði svört á hvítu og vaxi síðan eða minnki af eigin afrekum, eftir því sem efni standa til. Slík hljóta að vera örlög allra ríkisstj. í lýðræðislandi.

Íslendingar hafa nú fengið nokkra reynslu af stefnu og úrræðum þeirra stjórnmálaflokka, sem undanfarin ár hafa verið í stjórnarandstöðu og hafa gagnrýnt harðlega aðgerðir og stefnu sjálfstæðismanna og samstarfsmanna þeirra. Vinstri stjórn hefur fengið sitt tækifæri. Þessir flokkar, Alþfl. og kommúnistaflokkurinn, höfðu fyrst og fremst lofað þjóðinni að ráða niðurlögum dýrtíðar og verðbólgu án þess að krefjast fórna af almenningi. Þeir höfðu jafnframt lofað stórfelldum auknum umbótum í húsnæðismálunum og umfram allt réttlátri og frjálslyndri stjórnarstefnu.

Á þeim stutta tíma, sem ég hef hér til umráða, vil ég víkja nokkuð að þessum atriðum. Ef athugað er í stórum dráttum, hvað gerzt hefur á sviði dýrtíðarmálanna, kemur í ljós, að dýrtíð og verðbólga hefur farið ört vaxandi, síðan vinstri stjórnin tók við völdum. Sprettur sú staðreynd fyrst og fremst af því, að í stað þess að marka nýja stefnu í efnahagsmálunum, eins og stjórnarflokkarnir höfðu lofað, hafa þeir vaðið lengra út í fen uppbóta- og styrkjastefnu en nokkur önnur íslenzk ríkisstj. hefur gert. Til framkvæmda á þessari stefnu lögðu stjórnarflokkarnir fyrir síðustu jól um 300 millj. kr. í nýjum sköttum og tollum á almenning. Síðan hafa enn nýir skattar verið á lagðir.

Það er mál út af fyrir sig, að útflutningsframleiðslan þarfnaðist aukinnar aðstoðar. En hinir nýju stjórnarflokkar höfðu lofað nýjum úrræðum til lausnar þeim vanda og lýst því hátíðlega yfir, að hækkun skatta og tolla á almenningi kæmi ekki til greina.

Þessar gífurlegu nýju skatta- og tollaálögur hafa haft í för með sér mikla hækkun verðlags og þungar byrðar á hverja einustu fjölskyldu og heimili í landinu.

Þegar þessar byrðar eru athugaðar nokkru nánar, kemur þetta í ljós:

Miðað við svipaða fjölskyldustærð og gert er ráð fyrir við útreikning vísitölu framfærslukostnaðar, nemur gjaldabyrðin vegna hinna nýju skatta og tolla ríkisstj. um það bil 9400 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu.

Við skulum nú, hlustendur góðir, athuga, hvað þessi nýja útgjaldabyrði þýðir fyrir heimili ykkar. Við skulum rannsaka, hvað hægt er að kaupa af algengustu nauðsynjum heimilanna fyrir þann útgjaldaauka, sem almenningi hefur skapazt með hinum nýju skattaálögum ríkisstj.

Ef við lítum fyrst á það magn, sem gert er ráð fyrir í vísitöluútreikningnum að 5 manna fjölskylda kaupi af kjöti og hvers konar kjötvörum, þá kemur í ljós, að ársneyzla hennar af þessum þýðingarmiklu matvælum nemur, miðað við verðlag 1. maí s.l., um 4550 kr.

Ef við athugun næst um mjólkurvörur og feitmeti, kemur í ljós, að það magn, sem reiknað er með að 5 manna fjölskylda neyti af þeim matvælum, kostar með verðlagi þessara vara 1. maí s.l. rúmlega 4900 kr. yfir árið.

Samtals kostar þá magn af kjöti og hvers konar kjötvörum, mjólk, mjólkurvörum og feitmeti, sem reiknað er með í útreikningi framfærsluvísitölunnar að 5 manna fjölskylda neyti á einu ári, þannig um 9450 kr. eða álíka upphæð og vinstri stjórnin hefur gert þessari sömu fjölskyldu að greiða í nýjum tollum og sköttum.

