27.05.1957
Sameinað þing: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2194 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

Almennar stjórnmálaumræður

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Góðir útvarpshlustendur nær og fjær. Þessa dagana eru liðnir réttir 10 mánuðir, síðan Hermann Jónasson gekk á strandstað fyrrverandi ríkisstj. og afmunstraði strandkapteininn Ólaf Thors, hv. þm. G-K, og settist sjálfur undir stýri. Það er því tæpt á því, að þessar útvarpsumræður geti orðið ársuppgjör ríkisstj. og stjórnarandstöðu.

Hér er mikið talað um svik, og tel ég því bezt að vitna orðrétt í stjórnarsáttmálann, til þess að menn geti borið saman loforð og efndir.

Þegar stefnuyfirlýsing hinnar nýju ríkisstj. var birt þann 24. júlí í fyrrasumar, vöktu þessi atriði hennar einna mesta athygli:

Í fyrsta lagi, að ríkisstj. hét því, að taka upp samstarf við samtök verkalýðs, bænda, útgerðarmanna og annarra framleiðenda til þess að finna sem heppilegasta lausn á vandamálum atvinnuveganna með það fyrir augum að auka framleiðslu landsmanna og efla almennar framfarir í landinu. Því var lofað, að þá þegar yrði skipuð nefnd sérfróðra manna í samráði við stéttasamtökin til þess að rannsaka ástand efnahagsmálanna og undirbyggja þannig aðgerðir í þeim málum. Um þetta segir svo orðrétt í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar: „Mun ríkisstj. leggja sérstaka áherzlu á að leysa efnahagsvandamálin í náinni samvinnu við stéttasamtökin.“ Er þar bæði átt við samtök launamanna og bænda. Þetta þótti nýstárlegt grundvallaratriði í stjórnarsamningi, en það var í fullu samræmi víð það, sem Hermann Jónasson hafði látið í ljós fyrir rúmum 2 árum í áramótahugleiðingu, þegar hann sagði á þessa leið:

„Í mínum huga er engin spurning um það, að samstarf milli bænda og verkamanna og annarra, er vinna þjóðfélaginu nauðsynleg störf, verður að koma og kemur. Spurningin er aðeins um það, með hverjum hætti þessu samstarfi verður fyrir komið og hvaða tíma það tekur að koma því á.“

Þessu samstarfi verkalýðs og bænda var svo hrundið í framkvæmd með stjórnarmynduninni þann 24. júlí í fyrrasumar.

Annað grundvallaratriði stefnuyfirlýsingar stjórnarinnar var þetta: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að skipuleggja alhliða atvinnuuppbyggingu í landinu, einkum í þeim þremur landsfjórðungum, sem nú eru verst á vegi staddir í atvinnulegum efnum.“

Þá var orðið um það samkomulag milli stjórnarflokkanna, að leita skyldi samninga um smíði á 15 togurum, enda skyldi skipunum ráðstafað með sérstöku tilliti til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Þriðja stórmálið, sem þjóðin fagnaði sérstaklega í stefnuyfirlýsingu hinnar nýju ríkisstj., var loforð um framhaldsvirkjun Sogsins, sem ekkert hafði rekið eða gengið með mörg undanfarin ár. Þetta fyrirheit var þannig orðað í stefnuyfirlýsingunni: „Ríkisstjórnin heitir að beita sér fyrir því, að hafizt verði handa um framhaldsvirkjun Sogsins og lánsútvegun í því sambandi.“ Orðfleira var nú þetta loforð ekki.

Í framhaldi af þessu hét ríkisstj. því, að leita eftir erlendum lánum til framkvæmda í landbúnaði, iðnaði og hafnargerð, og hefur það verið efnt.

Þá kem ég að fjórða stórmálinu, sem stjórnin lofaði að helga krafta sína. Það er baráttan við eyðandi eld verðbólgunnar. Um það segir svo í stjórnaryfirlýsingunni: „Ríkisstj. lítur á stöðvun verðbólgunnar sem eitt höfuðverkefni sitt. Hún mun leggja sérstaka áherzlu á að koma í veg fyrir óeðlilegan gróða milliliða og beita sér fyrir, að fjármálastefna bankanna verði í samræmi við þarfir atvinnuveganna og uppbyggingar- og framfarastefnu ríkisstj. Í því sambandi mun ríkisstj. beita sér fyrir breytingum á bankalöggjöf landsins, m.a. með því, að seðlabankinn verði settur undir sérstaka stjórn.“

Þessu næst lofaði ríkisstj. því, að hún skyldi leggja áherzlu á lausn húsnæðisvandamálsins, og var henni þó vel ljóst, að þar var við erfitt vandamál að etja, eigi síður en verðbólguþróun og vaxandi dýrtíð undanfarinna ára.

Auk þeirra stórmála, sem nú hafa verið nefnd, hét stjórnin að hraða rafvæðingu landsins, leggja áherzlu á aukna ræktun í sveitum, stækkun friðunarsvæða við strendur landsins og fylgja í utanríkismálum fram þeirri stefnu, sem mörkuð var í ályktun Alþingis þann 28. marz 1956.

