27.05.1957
Sameinað þing: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á nokkrum áratugum hefur Íslendingum tekizt að byggja upp margs konar mannvirki og fjölbreyttar framkvæmdastofnanir í þágu lands og þjóðar. Til þess hefur þjóðin líka notið trausts erlendra þjóða, sem veitt hafa henni lánsfé til framkvæmdanna. Án þessarar aðstoðar frá erlendu fjármagni værum við nú skammt á veg komnir með uppbyggingu nútímaþjóðfélags, sem útlendingar undrast svo mjög og dást að. Með þessum hætti er til orðinn kaupskipafloti landsmanna, fiskiskipafloti, hafnarmannvirki, raforkuver, verksmiðjur og flugfloti, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Þetta er fyrst og fremst að þakka því lánstrausti, sem þjóðin hefur haft erlendis og jafnan verður eitt fyrsta skilyrði þess, að umbætur og framfarir í þjóðfélaginu haldi áfram.

Eins og bóndanum, sjómanninum og verkamanninum er nauðsynlegt að fá lánsfé til að byggja yfir sig, rækta landið, eignast skip, vélar og hvers konar framleiðslutæki, svo er þjóðfélaginn nauðsynlegt að fá erlent fjármagn til þess að koma upp stórvirkum fyrirtækjum, sem eiga að vera undirstaða að framförum og velgengni þjóðarinnar. Um þetta hafa ekki verið skiptar skoðanir.

En nú hafa þeir atburðir gerzt í íslenzkum stjórnmálum, að önnur vinnubrögð eru upp tekin á þessu sviði. Nú hefur stjórnarandstaðan, þeir hv. sjálfstæðismenn, talið sér henta að vega að ríkisstj. á erlendum vettvangi.

Þetta er gert með þeim hætti að senda svokölluð fréttaskeyti út um heim ríkisstj. til ófrægingar, skeyti, sem túlka á Morgunblaðsvísu stefnu stjórnarinnar, störf hennar og áform. En með því að skeytin eru send sem fréttaskeyti, eru þau birt í heimsblöðum, m.a. þeirra þjóða, sem við þurfum helzt að leita til um lánsfé til framkvæmda.

Með þessum hætti á að koma þeirri skoðun inn hjá öðrum þjóðum, að á Íslandi sé komin til valda ábyrgðarlaus ríkisstj., er lúti fyrirskipunum frá rússneskum valdhöfum, afneiti allri samstöðu Íslendinga með vestrænum þjóðum, en stofni sjálfstæði þjóðarinnar í bráðan voða. Það voru sannarlega miklar líkur til þess frá sjónarmiði þeirra manna, er þessa bardagaaðferð fundu upp, að erlendar þjóðir mundu skoða hug sinn tvisvar, áður en þær færu að lána fé þeirri þjóð, sem nota kynni svo lánsféð til tjóns fyrir lánveitenduna sjálfa. Ef herbragðið bæri árangur og ríkisstj. fengi ekkert lán erlendis, yrði hún í svo miklum vanda stödd með þær framkvæmdir, er hún hafði boðað, að það mundi ríða henni að fullu. Þá væri sigur þeirra hv. sjálfstæðismanna unninn. En það var ekki liðið nema fram á jólaföstu, þegar þann ugg setti að hv. sjálfstæðismönnum, að herbragðið kynni að mistakast.

Hv. 1. þm. Rang., Ingólfur Jónsson, orðaði þetta í ræðu hér á hv. Alþingi, eins og hæstv. forsrh. nefndi hér áðan, að það yrði að finna önnur ráð til að koma ríkisstj. frá völdum en þau ein, að hún fengi hvergi lán.

