14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Frsm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum, á þskj. 2, liggur hér fyrir til umr. ásamt nál., sem útbýtt hefur verið í dag.

N. hefur rætt þetta frv. allýtarlega á nokkrum fundum fram og til baka og ekki orðið að öllu leyti sammála um frv. Það er rétt að geta þess, að þetta frumvarp er staðfesting á brbl., sem útgefin voru 21. ágúst 1956 af hæstv. félmrh. Fjórir af nm. hafa skrifað undir með fyrirvara, eins og nál. ber með sér. Tveir af þeim, hv. þm. Ísaf. og hv. 8. þm. Reykv., munu gera a.m.k. grein fyrir sinni afstöðu, og ég held, að það sé þegar komin fram brtt. frá þeim við frv. Ég var að koma núna, svo að mér hefur ekki gefizt tími til að athuga það, hvort hún er komin fram. Brtt. þessi er við 3. gr. Hinir tveir nm., þ.e. hv. 1. þm. Skagf. og hv. 5. landsk., hafa enn fremur skrifað undir með fyrirvara, sem mér er ekkí að fullu leyti kunnugt um, í hverju er fólginn. Það hefur reyndar komið fram á nefndarfundum, að þar sem væri von á lögum um húsnæði, þá teldu þeir, að það væri ekki mikil þörf á að staðfesta bráðabirgðalögin. Ég er aðeins einn, sem hef skrifað undir frv. án nokkurs fyrirvara, og legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Það má vel vera, að til séu fordæmi fyrir því, að lögð hafi verið fram frv. um staðfestingu á brbl., án þess að þau væru staðfest af þinginu. En ég tel það í alla staði óeðlilegt, og það heggur mjög nálægt því, svo að maður ekki segi meira, að það sé óvirðing við þann ráðherra, sem flytur frv. Af þeim ástæðum kom mér það mjög á óvart, þegar þessir tveir hv. alþm., sem ég hef hér talað um, skrifuðu undir frv. með fyrirvara, þ.e.a.s. ef fyrirvarinn er byggður á þessu. En ég veit ekki til þess, að hann geti verið byggður á öðru en þessu, sem ég hef þegar lýst.

Um sjálft frv. get ég orðið mjög stuttorður. Hæstv, félmrh. fylgdi því úr hlaði með ýtarlegri ræðu, þegar málið var flutt i þessari hv. d., við 1. umr., og menn hafa sjálfsagt kynnt sér það mjög rækilega, efni þess og anda. Ég mun ekki að svo stöddu, þ.e.a.s. nema alveg sérstakar ástæður gefist þar til, fjölyrða meira um málið.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. leyfa mér að leggja til við hæstv. forseta, að málinu verði vísað til 3. umr.