14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hv. frsm. talaði svo lágt, þegar hann var að mæla fyrir frv., að ég heyrði ekki nema nokkuð af því, sem hann sagði. Ég skil vel, að hann hafi verið mjög feiminn að mæla með frv. af hendi nefndarinnar, enda er þetta nál. eitthvert það merkilegasta plagg, sem lengi hefur verið lagt fyrir Alþ. frá þingnefnd, þar sem allir nm. nema einn skrifa undir álitið með fyrirvara. Það er sýnilegt, að hv. þm., sem fyrir frv. mælti og er að líkindum formaður nefndarinnar, hefur verið sá eini, sem vildi leggja því lið. En ég skil vel, á hverju fyrirvari hinna nefndarmannanna byggist, þó að skýringin hafi ekki komið fram enn þá. Hann byggist auðvitað á því, hvað frv. er stórgallað, svo að jafnvel þeir menn, sem telja sig fylgja hæstv. félmrh. að málum, hafa ekki treyst sér til að standa með honum í þessu máli. Ég get vel skilið það. Og ég vil eindregið beina því til hv. deildarmanna, að frv. verði fellt við þessa umr., því að frv. á sýnilega engu fylgi að fagna með nefndinni.