Svona var þá komið eftir skamma atlögu, að skeytin hittu ekki í mark. Fréttaskeytin svokölluðu voru að vísu birt í erlendum blöðum, og hv. sjálfstæðismenn strituðust við að þýða sín eigin skeyti og birta þau í Morgunblaðinu, eftir að þau voru búin að fara í hring. En eftirtekjan erlendis var minni en ætlazt var til og þó sýnu minni hér heima fyrir. Skollaleikurinn var með öllu afhjúpaður. Erlendir stjórnmála- og fjármálamenn sáu fljótt, að hér voru engin fréttaskeyti á ferðinni, heldur óvandaður leikur ráðþrota stjórnarandstöðu, svo ráðþrota, að hún auglýsti jafnvel eftir því, að nú þyrfti að finna upp ný ráð, betri ráð, skæðari ráð til þess að koma stjórninni frá völdum, af því að fyrstu ráðin, að stjórnin fengi hvergi lán, mundu sennilega mistakast.

Það duldist mönnum ekki, hvorki erlendis né innanlands, að ríkisstj. var ekki að efla hér rússnesk áhrif, þó að nokkuð væri dregið úr áhrifum hv. sjálfstæðismanna á stjórnarfarið í landinu, að ríkisstj. var ekki að spilla fyrir íslenzkum atvinnuvegum, heldur var hún að undirbúa stórkostlega aukningu í sjávarútvegi og landbúnaði, að hún var ekki ábyrgðarlaus í efnahagsmálunum, heldur gerði hún gagngerðar ráðstafanir til að hefta verðbólguna í landinu, gagngerðari en nokkur ríkisstj. hafði áður gert. Það var vegna þessara staðreynda, stefnu og starfa ríkisstj. sjálfrar, sem skeyti hv. sjálfstæðismanna misstu marks. Það var þessu að þakka, að lánstrausti þjóðarinnar erlendis varð ekki hnekkt, og nú hafa hv. sjálfstæðismenn fengið að þreifa á staðreyndunum. Á skömmum tíma hefur ríkisstj. tekizt með atbeina Vilhjálms Þór bankastjóra að fá hagstæð lán í Ameríku, sem nema um 182 millj. kr. Þessum lánum verður varið til ræktunarsjóðs, fiskveiðasjóðs, sementsverksmiðju, rafvæðingar dreifbýlisins og nýrrar Sogsvirkjunar.

Bandarískur blaðamaður var hér á ferð í vetur. Hann skrifaði síðan grein í bandaríska blaðið Wall Street Journal þann 17. apríl og segist hafa rekizt á menn hér heima, sem væru gramir yfir því, að Bandaríkin séu að veita íslenzku ríkisstjórninni lán. Í fyrrnefndri blaðagrein segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Einn af leiðtogum íhaldsflokksins, sem missti völdin, er alveg jafngramur. Lán Bandaríkjanna, segir hann, borga aðgöngumiða kommúnista að valdastólunum.“

Þessi ummæli birti svo Morgunblaðið þann 28. apríl. Ekki voru þetta neinar nýjar fréttir fyrir Íslendinga um gremju íhaldsforingjanna út af því, að ríkisstj. skyldi takast að fá lánsfé í Bandaríkjunum. Hitt var aftur á móti nokkurs virði, að Morgunblaðið skyldi staðfesta þessa afstöðu foringja sinna. En hvers vegna hinn bandaríski blaðamaður er að birta það opinberlega, sem íhaldsforinginn segir honum einslega, það er bágt að vita. Það er eins og honum hafi verið ósárt um þetta og hann hafi vitað, að þessi sami íhaldsforingi beitti sér manna mest fyrir því 1944 að koma kommúnistum í ríkisstj. og greiddi þannig sjálfur aðgöngumiða þeirra að valdastólunum þá. Og alltaf getur sagan endurtekið sig. Ekki er vitað, hversu miklum áhyggjum það hefur valdið þeim Eisenhower og Dulles, þegar mesta stórveldi heimsins fékk svona áminningu frá gömlum íhaldsforingja, sem missti völdin úti á Íslandi. En eitt er víst, að ekki megnaði áminningin að hindra endanlega samninga um bandarískt lán til Sogsvirkjunarinnar.