Á það skal ekki lagður dómur hér, hvort þetta magn matvæla, sem gert er ráð fyrir við útreikning framfærsluvísitölunnar, er raunveruleg ársneyzla 5 manna fjölskyldu. Vel má vera, að neyzla hennar sé nokkru meiri. En dæmið hér að ofan sýnir hverri einustu húsmóður, sem kaupir daglega til heimilis síns, hversu stórskaðlegt skarð hinar nýju skattaálögur hafa höggvið í tekjur heimilis hennar. Fyrir hinar nýju álögur, sem lagðar hafa verið á meðalfjölskylduna, hefði húsmóðirin getað keypt hvorki meira né minna en allt kjöt og kjötvörur, alla mjólk og mjólkurvörur og feitmeti til heimilis síns á heilu ári.

Við skulum athuga lauslega nokkra fleiri liði vísitöluheimilisins.

Miðað við verðlag 1. maí kostar það magn af fiski, nýjum, söltuðum, hertum og niðursoðnum, sem gert er ráð fyrir að 5 manna fjölskylda neyti á ári, 1084 kr. Allar kornvörur og brauð þessarar sömu fjölskyldu kosta með núgildandi verðlagi 2160 kr., allir garðávextir og ávextir 543 kr. og allar nýlenduvörur fjölskyldunnar 1750 kr.

Samtals er gert ráð fyrir því við útreikning framfærsluvísitölunnar, að það magn, sem 5 manna fjölskylda kaupir af þessum vörum, kosti, miðað við núverandi verðlag, rúmlega 5500 kr., en sú upphæð er aðeins rúmlega helmingurinn af hinni nýju gjaldabyrði, sem hæstv. ríkisstj. lagði á hvert einasta heimili fyrir síðustu jól.

Það þarf þess vegna mikil brjóstheilindi eða djúpa fyrirlitningu fyrir dómgreind almennings, þegar hæstv. ráðh. koma fram fyrir alþjóð og lýsa því yfir, að dýrtíðin hafi ekki vaxið og lífskjör fólksins hafi ekki verið skert.

Verstur er þó hlutur hæstv. félmrh., Hannibals Valdimarssonar, í þessu efni. Hann beitti sér fyrir því, að síðasta Alþýðusambandsþing lýsti því yfir sem stefnu sinni, að við þær aðgerðir í efnahagsmálunum, er nú standa fyrir dyrum, „sé það algert lágmarksskilyrði verkalýðshreyfingarinnar, að ekkert verði gert, er hafi í för með sér skerðingu á kaupmætti vinnulaunanna, og ekki komi til mála, að auknum kröfum útflutningsframleiðslunnar verði mætt með nýjum álögum á alþýðuna.“

Með þennan reisupassa kom forseti Alþýðusambandsins á fund í hæstv. ríkisstj. Og verkin sýna merkin um það, hvernig hann hefur þar framkvæmt þá viljayfirlýsingu verkalýðssamtakanna, sem hann sjálfur beitti sér fyrir á síðasta Alþýðusambandsþingi.

Vel má vera, að hæstv. ríkisstj. segi sem svo: Ríkissjóður verður að fá sitt, hít dýrtíðarinnar verður að seðja, en almenningur í landinu getur hætt að borða kjöt og mjólk eða fisk, kornvörur og ýmsar aðrar brýnustu nauðsynjar, sem nefndar voru hér að framan.

Árangurinn af aðgerðum stjórnarinnar í efnahagsmálum yfirleitt kemur svo einna gleggst í ljós í því, að nú í þinglokin hafa einstakir þm. sjálfra stjórnarflokkanna lýst því hiklaust yfir, að sérstaklega vegna aðgerðanna fyrir jólin sé gengislækkun nú orðin óhjákvæmileg. Á ég hér við ummæli hv. þm. Siglf., Áka Jakobssonar, á Alþingi fyrir nokkrum dögum, en undir þá skoðun hans var í raun og veru tekið af formanni Alþfl., Emil Jónssyni, hv. þm. Hafnf.

Efnahagsmálastefna ríkisstj. hefur þannig á örskömmum tíma beðið algert skipbrot.

En hvað þá um efndir þess loforðs að beita sér fyrir stórauknum stuðningi við umbætur í húsnæðismálum þjóðarinnar? Fyrrv. ríkisstjórnir höfðu undir forustu sjálfstæðismanna beitt sér fyrir merkum nýmælum á þessum sviðum. Árið 1952 hófst starfsemi lánadeildar smáíbúða, sem veitti á þremur árum um 1600 íbúðalán til efnalitilla einstaklinga um land allt. Var að þessu stórmikill stuðningur, enda þótt lánin væru lág.

