11.12.1956
Neðri deild: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

32. mál, orlof

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í áliti n., er n. sammála um að afgreiða málið. Það, sem gerði fyrirvara minn og hv. 8. þm. Reykv., var það, að þessu máli var flýtt svo mikið, að það gafst ekki fullt tóm til þess að athuga einstök atriði, sem við hefðum viljað spyrja um, og það er leitt, að það skuli enginn úr hæstv. ríkisstj. vera hér við.

Mér er kunnugt um, að þrátt fyrir það þó að 1. gr. þessara laga eins og hinna fyrri hljóði þannig, að lögin skuli gilda um allt fólk, sem starfar í þjónustu annarra, hvort heldur einstaklinga eða hins opinbera, þá er mér kunnugt um, að ein stétt, sem að vísu er ekki fjölmenn, hefur ekki fengið orlof greitt og ekki heldur fengið frí. Þetta eru héraðslæknar, sem hafa hingað til, ef þeir hafa farið í orlof, þurft að sjá sér fyrir staðgengli á eigin kostnað. Það hefur að vísu komið fyrir, að þeir hafa fengið leyfi til þess að fara burt úr héruðum sínum án þess að hafa eða geta bent á annan staðgengil en nágrannalækna, en annaðhvort hefur það þá verið samkomulagsatriði milli þessara lækna, að þeir gegndu hvor fyrir annan á víxl, en það hefur verið án allrar greiðslu af hálfu laungreiðanda, sem í þessu tilfelli er hið opinbera.

Ég hefði gjarnan viljað hafa tækifæri til þess að spyrja hæstv. ráðherra um það, hvort meiningin væri nú, þegar þetta á fortakslaust að taka til allra, sem laun þiggja, hvort heldur af hinn opinbera eða eru í þjónustu einstaklinga, hvort það væri meiningin að bæta úr þessu misrétti, sem héraðslæknar hafa til þessa verið beittir, án þess að til málshöfðunar þurfi að koma á hendur ríkinu af þeirra hálfu. Væntanlega mundu þeir vinna slíkt mál, en það er nú alltaf hálfleiðinlegt fyrir opinbera starfsmenn að þurfa að vera í málastappi við ríkið.

Um bréf Landssambands íslenzkra útvegsmanna vil ég aðeins segja það, að ég get fallizt á eða hef fallizt á, að þessi krafa um lágmarksorlof nái fram að ganga. En vitanlega verður hæstv. ríkisstj., þegar hún leysir vanda útvegsins, að taka tillit til þessa aukna kostnaðar, sem þarna lendir á útgerðarmönnum, sem er, að mér skilst, 3% hækkun á kaupi sjómanna.