Þetta, sem nú hefur verið talið, er meginuppistaðan í þeirri stjórnarstefnu, sem núverandi ríkisstj. hefur skuldbundið sig til að reyna að framkvæma á þessu kjörtímabili. Og verkefnið í umr. sem þessum er að leggja réttlátt mat á, hvort vel eða illa hafi verið að þessum málum unnið á þeim 10 mánuðum, sem liðnir eru, síðan stjórnin tók við völdum. Er stjórninni meira en ljúft að eiga um þetta orðastað við hv. stjórnarandstöðu á málefnalegum grundvelli.

Stjórnin hafði aðeins setið skamma hríð að völdum, þegar skipuð var nefnd sérfróðra manna til þess að rannsaka ástand efnahagsmálanna, og jafnframt voru tilnefndir valdir fulltrúar verkalýðssamtaka og bændasamtaka til samstarfs við þá um þessa þýðingarmiklu undirstöðurannsókn. Enn fremur voru fengnir hingað til lands tveir erlendir hagfræðingar til að kynna sér ástandið í efnahagsmálum. Þessi rannsókn leiddi það í ljós, sem flestum var áður meira eða minna vitanlegt, að efnahagslífið var helsjúkt. Framleiðsluatvinnuvegirnir voru komnir fast að stöðvun, og verðbólguholskeflan gein yfir þjóðinni og ógnaði fjárhagslegu sjálfstæði hennar alvarlegar en nokkru sinni fyrr í sögu hennar. Þetta var raunar niðurstaða sérfræðinganna, sem hv. formaður Sjálfstfl. var að spyrja hér um áðan. Þegar þessari rannsókn var lokið, var öllum ljóst, að ekki varð með neinn móti umflúið annað tveggja að framkvæma stórfellda gengislækkun eða afla framleiðsluatvinnuvegunum fjár, svo að hundruðum milljóna króna skipti, með almennri skattlagningu. Engar aðrar leiðir töldust vera færar. Síðari leiðin var valin í nánu samstarfi við verkalýðssamtökin. Dapurleg reynsla af gengislækkunum Ólafs Thors er þjóðinni í svo fersku minni, að ég efast ekki um, að það er í samræmi við meirihlutavilja þjóðarinnar, að allar aðrar leiðir séu reyndar til þrautar til þess að komast hjá því, að gengi íslenzku krónunnar verði skorið niður enn þá einu sinni. Það var hins vegar öllum ljóst, að skattlagningarleiðin var heldur ekki líkleg til vinsælda. En enginn lifir í þessu landi, ef framleiðslustarfsemin stöðvast. Þess vegna urðu þessi dýru syndagjöld fyrrverandi stjórnarstefnu að greiðast, hvort sem mönnum líkaði það betur eða verr. En ef rétt er á málið litið, eiga menn auðvitað að lýsa sök á hendur Ólafs Thors og Sjálfstfl., þegar stjórnarandstaðan er að útmála þá miklu skattabyrði, sem á þjóðina varð að leggja um seinustu áramót. Þær skattaklyfjar voru að engu leyti afleiðing af stjórnaraðgerðum núverandi ríkisstjórnar. Það voru gamlar lummur af veizluborði Jensenssona.

Það fyrsta, sem gert var í efnahagsmálunum í samráði við forustumenn verkalýðssamtaka og bændasamtaka, var að setja á algera verðlagsog kaupgjaldsstöðvun um fjögurra mánaða skeið, frá 1. sept. til áramóta, meðan afráðið yrði, til hvaða úrræða skyldi grípa í efnahagsmálunum.

Stjórnarandstaðan rak þegar í stað upp tryllingsöskur út af þessu og fullyrti, að með þessari ráðstöfun væri verið að stela 6 vísitölustigum af kaupi fátækra verkamanna. Reyndi Sjálfstfl. strax með öllu móti að æsa verkalýð landsins upp gegn þessari ráðstöfun, en árangurinn varð harla rýr, nánast enginn. Almenningsálitið í landinn kvað Mbl. og önnur málgögn íhaldsins strax í kútinn í þessu máli. Dýrtíðin hafði vaxið risaskrefum á árinu 1956. Vísitalan hafði hækkað um 13 stig á nokkrum mánuðum, áður en ríkisstj. Ólafs Thors veltist úr völdum. Stöðvunin var óumdeild þjóðarnauðsyn. Verkalýður landsins vildi ekki meira af svo góðu. Hann vissi vel, að hann átti að fá 6 vísitölustiga hækkun á kaup sitt þann 1. sept., en hann vissi jafnvel, að bændur áttu strax þann 15. sept., hálfum mánuði síðar, að fá hækkun á landbúnaðarafurðum, og var reiknað út, að strax þegar sú hækkun væri komin til framkvæmda, væru að engu orðin 5 stig af þessum 6. Það eina stig, sem þá var eftir, sáu menn að yrði ekki lengi að hverfa, ef fram næðu að ganga þær háværu kröfur um hvers konar verðhækkanir, sem þá voru uppi. Þannig varð mönnum ljóst, að það mundi á skömmum tíma leiða til nokkurra stiga kjaraskerðingar, ef engar ráðstafanir væru gerðar til verðstöðvunar. Það varð mönnum enn fremur ljóst, að hvaða ráðstafanir sem gerðar yrðu í efnahagsmálum, yrðu þau fortakslaust torleystari og erfiðari viðfangs, ef verðlag og kaupgjald fengju að taka eitt stökkið enn þá upp í við.