Á fundi sjálfstæðismanna á Egilsstöðum 5. ágúst í fyrra, rétt eftir að hæstv. ríkisstj. tók við völdum, fórust einum hv. þm. Sjálfstfl. orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnarandstaða Sjálfstfl. verður hörð, en ábyrg og sanngjörn. Við munum standa á verði um alþjóðarhag, vera með hverju góðu máli, en berjast einhuga og djarflega gegn hvers konar rangsleitni, spillingu og valdníðslu.“

Þegar hv. sjálfstæðismenn tóku sér fyrir hendur að kynna hæstv. ríkisstj. fyrir erlendum þjóðum með fréttaskeytum, svo að þær freistuðust ekki til þess að veita Íslendingum lánsfé, vakti þetta óvenjulega eftirtekt um land allt. Þetta var þá flokkurinn, sem hét að sýna ábyrgð og sanngirni, standa á verði um alþjóðarhag og vera með hverju góðu máli. Reyndar hét hann einu í viðbót: að sýna hörku, mikla hörku. En flokkurinn var fljótur að gleyma dyggðunum, ábyrgðinni, sanngirninni, alþjóðarhag og góðu málunum. En ætli hann óski þess ekki nú, að hann hefði beitt sjálfan sig svolitlu af allri þessari hörku til að láta af tilræðinu gegn þjóðinni, sem nú hefur orðið flokknum til helzt til lítillar sæmdar?

En hugsum okkur, að þetta herbragð þeirra hv. sjálfstæðismanna hefði tekizt, að hæstv. ríkisstj. hefði ekkert lán fengið erlendis. Á hverjum hefði þetta bitnað? Auðvitað á þeim, sem áttu að njóta þeirra framkvæmda, sem lánin eru fengin til. Ræktunarsjóður hefði þá ekki fengið sinn hlut, og þess vegna hefðu bændur fengið þeim mun minni lán til að rækta og byggja fyrir. Fiskveiðasjóður hefði ekki fengið sitt og sjómenn og útgerðarmenn þess vegna þeim mun minni lán. Sementsverksmiðjan hefði stöðvazt fyrir fjárskort. Raforkuframkvæmdirnar úti um land hefðu stöðvazt af sömu ástæðum. Og síðast, en ekki sízt: Sogsvirkjunin nýja, sem nú fær um 117 millj. kr. af hinum nýfengnu lánum, hefði ekkert fengið, og þess vegna hefði ekki orðið byrjað á henni á þessu ári. Þetta átti hin harða stjórnarandstaða að kosta. Og þetta mátti hún kosta að dómi hv. sjálfstæðismanna, ef með því yrði unnt að koma hæstv. ríkisstj. í vanda. Bændur, útgerðarmenn, sjómenn, auk allra rafmagnsnotenda á orkusvæði Sogsvirkjunar, Mjólkárvirkjunar og Grímsárvirkjunar, áttu að færa þessa fórn, til þess að fullnægja ofstækisfullum örþrifaráðum hv. sjálfstæðismanna. Og Reykjavík var ekki undan skilin. Hér er yfirvofandi tilfinnanlegur rafmagnsskortur eftir 2–3 ár, ef ekki er unnt að byrja á hinni nýju Sogsvirkjun þegar á þessu ári. Þessa framkvæmd átti líka að stöðva.

