14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er að vonum, að þingmönnum þyki nál. þetta vera merkilegt, og sannleikurinn er sá, að fyrir stjórnvizku 1. þm. Skagf. tókst að fá alla nefndina á eitt álit, enda þótt hún væri í raun og veru aðeins sammála um að vera ósammála. Hins vegar er sundurlyndi þriggja nm. ekki eins alvarlegt og hv. 2. þm. Reykv. virðist hafa gert sér vonir um. Ég skrifa undir þetta nái. með fyrirvara einungis til þess að geta lýst því yfir, að ég mun fylgja frv. óbreyttu í trausti þess, að fram komi á þessu þingi heildarfrumvarp um ný lög um húsnæðismál. Hef ég orð hæstv. ráðh. fyrir því, að sterkar vonir séu um, að svo muni verða.

Þetta er allt og sumt, sem í mínum fyrirvara felst. Ég vil aðeins láta það koma fram, að ég fagna því, að von er á slíku heildarfrumvarpi, þar sem hægt verður að taka þessi mál til ýtarlegri endurskoðunar en gert hefur verið að svo komnu máli.

Ég get ekki talað fyrir 1. þm. Skagf., en hygg þó, eftir því sem fram kom í n., að hans afstaða sé ákaflega lík minni.