Um þetta þarf ekki að fjölyrða meira. Mbl. hefur engan hljómgrunn fengið fyrir upphrópunum sínum um, að 6 vísitölustigum hafi verið stolið af verkafólki, og hefur það þó allt fram til þess síðasta verið iðið við að boða þetta trúaratriði sitt, ásamt hinni nýju kenningu atvinnurekendaflokksins um lífsnauðsyn þess, að verkalýðsfélög segi nú upp samningum, beri fram kröfur um kauphækkanir og fari sem flest út í verkföll, því að það eitt sé líklegt til að fella ríkisstj. og leiða íhaldið aftur til valda og þá sé alltaf hægt að skila atvinnurekendum aftur því, sem þeir hafi orðið að láta í herkostnað í þessu máli.

Með þetta í huga geta hlustendur óefað skilið undrun mína, þegar ég að morgni þess 12. maí, fyrir hálfum mánuði eða svo, rakst á svo hljóðandi ummæli í grein um sjávarútvegsmálin og seinustu vertíð, en þar stóð þetta í Mbl.:

„Er nokkur von til þess, að sjávarútvegurinn geti tekið á sig nýjar og nýjar kauphækkanir? Stöðvun á kauphækkunum á s.l. hausti var sannarlega á elleftu stundu gerð og ákvörðun Dagsbrúnar um að halda óbreyttu kaupi áfram til áramóta er hin mikilvægasta fyrir allan sjávarútveg.“

Hvað var nú þetta? Var þetta virkilega Mbl., sem ég hélt á? Ég leit á forsíðuna tortrygginn. Jú, þar gat að líta hinn hálfgotneska Morgunblaðshaus. En hafði ég þá ekki mislesið? Varla gat það verið. En samt þótti mér vissara að lesa þetta aftur, og þar stóð svo sannarlega: „Er nokkur von til þess, að sjávarútvegurinn geti tekið á sig nýjar og nýjar kauphækkanir?“

Og þó var framhaldið ekki trúlegra: „Stöðvun á kauphækkunum á s.l. hausti var sannarlega á elleftu stundu gerð.“ Þ.e.a.s. hún mátti ekki síðar koma. Hvað hafði hér gerzt? Hafði það slys orðið, að maður með fullu viti hefði sloppið inn á ritstjórnarskrifstofu Mbl., eða var sjálft Mbl. gengið af kauphækkunartrúnni nýju og farið að lofsyngja kaup- og verðstöðvunina á s.l. hausti, sem fram til þessa hafði þó heitið þjófnaður í dálkum þessa sama blaðs? Nú er bara eftir að vita, hversu haldgóð þessi sinnaskipti Mbl. verða.

Seinasta Alþýðusambandsþing kaus, svo sem kunnugt er, 19 manna efnahagsmálanefnd, skipaða mönnum hvaðanæva að af landinu, sem skyldi ásamt miðstjórn Alþýðusambands Íslands fylgjast með og taka þátt í samningum um aðgerðir í efnahagsmálunum til þess að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna og nauðsynlegar verklegar framkvæmdir. Þetta efnahagsmálaráð var einhuga samþykkt þeim leiðum, sem farnar voru, og gerði sér jafnframt ljósa þá staðreynd, að efnahagsmál þjóðarinnar voru komin í slíkt öngþveiti, þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum, að fyrirsjáanleg var stöðvun framleiðsluatvinnuveganna um s.l. áramót, ef ekki yrði gripið til róttækra ráðstafana. Efnahagsráð verkalýðssamtakanna fékk tryggingu fyrir því, að skattlagningin skyldi aðallega koma á þær vörur, sem minna væru notaðar af almenningi, en daglegum neyzluvörum hlíft. Efnahagsráðið gekk einnig frá samkomulagi um, að auk fjáröflunarinnar til atvinnuveganna skyldu eftirtaldar aðgerðir jafnframt koma til framkvæmda:

Ströngu verðlagseftirliti yrði komið á og álagning milliliða lækkuð verulega.

Lagður yrði á stóreignaskattur, sem a.m.k. næmi 80 millj. kr.

Byggingarsjóði verkamanna yrðu tryggðar á þessu ári a.m.k. 10 millj. kr. tekjur. Afurðasölulöggjöfinni yrði breytt og einokunaraðstöðu einstakra aðila í útflutningsverzluninni aflétt.

Skipulagi bankanna yrði breytt með lögum. Skattar lágtekjufólks yrðu lækkaðir verulega. Skattfríðindi sjómanna aukin.

Og ný löggjöf skyldi sett, sem tryggði aukið fjármagn til úrbóta í húsnæðismálunum. Niðurlag þeirra ályktunar, sem efnahagsmálaráð verkalýðssamtakanna samþykkti einróma að loknum fundum sínum og viðræðum við ríkisstj. f byrjun desember s.l., var á þessa leið:

„Í trausti þess, að vel takist með framkvæmd þessara ráðstafana, og með tilliti til þess höfuðmarkmiðs að tryggja næga atvinnu, telur miðstjórnin og efnahagsnefndin, að veita beri núverandi ríkisstj. starfsfrið, þar til úr því fæst skorið, hvernig framkvæmdin tekst“

Þegar svo að því leið í vor, að verkalýðsfélögin ættu almennt að taka ákvörðun um, hvort þau vildu segja upp kaupgjaldssamningum eða ekki fyrir 1. maí, kom efnahagsmálaráð verkalýðssamtakanna aftur saman til fundar og átti viðræður við ríkisstj. Niðurstaða þeirrar ályktunar, sem þá var gerð, var sú, að það væri einróma álit miðstjórnar Alþýðusambandsins og efnahagsmálanefndar þess, að ekki væri tímabært að leggja til almennra samningauppsagna að svo stöddu, og áherzla enn fremur lögð á þrjú meginatriði: að halda uppi fullri atvinnu í landinu, að stemma stigu við verðbólguþróuninni og gera allt, sem unnt væri, til að tryggja sem bezt kaupmátt launanna.