„Það verður að finna önnur ráð.“ Sjálfstfl. hefur farið með yfirstjórn sjávarútvegsmála óslítið í hálft tíunda ár í fyrrv. ríkisstj. Enginn atvinnuvegur hefur átt við svo mikla erfiðleika að etja sem sjávarútvegurinn. Farnar hafa verið tvær leiðir til þess að bæta úr þessu ástandi, gengislækkunarleiðin og uppbótaleiðin, og báðar undir yfirstjórn Sjálfstfl. Í vetur er enn farin uppbótaleiðin, en samhliða henni eru nú gerðar í fyrsta skipti strangar ráðstafanir til að halda niðri verðbólgunni. Hver var nú afstaða hv. sjálfstæðismanna til frv. um þessar ráðstafanir? Þeir snerust gegn málinu, allir sem einn maður. Nýir skattar, nýjar álögur jólagjöf stjórnarinnar, hrópuðu þeir. Þeir hrópuðu þetta ekki á undanförnum árum, þegar þeir beittu sér sjálfir fyrir svipuðum ráðstöfunum.

Það er að vísu ekkert við því að segja, þótt hv. sjálfstæðismenn væru á móti till. ríkisstj. og vildu berjast fyrir sínum eigin till. í sjávarútvegsmálunum. Það er fullkomlega lýðræðislegt og réttmætt. En hvaða leiðir vildu þá hv. sjálfstæðismenn fara, svo að ekki þyrfti að leggja álögur á þjóðina? Hvernig ætluðu þeir að rétta við hag sjávarútvegsins, svo að komizt yrði hjá jólagjöfinni, sem þeir hafa svo oft nefnt? Hverjar voru þeirra till.? Því er fljótsvarað. Þær voru engar, ekki ein einasta till. Þeir höfðu ekki minnstu hugmynd um, hvað ætti að koma í stað þeirra till., sem þeir vildu fella. Þar var ekkert annað en eitt heljargat í stefnu þeirra í efnahagsmálum. Þó hafa þeir sennilega talið rétt, að aðrir hv. þm. gerðu sama og þeir, yrðu á móti till. hæstv. ríkisstj. En ef svo hefði farið, hvað hefði þá gerzt? Engin vetrarvertíð, allt hefði stöðvazt, 42 togarar, um 630 önnur fiskiskip, 5–6 þús. sjómenn farið í land, þúsundir og aftur þúsundir manna, sem vinna beint eða óbeint við sjávarútveg, hefðu ekkert haft að gera, og 6–7 hundruð millj. kr. útflutningsverðmæti voru úr sögunni.

Þetta er það, sem hefði gerzt, og er þó öllum afleiðingunum sleppt. Vildu hv. sjálfstæðismenn þetta? Var þetta jólagjöfin, sem þeir ætluðu þjóðinni? Nei, að sjálfsögðu hafa þeir ekki viljað þetta. En hvað vildu þeir þá? Þeir vildu hafa frelsi til að hrópa: Nýir skattar, nýjar álögur jólagjöf stjórnarinnar. Þetta var ráð nr. 2 „til að koma hæstv. ríkisstj. frá völdum,“ eins og hv. þm. Sjálfstfl. orðaði það.

Hafa þá hv. sjálfstæðismenn ekki fundið nein fleiri ráð til að koma hæstv. ríkisstj. frá völdum? Jú, þeir hafa fundið eitt enn. Það er vöxtur verðbólgunnar í landinu. Með hækkandi verðlagi og kaupgjaldi telja þeir, að koma mætti nokkru til leiðar. Að vísu er verðlagseftirlitið þröskuldur á veginum. En aftur á móti eiga þeir ítök í fáeinum stéttarfélögum. Þar hafa flokksmenn þeirra beitt sér mjög að undanförnu og krafizt kauphækkana, samningsuppsagna og verkfalla. Reyndar verða atvinnurekendur að borga brúsann, en um það er ekki spurt. Þetta er ráð nr. 3 og stendur nú sem hæst.

Ég hef nú nefnt þrjú helztu viðfangsefni hv. sjálfstæðismanna, sem öll miða að sama marki. Öll eru þau neikvæð. Öll eru þau til að rífa niður, en ekki til að byggja upp. Þetta er hin ábyrga stjórnarandstaða. Þetta heitir að standa vörð um alþjóðarhag. — Góða nótt.