01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er bæði til að andmæla þeirri hugsun og staðhæfingu, sem virtist koma fram hjá frsm. minni hl., og eins til að leita mér upplýsinga, að ég kvaddi mér hljóðs.

Frsm. minni hl. taldi, að það væri stöðvuð eðlileg þróun með því að geta ekki látið verzlunarhúsnæði fjölga nærri því ótakmarkað eins og verið hefur. Ég skrapp fram á skrifstofu og náði í Hagtíðindi til að gá að, hvernig þessu hefði verið varið í Reykjavík, hvort það hefði raunverulega verið um stöðvun á verzlunum að ræða hér í Reykjavík. Ja, þeim hefur fjölgað núna seinustu árin um nærri 12%. Þær hafa farið úr 660 og upp í 757 á seinustu 4 árum. Þetta er stöðvunin, og þeim, sem lifa á verzlun í Reykjavík, hefur fjölgað úr 12.8% og upp í nærri 15% af íbúunum. Það lifa 14–15 menn hér í Rvík á því að verzla við 85–86 aðra menn. Ég er ekki alveg viss um, nema það sé óhætt að stöðva þessa þróun og það þurfi að stöðva hana. Undantekningu vil ég svo taka fram, sem líka kemur fram í skýrslunum. Þessar tölur, sem ég hef nefnt, eiga við um búðirnar, sem verzla með erlendan varning. Svo eru til aðrar búðir í Reykjavík, sem versla með mjólk. Þeim hefur fækkað um fjórtán, á sama tíma og hinum hefur fjölgað, eins og ég áðan gat um. Þeir, sem hafa stjórnað þeim, hafa verið að reyna að hafa sem minnstan tilkostnað við mjólkina og þess vegna fækkað þessum búðum, án þess þó að gera þær svo strjálar, að menn hafi ekki náð til þeirra, því að alltaf hefur mjólkurnotkunin vaxið, bæði í heild og eins á mann í bænum. Það hefur ekki gengið út yfir söluna, þó að þeim hafi fækkað, það hefur orðið til þess, að það hefur orðið hærra mjólkurverð til bændanna, mjólkurframleiðendanna, en hin fjölgunin aftur á móti, á hinum búðunum, úr 600 og upp í yfir hálft áttunda hundrað, orðið til þess, að fleiri prósent af bæjarbúum hafa lifað á álagningunni á verzlunina og einstaklingarnir orðið að borga vörurnar dýrara verði.

Ég held þess vegna, að það sé ekkert óheppilegt, þó að það sé tekið dálítið fyrir þessa þróun. En annars hefði ég gjarnan viljað einmitt í þessu sambandi vita, hvort nefndin hefði ekki rannsakað þetta meira en ég gat gert á þessari stuttu stund, sem ég hafði Hagtíðindi í höndunum þarna á borðinu, á meðan ráðh. og annar frsm. var að tala.

Þetta var nú það. En væntanlega getur nefndin svarað því, er ég vildi spyrja um. Lögin hafa nú verið í gildi nokkurn tíma, og þá ætti að vera komið í ljós, hve margar íbúðir hafi losnað vegna þeirra, þ.e. íbúðir, sem sumpart var haldið óleigðum vegna sölu, en sumpart ætlaðar til íbúðar á teikningu, en teknar undir skrifstofur eða þvílíkt. Nú, ráðh. er farinn út, en hann ætlaði ég að spyrja. Það hlýtur að liggja alveg fyrir, hvað mörgum íbúðum t.d. umboðsmennirnir, sem hafa átt að selja húsin, sem ráðh. minntist á, héldu óleigðum, af því að þeir vonuðu að ná hærra verði, ef íbúð væri óleigð í húsinu, kannske bara von um að geta ekki selt, nema það væri íbúð á leigu í húsinu, hvað margar slíkar íbúðir hafa losnað í húsum, sem hafa verið teiknuð sem íbúðarhúsnæði, en svo breytzt meira og minna í meðferðinni og gerð að verzlunar- og skrifstofuhúsnæði. Þetta langar mig bara til að vita vegna almenns fróðleiks, því að þetta hlýtur að liggja fyrir og vera auðgert að fá, og þegar maður er hér með ný lög, sem eiga að sinna ákveðnu hlutverki og fyrst og fremst laga ófremdarástand, sem talið er að hafi verið, þá er ekki nema eðlilegt, að menn spyrji um, hvað hafi áunnizt. Hvað hefur miðað? Hvert hefur verið það starf, sem hefur verið gert í skjóli þessara laga, og hvað hefur áunnizt?