Í fullu samræmi við þessa niðurstöðu efnahagsmálanefndar og Alþýðusambandsstjórnar ákváðu langflest verkalýðsfélög landsins að segja ekki upp samningum fyrir 1. maí og framlengja þannig samninga sína fram á næsta haust. Þó eru nokkrar undantekningar frá þessu, eins og nú er kunnugt orðið. Sumar þessar uppsagnir eru aðeins til eðlilegra lagfæringa og til samræmis og þannig sjálfsagðar. En að öðru leyti vekur það athygli, að nú eru það sjálfstæðismenn, sem eggja ákafast til samningsuppsagna og verkfalla og eru skyndilega orðnir brennandi í andanum fyrir því að bæta lífskjör verkalýðsins með kauphækkunum. Svona geta tímarnir breytzt og mennirnir með.

Verkalýðshreyfingin hafði árum saman heitið á stjórnarvöld landsins að gera ákveðnar tilraunir til að stöðva dýrtíðina. Við þessu daufheyrðist ríkisstj. Ólafs Thors, og þá áttu verkalýðsfélögin aldrei neins annars úrkostar en að knýja upp kaupið með fórnfrekri verkfallsbaráttu. Viðnáms- og verðfestingarstefnan á óskiptu fylgi að fagna í verkalýðshreyfingunni og hefur lengi átt. Verðlagskapphlaupið þekkjum við af reynslunni, og við höfum tapað á því þrátt fyrir alla okkar verkfallssigra á undanförnum árum. Lagfæringar á launum hinna lægst launuðu telur ríkisstjórnin sjálfsagðar, og vonandi stendur ekki á Sjálfstfl. í því efni, t.d. að því er snertir kvennakaupið í landinu.

En stuðningur Sjálfstfl. nú við launakröfur hálaunamanna og verkfallaáhugi hans í því sambandi villir hvorki verkamenn né tryllir. Til þess er skottið á íhaldsrefnum of illa gyrt í brækur. Þeir sjá, að með öllum þessum tilburðum er einungis stefnt að því af Sjálfstfl. að reyna að ná því pólitíska marki að torvelda árangurinn af baráttunni gegn vaxandi dýrtíð. Það er þessi óþjóðholla barátta sjálfstæðismanna, sem einmitt gæti fyrr eða síðar leitt til stórfelldrar gengislækkunar. Og þá þætti mörgum verr að hafa stutt Sjálfstfl. til óheillaverksins.

Þessu næst vík ég þá að öðru höfuðatriði stjórnarsáttmálans, um ráðstafanir til atvinnuöryggis og aukins jafnvægis í byggð landsins. Eins og kunnugt er, hefur ríkisstj. fyrir nokkru aflað sér lagaheimildar til kaupa á 15 stórum nýtízku togurum, og er nú þegar lokið að mestu margþættum undirbúningi heima fyrir, til þess að samningar geti hafizt um smíði þeirra. Þá hefur verið ákveðið að láta smíða og kaupa fyrir Íslendinga 12 togskip af stærri gerð, 230–250 smálestir, og er smíði 6 þeirra þegar hafin. Enn er þess að geta, að 38 nýir vélbátar a.m.k. munu bætast í íslenzka fiskiskipaflotann á þessu ári.

Þessar aðgerðir stinga allar nokkuð í stúf við svefn og aðgerðaleysi fyrrverandi stjórnar undir forsæti Ólafs Thors, sem skildi eftir sig það afrek að hafa ekki keypt einn einasta togara til landsins í full 8 ár.

Þegar þess er enn fremur gætt, að á þessu ári verður varið 15 millj. kr. til framleiðslubóta úti um land, mestmegnis til aðstoðar við öflun nýrra atvinnutækja og til styrktar lífvænlegum atvinnurekstri sveitarfélaga og einstaklinga, að opinber vinna skv. ákvörðun fjárlaga verður meiri en nokkru sinni fyrr, að sementsverksmiðja og orkuver á Austfjörðum og Vestfjörðum eru í byggingu o.s.frv., þá geta menn í fyrsta lagi séð, hversu hol og hljómlaus brigzl Sjálfstfl. eru um svik í þessum málum, og í annan stað, hvílík öfugmæli það eru, þegar stjórnarandstaðan er að hræða fólk með ógnþrungnum spádómum um atvinnuleysi.

Þá kemur að Sogsvirkjuninni. Hefur ferill þessarar stjórnar nú verið sá sami og þeirrar fyrrverandi í því máli, en sá ferill var svefngöngumók, aðgerðarleysi og sífelld svik? Nei, því fer fjarri, því að lánsútvegun til þessa dýrasta mannvirkis, sem Íslendingar hafa nokkru sinni ráðizt í, hefur strax borið árangur á fyrsta ári stjórnarinnar. Samningar við verktaka eru gerðir, og verkið er hafið. Skal því lokið á næstu tveimur árum. Heimtar sú framkvæmd ein allmikið vinnuafl og undirstrikar ásamt mörgu öðru hraklega falsspádóma íhaldsins um atvinnuleysi.

