23.10.1956
Neðri deild: 3. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þetta frv. Þetta eru brbl., sem voru gefin út 21. ágúst í sumar og leggja bann við því, að húsnæði, sem annaðhvort var í notkun sem íbúðarhúsnæði, þegar lögin voru sett, eða var skv. teikningum af hlutaðeigandi húsi ætlað til íbúðarhúsnæðis, verði tekið til annarra nota. Einnig er lagt bann við því, að íbúðarhúsnæði sé haldið ónotuðu, ef kostur er að leigja það.

Í þessu frv. er auk þessara bannákvæða heimild til bæjarfélaga að óska eftir undanþágu frá því, að þessi lög taki til þeirra, ef um það berst ósk frá bæjarstjórn og lögð eru fram skilríki fyrir því, að í viðkomandi bæjarfélagi sé ekki skortur á íbúðarhúsnæði.

Það var vitað, að það hafði viðgengizt alllengi hér í þessum bæ húsnæðisleysisins, að húsnæði, sem hafði fengið öll leyfi miðað við það, að það væri íbúðarhúsnæði, var síðan á ýmsum stigum byggingarframkvæmdanna tekið til annarra nota án heimilda, t.d. íbúðarhúsnæði tekið til verzlunarhúsnæðis eða sem skrifstofuhúsnæði eða sem iðnaðarbúsnæði.

Ég leit þannig á, að það bæri að koma í veg fyrir þetta, þegar vitað var, að aðrar eins hörmungar eru hér ríkjandi í húsnæðismálunum og staðreynd er. Hins vegar tel ég, að það verði að taka upp þá stefnu, að rétt yfirvöld taki um það ákvarðanir, hvaða húsnæði til verzlunar- og skrifstofunota eða til atvinnurekstrar sé nauðsynlegt að veita, og þá séu öll nauðsynleg skilríki veitt til þess, að byggt sé húsnæði til þeirra nota, en menn ekki neyddir til þess að stela af íbúðarhúsnæði bæjarbúa.

Ég varð þess áskynja, að það voru margir tugir íbúða, ef til vill nokkur hundruð íbúða í þessum bæ, sem verið var að breyta frá sínu upphaflega hlutverki, að verða íbúðarhúsnæði, í það að taka það til verzlunarnota eða skrifstofunota eða sem sé til annars hlutverks en þess, sem hafði verið sótt leyfi til réttra byggingaryfirvalda um að nota húsnæðið. Þess vegna voru sett brbl. um þetta, og þar sem vitað var, að í sumum tilfellum voru margar íbúðir, jafnvel tugir íbúða, á hendi eins og sama aðila, sem fullkomlega leit út fyrir að ekki ætti að halda áfram að innrétta sem íbúðarhúsnæði, þá þótti ekki annað fært en að hafa allhá sektarviðurlög við brotum á þessum lögum, og eru sektarákvæðin ákveðin í 4. gr. laganna frá 10 þús. til einnar millj. kr. Þetta eru að vísu allóvenjulega há sektarákvæði, en þau urðu þó að vera það há, að það væri ekki gróðavegur að því að breyta íbúðarhúsnæði til annarra nota með því að borga sektina. Einhverjum varð svo mikið um þessi háu sektarákvæði þarna, að þeir fóru að skrifa um það í blöðin, að nú væri hæstv. ríkisstj. og forsrh. eiginlega sama sem búin að innleiða líflátsrefsingar á Íslandi, og varð ekki um sel, sem vænta mátti. En yfirleitt virðist mér samt, að almenningsálitið sé einróma á þá lund, að um það húsnæði, sem menn sækja um leyfi til þess að byggja og ganga frá íbúðarhúsnæði, eigi að sjá um það af hendi löggjafans, að það sé notað og verði notað sem íbúðarhúsnæði, en hins vegar að rétt stjórnarvöld veiti öll nauðsynleg leyfi, sem óumflýjanlegt þykir að veita, til verzlunarhúsnæðis og skrifstofuhúsnæðis og til- annars atvinnurekstrar frá upphafi, svo að menn geti komizt hjá að vera lögbrjótar af þeim sökum. Vitanlega verður að viðurkennast, að verzlunarhúsnæði og húsnæði til atvinnurekstrar getur verið alveg jafnnauðsynlegt og íbúðarhúsnæði og á að njóta þess réttar að vera leyft, þegar nauðsynin heimtar slíkt húsnæði.

Ég legg til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. heilbrigðis- og félagsmálanefndar.