Árið 1955 höfðu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn samvinnu um setningu nýrrar löggjafar til stuðnings við íbúðabyggingar. Samkvæmt henni skyldi hafin veðlánastarfsemi til íbúðabygginga og lánin hækka mjög verulega frá því, sem áður var, er lánadeild smáíbúða starfaði.

Þessi nýja lánastarfsemi fór mjög vel af stað. Á árunum 1955 og 1956 voru veittar nær 100 millj. kr. beint frá húsnæðismálastjórn sem lán út á nýjar íbúðir, þar með talið framlagið til bygginga í sveitum, en samtals voru á þessu sama tímabili veittar til húsbygginga í löngum lánum um 230 millj. kr. Grundvöllur þessarar auknu lánastarfsemi til íbúðabygginga var hin aukna sparifjármyndun í bönkum og lánastofnunum. Vegna hennar gátu bankarnir lagt fram fé til hins nýja veðlánakerfis. En um leið og vinstri stjórnin settist að völdum á s.l. sumri, tók gersamlega fyrir sparifjármyndunina, og síðan má segja, að starfsemi veðlánakerfisins hafi verið lömuð.

Hæstv. félmrh. og ríkisstj. í heild hefur gefizt upp við framkvæmd íbúðalánanna og svikið hrapallega loforð sitt um aukinn stuðning við húsnæðisumbætur í landinu. Vegna vantrúar almennings á efnahagsmálastefnu stjórnarinnar hefur sparifjármyndun, sem var hinn eðlilegi grundvöllur veðlánakerfisins, stöðvazt. Það er eitt gleggsta dæmið um yfirborðshátt hæstv. félmrh. og kommúnista í þessum málum, að þeir hæla sér ákaflega af því, að stofnsjóður svokallaðs byggingarsjóðs, sem settur hefur verið á stofn samkvæmt nýjum lögum, nemi rúmum 118 millj. kr. En í sjóði þessum er við stofnun hans enginn eyrir til útlána. Meginhluti hans er varasjóður hins almenna veðlánakerfis, lán ríkissjóðs til lánadeildar smáíbúða og væntanlegur stóreignaskattur, sem innheimta á næstu tíu ár, en enginn eyrir hefur nú verið innheimtur af.

En hæstv. ríkisstj. hefur talið sér nauðsynlegt að vinna sér fleira til frægðar og ágætis á fyrsta valdaári sínu en að hella yfir þjóðina nýju flóði dýrtíðar og leggja drápsklyfjar tolla og skatta á hvert einasta heimili í landinu, auk þess sem hún hefur gefizt upp við að framkvæma merkilega umbótalöggjöf á sviði húsnæðismála. Í lok áttunda mánaðar þinghaldsins ákvað vinstri stjórnin að sýna lit á því loforði sínu að byggja stjórnarstefnu sína á réttlæti og frjálslyndi eða hitt þó heldur. Þetta gerði hún með því að flytja frumvörp um breytingar á bankalöggjöf landsmanna, sem fyrst og fremst fela í sér persónulega ofsókn gegn nokkrum pólitískum andstæðingum hennar, en miða jafnhliða að því að tryggja nokkrum flokksmönnum hennar og þá einkum kommúnistum valdamiklar stöður í bönkum.

Undanfarin ár hefur því mjög verið haldið fram af núverandi stjórnarflokkum, að sjálfstæðismenn misnotuðu aðstöðu sína í stjórn bankanna. Á þessu hefur verið þrástagazt þrátt fyrir þá staðreynd, að sjálfstæðismenn hafa lengstum verið í algerum minni hluta í stjórn allra bankanna, og síðan þeir fengu meiri hlutann í bankastjórn Landsbankans og Útvegsbankans, hefur það verið upplýst, að málum sé þar yfirleitt ekki ráðið til lykta með meirihlutavaldi, heldur með samþykki allra bankastjóranna.