Ríkisstj. lýsti því yfir í stefnuyfirlýsingu sinni, að hún liti á stöðvun verðbólgunnar sem sitt höfuðverkefni, og kvaðst hún mundu leggja sérstaka áherzlu á að koma í veg fyrir óeðlilegan gróða milliliða. Ríkisstj. hefur nú gert skyldu sína í þessum efnum. Í þessu máli er stjórnarandstaðan sjálfri sér ósamkvæm. Aðra stundina gerir hún sem allra mest úr öllum verðhækkunum og bregður stjórninni þá um slælega frammistöðu í verðlagsmálum, en hina stundina á Mbl. og verkfæri þess ekki til nógu sterk orð yfir það, sem þeir kalla fávitaleg verðlagsákvæði, þ.e.a.s. allt of ströng verðlagstakmörk, ofsóknaræði gegn kaupsýslustéttunum og að ætlunin sé að ganga af öllum heildsölum dauðum og þar fram eftir götunum.

Hvað er þá hið rétta í þessum málum? Stjórnin hefur staðið við það að draga úr óeðlilegum gróða milliliða. Í því skyni hefur álagning í heildsölu verið lækkuð allverulega frá því, sem heildsalarnir höfðu sjálfir ákveðið, meðan þeir höfðu sjálfdæmi í þeim málum.

Það skal raunar játað, að verðlagsákvæðin í heildsölunni eru í mörgum tilfellum nokkuð þröng, en þau eiga samt ekkert skylt við ofsóknir. Þeim er ekki einu sinni ætlað að granda einu einasta vel reknu heildsölufyrirtæki. Reynslan er þá líka sú, að þrátt fyrir öll æsiskrifin um verðlagsmálin hefur þess hvergi orðið vart, að verzlunarfyrirtæki hafi farið á hausinn upp á síðkastið eða stórlega hafi dregið úr verzlunarinnflutningi. Ætti þó hvort tveggja að vera farið að gera vart við sig, ef fávíslegum fantatökum og ofsóknarvinnubrögðum væri beitt, eins og haldið er fram af stjórnarandstöðunni.

Tiltölulega minni breytingar hafa orðið á verðlagsreglum smásala og iðnrekenda, en þó er þeim einnig ætlað að taka á sig nokkrar byrðar. Hafa þeir síðarnefndu,iðnrekendurnir,sannað það svo rækilega sem orðið getur með höfðinglegu tilboði sínu um hækkun kaups til verkafólks síns, að þeir voru ekki aðþrengdir af ákvæðum verðlagsyfirvalda. En hafi einhverjir vakið þeim vonir um það, að þessi rausn þeirra fengist fljótlega greidd í hækkuðu verðlagi, verður að hryggja þá með því, að það getur ekki orðið.

Annars ætti það að vera öllum auðskilið mál, að hagsmunir kaupmanna, iðnrekenda og verkafólks eiga í þessu efni að öllu leyti samleið. Þessar stéttir tapa allar á vaxandi dýrtíð og verðbólgu, og vissulega eiga bæði kaupmenn og iðnrekendur allt sitt atvinnuöryggi og alla sína gróðamöguleika undir góðri og almennri kaupgetu fjölmennustu stétta þjóðfélagsins, vinnustéttanna á sjó og landi. Óvild eða fjandskapur milli þessara stétta er því annaðhvort á skammsýni eða meinlegum misskilningi byggt, nema hvoru tveggja sé um að kenna, og væri þá mál, að því linnti.

Af hendi verðlagsstjórans þarf heldur engar ofsóknir að óttast. Hann hefur staðgóða þekkingu á starfi sínu, er réttsýnn maður og góðviljaður, en jafnframt fastur fyrir. Og hann er heill í þeim ásetningi að veita öflugt viðnám gegn ófarnaði verðbólgu og dýrtíðar. Í því starfi haus ættu allir góðir Íslendingar að styðja hann og samstarfsmenn hans til sigurs.

Það er líka skylt að taka fram, að ýmsir mætir menn í heildsalastétt hafa bæði í orði og verki viðurkennt réttmæti þeirrar stefnu stj. að stöðva vöxt dýrtíðarinnar. Hafa slíkir menn góðfúslega slegið af kröfum sínum og staðið vel við skyldur og skuldbindingar, sem á þá hafa verið lagðar. Er þetta því lofsamlegra, þegar stærsti stjórnmálaflokkur landsins sést ekki fyrir í óþjóðhollum áróðri sinum og leggur sig allan fram við að magna dýrtíðardrauginn á ný. Verður slík barátta þó áreiðanlega af fáum talin stuðla að auknu öryggi um fjárhagslegt sjálfstæði okkar unga lýðveldis. Það ætti Sjálfstæðisfl. að gera sér ljóst heldur fyrr en síðar.

Ræðumenn Sjálfstfl. tala um það hlakkandi, að stj. hafi ekki tekizt að stöðva verðlagið algerlega. Sízt ætti þetta að vera neinum fagnaðarefni, en hitt er satt, að dýrtíðin hefur hækkað um 4 stig á seinustu 10 mánuðum, og kemur sú vísitöluhækkun fram í kaupgjaldinu frá og með 1. júní að telja.

Það var strax sagt fyrir og engin fjöður yfir það dregin, að efnahagsmálaaðgerðirnar í haust mundu valda 2–3 stiga hækkun vísitölunnar. Þessi hækkun kom því engum á óvart. Þá hefur auðvitað engum dottið það í hug, að við gætum ráðið við erlendar verðhækkanir. Þannig hlaut það t.d. að fara með olíur og benzín vegna afleiðinga Súezstríðsins, verðið hlaut að hækka. Sykur hækkaði einnig verulega á erlendum markaði og nú seinast kaffið. Þá hækkaði sement einnig á tímabili vegna hækkaðra farmgjalda, en hefur nú lækkað aftur í verði. Kaffihækkunin kemur þó ekki öll fram í smásöluverðinu, þar sem heildsalinn sættir sig við að taka nokkurn hluta hennar á sig með helmingslækkun á álagningu. Sykur er nú aftur farinn að lækka í verði, og um verðlag á benzíni og olíum er það að segja, að miðað við óbreytt innkaupsverð og 65 shillinga fragt á tonn má gera ráð fyrir því, að verð á olíuvörum, þegar fram á sumarið kemur, fari niður undir það, sem það var fyrir Súezstríðið.

Útlitið er þannig ekki hið versta í verðlagsmálunum, og enn þá höfum við engan ósigur beðið í því stríði. En nú ríður líka á, að enginn ljái þeim öflum lið, sem aftur vilja koma verðlags- og kaupgjaldsskrúfunni af stað. Þar eru að verki þau öfl ein, sem alltaf hafa talið sig græða á gengisfalli, og enn þá er draumurinn sá sami. Gengislækkun einu sinni enn er það, sem þeir vilja knýja fram, hversu fagurlega sem þeir mæla.

Hitt eru vísvitandi ósannindi, sem stjórnarandstaðan ber nú blákalt fram, að ríkisstj. hafi samið um gengislækkun með haustinu. Ríkisstj. er þvert á móti staðráðin í að reyna allt, sem unnt er, til að skapa stöðugt verðlag og fast gengi. Gengislækkunar- og verkfallsbrask íhaldsins á ekkert annað skilið en dýpstu fyrirlitningu allra góðra manna.

Landinu hefur nú verið skipt niður í verðlagssvæði. Verkalýðsfélögin hafa flest kosið sér fulltrúa til samstarfs og aðstoðar við verðgæzlumennina. Þetta horfir í rétta átt. En það eitt er samt ekki nóg að mínu áliti. Ég heiti á alla, alveg sérstaklega á húsmæðurnar, að fylgjast vel og vandlega með verðlaginu og láta verðgæzluna strax vita, ef vart verður verðlagsbrota eða líkur bendi til, að um slík brot sé að ræða. Munu þá slík mál tafarlaust verða athuguð og réttur miskunnarlaust látinn ganga yfir þá, sem brotlegir reynast.

Það væri oss Íslendingum mikill sómi út á við og inn á við, ef samstarf hinna vinnandi stétta gæti ráðið niðurlögum hinnar sjúklegu verðbólguþróunar, sem þegar hefur valdið oss miklum álitshnekki og tjóni gagnvart viðskiptaþjóðum vorum. Situr vissulega sízt á flokki, sem kennir sig við sjálfstæði landsins, að svíkjast einmitt undan merkjum í einlægri baráttu hins vinnandi fólks fyrir stöðugu verðlagi og heilbrigðu efnahagslífi þjóðarinnar.

Í nánum tengslum við fyrirheit stj. um að berjast gegn dýrtíðinni lofaði hún að beita sér fyrir því, að fjármálastefna bankanna yrði í samræmi við þarfir atvinnuveganna og uppbyggingar og framfarastefnu stjórnarinnar. M.a. var því heitið, að bankalöggjöfinni skyldi breytt á þá átt, að seðlabanki yrði settur undir sérstaka stjórn. Þessum fyrirheitum er nú verið að fullnægja með bankafrumvörpum þeim, sem nú eru í þann veginn að fá lögfestingu hér á hv. Alþ. Munu aðrir menn ræða þau mál nánar. En ekki hygg ég nú samt, að stjórnarandstaðan muni hafa hátt um svikabrigzl gegn stj. í bankamálunum. Þar langar hana heldur til, að eitthvað hefði undan dregið um efndir.