Það er athyglisvert, að í umr. þeim, sem fram hafa farið um bankamálin undanfarna daga á Alþingi, hefur ekki verið nefnt eitt einasta dæmi um það, að sjálfstæðismenn hafi misnotað aðstöðu sína í bönkunum flokki sínum til pólitísks framdráttar. Hv. stjórnarsinnar hafa með þögninni orðið að viðurkenna, að allar þeirra fullyrðingar um slíka misnotkun séu gersamlega rakalausar.

Tilgangurinn með breytingu bankalöggjafarinnar nú er þess vegna sá og sá einn að tryggja kommúnistum og nokkrum Alþýðuflokksmönnum nýjar stöður í lánastofnunum. Í þessu sambandi má á það minna, að gildandi löggjöf um Landsbankann er sett af Framsfl. á fyrsta þingi, eftir að hann tók við stjórnarforustu, árið 1928. Nú þarf að breyta þessari löggjöf til þess að leiða kommúnista til bankastjórastaða í þjóðbankanum. Sama sagan mun síðan gerast í Útvegsbankanum.

Það er mál út af fyrir sig, að Framsfl. skuli telja þjóðarnauðsyn til bera að setja kommúnista til æðstu valda og áhrifa í lánastofnunum þjóðarinnar. En hætt er við því, að ekki muni það verða til þess að auka traust og álit Íslands erlendis eða auka möguleika okkar til þess að fá erlent fjármagn til uppbyggingar íslenzkum bjargræðisvegum.

Sannleikurinn er auðvitað sá, að hér er verið að leika háskalegan leik, sem varla verður talinn samboðinn þeim tveimur lýðræðisflokkum, sem sæti eiga í núverandi hæstv. ríkisstj.

Hvað segir svo íslenzkur almenningur um þá stefnu, að við hver stjórnarskipti eigi að hefja hreingerningar innan bankanna og annarra stofnana ríkisins, reka þá menn úr stöðum og embættum, sem valdhöfunum á hverjum tíma geðjast ekki að vegna pólitískra skoðana þeirra? Mundi það treysta grundvöll íslenzks lýðræðis og þingræðis? Bæri það vott þroskaðri réttlætiskennd eða frjálslyndri stjórnarstefnu af hálfu þeirrar ríkisstj., sem þannig hagaði sér? Hver er skoðun þín, hlustandi góður? Ég held, að Íslendingar mundu ekki fagna slíkri stefnu.

Þess vegna mun hin persónulega ofsókn á hendur nokkurra yfirmanna og starfsmanna í tveimur bönkum vekja almenna andúð og harða gagnrýni á núverandi ríkisstj. Fyrir henni vakir engin umbót á lánastofnunum þjóðarinnar, heldur aðeins það að bægja pólitískum andstæðingum frá störfum, sem þeir hafa unnið af óhlutdrægni og samvizkusemi, og koma pólitískum samherjum í sæti þeirra. Stofnun sérstaks seðlabanka og breyting Útvegsbanka Íslands h/f í ríkisbanka er algert aukaatriði í þessu sambandi, enda hafa engar stórdeilur staðið um þá skipulagsbreytingu, sem þó er allt of flausturslega undirbúin í þeim frv. hæstv. ríkisstj., sem nú liggja fyrir Alþingi.

Ég hef hér aðeins drepið á örfá atriði í syndaregistri hæstv. ríkisstj. En í eldhúsi hennar er nú óþrifalegt umhorfs. Þar ríkir glundroði og upplausn ásamt einstöku úrræðaleysi í öllum helztu vandamálum þjóðarinnar. Ósamhentu liði hefur verið hóað saman, og helzta sameiningarafl þess er óttinn við traust og fylgi Sjálfstfl.

En hvað vill Sjálfstfl. í dag? spyrjið þið e.t.v., hlustendur góðir. Og enda þótt við séum í stjórnarandstöðu og eðlilegt sé, að við gagnrýnum fyrst og fremst stjórnarstefnuna, er þó rétt, að ég fari einnig örfáum orðum undir lok ræðu minnar um stefnu okkar og úrræði.

Sjálfstfl. telur það í dag vera eitt mesta nauðsynjamál alþjóðar, að baráttunni fyrir aukinni vernd fiskimiðanna verði haldið áfram með fullri festu. Einnig á því sviði hafa kommúnistar, sem nú fara með stjórn sjávarútvegsmála, svikið loforð sín. Munu bæði Vestfirðingar og Austfirðingar minnast síendurtekinna fyrri yfirlýsinga hæstv. sjútvmrh., Lúðvíks Jósefssonar, og hæstv. félmrh., Hannibals Valdimarssonar, um það, að ekkert væri auðveldara en að færa fiskveiðitakmörkin út, hvenær sem Íslendingar vildu.