En hvað þá um loforð ríkisstj. um úrbætur í húsnæðismálunum? Er þar einungis um að ræða svikin loforð, eins og hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, var að fræða hlustendur á hér áðan. Í þeim málum stóðu sakir þannig við stjórnarskiptin, að hið almenna veðlánakerfi var peningalaust. Mun hafa verið talið nauðsynlegt að ráðstafa öllu því fé fyrir kosningar, sem til ráðstöfunar gat orðið fram til seinustu áramóta. Hins vegar biðu þá hátt á þriðja þúsund óafgreiddar lánabeiðnir, sem enga úrlausn höfðu fengið. Þá var leitað til bankanna, en það bar engan árangur, peningar ekki til þar. Kostur var þó gefinn á að ræða málið síðar, þegar kæmi fram í júlímánuð í sumar. Þó tókst að útvega nokkurt bráðabirgðafé til útlána á seinasta fjórðungi ársins 1956 og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Hefur hin nýja húsnæðismálastjórn alls úthlutað 790 lánum, að upphæð 28.6 millj. kr., þar af eftir seinustu áramót 19.3 millj., og svo segir hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, að ekkert hafi gerzt, síðan sjálfstæðismenn lögðu þar upp laupana. Til samanburðar má geta þess, að á 4 fyrstu mánuðum ársins 1956, meðan veðlánakerfið var enn í fullum gangi, var ekki úthlutað nema 17.1 millj. af A- og B-lánum samtals, eða 2.2 millj. kr. lægra en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og þeim síðasta á liðnu ári.

Á seinasta ári var aðeins varið tæpum 3 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, en nú eru til þess verkefnis af hendi ríkissjóðs til um 8 millj. kr. á yfirstandandi ári, sem þýðir, að hægt er að verja allt að 16 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, ef bæjarfélög leggja fram jafna upphæð á móti, svo sem lög áskilja. Til verkamannabústaða hefur að undanförnu aðeins verið varið 2 millj. kr. í fjárl. Nú hefur sú upphæð verið tvöfölduð, og auk þess hefur ríkissjóður útvegað byggingarsjóði verkamanna 8 millj. kr. til viðbótar, svo að hann getur á þessu ári látið byggja verkamannabústaði fyrir 14–16 millj. kr. að meðtöldum framlögum sveitarfélaganna.

Það, sem mestu máli skiptir þó í húsnæðismálunum, er það, að nú hefur Alþ. afgreitt nýja húsnæðismálalöggjöf, sem marka mun tímamót í þessum efnum. Samkv. hinni nýju löggjöf verður stofnaður byggingarsjóður ríkisins með 118 millj. kr. stofnfé. Verða tekjur hans strax á næsta ári 23 millj. kr., en síðan munu þær fara vaxandi með hverju ári. Er talið, að árstekjur byggingarsjóðs ríkisins verði eftir 10 ár orðnar 32 millj. kr. á ári. Þá er ætlað, að eign sjóðsins eigi þrátt fyrir eðlilegar lánveitingar að vera orðin 293 millj. kr. eftir 10 ár, eða m.ö.o. í árslok 1966. Þá er áætlað, að önnur tekjuöflun byggingarsjóðs ríkisins nemi árlega 7–8 millj. Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir allt að 15 millj. kr. árstekjum til sjóðsins af skyldusparnaði ungs fólks frá 16 til 25 ára aldurs. Samtals geta allar árlegar tekjur byggingarsjóðs þannig orðíð 40–45 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir í hinum nýju lögum, að hið almenna veðlánakerfi skuli starfa áfram við hlið byggingarsjóðs, og mun ríkisstj. sjá um, að húsnæðismálastjórn fái til úthlutunar á árinu 1957 eigi minni fjárhæð auk tekna byggingarsjóðs en 44 millj. kr. Þannig geta árlegar lánveitingar byggingarsjóðs og veðlánakerfis orðið milli 80 og 90 millj. kr. á ári, en á s.l. tveimur árum urðu lánveitingar húsnæðismálastjórnar aðeins 75 millj. kr. samtals, eða um 38 millj. kr. að meðaltali hvort árið um sig.

Af þessu má sjá, að með löggjöf þessari er mun meira fé en áður var ætlað til þess að bæta úr húsnæðisskortinum og málið leyst miklu meir til frambúðar en áður hefur verið gert. Fórust prófessor Ólafi Jóhannessyni, 1. hv. þm. Skagf., svo orð um þessa nýju húsnæðismálalöggjöf í Nd., að hún væri stærsta sporið, sem hingað til hefði verið stigið til varanlegrar úrlausnar á vanda húsnæðismálanna.

Stjórnarandstaðan geystist mjög á móti þessu frv. í fyrstu og beitti málþófi gegn framgangi þess. En þegar á leið, virtist draga allan mátt úr stjórnarandstæðingum til fjandskapar við málið, og svo fór að lokum, að frv. var samþ. í einu hljóði sem lög frá Alþ. Þeir lyftu ekki upp hendi á móti því.

Með skyldusparnaðinum, 6% af atvinnutekjum ungs fólks, sýnir löggjafinn fyrstu viðleitni til að hjálpa ungu fólki til að leysa þá annars torleystu þraut ungmenna, sem stofna heimili, að geta eignazt eigin íbúð. Það fé, sem safnast með skyldusparnaðinum, skal njóta þeirra forréttinda að vera útsvars- og tekjuskattsfrjálst, að vera vísitölutryggt, að njóta forgangsréttar til íbúðarlána að öðru jöfnu, og þessi lán mega vera allt að 25% hærri en almennt gerist, enda nemi upphæð sparifjárins að minnsta kosti 25 þús. kr. fyrir tímabilið. Svipaðra fríðinda nýtur samningsbundið sparifé til íbúðabygginga, nema hvað það er ekki vísitölutryggt. — Þetta vil ég aðallega segja um húsnæðismálin.