Nú hefur dregið heldur ónotalega niður í þessum herrum um þetta mikla mál. Á s.l. vetri vildi hæstv. sjútvmrh. engin fyrirheit gefa um það hér á Alþingi, hvernig hagað yrði framkvæmdum á næstunni við útfærslu fiskveiðitakmarkanna.

Vertíðin í vetur sannar það einnig ekki hvað sízt, hvílík höfuðnauðsyn er á áframhaldandi baráttu fyrir vernd fiskimiðanna. Undir úrslitum þeirrar baráttu er efnahagsleg afkoma þessarar þjóðar e.t.v. komin í ríkara mæli nú en nokkru sinni fyrr.

Við sjálfstæðismenn teljum það enn fremur eitt þýðingarmesta verkefnið, sem við blasir í íslenzkum efnahagsmálum í dag, að örva þátttöku þjóðarinnar í framleiðslustörfum til lands og sjávar, en einmitt nú í vetur hefur verið meiri skortur á fólki til þeirra starfa en nokkru sinni fyrr. Um það bil 1/5 hluti sjómanna á fiskiskipaflotanum er nú útlendingar, og í sveitunum sverfur fólksleysið stöðugt að bændum í heilum landshlutum. Úr þessu verður að bæta. Það verður að tryggja það, að fólkið, sem vinnur að framleiðslunni, beri sízt minna úr býtum en þeir, sem vinna önnur og léttari störf. Jafnhliða verður atvinnulíf þjóðarinnar að verða fjölbreyttara, og ein líklegasta leiðin til þess er uppbygging stóriðnaðar, sem verði samkeppnisfær á erlendum mörkuðum.

Þá teljum við sjálfstæðismenn, að ljúka beri framkvæmd rafvæðingaráætlunar þeirrar, sem gerð var undir forustu fyrrverandi ríkisstj.

Í þessu sambandi má einnig á það benda, að nauðsynlegt er, að Íslendingar verði ekki utanveltu í þeirri víðtæku alþjóðlegu samvinnu, sem nú er hafin um hagnýtingu kjarnorkunnar í þágu friðsamlegrar uppbyggingar og skapar möguleika til stórfelldra tæknilegra nýjunga og framfara.

En því aðeins getur þessi litla þjóð haldið áfram uppbyggingu atvinnulífsins til lands og sjávar, að jafnvægi skapist í efnahagslífi hennar. Slíkt jafnvægi verður ekki skapað með neinum töframeðulum. Það næst aðeins með raunhæfum aðgerðum og skilningi alþjóðar á grundvallarlögmálum efnahagslífsins. Þar skiptir mestu máli, að þjóðin miði lífskjör sín við afrakstur framleiðslu sinnar og raunveruleg efni. Heilbrigð fjármálastefna og efnahagsástand verður ekki skapað, nema leiðtogar þjóðarinnar segi henni satt um hið raunverulega ástand og þær leiðir, sem til greina koma við lausn vandamálanna. Það hefur núverandi hæstv. ríkisstj. því miður ekki gert. Hún hefur þvert á móti reynt að dylja þjóðina sannleikans um eðli aðgerða sinna.

Við sjálfstæðismenn vísum til framkvæmdar stefnu okkar á undanförnum árum. Af henni getur þjóðin sjálf ráðið um afstöðu okkar til vandamála líðandi stundar og þarfa framtíðarinnar. Við munum halda áfram að berjast fyrir frjálslyndri framkvæmdastefnu, sem byggir á framtaki einstaklingsins, viðskipta- og athafnafrelsi, en gegn höftum, hlutdrægni og hvers konar valdníðslu. Við viljum byggja upp réttlátt, frjálslegt og þróttmikið þjóðfélag með því að gera einstaklingana sem andlega og efnalega sjálfstæðasta, en gæta þess þó jafnhliða, að réttur hins minni máttar verði ekki fyrir borð borinn. Í þessari baráttu beiðumst við liðveizlu og samvinnu allra frjálslyndra manna á Íslandi. — Góða nótt.