En ég fullyrði að lokum, að allt spjall stjórnarandstöðunnar um svik núverandi stjórnarflokka í húsnæðismálum er staðlausir stafir og fær í engu staðizt, eins og þær tölur sýna bezt, sem ég nú hef lesið. Það er sannast mála, að á þessu þingi hafa húsnæðismálunum verið gerð betri skil en menn þorðu í upphafi að vona, enda var þess mikil þörf, í slíkt ófremdarástand sem þau voru komin.

Ég hef hér gert grein fyrir fimm stórmálum, sem mynda gildan þátt í stjórnarsamstarfinu. Þessi mál eru: í fyrsta lagi hið grundvallandi samstarf milli ríkisvalds og stéttarsamtaka, í öðru lagi átökin í atvinnumálum með hinum miklu skipakaupum og stuðningi við byggingu fiskiðjuvera, í þriðja lagi hin nýja Sogsvirkjun, í fjórða lagi baráttan við verðbólguna og í fimmta lagi úrlausn húsnæðismálanna. Ég hef sýnt fram á, að allur svikasöngur hv. stjórnarandstöðu er falskur og á enga stoð í veruleikanum. En nú kann þó einhver að segja: Ríkisstj. hefur þó brugðizt einu af meiri háttar loforðum sínum. Samþykkt Alþ. frá 28. marz hefur ekki enn þá verið framkvæmd. — Og þetta er rétt. Vil ég nú víkja örfáum orðum að þessu máli.

Um þær mundir sem endurskoðun hernámssamningsins skyldi fara fram, í nóvember s.l., hafði alvarlega ófriðarbliku dregið á loft, og hefur verið upplýst síðar, að óvissa hafi þá ríkt um það um skeið, hvort friður héldist í heiminum eða styrjöld brytist út. Svo mikið er víst, að eins og sakirnar stóðu þá, var ekki hægt að koma samþykktinni um brottför hersins fram í ríkisstj. Íslands. Frestur um óákveðinn tíma varð niðurstaðan. Þá var spurningin aðeins þessi: Áttum við ráðh. Alþb. að ganga frá öllum öðrum stefnumálum ríkisstj. óleystum og vita þó vel, að kyrr var herinn í landinu engu að siður? Miðstjórn og þingflokkur Alþb. mátu aðstöðu og málavexti ágreiningslaust á þann veg, að engum væri greiði ger með brottför okkar úr ríkisstj. út af þessu máli, nema íhaldinn, sem vissulega hefði þá innilega fagnað þeim málalokum.

En afstaða Alþb. til herstöðvamálsins er sú sama í dag og þann 28. marz. Samþykktin er í fullu gildi, og hana ber að okkar áliti að framkvæma á þann hátt, sem um var samið í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar.

Því miður er nú tími minn á þrotum. En að lokum vil ég aðeins fara örfáum orðum um stjórnarandstöðu Sjálfstfl.

Skömmu eftir að stjórnin settist að völdum, hét minn gamli vopnabróðir, hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, því undir heiðum siðsumarshimni austur í Hallormsstaðaskógi, að stjórnarandstaða Sjálfstfl. skyldi verða hörð, en ábyrg og sanngjörn, eins og hv. þm. Barð vitnaði einnig til áðan. Því miður hefur þó farið svo, að hún hefur ekkert af þessu orðið. Hörð hefur hún ekki verið, heldur ofsafengin og úthaldslaus, ekki ábyrg, heldur hið gagnstæða, ekki sanngjörn, heldur ómálefnaleg og mótsagnakennd, í fáum orðum sagt heldur vesöl og veigalítil stjórnarandstaða.

Geðvonzka og vanstilling formanns stjórnarandstöðunnar hefur hvað eftir annað vakið kátínu á Alþingi. Oftar en einu sinni hefur þm. Sjálfstfl. verið skipað að ganga af fundi, þegar á móti blés í þingsölum. Seinasta þingverkfallið átti sér þá orsök eina, að ræðumenn Sjálfstfl. mættu sjálfir of seint til fundar, og varð umr. því lokið, áður en þeir komu. Féllu þá niður málþófsmöguleikar hinnar hörðu stjórnarandstöðu í það sinn. Hitt er þó verra og alvarlegra, að stjórnarandstaðan hefur, eins og hæstv. forsrh. rakti hér rækilega áðan, lagt sig alla fram til að spilla áliti og lánstrausti Íslendinga erlendis. Sams konar öfgar til óþurftar eru verkfallsbrask íhaldsins innanlands og nú seinast gengislækkunarskröksagan. Þetta óþjóðholla framferði kemur harla illa heim við heilsíðufyrirsögnina stórletruðu, sem birt var í Morgunblaðinu í fyrrasumar, einmitt sama daginn og stjórn Hermanns Jónassonar tók við völdum, en sú fyrirsögn var á þessa leið í Morgunblaðinu: „Sjálfstæðismenn setja heill Íslands ofar öllu.“ En í framkvæmdinni virðist þessi hástemmda setning hafa orðið þannig: Þegar við sjálfstæðismenn erum í stjórnarandstöðu, varðar okkur ekkert um heill og heiður Íslands. — Slíkt er ófarsæl stjórnarandstaða, og hún er ósamboðin þúsundum þeirra manna, sem hingað til hafa kosið Sjálfstfl. í þeirri góðu trú, að hann væri þó a.m.k. ábyrgur og þjóðhollur stjórnmálaflokkur. En í því efni hafa þeir nú fengið öðru að kynnast. — Góða nótt.